11.02.1965
Neðri deild: 41. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

104. mál, landgræðsla

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Það kemur fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. e, sú óánægja, sem ég gat um; að í frv. væri ekki ákveðið um fastákveðna tekjustofna. Og mér skildist á honum nú í hans síðustu ræðu, að þessi lög mundu ekki koma að neinu gagni, fyrr en slík ákvæði væru komin í lög eða væri búið að útvega landgræðslunni einhvern fastan tekjustofn. Ég get satt að segja ekki fallizt á þessa skoðun, því að vitaskuld kemur það landgræðslunni fullkomlega alveg eins að gagni, að til hennar sé veitt fé á fjárl., eins og að fara að útvega henni einhvern fastákveðinn tekjustofn, og ég sé ekki, að sú leið sé til neinna bóta, eins og lagt hefur verið til, að taka skatt af áfengi, sem selt er í landinu. Við vitum það, að allar tekjur, sem koma af áfengissölunni, renna inn í ríkissjóð, og er þá alveg eins hægt fyrir ríkissjóðinn að veita fé til landgræðslunnar eftir öðrum leiðum. Og eins og ég sagði áðan, þá álít ég, að þetta mál sé málefni allra landsmanna, og tel raunar eðlilegast, að fé sé veitt til þessara framkvæmda beint í gegnum fjárl. Og það gleðilega hefur líka skeð, að það ríkir skilningur í þinginu fyrir þessu, á það benti ég, því að fjárveitingar til landgræðslunnar hafa farið stórlega vaxandi ár frá ári. Það var 1955, ef ég man rétt, sem fjárveiting til sandgræðslunnar fór fyrst yfir eina millj. kr. 1955 mun hún hafa verið 1.2 millj. 1958 var þessi fjárveiting komin í hartnær 2 millj. Á fjárl. í fyrra mun hún hafa verið, að því er mig minnir, 5.4 millj., og á fjárlögum þessa árs er hún nær 7.5 millj., eða 7 millj. 455 þús. kr. Með þessu þykist ég benda á, að hér hefur verið vel að unnið, og stöðugt er aukið fé til þessara framkvæmda. Það tel ég hárrétta stefnu og nauðsynlegt að gera. Og eins og ég sagði áðan, er ég alveg viss um, að sá skilningur ríkir hér í þinginu, að slík þurfi stefnan að vera í þessum málum.