02.03.1965
Efri deild: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

70. mál, búfjárrækt

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. hefur í aðalatriðum gert grein fyrir þessu frv., sem hér er til umr., og mun ég ekki ræða það á annan hátt en þann, sem snýr að þeim brtt., sem ég ber hér fram ásamt hv. 4, þm. Austf. (PÞ); en þetta mál hefur verið til athugunar í landbn. nú um skeið, og hefur nefndin reynt að færa það til hins betra horfs, eftir því sem henni hefur sýnzt að betur mætti fara.

Hv. frsm. gat þess, að þetta frv. hefði verið lagt fram í haust, eftir að samkomulag hefði náðst um þá heildarhækkun, sem mætti verða á búfjárræktarlögunum, og það hygg ég, að muni rétt vera. En tildragandi þessa máls er sá, að upphaflega er flutt á búnaðarþingi till. þess efnis að athuga forðagæzlu landsins, vegna þess að þar þótti ýmislegt ábótavant, og út frá því var hafizt handa um að endurskoða búfjárræktarlögin í heild, og var skipuð m,þn. af búnaðarþingi til að endurskoða búfjárræktarlögin, og svo endurskoðuð lágu lögin fyrir búnaðarþingi, sem starfaði árið 1964, og gerði það þing nokkrar breytingar á frv. mþn. Málið var endanlega afgreitt frá búnaðarþingi til Búnaðarfélags Íslands, en svo skeður það í landbrn., að flestallar till. búnaðarþings eru felldar þar niður, og í aðalatriðum er frv. eins og það kom frá mþn., en það eitt inn tekið af till. búnaðarþings, sem fjallar um hækkun á sektum, ef lögin eru brotin, en allt annað var fellt niður, enda kostaði sú till. ríkissjóð ekki neitt.

Það má segja, að í þessu frv. sé framlagi ríkisins varið á fernan hátt. Það er í fyrsta lagi til að greiða laun sérfræðinga, sem eiga að starfa eftir þessari löggjöf, og hluta af launum héraðsráðunauta í búfjárrækt. Í öðru lagi greiðir ríkið framlag til þess að veita verðlaun á búfjársýningum. Í þriðja lagi er greiddur hluti af rekstrarkostnaði við sæðingarstöðvar og ýmsa félagsstarfsemi varðandi landbúnaðinn. Og í fjórða lagi er greiddur hluti af stofnkostnaði við byggingu sæðingarstöðva. Nú má um það deila, hvað er þýðingarmest og þýðingarminnst af þeim atriðum, sem framlag er veitt til samkv. þessu frv., en mér þykir þó sýnt, að það sé tvennt, sem mestu veldur, að vel sé hlúð að í þessum efnum, og það er í fyrsta lagi, að eigi sé sparað um of við þá sérfræðinga, sem eiga að veita aðstoð skv. þessari löggjöf, og sömuleiðis varðandi ráðunautalaunin, og enn fremur sé hlutinn, sem snýr að rekstri bæði sæðingarstöðva og starfsemi búfjárræktarfélaga og búnaðarsambanda almennt í landinu. Og allar tillögur okkar miða að því að létta undir í þessum atriðum, sem ég hef þegar drepið á.

Við byggjum árlega fyrir marga milljónatugi yfir búféð og heyfenginn í landinu. En til þess að þessar framkvæmdir komi að tilætluðum notum, verður búféð að vera arðberandi og gott, því að það er arðurinn af því, sem á að rísa undir þeim byggingarkostnaði, sem bændur verða allajafna að inna af hendi, og þetta vona ég, að hv. alþm. skilji, að það er ekki þýðingarlítið, að hlúð sé að ræktun búfjárins, til þess að þar séu arðbærir og góðir gripir, sem eiga létt með að skapa bóndanum tekjur.

Ein meginbreyting skv. þessu frv., sem hér liggur fyrir á búfjárræktarlögunum, er að færa alla starfsemi búfjárræktar inn á víðara svið en verið hefur, breikka þann grundvöll, sem starfsemin nær til, enda hægara við að eiga nú en áður, þar sem við búum við betri samgöngur á landi og fullkomnari flugsamgöngur en verið hefur áður og betri tækni við sæðingu búfjár. Nú eru möguleikar á því fyrir bændur, hvar sem þeir eru búsettir á landinu, að notfæra sér þau beztu naut og þá beztu hrúta, sem til eru, með því að flytja sæði þeirra á milli landshluta og ala upp búfé, sem byggist á úrvalsgóðum stofnum, en þessi starfsemi tekur sinn tíma, og hún kostar mikið fjármagn, og þess vegna er það, að það er ekki lítil þýðing þess, að búfjárræktarlögin styrki þessa starfsemi eins vel og dyggilega og maður telur að framast sé unnt af þjóðfélaginu að gera hverju sinni, og brtt. okkar hv. 4. þm. Austf. og mín þær miða að því, að svo verði gert.

1. till. er um það, að ríkið greiði skrifstofu og ferðakostnað héraðsráðunauta að hálfu á móti búnaðarsamböndunum. Þetta er ekki meira en það, sem ríkið gerir í fjöldamörgum tilfellum. Það borgar t.d. allan ferðakostnað ráðunauta hjá Búnaðarfélagi Íslands, og það borgar líka allan ferðakostnað hjá fjölmörgum starfsmönnum sínum. Það er því ekki óeðlilegt, að ríkið taki þátt í hluta af ferðakostnaði héraðsráðunauta, eins og það greiðir hluta af launum sömu ráðunauta, og því höfum við lagt til með fyrstu till., að ríkið taki að sér helming kostnaðar á móti búnaðarsamböndunum við skrifstofuhald og ferðakostnað héraðsráðunauta.

2. till. okkar fjallar um hækkun á framlagi til búnaðarsambanda eða nautgriparæktarsambanda vegna starfsemi við skýrsluhald og eftirlit með félagsstarfseminni almennt. Hér er um hækkun að ræða úr 16 kr. í 20 kr., miðað við hverja kú, sem skýrsla er send um til Búnaðarfélags Íslands. — Þá er í sömu grein breyting um hækkun á framlagi úr 330 kr. í 1500 kr. á hvern uppalinn nautkálf hjá hlutaðeigandi samböndum, en sem kunnugt er, þá er eldi þessara kálfa mjög kostnaðarsamt, og venjulega þarf að ala þá algerlega inni allt árið. Þetta kostar því sitt og því nauðsynlegt að greiða nokkurt framlag frá ríkinu til þess að koma til móts við félögin, sem eiga að sjá um þessa starfsemi.

3. till. okkar er við 19. gr. Hún er um það, að sæðingarstöðvar skv. VI, kafla þessa frv. fái jafnt framlag á þá hrúta, sem þar eru notaðir, og sauðfjárræktarfélög, en þau eiga að fá skv. þessu frv. 1330 kr. á l. verðlauna hrúta, en eins óg hv. þm. sjá skv. frv., á framlagið að vera 300 kr., en við leggjum til, að það verði hækkað upp í 1330 kr. Það er vitað mál, að sæðingarstöðvar nota ekki nema úrvalshrúta, og því mjög vafasamt, svo að ekki sé meira sagt, að hafa miklu lægra framlag til þeirra hrúta, sem eru á sæðingarstöðvunum, en annarra, sem almennt eru notaðir heima fyrir í sauðfjárræktarfélögunum. Framlög þessi renna öll til félagslegrar starfsemi, en þau falla ekki í hendur einstakra manna, og því finnst mér, að að því beri sérstaklega að hlúa, að þarna sé gert jafnt undir höfði vegna jafngóðra gripa, sem eru í sauðfjárræktarfélögum og hins vegar á sæðingarstöðvum.

4. till. okkar er við 20. gr. og er um hækkun á framlagi til stofnræktunar sauðfjár. Hér verður um mjög takmarkaða fjártölu að ræða, þar sem aðeins má hafa eitt slíkt bú í hverri sýslu og fjárfjöldi auk þess á hverju búi mjög takmarkaður. En á þennan hátt verður smám saman hægt að velja úr það sauðfé innan íslenzka fjárstofnsins, sem sameinar þá beztu eiginleika fjárins til afurðagetu, og því mikilvægt, að hér sé vel á málum haldið og reynt að styðja í hvívetna þá starfsemi, sem að þessu lýtur.

5. till. okkar er um hækkun á framlagi vegna afkvæmarannsókna. Samfara þessum rannsóknum er mikil vinna, sem er þess virði, að hún sé samvizkusamlega af hendi leyst og að menn þeir, sem við það starfa, geti ætlað sér svo nægan tíma, að þar skorti ekki neitt á, að vel takist til í þessu starfi og það komi að tilætluðum notum.

6. till. okkar er um það að taka upp heimild í þessa löggjöf um, að hrossaræktarfélög og einstakir bændur njóti framlags frá því opinbera til þess að rækta hestastofna. En frá því að við lögðum fram þessa 6. brtt. okkar, viðbót við 48. gr. frv., hefur það skeð, að fundur var haldinn í landbn. Ed. rétt fyrir hádegið í dag, og hv. formaður n. fór fram á það, að n. í heild tæki upp þessa till. með lítils háttar breytingu, og á það höfum við fallizt að taka till. okkar til baka, en sú skrifl. till., sem hér liggur fyrir, verði samþ. Eini munurinn á þessum tveim tillögum er sá, að úr okkar till. er það fellt, að einstakir bændur geti notið framlags, en það nái einungis til þeirra, sem hafa félagsstofnanir. Mér skilst, að þótt einstaka bændum kunni að finnast, að það sé ekki komið nægjanlega til móts við þá á þennan hátt, þá sé þeim innan handar að afla sér þess félagsskapar, sem veiti þeim tilskilin framlög frá því opinbera, eins og í okkar till. felst, og með það sjónarmið fyrir augum hef ég fallizt á það og sömuleiðis annar flm. till., að þessi till. sé tekin til baka, en að við sameinum okkur um þá till., sem áður hefur verið lýst af hv. frsm. nefndarinnar.

Þá er það 7. till. okkar. Hún er um það, að sérfræðingar á sæðingarstöðvum fái laun frá ríki að jafnmiklum hluta og héraðsráðunautar, en í frv. er gert ráð fyrir, að þeir fái aðeins helming launanna frá því opinbera, en héraðsráðunautar 65%. Við leggjum til, að þarna sé ekki gert upp á milli, því að það er sýnilegt, að við sæðingarstöðvarnar verða að starfa eigi minna menntaðir menn á sínu sviði en héraðsráðunautarnir almennt í landinu, og því ekki ástæða til að gera þarna upp á milli.

Þá leggjum við einnig til, að framlög vegna sæðingar verði hækkuð. Reynslan hefur sýnt það, að rekstur sæðingarstöðvanna er erfiður. Þar kemur það til, að ferðalög geta orðið mjög kostnaðarsöm hér á vetrum, og auk þess er ekki komin enn þá sú skipulagning á þessi mál, að hér sé hægt að búast við þeim fullkomnasta og bezta árangri, sem miðað er við hjá öðrum þjóðum, sem lengi hafa haft slíka starfsemi undir höndum. Því er það, að við höfum farið fram á það með þeirri brtt., sem er við 54. gr., b-liðinn, í 7. till. okkar, að þar verði gerð helmingshækkun frá því, sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég tel mig hafa gert grein fyrir brtt. okkar, sem allar miða að einu og sama marki, og það er að efla í hvívetna þá starfsemi, sem við þegar höfum viðurkennt á undanförnum árum og viðurkennum enn þá betur með því frv., sem hér liggur fyrir, og að við veitum þann tilstyrk í þessum málefnum, sem koma mun bændastéttinni að fullkomnum notum, svo að búfjárræktarstarfið á komandi tímum verði miklu auðveldara og þægilegra viðfangs en það hefur reynzt á liðnum áratug.

Þegar við ferðumst um önnur lönd, sjáum við hvarvetna blasa við okkur gripi af einum og sama stofni, sem segja okkur það, án þess að nokkur útlisti þau mál, að þar eigi að baki sér áratuga- og aldagömul starfsemi, og til þess að við getum gert aldir að áratugum í þessum efnum,. þá verðum við nú að stíga skrefið eins stórt og unnt er, þegar við endurskoðum búfjárræktarlögin með þetta fyrir augum.

Ég vænti svo þess, að hv. þdm, samþykki till. okkar, sem eigi munu kosta ríkissjóð neinu sem nemur og því ekki stórvægilegar breytingar að því leyti, en þýða á hinn bóginn verulega mikið fyrir þá starfsemi, sem mörkuð er með því frv., sem hér liggur fyrir.