05.04.1965
Efri deild: 62. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

104. mál, landgræðsla

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., frv. til 1. um landgræðslu, er að mínu álíti mjög þarft frv. og vel úr garði gert. Það hefur hlotið mjög vandlegan undirbúning og margir merkir menn um það fjallað. Fyrst er þess að geta, að skipuð var 1957 n. til að endurskoða l. um sandgræðslu, en þau voru frá 1941 og 1943. Í þeirri n. áttu sæti Björn Kristjánsson fyrrv. alþm., hann var formaður n., Árni G. Eylands, Arnór Sigurjónsson, Páll Sveinsson og Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri. Þessi n. samdi frv., sem lagt var fyrir Alþingi. Þar var því breytt í ýmsum atriðum, en náði þó ekki fram að ganga. Síðla árs 1960 skipaði landbrh. þá Björn Sigurbjörnsson og Hákon Bjarnason til að endurskoða frv. og gera drög að lagabreytingu um landgræðslu og gróðurvernd. Þeir skiluðu till. og álíti snemma árs 1961. Hinn 4. júní 1963 skipaði ráðh. enn nýja n. í málið, þá Pálma Einarsson, formann n., Pál Sveinsson og Pétur Gunnarsson og síðar Ingva Þorsteinsson magister. Þessi n. skilaði frv. 1964. Hinn 10. júlí 1964 skipaði landbrh. enn n. til þess að semja nýtt frv. upp úr því frv., sem áður var fram komið. Í þeirri n. áttu sæti Hákon Bjarnason skógræktarstjóri, formaður, Benedikt Gröndal, Jónas Jónsson, Ólafur E. Stefánsson og Ragnar Jónsson.

Þetta er forsaga þessa frv. Hins vegar á sandgræðsla hér á landi sér alllanga sögu, eða allt frá árinu 1.895, er lögfest var heimild fyrir sýslunefndir að gera samþykktir um hindrun sandfoks. Fyrsti sandgræðslustjóri var Gunnlaugur Kristmundsson í Hafnarfirði, mjög duglegur maður og langsýnn, sem vann ómetanlegt starf við heftingu sandfoks hér á landi og uppgræðslu örfoka lands, t.d. á Rangárvöllum og víðar um land. Hann hafði jafnan mjög takmörkuð fjárráð, og má furðulegt heita raunar, hversu miklu hann fékk áorkað við heftingu sands á uppblásturssvæðum. Að starfi hans varð mikill árangur og langt fram yfir vonir, miðað við þá aðstöðu, sem hann hafði, og þau fjárráð, sem hann hafði úr að spila. Af starfi Gunnlaugs Kristmundssonar varð mönnum ljást, að hér var hægt að gera stóra hluti, ef sterklega og vandlega var á hlutunum tekið. Næsti sandgræðslustjóri var Runólfur Sveinsson í Gunnarsholti, en hans naut ekki lengi við, og við tók af honum síðan bróðir hans, sem allir þekkja sem ötulan starfsmann á þessu sviði.

Eftir því sem ár hafa liðið og reynsla aukizt í þessum efnum, hefur sandgræðslan færzt út á víðara svið og orðið jöfnum höndum bæði uppgræðsla og gróðurvernd, og með hverju ári sem líður á þessi starfsemi auknum skilningi að fagna hjá landsmönnum. Fleiri og fleiri verður ljóst, að þarna er hægt að gera mikla hluti, ef fé er fyrir hendi og rétt tök eru tekin á þeim verkefnum, sem þarna liggja óleyst. Má þar til nefna girðingar um uppblásturssvæði og lítt gróin lönd og einnig frædreifingu og áburðardreifingu úr lofti, sem tíðkazt hefur nú meira og meira hin seinni ár.

Þegar Gunnlaugur Kristmundsson barðist sinni góðu baráttu í þessum málum, átti hann jafnan misskilningi að mæta hjá þeim, sem yfir löndunum réðu, og leiddi það stundum til málaferla, sem ég mun ekki fara út í hér.

Nú er hins vegar flestum, sem eiga vangróin lönd eða lönd, sem eru í hættu fyrir uppblæstri, það kappsmál að fá þau girt og friðuð eða grædd upp með einhverju móti, og eiga þeir, sem fyrir sandgræðslumálunum standa, ekki við neitt líkt því svipað skilningsleysi að etja í þessum málum og Gunnlaugur Kristmundsson átti í sinni tíð.

En þetta frv. gerir ráð fyrir því, að landgræðslan og landeigandinn taki höndum saman og semji um raunhæfar aðgerðir á hverjum stað og landgræðslan kosti meiri hluta til við þær aðgerðir, en landeigandinn þó nokkru í flestum tilfellum. Annars er nú um fleiri leiðir að velja um samstarf við hið opinbera samkv. þessu frv., því að það gerir ráð fyrir ýmsum leiðum til úrbóta á þessu sviði. Gert er ráð fyrir, að skipaðar verði gróðurverndarnefndir í byggðarlögum, ef landgræðslustjóri telur það geta stuðlað að því, að meira verði gert og betur litið eftir þessum málum á hverjum stað. Það er einnig gert ráð fyrir, að komið geti til mála að stofna félög til landgræðslu. Svo er gert ráð fyrir meiri rannsóknum en verið hefur og að áætlanir verði gerðar um framkvæmdir til 5 ára og þar fram eftir götunum.

Á undanförnum þingum hefur landgræðslumálið oft verið til umr., án þess þó að verða útrætt þar, og í byrjun þessa þings var flutt í þessari hv. d. frv. um landgræðslu, sem hv. 4. þm. Norðurl. e., Arnór Sigurjónsson, sem þá sat á þingi, flutti. Það frv. var í meginatriðum svipað þessu, en fór þó aðrar leiðir að sumu leyti. Þar voru landgræðslunni ætlaðir sérstakir tekjustofnar. Þetta frv. var sent landbn. þessarar d., og hún sendi það síðan til umsagnar ýmsum stofnunum, þ. á m. Búnaðarfélaginu, en fékk ekki svör önnur en þau, að eðlilegt væri að bíða eftir frv., sem þá var vitað að fram kæmi frá stjórninni, og sjá síðan, hvort eðlilegt væri að taka afstöðu til þessa frv., sem ég nefndi. Af þeim orsökum afgreiddi landbn. ekki það frv.

Þetta frv. var lagt fram í Nd. fyrir alllöngu og fékk þar einróma meðmæli í n. og var samþ. þar óbreytt frá því, að það var lagt fram. Landbn. þessarar d. sendi frv. m.a. til umsagnar Búnaðarfélagi Íslands, og tók búnaðarþing það, sem nýlega sat á rökstólum, málið til meðferðar og gerði um það ályktun og lagði til nokkrar brtt. Þessar brtt. hefur landbn. tekið flestar til greina og flytur hér á sérstöku þskj., nr. 404, fjórar brtt. Um þær tel ég ekki ástæðu að hafa mörg orð, þar sem þær eru afgreiddar samhljóða í n. og hníga mjög í sömu átt og þær till., sem búnaðarþing lagði til að gerðar yrðu við frv., enda geta menn borið þær saman á þskj.

Þetta mál er mjög mikils vert að mínu áliti, eins og ég gat um í upphafi máls míns, og mikil samstaða um frv. hér á hv. Alþ. og þess því von og nokkurn veginn vissa, að það gangi fram hér á þessu þingi, og tel ég, að þá sé þessum málum betur skipað en verið hefur og þess sé að vænta, að meiri átök verði gerð í þessu máli eftirleiðis en hingað til, þótt þess beri að vísu að geta, að aðgerðir í landgræðslumálum hafa alltaf farið vaxandi hin síðustu ár, og með nýrri tækni í þeim efnum hefur víða sézt mikill árangur af starfi sandgræðslunnar, sem hér er gert ráð fyrir að verði kölluð landgræðsla ríkisins, vegna þess að starfssviðið er að sjálfsögðu allmiklu víðara en aðeins að sinna sandgræðslu, heldur einnig uppgræðslu á vangrónu landi og varna því, að vangróið land rýrni að gildi og gróðurfari.