23.03.1965
Efri deild: 58. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

102. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Þegar landbn. skilaði áliti og brtt. við 2. umr. þessa máls, var raunar ein gr. frv. enn til nokkurrar umr. og hugmyndir um breytingar á henni, sem hafa síðan verið ræddar, og í morgun á fundi landbn. ákvað n. að flytja enn eina brtt., og er hún við 5. gr. Þessi gr. fjallar um launakjör héraðsráðunauta og hafði gætt nokkurrar óánægju í þeirra hópi út af því, að gert var ráð fyrir, að laun þeirra væru ákveðin af landbrh. eftir tillögum frá Búnaðarfélagi Íslands. Nú hefur orðið að samkomulagi innan landbn. á fundi í morgun að gera brtt., eins og ég sagði, og vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp gr., eins og hún yrði, ef þessi brtt. yrði samþ.

„Kostnaður við framkvæmd laga þessara greiðist úr ríkissjóði eftir reikningi, er landbrh. samþ.“ Þetta er óbreytt, síðari málsliður gr. orðist svo: „Ríkissjóður greiðir búnaðarsamböndunum 65% af launum héraðsráðunauta, aðstoðarmanna og trúnaðarmanna, og skulu laun þeirra, sem sá hundraðshluti miðast við, samþ. af landbrh. að fengnum till, frá Búnaðarfélagi Íslands.“

Breytingin, sem í þessu felst frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, er sú, að búnaðarsamböndin semji við ráðunautana um launakjör. Hins vegar, þar sem lögin gera ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði 65% af launum ráðunautanna, en búnaðarsamböndin 35%, þá er talið eðlilegt, að landbrh. hafi íhlutun um það, hver launin verða, og greiði ekki nema 65% af því, sem hann getur fallizt á að launin verði að fegnum till. Búnaðarfélagsins.

Það er samkomulag um þessa breytingu. Að vísu mættu ekki allir nm. í landbn., þegar hún var ákveðin, en ég hef ástæðu til að ætla, að þeir, sem ekki mættu, muni ekki beita sér fyrir því að torvelda það, að þessi breyt. nái fram að ganga.

Þá er þess í öðru lagi að geta, að af vangá hefur fallið niður hjá n. að gera breyt. á 39. gr., sem hefst á þessum orðum: „Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1965.“ Þar sem nú er komið langt fram yfir þennan tíma, taldi n. sjálfsagt að breyta þessu þannig: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessar skriflegu brtt. með ósk um það, að hann leiti afbrigða fyrir því, að þær verði teknar til afgreiðslu við þessa umr.