12.11.1964
Efri deild: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

70. mál, búfjárrækt

Ásgeir Bjarnason:

Hæstv. landbrh. hefur gert grein fyrir þýðingarmiklu máli, sem fyrst og fremst varðar búfjárræktina í landinu. Búfjárræktarlögin hafa löngum verið talin önnur sú löggjöf, sem er þýðingarmest fyrir íslenzkan landbúnað, en hin löggjöfin var löngum talin þýðingarmest og var líka nokkru eldri, það voru jarðræktarlögin. En lög um búfjárrækt voru fyrst sett árið 1931 og hafa síðan verið endurskoðuð 1948 og 1957, og enn fremur liggur nú fyrir endurskoðun á þessari löggjöf, og sérstaklega, eins og hæstv. ráðh, gat um, með tilliti til þeirra verðbreytinga, sem orðið hafa, frá því að síðasta löggjöf var samþykkt, og einnig með tilliti til nýrrar tækni, sem tekin hefur verið í þjónustu búfjárræktarinnar.

En það er vert að athuga, um leið og maður hugleiðir þessi mál, hvað búfjárræktin skapar þjóðarbúinu miklar tekjur. En mér skilst, að eftir þeirri áætlun, sem gerð er í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða fyrir yfirstandandi verðlagsár, 1964—65, sé áætlað verðmæti landbúnaðarins í heild af búfjárræktinni eða búfénaðinum sem næst 1 milljarður 737 millj. 426 þús. kr. Þar af að sjálfsögðu gera stærstu upphæðina tekjur af nautpeningi, um 961 millj. 872 þús. kr., og sauðfjárræktin nokkru minni með 696 millj. 126 þús. kr. Tekjur af hrossum og aukabúgreinum, — á ég þar við alifugla og svínarækt, — samtals rúmar 70 millj. kr. Hér sjá því allir, að nauðsynlegt er, að vel sé á málum haldið, og ekki sízt þegar tillit er tekið til þess, hver var grundvallarhugsunin, sem lá að baki endurskoðun þessara laga. En það var till. búnaðarþings, sem grundvallaðist á því, að heyforði væri of lítill fyrir þann búpening, sem landsmenn hafa.

Þetta var uppistaðan í þessari till., sem fyrst var flútt á búnaðarþingi af þeim Sigurði Snorrasyni og Gunnari Guðbjartssyni, en eftir nánari athugun á búnaðarþingi var samþ. till. um nefndarskipun til þess að endurskoða löggjöfina í heild.

En þessi lagabálkur fjallar, jafnframt því að vera um ræktun búfjárins, um ásetninginn í landinu, þ.e.a.s. hvernig fóðra skal búfé og hvernig fara skal með þau mál, þegar eitthvað þykir á skorta í þeim efnum. Og það er athyglisvert, eins og ræktunarmálum hefur fleygt fram í landinu, að það skuli samt sem áður vera til, að of litið fóður er til handa búfénaðinum, ef illa kann að ára. Og bændum er ekkert láandi í þessum efnum, því að þeir þurfa á miklum tekjum að halda. Samhliða því, sem þeir hafa ræktað, hafa þeir aukið bústofninn til þess að afla sér nýrra tekna til að rísa undir þeim útgjöldum, sem þeir verða nauðsynlega að inna af hendi hverju sinni.

Þessi endurskoðun, eins og hæstv. ráðh. gat um, hefur verið gerð af nefnd, sem var skipuð fyrir tilstilli Búnaðarfélags Íslands og búnaðarþings í samráði við hæstv. ríkisstj., og það er búið að vinna mikið í þessu máli. Þetta frv. er ávöxtur þeirrar iðju, að bæði sérfræðingar í landbúnaðarvísindum og menn með mikla reynslu hafa lagt fram sína þekkingu til þess að leysa þetta verkefni eins vel af hendi og auðið er.

Við Íslendingar getum ekki nema að nokkru leyti stuðzt við búfjárræktarlög erlendra þjóða, enda er landbúnaður okkar að mörgu leyti ólíkur landbúnaði annarra þjóða, ekki sízt þegar við tökum tillit til þess, að aðalkjarninn í okkar landbúnaðarframleiðslu er sú matvælaframleiðsla, sem búfénaðurinn gefur okkur. En aðrar þjóðir geta hæglega aflað sér matvæla á annan hátt, þ.e.a.s. með þeim gróðri, sem tekinn er beint frá jörðinni. Þeir hafa kornyrkju, og þeir geta ræktað líka alls konar baunir og mattegundir, sem eru það efnainnihaldsríkar, að það þarf ekki nauðsynlega að bæta þær upp með kjarna, sem búfjárafurðirnar fela í sér. Þess vegna skilur nokkuð á milli í landhúnaðarframleiðslu okkar og annarra þjóða. Og grundvöllurinn að okkar landbúnaðarframleiðslu liggur í grasræktinni, enda þótt við kunnum að geta ræktað nokkuð af matvælum og á þann hátt sparað okkur innflutning á þeim matvælum, sem aðrar þjóðir rækta í stórum stíl, eins og mjöltegundirnar.

En það hefur komið fram, að það mundi vera hagkvæmt fyrir Íslendinga að hafa hvorki kýr né kindur og hugsa ekki um graslendið, en hafa svín og hænsni. Það held ég, að mundi aldrei verða framtíðarlandbúnaður hér, því að hverri þjóð mun hollast að búa sem mest að sínu, og þess vegna er það, að við þurfum að nota víðlendi landsins, þar sem það er gróðri vaxið, samhliða því sem við endurbætum gróðurinn með því að taka fyrir stór landflæmi árlega til framræslu og víðtækari ræktunar.

Búfjárræktarlögin eru undirstaða þess, að bændum gefist kostur á að vinna sameiginlega að sínum ræktunarmálum í búfénaðinum, og þetta frv. miðar meira að því en löggjöfin hefur áður verið við miðuð, að bændur geti unnið stórátök á félagslegum grundvelli í búfjárræktinni. Framlögin, sem nú hækka, eru hækkuð tiltölulega meira á því sviði, sem snýr að félagslegum málefnum búfjárræktarinnar, heldur en það, sem varðar bændurna hvern og einn út af fyrir sig, og þetta tel ég alveg rétt, að það sé reynt að styrkja félagslega aðstöðu bændastéttarinnar sem bezt á þessu sviði, og þar af leiðandi tel ég, að þetta frv. miði í rétta átt. En það er ýmislegt í þessum málum, sem nánari athugunar þarf með heldur en þegar hefur verið gert.

Þetta frv. er í 9 köflum, og hljóðar hver kafli út af fyrir sig um vissan þátt í búfjárræktinni og vissan þátt í félagsstarfseminni.

Hæstv. ráðh. gat um það, að við nánari athugun hefur ekki verið hægt að fallast á till. milliþn. og búnaðarþings að því er varðar launakjör ráðunauta. Ég skal ekki við hann deila um það, hvor þátturinn er betri, að miða við sérstakan flokk út frá þeim kjarasamningum, sem gerðir hafa verið fyrir opinbera starfsmenn, eða fara hverju sinni eftir till. Búnaðarfélags Íslands, og ég tel, að þessum málum sé vel fyrir komið, ef sá háttur yrði á hafður, að jafnan væri hægt að fylgja þeim till., sem Búnaðarfélag Íslands gerir í þessum efnum. Hitt er svo annað mál, að í sambandi við leiðbeiningaþjónustuna er mjög mikill kostnaður, og mörg búnaðarsambönd landsins hafa á mörgum undanförnum árum, eftir því sem rekstur hefur orðið dýrari á bifreiðum, þá hafa þau átt fullt í fangi með að rísa fjárhagslega undir slíkum rekstri. Og því var það, að háværar raddir hafa komið fram um það, að ríkið ætti að taka jafnmikinn þátt í ferðakostnaði og launum ráðunautanna, og ég tel það mjög æskilegt, ef slíkt væri hægt. En hinu ber að sjálfsögðu að fagna, ef hæstv. ráðh. beitir sér fyrir því, eins og hann lét orð að falla áðan, að taka upp hærri fjárveitingu til búnaðarsambandanna en nú er. 850 þús. kr. eru ekki ýkjahá upphæð til að rísa undir kostnaði við bílarekstur hjá fjöldamörgum ráðunautum. Þetta er orðið það dýrt, að það þarf stórupphæðir til. Og því ber að sjálfsögðu að fagna, ef veruleg hækkun kann að fást á þessum lið fjárl., og það getur orðið til þess að létta undir með búnaðarsamböndunum að öðru leyti varðandi rekstur sambandsins og leiðbeiningaþjónustu, sem veita skal samkv. þessum lögum.

Þá gat ráðh. þess, að töluverð hækkun ætti sér stað samkv. þessu frv., ef að lögum yrði, töluverð útgjaldahækkun fyrir ríkið samanborið við það, sem áður var, eða 47% frá því, sem verið hefur. En öllum er kunnugt, hvernig þessum málum hefur verið háttað að undanförnu, bæði að því er varðar jarðræktarlög og búfjárræktarlög, að þá var hinni svokölluðu vísitölu, sem áður gilti, kippt úr sambandi árið 1960 með þeirri efnahagslöggjöf, sem þá var lögfest. Og afleiðingarnar hafa verið þær, að enda þótt dýrtíð hafi vaxið hröðum skrefum síðan, þá hafa hin opinberu framlög, bæði samkv. jarðræktarlögum og búfjárræktarlögum, staðið í stað, nema þar sem sérstakt hlutfall hefur ríkt í lögunum eða hluti greiddur af kostnaðinum, eins og t.d. varðandi skurðgröft og einnig að því er varðar laun ráðunauta, en að öðru leyti hafa framlögin algerlega staðið í stað og eru því orðin mjög úrelt, og bændur hafa beðið stórfellt tjón vegna þess hin síðari ár.

Það ber því að fagna því, að nú skuli tekinn upp nýr háttur í þessum málum og nú skuli eiga að reikna út árlega þá vísitölu, sem greiða skal framlögin eftir, því að sannast sagna hefur hitt orðið algerlega ótækt og hefur orðið til þess að torvelda bæði félagslega uppbyggingu landbúnaðarins og einnig orðið til þess að torvelda bændum að standa í miklum framkvæmdum miðað við það, sem áður var.

Ég fagna því, að það skuli vera tekinn upp nýr háttur í þessum efnum og að það skuli greidd hærri framlög til þessarar starfsemi hér á eftir en verið hefur nú um skeið. Ég fagna því, að Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda hefur orðið það mikið ágengt í þessum málum, að það kom til, að þessi mál voru bundin í samningum hjá Stéttarsambandinu á s.l. hausti, og það er m.a. orsök í því, að þetta frv. hefur hlotið þá afgreiðslu af hálfu stjórnarvaldanna, sem raun ber vitni um.

Við framsóknarmenn munum að sjálfsögðu fylgja þessu frv., enda þótt við kunnum að flytja við það einhverjar brtt. og sömuleiðis að fylgja öðrum brtt., sem fram kunna að koma. Ég sé ekki ástæðu til að raeða mikið um þetta mál nú, ekki sízt vegna þess, að ég á sæti í þeirri n., sem mun fjalla um þessi mál. En mér þótti rétt, að við 1. umr. málsins kæmi það fram, sem ég hef nú getið hér um.