16.12.1964
Neðri deild: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

104. mál, landgræðsla

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal verða við þeirri ósk að stytta mál mitt, til þess að hægt sé að vísa frv. til n., enda tel ég ekki þörf á að ræða málið frekar en orðið er við bessa umr. Ég vildi aðeins í tilefni af ræðu hæstv. ráðh. vekja athygli á því, að hæstv. ráðh, misminnir það, að sandgræðslunefndin frá 1957 hafi, eins og hann orðaði það, ekki eygt aðrar leiðir til fjáröflunar heldur en leggja gjald á búfé og fóðurbæti. Það er misminni hjá hæstv. ráðh. Ein aðaltill. þeirrar nefndar til fjáröflunar var sem sé sú að leggja á seldar tóbaksvörur í landinu visst gjald og afla þannig sandgræðslunni tekna. Fyrir þessu var fordæmi, þar sem landgræðslusjóði hafði verið veittur tekjustofn á þennan hátt með sérálagningu á tóbak, en landgræðslusjóður eða tekjur hans renna til skógræktar í landinu.

Þetta vildi ég nú aðeins leiðrétta, en að öðru leyti ætla ég ekki að ræða um þetta mál. Ég vil aðeins taka undir það með hv. 4. þm. Sunnl., að með þessu frv. er ekki ráðið fram úr fjármálum landgræðslunnar. Það er auðvitað hægt að gera á tvennan hátt, með því að veita viðbótarfé úr ríkissjóði og með því að fá landgræðslunni sérstakan tekjustofn, eins og gert hefur verið ráð fyrir í hinum eldri frv. Að fá landgræðslunni sérstakan fastan tekjustofn, eins og gert var ráð fyrir í hinu eldra frv., hefur að sjálfsögðu þann kost, að þá er ekki undir högg að sækja. Sá tekjustofn breytist með hækkandi verðlagi í landinu.