08.04.1965
Neðri deild: 65. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

102. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Frv. það til jarðræktarlaga, sem hér er til 2. umr. í hv. d., er stjórnarfrv. komið frá Ed. Landbn. hefur haft það til meðferðar og mælir með samþykkt þess með áorðnum breytingum, er hv. Ed. gerði á frv., sem voru ekki miklar og enginn ágreiningur varð um. Stjórnarandstæðingar í n. skrifa þó undir með áskildum rétti til brtt., og þeir hafa lagt brtt. fram á þskj. 414. Þær brtt. eru um enn frekari hækkun framlaga og nokkuð breytta aðferð við ákvörðun þeirra. En samkv. frv., eins og það liggur fyrir hér, felst í því sem næst 30% hækkun framlaga frá gildandi lögum á hinum almenna framkvæmdastuðningi. Var það haft í huga sem hliðarráðstöfun við ákvörðun afurðaverðs á landbúnaðarvörum á s.l. hausti, eins og kunnugt er.

Í brtt. stjórnarandstæðinga er gert ráð fyrir stuðningi við vatnsveitur á einstökum sveitabæjum. Og því er ekki að leyna, að aðstaða er misjöfn til vatnsöflunar og sums staðar allkostnaðarsöm. Hér er því málefni, sem þarf að gefa gaum. En mín skoðun er, að það eigi að athugast undir hinum almennu vatnsveitulögum. Vatnsveitumálin, það má segja, að þau stefni í ógöngur í þorpum og þéttbýlisstöðum, sem sífellt eru að myndast, og ber þar margt til. Mikil þörf, vaxandi kröfur um vatnsgæði, matvælaiðnaður o.s.frv. og af þessu sífellt vaxandi kostnaður. Þau mál hljóta því að koma til athugunar á næstunni, og ég held, að vatnsveitur sveitabæja í einstökum kostnaðarsömum tilfellum eigi að falla þar undir.

Það er stundum talað um stefnur í landbúnaðarmálum. Sú stefna, sem birtist í jarðræktarlögunum og þeim stuðningi, sem er veittur til ræktunar, er stefna hinna frjálsu bænda, — stefna hinna mörgu frjálsu bænda, — stefna, sem vill byggja landið allt og framleiða landbúnaðarvörur og ala upp fólk, hvar sem gróðurmold gefur möguleikana. Þessi stefna byggist á frumkvæði bændanna. Það heyrast oft um það raddir, að við þurfum að skipuleggja landbúnaðinn, það eigi að stjórna honum með eins konar alföðurauga, hvort sem það er eitt eða fleiri, og matvælasjónarmiðið eitt eigi að ráða. Já, lítur þetta ekki ósköp vel út? Ég hef hrærzt í landbúnaði öll mín ár, og ég hef lagt mig eftir að virða fyrir mér athafnir og afkomu einstakra bænda víðs vegar um landið. Ef stefna skipulagningarinnar er rétt, stefna hinnar föðurlegu forsjónar, ætti afkoma búskaparins að vera í beinu samhengi við gæði jarðanna, búskapargildi þeirra. Allir, sem hafa kynnt sér íslenzkar sveitir og búskap, vita, að þetta er ekki svo. Og hvers vegna? Vegna þess að það er m.a. hæfni bændanna, sem veldur svo miklu um afkomuna. Sú stefna í landbúnaðarmálum, sem örvar athafnasemi og sjálfsbjargarhvöt bændanna, er farsælust. Með jarðræktarlögunum er sagt við hvern einasta bónda: Ef þú beitir orku þinni að þessu verkefni, að ræktun lands, stendur þér þessi stuðningur til boða. Og til þess að örva enn meir til stækkunar smábúanna hefur verið farið inn á þá braut að veita stærri hlut á ræktunina undir 25 ha. marki hjá hverjum bónda. Mér þótti rétt við þetta tækifæri að benda á þetta. Jarðræktarlögin, stuðningur ríkisvaldsins við ræktun í landinu, grundvallast á því, að bændurnir sjálfir eigi frumkvæðin. Þau byggja á hinni farsælu undirstöðu sjálfsbjargarviðleitninnar, af því að bændur þurfa sjálfir að framkvæma, en ekki er framkvæmt fyrir þá.

Þessa dagana hugsa margir stórt í landi voru og þeir hugsa líka stórt í landbúnaði, þ.e.a.s. halda a.m.k., að þeir geri það. Þess vegna eru uppi raddir um stórrekstur í landbúnaði. En allar athuganir, sem farið hafa fram á afkomu bænda og búskapar, benda til þess, að viss stærð búa gefi farsælustu afkomuna. Og skyldu ekki bændur sjálfir vera líklegastir til þess að finna hina hagkvæmustu bústærð? Stóru búin gefast ekki betur. En allt of mörg bú eru of lítil. Með auknum stuðningi jarðræktarlaga við litlu túnin eru bændur örvaðir til að ýta úr vör. Áður fundu þeir gjarnan vanmátt sinn til þess. Misráðið verðhlutfall milli nautgripa- og sauðfjárafurða hefur átt stóran þátt í því, hve seint hefur miðað í stækkun búanna víðs vegar. Á verðhlutfallinu hefur orðið stór breyting síðustu árin, enda er hugur sauðfjárbændanna allur annar nú.

Ég hef einhvern tíma áður orðað það svo, að galdur stjórnmálanna væri að leggja kraftsins ör á bogastreng fólksins.

Stefna jarðræktarlaganna, stuðningurinn við ræktunina, er í þessum anda. Og á engu fremur byggist velferð þjóðar í þessu landi á komandi árum en frjálshuga bændastétt með sívakandi sjálfsbjargarhvöt, á frjálshuga einstaklingum í sveit og við sjó, sem trúa á mátt sinn og megin.

Fyrsti landnámsmaður í Eyjafirði var Helgi magri. Þess er getið, að hann hafi verið kristinn, en hét þó á Þór til stórræða. Ég held, að Helgi magri hafi verið ákaflega hygginn bóndi. Ég lít á þessa frásögn miklu fremur sem tákn, og þessi frásögn dregur ekkert úr gildi hins kristna siðar né er niðrandi fyrir kristna trú. Hún er mér sönnun þess, að Helgi magri skildi, að fyrst og síðast ætti hver að treysta sjálfum sér og allra helzt þegar í harðbakka slær. Ellefu alda búskaparsaga í landinu sannar það, að á sjálfstrausti, forsjálni og sjálfsbjargarviðleitni björgumst við. Það er og verður grundvöllur búskaparins. Sjálfsbjargarviðleitnin hagnýtir sér vísindalega þekkingu. Það gera alir, sem hafa hyggindi Helga magra. Við þurfum að efla bændasjónarmiðin. Bóndi hugsar ekki eins og launþegi og má aldrei gera það. Í mínum huga væri „bóndinn“ þá dauður. Stefna jarðræktarlaganna er stefna hinna frjálsu bænda, sem treysta fyrst og fremst á sjálfa sig, bændanna, sem eru félagslega sinnaðir einstaklingshyggjumenn.

Nefndin eða meiri hl. hennar leggur sem sagt til, að frv. verði samþ. óbreytt.