25.02.1965
Efri deild: 46. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

104. mál, landgræðsla

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er komið frá Nd. og var samþ. þar shlj., eins og það var lagt fram. Frv. heitir, eins og sjá má, „Frv. til 1. um landgræðslu“, og má segja, að frv. þetta eigi sér nokkuð langan aðdraganda. Það mun hafa verið lagt hér fram frv. 1957 til nýrra sandgræðslulaga, og það dagaði uppi, fékk ekki byr. Síðan var sandgræðslunefndin, sem samdi frv. 1957, beðin um að endurskoða það, sem hún gerði og lauk því á árinu 1961. Það frv. var aldrei lagt fram af hendi stjórnarinnar, en tveir hv. þm. í Nd. fluttu frv., en það fékk ekki heldur byr, m.a. vegna þess, að ríkisstj. og stuðningsmenn hennar voru ekki ánægðir með það, eins og það var, og því var enn gerð endurskoðun á því frv. 1963 og enn þótti það ekki nægilega traust til þess að leggja það fram. Og loks á árinu 1964 var skipuð n. til þess að endurskoða lögin og öll þau frv., sem hér er um að ræða. Og eftir þeim viðtökum, sem frv. fékk í Nd., má ætla, að síðustu n. hafi tekizt að vinna úr þeim gögnum, sem fyrir lágu, þannig að hv. alþm. geti nú sætt sig við það, sem um er að ræða. Og ekki er að efast um það, að þetta frv., ef að lögum verður, getur orðið til mikilla bóta og ýtt undir landgræðsluna og annan þátt, sem er kannske ekki minna virði og einnig þarf að taka með í reikninginn, gróðurverndina, að koma í veg fyrir eyðingu. En það er gert ráð fyrir því sérstaklega í þessu frv., að þetta verði tveir þættir, annars vegar uppgræðslan og hins vegar gróðurverndin.

Með þessu frv. er ekki gert ráð fyrir að afla sérstakra tekna, heldur verði fé veitt til þessara mála eins og það er hv erju sinni á fjárl. En í sumum þeirra frv., sem ég áðan minntist á, var gert ráð fyrir að afla sérstakra tekna með lögunum. í frv. 1957 var gert ráð fyrir sérstöku gjaldi á búpeninginn, sauðfé og nautgripi, hross, sérstöku gjaldi á innfluttan fóðurbæti, sérstöku gjaldi á tóbak. En þessar tekjuöflunarleiðir þóttu ekki réttmætar og eðlilegar, þar sem þær kæmu þyngst niður á einni stétt manna í þjóðfélaginu, en þannig bæri að lita á, að landgræðsla og sandgræðsla væru í þágu alþjóðar, sem er líka tvímælalaust. En á þessu tímabili, sem málið hefur verið í athugun, þessi ár, hefur talsvert áunnizt í því efni að fá aukið fé til þessara mála, og eru nú á fjárl., eins og hv. alþm. er kunnugt, um 7.5 millj. kr. til landgræðslumála.

Sandgræðsla Íslands hefur starfað síðan 1907, og hún hefur vissulega haft mikið og mikilvægt verkefni. Þegar sandgræðslan fyrst byrjaði sitt starf, leit víða mjög illa út. Gróðurinn var að eyðast í heilum landshlutum. Þar sem áður höfðu verið grónar grundir, voru eyðimerkur og sandar, og ef þannig hefði haldið áfram, hefði mestallur gróður í landinu eyðzt. En svo varð nú ekki, því að viðnám var veitt. Í fyrstu var aðeins lítið úr að spila, en okkar fyrsti sandgræðslustjóri, Gunnlaugur Kristmundsson, gekk til starfsins af miklum áhuga og með mikla og göfuga hugsjón og lét ekki bugast, þótt við mikla erfiðleika væri að stríða, fjárskort og hamfarir náttúrunnar. Runólfur Sveinsson tók við af Gunnlaugi. Hann féll frá fyrir aldur fram, en á meðan hans naut við, hélt hann uppi merki Gunnlaugs, og núv. sandgræðslustjóri hefur ekki látið það merki falla. Það hefur sézt mikill árangur af störfum sandgræðslunnar, og í staðinn fyrir þá eyðingu, sem herjaði á og virtist ætla að ná yfirtökum og sigra, hefur skapazt gróður og eyðingaröflin verið að mestu heft. En sárin eftir hina miklu eyðingu eru allt of stór, og þörfin til uppgræðslu og gróðurverndar er vissulega fyrir hendi og ekki síður fyrir það, þótt skemmdaröflin hafi um sinn verið heft. Til þess að þau verði undir að fullu, þarf að halda starfinu áfram með þeirri tækni, sem við nú höfum yfir að ráða, og vinna upp það, sem hefur eyðilagzt á undanförnum öldum.

Eins og segir í 1. gr. þessa frv., er tilgangurinn sá að koma í veg fyrir eyðingu gróðurs og jarðvegs og að græða upp eydd og vangróin lönd. Ef athugað væri, um hvaða nýmæli er að ræða í þessu frv. frá gildandi lögum, má segja, að það er tekin upp skipuleg gróðurvernd, sem hefur ekki verið áður, til þess að koma í veg fyrir skemmdir á gróðurlendi sakir ofnotkunar samhliða heftingu uppblásturs og sandgræðslu. Og eins og ég sagði áðan, er það e.t.v. eins veigamikið að koma í veg fyrir hefur skemmzt.

Gróðurverndin og sandgræðslan mynda eina stofnun, sem nefnist Landgræðsla ríkisins. Forstjóri hennar verður landgræðslustjóri, en fulltrúi hans annast annað hvort starfssviðið. Mér virðist það nú liggja í augum uppi, að hann annist gróðurverndina og forstjórinn verði landgræðslustjóri. Þá er gert ráð fyrir að skipa gróðurverndarnefndir í þeim héruðum, þar sem landgræðslustjóri telur þeirra þörf, líkt og skógræktarfélög starfa nú víðs vegar um landið til eflingar skógræktinni. Fleiri leiðir verða nú en áður til samstarfs við hið opinbera um að græða upp lönd. Styrkur til græðslu er ekki bundinn ákveðnu marki fyrir fram, heldur getur það orðið samningsatriði á milli hlutaðeigandi aðila. Gert er ráð fyrir, að uppgrædd lönd í eigu ríkisins verði nytjuð af bændum, strax og kostur er, enn fremur, að fyrri eigendur og notendur uppgræddra landa geti fengið þau aftur í hendur. Bæjar- og sveitarfélög má skylda til að taka við þeim aftur. Þá er landgræðslustjóra heimilt að fela búnaðardeild atvinnudeildar háskólans að rannsaka beitarþol og krefjast ítölu í lönd, sem eru í hættu. Ákvæði eru um stofnun félaga til landgræðslu. Gert er ráð fyrir, að leitað verði eftir nýjum plöntutegundum til landgræðslu og setja megi upp gróðrarstöðvar til að fjölga þeim, sem nothæfar reynast.

Þá er ákvæði um, að innan 5 ára skuli gert yfirlit um landsskemmdir og áætlun gerð um framkvæmd landgræðslu, þannig að unnt verði að vinna skipulega að henni.

Það er ekki ástæða til að vera að hafa langa framsöguræðu um þetta og endurtaka það, sem áður hefur verið sagt um það. Ég geri ráð fyrir, að hv. alþm. hafi lesið frv. yfir, þekki þessi mál nokkuð vel og ýtarlega. Ég vildi því vænta þess, að málið fengi eins góðar undirtektir í hv. Ed. og það fékk í hv. Nd. og frv. megi verða að lögum. Ég tel, að það sé til bóta, það skapi möguleika til aukinnar starfsemi á sviði þessara mála, þótt öruggt megi telja, að eitthvað mætti betur fara í þessu frv. en gert er ráð fyrir. En þannig verður það alltaf, og lögunum verður vitanlega alltaf unnt að breyta, eftir því sem reynslan kennir, að betur megi fara.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.