11.02.1965
Neðri deild: 41. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

104. mál, landgræðsla

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Landbn. þessarar hv. d. hefur haft til meðferðar og afgreiðslu frv. til l. um landgræðslu, sem flutt er af hæstv. ríkisstj. N. flytur engar brtt. við frv. og mælir einróma með samþykkt þess.

Við 1. umr. málsins hér í hv. d. og raunar einnig í n. kom fram sú skoðun, að sá galli væri á þessu frv., að í því væri ekki gert ráð fyrir fastákveðnum tekjustofnum fyrir landgræðsluna. Í frumvörpum þeim, sem flutt hafa verið á undanförnum árum varðandi breytingu á sandgræðslulögunum og frv. um landgræðslu, hefur verið bent á nokkrar leiðir til þess að afla landgræðslunni fjár, en um þessar fjáröflunarleiðir hefur ekki náðst samstaða í þinginu. En á hitt ber að líta, að á undanförnum árum hefur Alþingi hækkað til verulegra muna fjárframlög til landgræðslunnar, og sýnir það, að hér í þinginu ríkir skilningur á því, hversu mikil verkefni það eru að hefta uppblásturinn, vernda gróðurinn og græða upp auðnirnar Ég er alveg viss um það og trúi ekki öðru en að svo muni verða í framtíðinni, að hér á þingi og hjá fjárveitingavaldinu ríki sá skilningur, að landgræðslan og gróðurverndin séu. svo mikilvægt málefni, málefni, sem varðar alla þjóðina, bæði til sjávar og sveita, og varðar framtíð lands okkar, að það verði haldið áfram að auka fjárveitingar til þessara framkvæmda, svo sem framast þykir unnt.

Ég sé ekki neina ástæðu til þess að fara að rekja þetta frv. hér. Það var gert af hæstv. landbrh. ýtarlega við 1. umr. málsins, en eins og ég sagði, leggur landbn. til, að frv. verði samþ. óbreytt.