15.12.1964
Efri deild: 30. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

102. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. fer illa, þegar hann er ósanngjarn og talar þvert gegn hug sínum, eins og hann var að reyna hér áðan, þegar hann t.d. fullyrðir, að bændur hafi aldrei haft verri aðstöðu en nú, það hefði sannarlega þurft að ýta við núv. ríkisstj. í landbúnaðarmálum, til þess að hún gerði nokkuð fyrir bændurna. Hv. þm. getur farið til bænda út á land og spurt þá um það, hvort þeir telji aðstöðu sína verri til búrekstrar nú en hefur verið, hvort þeir telji t.d. verra en 1958 eða oft áður, þegar framsóknarmenn fóru með landbúnaðarmál. Ég vænti þess, að hv. þm. geri það og fái réttar upplýsingar. Sjálfur er þessi þm., að ég ætla, bóndi, og hann ætti þá að geta einnig fundið það, hvort þetta er lakara nú eða áður. Hitt er alveg víst, að hvað sem um það er sagt, að bændur búi við erfiðleika og meiri erfiðleika en áður, að bændur hafa nú fengið tiltölulega meiri tekjuauka en margar aðrar stéttir. Laun bóndans eru í verðgrundvellinum nú 147500 kr., en voru 1958 67 þús. kr. Það er ekki erfitt reikningsdæmi að finna út, hve þessi hækkun er mörg prósent. Þetta eru laun bóndans. Og berum það saman við launahækkanir. Ég ætla ekki að reikna það dæmi til enda, hv. 1. þm. Vesturl. getur gert það. Og mér finnst, að hv. 1. þm. Vesturl. ætti að vera upp úr því vaxinn að tala hér þvert um hug sinn og allt annað en hann veit að er satt og rétt. Finnst mér, að hann ætti að vera vaxinn upp úr að gera það. Og satt að segja hefur mér fundizt upp á síðkastið eins og hann væri vaxinn upp úr því, þangað til nú, að hann sannaði það, að þetta getur komið fyrir hann enn þá. En látum það nú vera, þetta er kannske freisting, sem menn geta fallið fyrir.

Ég ætla ekki að fara að rifja upp sögu, sem mörgum er í fersku minni og skýr, söguna um það, hvernig búið var að bændunum t.d. síðast, þegar framsóknarmenn réðu mestu í ríkisstj. Það er vel hægt að rifja þetta upp, ef það væri þörf á því. En ég geri ráð fyrir, að hv. 1. þm. Vesturl. kunni þessa sögu, hann muni þetta og það þurfi ekki að rifja það upp fyrir honum, þótt það hafi litið svo út áðan, þegar hann var að tala, að hann hefði alveg gleymt því. Hvernig stendur á því, að hv. þm. er nú að reyna að snúa hlutunum við?

Hv. þm. segir, að þetta frv. gangi of skammt, að hækkun á styrknum sé ekki í samræmi við þá hækkun, sem orðið hefur á ræktunarkostnaðinum, og vitnar hér í eina grein í aths. við frv. En ég vil þá — með leyfi hæstv. forseta vitna í aðra grein, þar sem sagt er frá því, að að undangengnum viðræðum milli Búnaðarfélags Íslands og landbrn. um nauðsyn á hækkun framlags samkv. jarðræktarl. fól landbrn. Búnaðarfélagi Íslands og Landnámi ríkisins með bréfi, dags. 10. júlí 1964, að endurskoða jarðræktarl., svo og jarðræktarlagafrv. hinnar stjórnskipuðu nefndar, sérstaklega með það fyrir augum að kanna kostnað við jarðræktarframkvæmdir og hvað sé eðlilegt að styrkja þær framkvæmdir miðað við núgildandi verðlag og finna grundvöll vísitölu, sem tryggi, að jarðræktarstyrkir séu í eðlilegu hlutfalli við kostnað við framkvæmdir á hverjum tíma, um könnun á þessum atriðum verði haft samráð við ráðuneytið. Þessi könnun var gerð, og á þessari könnun voru útreikningarnir byggðir. Í rn. liggur fyrir bréf frá Búnaðarfélagi Íslands, þar sem Búnaðarfélagið samþykkir hækkunina 28.5%, sem landnámsstjóri hafði fundið út að ætti að vera í sumar. En við nánari athugun þótti eðlilegt að miða þetta við 30%. Stjórn Búnaðarfélagsins hefur fallizt á, að þessi prósenta væri hin eðlilega hækkun. Landnámsstjóri hefur í sínum útreikningum talið, að þetta væri sú eðlilega hækkun. Formaður Stéttarsambands bænda og aðrir fulltrúar bænda í sex manna nefnd hafa fallizt á, að þetta væri hin eðlilega hækkun og rétta hækkun. Og svo segir hv. 1. þm. Vesturl., að þetta eigi að vera meira, ef fullt réttlæti eigi að ske. Ég segi bara: Hv. 1. þm. Vesturl. er í landbn. Hv. landbn. getur vissulega kallað þessa aðila fyrir sig og borið það undir þá, hvort ég fer með rétt mál eða ekki. Samkv. því, sem fyrir liggur í útreikningum landnámsstjóra, þótti eðlilegt að miða við þessa hækkun enda þótt hér vitni á móti sú grein, sem hv. þm. las hér upp áðan og mér kemur á óvart, þar sem sagt er, að ræktunin hafi hækkað um 76% samkv. virðingu Landnáms ríkisins vegna lántöku bænda og ræktunarsjóðs. Samkv. virðingu. Af hverju ekki samkv. raunverulegum kostnaði? Það hefði átt að standa. Ég skil ekki þetta. En þetta haggar ekki hinu atriðinu, að allir þessir aðilar, fulltrúar bændasamtakanna, eru sammála um þessa hækkun. Það var víssulega ekki neinn nauðungarsamningur þar. Það var samkomulag, sem gert var á frjálsum grundvelli, og mér finnst hv. 1. þm. Vesturl. svelgja óþarflega mikið að forustumönnum bænda, sem hér eiga hlut að máli, þegar hann talar um, að þarna sé allt of skammt gengið. Ég held, að þeir fulltrúar bænda, sem að þessu frv. standa, vilji bændastéttinni ekkert síður vel heldur en hv. 1. þm. Vesturl., og mér finnst, að hv. 1. þm. Vesturl. ætti að kanna þetta mál betur, áður en hann fer að hafa stóryrði hér um. Og sérstaklega hefði hann átt að bíða til 2. umr. um málið, þar sem hann hefur sérstakt tækifæri til þess að kanna þetta alveg til hlítar með því að kalla fyrir nefndina þá aðila, sem hér hafa komið við sögu. Þetta hefði vitanlega verið sá eðlilegi háttur hjá hv. 1. þm. Vesturl. En hann kaus að hafa það öðruvísi, og það er hans mál.

Hann vitnar í frv. framsóknarmanna, sem þeir hafa flutt nú í hv. Nd., að það mundi tryggja bændur miklu betur að ákveða visst hlutfall af ræktunarkostnaðinum, eins og þar er gert, heldur en vísitölu. En hér er lagt til, að fundin verði jarðræktarvísitala, sem miðast við hinn raunverulega kostnað, og hagstofustjóri á að reikna þessa vísitölu út í samráði við Búnaðarfélagið, Stéttarsambandið og Landnámið. Af hverju er hv. 1. þm. Vesturl. að gera þessa aðila bændanna, sem hér eiga að hafa hlutdeild að, tortryggilega með því að efast um, að þeir séu færir um hverju sinni að reikna rétta og eðlilega vísitölu fyrir jarðræktina, sem miðast við raunverulegan kostnað? Þetta finnst mér ekki viðeigandi.

Hv. þm. var að tala um dráttinn, sem hefði orðið á endurskoðun jarðræktarl., það hefði þurft að hraða þessu miklu meira, búnaðarþing hefði tekið fyrsta tækifærið. En er það nú alveg rétt? Búnaðarþing tók ekki fyrsta tækifærið, því að í ársbyrjun 1960 voru dýrtíðarlögin sett. Þá var ákveðið að taka vísitöluna úr sambandi, en í jarðræktarl. er ákveðið, að styrkurinn skuli greiddur samkv. kaupgjaldsvísitölu. Það má segja, að það sé alveg merkilegt ákvæði. Hefði hv. 1. þm. Vesturl. hrósað því, ef það hefði verið í frv., sem ég hefði flutt hér á Alþingi? En það sé fjarri mér að ásaka þá menn, sem settu þetta ákvæði inn í lögin. Þeir hafa áreiðanlega meint nokkuð gott, en reynslan er sú, að það hlaut að reynast illa, m, a. vegna þess, að það var engin trygging fyrir því, að kaupgjaldsvísitalan hætti bændum aukinn ræktunar- eða byggingarkostnað. Hvað er kaupgjaldið í samræmi við t.d. áburð, meðan hann var innfluttur, fóðurbæti, byggingarefni, erlent byggingarefni. Vissulega gat það margfaldazt í verði og hækkað miklu meira tiltölulega en kaupgjaldið. Og þá gat kaupgjaldsvísitalan alls ekki tryggt bændum kaup. Jarðræktarvísitalan, sem miðast við raunverulegan kostnað, mun örugglega gera það, þegar þeir aðilar, sem trúandi er til að finna þá vísitölu á hverjum tíma, reikna það út. En ef búnaðarþing hefði ákveðið að nota fyrsta tækifæri, hefði það kosið mþn. á búnaðarþingi 1960, því að það settist að störfum um það leyti og eftir að dýrtíðarl. voru sett. En það er ekki fyrr en 1961, sem búnaðarþing kýs n. Það er ekki fyrr en 1962, sem frv. er tilbúið. Og hvernig var nú þetta frv.? Hefði það tryggt bændur betur en þetta frv.? Hefði það orðið til þess að gera bændum léttari róðurinn og auka ræktunina? Ég held ekki. Og vissulega var eðlilegt, að ríkisstj. skipaði n. til þess að endurskoða þetta frv. milliþinganefndar búnaðarþings, því að hvenær er það, að ríkisstj. tekur frv. til flutnings, sem hafa mikil útgjöld í för með sér, án þess að hafa haft sjálf með stjórnskipaðri nefnd hönd í bagga um, hvernig frv. var? Þess vegna var það, að það var skipuð nefnd með fulltrúum frá stjórnarflokkunum og einum framsóknarmanni til þess að endurskoða þetta frv. En hvenær skilar sú n. af sér til ríkisstj.? Það er í marzmánuði 1963. Og þá var ekki tækifæri til að lögfesta þetta frv. Og hvernig var þetta endurskoðaða frv. stjórnskipuðu n.? Fór það fram á hærri styrk og meiri styrk en þetta frv.? Ég held ekki. Þó dró það ekki úr frv. búnaðarþings. Það gerði endurbætur á frv. búnaðarþingsins á ýmsum sviðum. Og það er ekki viðeigandi af hv. 1. þm. Vesturl. að vera að tala um, að það hafi verið óhæfilegur dráttur hjá ríkisstj. við endurskoðun þessara laga. Það er á síðasta snúningi Alþingis 1963, sem stjórnskipaða nefndin skilar af sér. En það er á þinginu 1964, sem hin stóra endurbót er gerð og styrkur til bænda út á jarðrækt og byggingar er stórum aukinn, þannig að þeir, sem mesta höfðu þörfina, fengu greiddan jarðræktarstyrk vorið 1964 eftir hinni miklu hækkun. Þegar á þetta er litið og þetta er skoðað, veit ég, að hv. þm. telja, að hér hafi verið vel unnið, en ekki slælega. Og hv. 1, þm. Vesturl. veit þetta. Hann trúir því og hann meinar það, þótt hann segi annað, og sérstaklega veit hann, að ef hans flokkur hefði ráðið mestu í þessum málum, væri ekki komið svo langt sem nú er komið í ræktunarlöggjöfinni. Ég held, að við ættum að vera alveg sammála um þetta.

Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er heildarendurskoðuninni lokið, og við getum verið ánægðir með þann árangur, sem við höfum náð á þessu sviði. Við skulum ekki deila um það, hvort núv. ríkisstj. hefur verið ýtt nauðugri til þess að gera þetta eða ekki. Það skiptir út af fyrir sig engu máli, þótt það sé sagt, því að staðreyndirnar sýna, að það hefur ekki verið um neina nauðungarsamninga að ræða, enda útilokað, að það væri nokkur möguleiki fyrir stjórnarandstöðuna að neyða ríkisstj. til þess að gera nokkuð í þessum málum, sem hún vildi ekki. Hvaða aðstaða var til þess? Það kemur fram hér í frv., að landbrh. skrifaði Búnaðarfélagi Íslands og Landnáminu og óskaði eftir, að þau tækju að sér að endurskoða jarðræktarlögin með það fyrir augum að tryggja bændum þann ræktunarstyrk, sem þeim bæri, miðað við þá dýrtið, sem orðin er. Þetta gerðist 10. júli. En til að segja söguna eins og er, varð það að samkomulagi milli rn. og fulltrúa bænda í sex manna nefnd að bæta inn í þetta frv. sérstakri hækkun á súgþurrkun, og ég ætla ekkert að gera lítið úr þeim till., sem þar komu fram. Ég vil segja það alveg eins og er, að þessi aukastyrkur á súgþurrkun var ekki í frv., þegar ég fór að tala við fulltrúa bænda í sex manna nefnd. Hann var settur þar inn eftir þeirra óskum, alveg eins og það voru settar eftir þeirra ósk 5 millj. kr. til þess að hjálpa þeim bændum, sem verst eru settir. Það voru 5 millj. kr. settar í samkomulagi við þá. Hins vegar hafði ríkisstj. ákveðið á s.l. vori að gera eitthvað fyrir þessa bændur með því að senda mann austur á land til þess að gera allsherjarkönnun á hag bænda á Austurlandi. Og með því að senda þennan mann og láta hann vera í allt sumar til þess að athuga þetta, í því fólst vitanlega fyrirheit um, að það ætti eitthvað fyrir þá að gera, því að hvaða gagn hefðu þeir af því, að hagur þeirra væri kannaður, ef ekkert hefði komið á eftir? En þegar fulltrúar bænda í sex manna nefnd í haust voru á ráðstefnu á skrifstofu minni, eins og þeir voru oft, varð samkomulag um, að þetta væri í þessu formi. Upphæðin var ákveðin, og það var ákveðið, að Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda og Landnámið skyldu gera till. til rn. um það, hvernig þessum peningum væri bezt varið. Og nú er það svo, að þó að ræktunin sé minnst á Austurlandi, hún er, eins og ég sagði áðan, ca. 14 ha. að meðaltali yfir landið, en það eru 10 ha. að meðaltali á Austurlandi, — ef við tækjum Austurlandið frá, gæti verið, að meðaltúnstærð, þegar Austurland væri frá tekið, væri 15 ha. Þá gætum við hugsað okkur, að það væru aðeins 10 ha. ræktaðir á Austurlandi, þegar það væri annars staðar á landinu 15 ha. Þetta er náttúrlega ákaflega mikill munur, og þess vegna er það, að almennt talað munu bændur á Austurlandi vera miklu verr settir en bændur annars staðar. Það er þó vitað, að í öllum sýslum landsins má finna bændur, sem eru á eftir og illa settir, og úr því að ákveðið er að rétta hlut þeirra, sem verst eru settir í einum landsfjórðungi, verður vitanlega að fara könnun fram um landið allt á sama hátt og á Austurlandi hefur verið gert, enda ákveðið, að það skuli veittar 5 millj. næstu 5 ár í þessu skyni. En þetta er ekki viðkomandi þessu frv. í rauninni, sem er verið að ræða um. Ég kom aðeins inn á þetta, vegna þess að hv. þm. gaf tilefni til þess, að það hefði verið ýtt við ríkisstj. til þess að gera þetta. En grundvöllurinn að þessu frv. er ákveðinn með bréfi 10. júlí án nokkurrar ýtni frá einum né öðrum, og hjálpin til hinna verst settu bænda á Austurlandi er ákveðin í maímánuði, þegar Sigurður Elíasson var sendur austur til þess að gera umrædda könnun.

Hv. þm. talar um það, að bændur hafi orðið fyrir milljónatjóni vegna dráttarins á því að fá lögin staðfest. Ég held, að þegar sagan er rétt rakin, verði ríkisstj. ekki ásökuð fyrir þennan drátt. Og það var ekki mögulegt að greiða jarðræktarstyrk með álagi, nema jarðræktarl. væri breytt, úr því að þetta viturlega ákvæði var einu sinni í þeim, að binda jarðræktarákvæðið við kaupgjaldsvísitölu. Og hv. þm. heggur anzi nærri búnaðarþingi og sjálfum sér, þar sem hann á þar sæti, þegar hann er að tala um drátt í þessu máli, úr því að þeir létu á annað ár líða, frá því að vísitalan var tekin úr sambandi, þangað til þeim datt í hug að skipa nefnd í málið. Ef búnaðarþing hefði skipað nefnd í málið 1960, má ætla, að þessi löggjöf hefði komið ári fyrr. Og ég verð nú að segja það, að þótt bændur hafi um sinn ekki fengið allir hækkun á jarðræktarstyrkinn, — ég segi ekki allir, heldur aðeins þeir, sem hafa minni túnin, — þá verður náttúrlega erfitt að sanna það, að bændur hafi raunverulega orðið fyrir tjóni vegna dýrtíðarl., því að það munu margir spyrja að því, hvar bændur væru staddir í dag efnalega, ef efnahagslöggjöfin hefði ekkí verið sett. Og hv. 1. þm. Vesturl. heggur anzi nærri sínum flokksbræðrum og sjálfum sér, þar sem hann studdi nú vinstri stjórnina, þegar hann við þetta tækifæri fer að tala um efnahagslöggjöfina og fullyrða, að bændur hafi orðið fyrir milljónatjóni við það, að viðreisnin var hafin og þjóðinni var forðað frá því öngþveiti, sem við blasti, þegar hans flokkur gafst upp. En ég skal nú ekki fara langt út í það mál, það er öllum í fersku minni.

En hvers vegna er hv. 1. þm. Vesturl. að rifja þetta upp sjálfum sér og sínum flokksmönnum til raunar? Úr því að aðrir gera það ekki, ætti hann vissulega að taka þann kostinn að gefa ekki tilefni til þess, að þetta væri rifjað upp.

Hv: þm. talar um, að 800 þús. kr., sem eru á fjárl., nái skammt til þess að borga ferðakostnað ráðunautanna. Ég býst við, að það sé rétt, á meðan það eru ekki nema 800 þús., nái það skammt. Og ég er hv. þm. sammála um, að það væri æskilegt að taka þátt í þessum kostnaði. En þegar það verður gert, verður heppilegra að gera það með því að taka af þessum lið fjárl. og Búnaðarfélagið skipti því upp milli búnaðarsambandanna heldur en lögfesta það í jarðræktarl., og þó að þetta séu aðeins 800 þús. í ár, getur það orðið meira, hvenær sem Alþingi treystir sér til að taka í auknum mæli þátt í þessum kostnaði. Það má nú spyrja hv. þm. að því, hvernig stendur á því, að búnaðarsamböndin hafa ekki á undanförnum árum, meðan t.d. hann og hans flokkur réð meira en í dag, fengið meira til sín en núgildandi jarðræktarlög ákveða. Af hverju var ekki búið að breyta jarðræktarl. til þess að styðja búnaðarsamböndin betur?

Við skulum ekki ræða um það. Við vitum, að hv. 1. þm. Vesturl. hefur þann breyskleika að gera kröfur, þegar hann er í stjórnarandstöðu, en ég vil ekki segja, að hann hafi gleymt því að beita sér fyrir lagfæringu á þessu og ýmsu öðru, sem bændur biðu eftir, á meðan hann var í stjórnaraðstöðu, — ég vil ekki fullyrða það. Það má vel vera, að hv. þm. hafi munað eftir því og hafi viljað koma því í framkvæmd, en hann hafi bara ekki getað það. Ég skal ekkert dæma um það. En hafi hann reynt það og ekki getað það, þá ætti hann ekki nú að vera svo kotroskinn eins og hann virtist reyna að vera áðan og vera alveg undrandi yfir því, að það skuli nú ekki vera allt í þessu frv., sem hægt væri að hugsa sér að bændur gætu krafizt, t.d. eins og styrkur á vatnsveitur. Af hverju er ekki tekinn upp styrkur á vatnsveitur í þessu frv.? Hann er alveg undrandi, hv. 1. þm. Vesturl., yfir því, að það sé þó þörf á því, að bændur hafi sjálfrennandi vatn, vatnsleiðslur og geti kælt mjólkina. En hvernig stendur á því, að hv. framsóknarmenn, sem hafa flutt frv. undanfarin ár til nýrra jarðræktarlaga, hafa alveg gleymt því að setja vatnsleiðslurnar inn í sín frv.? Hvernig stendur á því? Og hvernig stendur á því, að þetta kemur fyrst á dagskrá í haust? Það var ekki á dagskrá í sumar, þegar við vorum að tala í rn. við fulltrúa bænda í sex manna nefnd. Það var ekki á dagskrá 10. júlí, þegar ég skrifaði bréfið til Búnaðarfélagsins, Stéttarsambandsins og Landnámsins. Það er ekki minnzt á það, fyrr en búið er að semja þetta frv. Þá er fyrst minnzt á það. Og þegar spurt er að því, hvað það muni kosta ríkissjóð árlega að taka þetta ákvæði inn, þá veit enginn um það. En nú hefur hv. 1. þm. Vesturl. uppgötvað, að þetta er nauðsynlegt, og það er gott. Ég er honum sammála. Það er nauðsynlegt fyrir hvern bæ að hafa vatnsleiðslu og gott kælivatn. En það er ekki bara núna, sem það er nauðsynlegt. Það hefur alltaf verið. Og mér finnst eðlilegt, að áður en þetta er tekið inn í frv., áður en það er ákveðið að styrkja vatnsleiðslur, þá geri Búnaðarfélag Íslands raunhæfa áætlun um, hvað það muni kosta ríkissjóð árlega að taka þetta ákvæði inn. Mér finnst eðlilegt, að þeir, sem eiga að borga brúsann, spyrji um það, hvað það kosti. Eða finnst hv. 1. þm. Vesturl. það ekki út af fyrir sig eðlilegt? En það er mikils virði, að hv. þm. skyldi nú hafa komizt að sannleikanum um það, að vatnsveitur eru nauðsynlegar, enda þótt hann og hans flokksmenn hafi gleymt því að taka það ákvæði inn í þau frv., sem þeir hafa flutt árlega til nýrra jarðræktarlaga.

Þetta frv., sem hér um ræðir, tryggir ræktunina og er mikilsverður áfangi að því marki, sem keppt er að, mikilsverður áfangi. Og það má vitanlega benda á, að það væri kannske æskilegt, að styrkurinn hækkaði um meira en 30%. Enda þótt forustumenn bænda, bændasamtökin, hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta sé sá eðlilegi mælikvarði, þá gætu bændur samt sagt: Það er eðlilegt, að við fáum meira en 30%, vegna þess að það er dýrt að rækta. Það er eðlilegt, að við fáum styrk á vatnsveitur, og það er eðlilegt, að það séu fleiri þættir styrktir, enda þótt það hafi ekki verið fyrr. — Þetta getur verið sjónarmið bóndans, og þetta gæti verið það takmark, sem bændur og bændafulltrúar settu sér. En þeir, sem hafa orðið að sætta sig við það lengstum að vera með heldur ófullkomna löggjöf, t.d. eins og að binda styrkveitinguna við kaupgjaldsvísitölu, sem reyndist algerlega haldlaus, þegar til á að taka, þeir ættu sannarlega ekki að vera undrandi yfir því, þó að þeir fái ekki allt í einu. En með því, sem hefur gerzt í ræktunarmálunum nú á síðasta þingi, og með þessu frv., sem hér er lagt fram, hefur verið stigið stærra spor en nokkru sinni fyrr, miklu stærra og áhrifaríkara en hefði getað átt sér stað, ef framsóknarmenn hefðu farið með þessi mál, og þessi löggjöf mun marka stærra spor í ræktunarmálunum en jarðræktarlögin gerðu fyrst, þegar þau voru sett 1923. Og þetta er komið á daginn og á eftir að sýna sig betur.

Ég tel ekki ástæðu til að segja öllu meira að svo stöddu um þetta mál, en ég hafði sérstaklega tilefni til þess að gera aths. við það, sem hv. 1. þm. Vesturl. sagði hér áðan, vegna þess að mér finnst hann drótta ósæmilega að forustumönnum bændasamtakanna, þegar hann hélt því fram. að þeir hefðu samið um eitthvað í sambandi við þetta frv., sem tryggði ekki hagsmuni bænda eins og eðlilegt væri.