16.03.1965
Efri deild: 55. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

102. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. landbn. á þskj. 325, hefur n. orðið sammála um að mæla með, að frv. þetta verði samþ. með nokkrum breytingum, sem hún flytur á sérstöku þskj. Það skal þó tekið fram, að einstakir nm. áskildu sér rétt til að flytja fleiri brtt. við frv., þótt þeir væru í aðalatriðum samþykkir frv.

Þær brtt., sem n. leggur til, að gerðar verði á frv., eru í fyrsta lagi við 9. gr. Þar hefur n. gert nokkrar breytingar á því, sem lagt er til í frv., eins og það kom frá ríkisstj. og þeim n., sem undirbjuggu það, og sú breyting, sem landbn. taldi að þyrfti að gera á þessari gr., var einkum við 2. tölulið, sem fjallar um réttindi þeirra, sem lönd eiga, sem tekin eru til ræktunar, annars vegar og hins vegar skyldur þeirra, sem ráða yfir símalínum og raflínum, sem lagðar eru í jörð á vegum þeirra fyrirtækja, sem póst- og símamálastjórnin ræður yfir annars vegar og raforkumálastjórnin hins vegar. Þarna var farið út í nokkrar verulegar breytingar frá því, sem áður hafði gilt, og bæði póst- og símamálastjóri og raforkumálastjóri mættu á fundi hjá n. til þess að skýra sín viðhorf að því er snerti réttindi og skyldur í þessu efni. Og það varð fullt samkomulag milli n. og þessara forsvarsmanna símans og raflinanna um þá breytingu, sem hér er lagt til að gera, og einróma álít, að ég hygg, nm., að hér sé farin heppilegri leið en frv. gerði ráð fyrir í upphafi.

Aðrar breytingar við frv. eru naumast efnislegar, heldur aðeins til að skýra nokkru nánar það, sem í frvgr. stendur. T.d. er breyt. við 10. gr. raunar engin, annað en það, að niður fellur eitt orð, sem n. taldi óþarft, og í öðru lagi að kveða nánar á um, hvað gr. meinti, að því er snertir aukaframlag til jarðræktar.

19. gr. er umorðuð, vegna þess að við lítum svo á, að málfar hennar mætti betra vera.

Þá er að geta þess, að tveir nm. hafa flutt fleiri brtt. á þskj. 331, sem ganga nokkru lengra í fjárframlögum til jarðræktar heldur en frv. gerir ráð fyrir. En í sambandi við það vil ég geta þess, að þegar frv. þessu er skilað hér til Alþ., hafði áður orðið samkomulag í aðalatriðum um það milli forsvarsmanna bænda og ríkisstj., hversu mikil hækkun skyldi verða samkv. jarðræktarl. frá því, sem gilt hafði, þ.e.a.s. í kringum 30%. Við það samkomulag er miðað í þeim till., sem í frv. felast, og reiknað út frá því, að hækkun verði um 30% frá því, sem var 1963, miðað við sömu framkvæmdir. Þær brtt., sem þeir flytja á sérstöku þskj., hv. 1. þm. Vesturl. og hv. 4. þm. Austf., ganga í þá átt yfirleitt, að þarna hækki tölur nokkuð.

Um þá breytingu, sem mestu máli skiptir og þeir leggja til, er þetta að segja: Aðalbreytingin í þeirra till. er sú, að framlög til nýræktar eða túnræktar yfir 25 ha. hækki verulega. Hins vegar virðist mér, að brtt. muni ekki hafa veruleg áhrif á þá ræktun, sem er innan við 25 ha., þó að samþ. v erði. Aðrar till. til hækkunar eru allverulegar og mundu að sjálfsögðu valda því, að útgjöld samkv. frv. mundu hækka mun meira en það samkomulag, sem ég nefndi áðan, gerði ráð fyrir.

Um eina brtt. þessara hv. þm., þ.e.a.s. brtt. um það, að styrkur til vatnsveitna verði tekinn inn í jarðræktarlög, er það að segja, að þar er um algerlega nýjan lið að ræða, og var ekki ráð fyrir gert í því samkomulagi, sem, ég nefndi áðan, að hann yrði með. Hins vegar vil ég gjarnan segja það, að það er þess vert að athuga leiðir til þess að koma þarna til móts við þá, sem enn eiga ólagðar vatnsveitur eða vatnsleiðslur til býla sinna í sveitum. En á það má þó benda, að til eru lög um vatnsveitur og styrk úr ríkissjóði til þeirra hluta frá 5. júní 1947, og geta sveitabýli komið á vissan hátt undir þessi lög og hafa komið eftir sérstökum ákvæðum á fjárl. hverju sinni. En ég hygg, að það væri þarflegt að gera skýrari ákvæði í þessum l. um það, hvernig þetta yrði framkvæmt. En á því stigi, sem jarðræktarl. eru nú eða frv. til jarðræktarl., tel ég ekki fært að styðja það, að þessi liður verði tekinn inn að þessu sinni, vegna þess að undirbúning vantar til þess, ekki aðeins það, að það er utan við það samkomulag, sem ég nefndi, heldur einnig það, að það liggur hvergi nærri nógu ljóst fyrir, hve mikið sé þarna um að gera, og tel ég, að þyrfti að undirbúa það mun betur en enn hefur orðið.

Með þessum stutta inngangi fyrir nál. landbn. vil ég vænta þess, að frv. í því formi, sem það nú er, og með þeim breyt., sem landbn. hefur lagt til að gerðar verði, vildi ég óska þess, að frv. fái greiðan framgang hér í d. og í báðum d. þingsins, þar sem nú er orðið mjög áliðið þings, en hins vegar komið mjög að þeim dögum, sem greiðslur samkv. frv. fara að hefjast, en þær eiga að fara fram út á þær framkvæmdir, sem gerðar voru árið 1964.