08.04.1965
Neðri deild: 65. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

102. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Sunnl. hefur lýst stefnu Framsfl. í jarðræktarmálum, eins og hann segir að hún birtist í brtt. á þskj. 414. Þetta er nú stefna Framsfl. í dag og verður örugglega, á meðan hann er utan ríkisstj., en á það mundi reyna, ef flokkurinn kæmist í ríkisstj., hvort þannig yrði á málum haldið eins og hv. 2. þm. Sunnl. lýsti hér áðan.

Hv. þm. lýsti því yfir, að væri æskilegt, að þetta jarðræktarlagafrv. væri rismeira en raun ber vitni. Við gætum sjálfsagt verið sammála um, að það væri æskilegt, að hlutdeild þess opinbera væri stærri í ræktun og framkvæmdum í landbúnaðinum heldur en er og jafnvel heldur en lagt er til með þessu frv. En verður ekki samt sem áður að viðurkenna það, að með flutningi þessa frv. sé stigið stórt og heillavænlegt spor til þess að ýta undir ræktun og framfarir í sveitum landsins, stærra og heillaríkara spor en áður hefur verið með setningu laga samkv. þessu frv. og því, sem gert var einnig á síðasta þingi í ræktunarmálunum? Það er komið í ljós, að lagasetningin 1964 hefur haft heillavænleg áhrif með því að ýta mjög undir ræktun í landinu, og hv. 2. þm. Sunnl. veit, að í Árnessýslu einni hefur ræktunin á árinu 1964 aukizt um nær 50% vegna l. frá síðasta Alþ., og í Rangárvallasýslu er aukningin svipuð, og sennilega er aukningin mikil um land allt vegna aukins framlags til ræktunarmálanna með lagasetningunni í fyrra, og vegna þess, að bændur áttu von á, að jarðræktarl. í heild yrðu endurskoðuð og framlagið aukið.

Ég vil gera eina aths. við það, sem sagt var hér áðan, að þetta frv. væri flutt vegna samkomulags við fulltrúa bænda í sex manna n. á s.l. hausti. Ég skal viðurkenna, að það var gott samstarf milli fulltrúa bænda og fulltrúa sex manna nefndar yfirleitt á s.l. hausti og samkomulag náðist um verðlagninguna, en í júnímánuði s.l. skrifaði ég Búnaðarfélagi Íslands og Landnámi ríkisins bréf og óskaði eftir því, að fundinn væri grundvöllur fyrir endurskoðun jarðræktarl. með tilliti til þess, að ríkisstj. hygðist flytja frv. til nýrra jarðræktarl., þegar Alþ. kæmi saman s.l. haust. Og í tilefni af því gerði Landnám ríkisins og Búnaðarfélag Íslands athugun á því, hvað eðlilegt væri, að jarðræktarstyrkurinn hækkaði, og samkv. bréfi frá stjórn Búnaðarfélags Íslands, sem rn. barst í ágústmánuði, höfðu útreikningarnir sýnt, að eðlilegt væri að reikna með 28.8%. Og það má e.t.v. segja það, að ef ekki hefði orðið sérstakt samkomulag víð fulltrúa bænda í sex manna nefnd um flutning jarðræktarlagafrv., hefði þetta ekki verið 30%, heldur t.d. tæp 29%. Þó skal ég ekki um það segja, því að eðlilegra væri a.m.k. að reikna með heilu prósenti en broti úr prósenti. En samkomulag við fulltrúa bænda í sex manna nefnd sérstaklega var um það að hækka styrkinn til súgþurrkunar, þannig að hann mætti verða 1/3 af kostnaði, og var þess vegna sérstakt framlag á fjárl. í því skyni, styrkur til viðbótar því, sem er í jarðræktarl., framlag skulum við segja, og að öðru leyti sérstakt samkomulag um framlag til þeirra bænda, sem verst eru settir, og það eru 5 millj. kr. á 5 árum, samtals 25 millj. kr. Þetta er það sérstaka samkomulag, sem gert var við fulltrúa bænda í sex manna nefnd, og var það út af fyrir sig heillavænlegt spor, að samkomulag náðist um verðlagninguna, og ekki verra fyrir það, þó að það væru gerðar hliðarráðstafanir í því skyni að auðvelda samkomulagið.

Það frv., sem hér er um að ræða, gengur í svipaða átt og frv. mþn, búnaðarþings. Pálmi Einarsson landnámsstjóri hefur gert samanburð á þessu frv. og frv. mþn. búnaðarþings, og það, sem fram kemur, er það, að í því frv., sem hér um ræðir, er framlagið á hverja einingu, grunnframlagið, látið standa á heilum krónum, en áður var það oft á aurum, og það er fellt niður í þessu frv., en sá reginmunur er á orðinn frá því, að frv, mþn. búnaðarþings varð til, að þá var sérstakt framlag aðeins til þeirra jarða, sem voru með tún undir 15 ha., en nú er það til jarða, sem eru með tún að stærð undir 25 ha., og á árinu 1964 var talið, að það væru um 3800 býli, sem nytu þessa sérstaka styrks, vegna þess að túnstærðin væri undir 25 ha. Og samkv. lögunum, sem afgreidd voru hér í hv. Alþ. í fyrra, eiga þessir menn, sem hafa túnstærð undir 25 ha., að fá 50% af ræktunarkostnaðinum. Og þegar tillit er tekið til þess, sem hefur gerzt á þessu þingi með flutningi þessa frv., og til þess, sem gert var í fyrra, er náttúrlega miklu lengra gengið en gert var ráð fyrir með frv. mþn. búnaðarþings, og út af fyrir sig er ekki ástæða til annars en að fagna því, og það hlýtur hv. 2. þm. Sunnl. einnig að gera.

Þá er enginn vafi á því, að það er mikil breyting til bóta að hafa ákveðið, að hér skuli jarðræktarframlagið greitt samkv. sérstakri jarðræktarvísitölu, sem hagstofan finnur út hverju sinni. Og það er vitanlega miklu eðlilegra og hagstæðara en áður var, þegar miðað var við framfærsluvísitöluna. Nú verður miðað við jarðræktarvísitölu eða kostnað við jarðræktina, og sé ég ekki annað en þá sé náð því hugtaki, sem hv. 2. þm. Sunnl. var að ræða hér um áðan, að framlagið skyldi miðað við hundraðshluta. Samkv. jarðræktarl. er ákveðið grunnframlag, og ofan á það greiðist viðbót samkv. jarðræktarvísitölu, sem fundin er og reiknuð út árlega af hagstofunni og miðast við raunverulegan kostnað. Þetta í frv. er áreiðanlega miklu hagstæðara fyrir þá, sem eru að rækta, heldur en hin vísitalan, ef hún hefði verið tekin upp aftur.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa lagt til, að framlag væri veitt til vatnsveitna í sveitum. Það var nú ekki fyrr en á s.l. hausti, sem stjórn Búnaðarfélags Íslands minntist á við mig að taka þetta inn í frv. Ég óskaði eftir því, að það væri gerð grein fyrir, hvað þetta mundi kosta á ári, ef það væri tekið inn í frv. Af eðlilegum ástæðum lá það ekki fyrir og engin áætlun um það. Það er þess vegna ekki eðlilegt, að þetta ákvæði verði tekin inn núna. Það er alveg nýtt. Auk þess eru skiptar skoðanir um það, hvort þetta eigi að vera í jarðræktarl. eða í vatnsveitul., sem fyrir hendi eru. Það eru ýmsir, sem halda því fram, að þau eigi frekar að breyta þeim, þar eigi þetta ákvæði heima, og þeir sömu, sem telja það eðlilegt og rétt að taka þetta upp, eru þeirrar skoðunar margir, að það eigi frekar heima í sérstökum lögum en jarðræktarl. Um það vil ég ekkert fullyrða.

Ég get vel ímyndað mér, að þetta ákvæði verði lögfest, það verði tekinn upp sá háttur að auðvelda bændum að afla sér vatns, því að það er rétt, sem hér var sagt, að það er erfitt á mörgum sveitabæjum. En það hefur vitanlega verið lengi þannig, og þess vegna má í sjálfu sér segja, að það sé harla einkennilegt, að till. um, að það verði tekið inn í jarðræktarlögin eða vatnsveitulögunum skuli vera breytt, skuli ekki hafa komið upp fyrr en á s.l. hausti. Mér finnst þetta mál svo mikilvægt, að það væri eðlilegt, að það hefði komið fyrr fram, og það sé alveg sjálfsagt að athuga, með hvaða hætti það megi verða.

Um brtt. hv. stjórnarandstæðinga í hv. landbn. tel ég ekki ástæðu til að ræða sérstaklega. Þær ganga að sjálfsögðu nokkru lengra en frv., og það er eins og gengur, að stjórnarandstaðan finnur sig oft knúða til þess að flytja brtt., sem ganga lengra en það, sem á fram að ganga og ákv eðið er af stjórnarflokkunum. Og ég geri ráð fyrir því, að það mætti færa ýmis rök fyrir því að lögfesta þessar till. Þá geri ég ráð fyrir því, að jafnvel þó að þessar till. væru inni í frv. og hefðu verið það í byrjun, hefðu hv. stjórnarandstæðingar samt fundið sig knúða til að ganga eitthvað lengra en ríkisstj. með flutningi frv. En ég skal ekkert vera að fullyrða um þetta. Gangur málanna er oft með þessum hætti hér í hv. Alþ., og ég veit það og hef reyndar heyrt það hjá stjórnarandstöðunni, að ýmsum og jafnvel flestum þeirra finnst þetta frv. harla gott og viðurkenna, að þarna sé gengið langt í áttina og þarna sé um verulegan stuðning við ræktun og framkvæmdir í sveitum að ræða. Og það er enginn vafi á því, að þessi löggjöf, bæði í fyrra og nú, mun marka stórt spor í ræktunarmálunum, og þegar við athugum það, hvaða þýðingu ræktun landsins hefur í nútíð og framtíð, hljótum við að vera sammála um, að það er eitt það helzta, sem verður byggt á í framtíðinni, og þegar landbúnaðurinn hefur fengið nægilega ræktun, er það mín skoðun, að það verði hægt að flytja út landbúnaðarafurðir án framlaga úr ríkissjóði.