20.10.1964
Neðri deild: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

5. mál, verðtrygging launa

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, byggist á samkomulagi því, sem gert var milli ríkisstj. og verkalýðssamtakanna á s.l. vori. Mér finnst rétt, þar sem frv. er þannig til komið, að ræða nokkuð sérstaklega um þessa samninga.

Ég vil þá byrja á því að segja, að ég vil bæði lýsa yfir ánægju og óánægju í sambandi við þessa samninga. Ég vil lýsa yfir ánægju vegna þess, að ríkisstj. hefur hér horfið frá einu meginatriði í viðreisnarstefnunni, sem var það að banna vísitöluuppbætur. Ég tel, að það sé mikill ávinningur fyrir verkalýðshreyfinguna að hafa fengið þetta bann afnumið og að vísitöluuppbætur séu teknar upp að nýju. En jafnframt því sem ég lýsi ánægju yfir þessu, get ég ekki annað en látið í ljós mikla óánægju yfir því, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki fallast á það, sem var og er aðalkrafa verkalýðsfélaganna, en það er, að verkamenn fái lífvænleg laun fyrir 3 stunda vinnudag. Ég harma það mjög, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki fallast á þetta atriði, vegna þess að þetta er grundvallaratriði, sem nú er viðurkennt í öllum nágrannalöndum okkar og talið sjálfsagt réttlætismál. Hæstv. ríkisstj. er eina ríkisstj. á Norðurlöndum, sem ekki hefur verið fáanleg til að viðurkenna þetta sjónarmið. Það er sönnun þess, að hæstv. ríkisstj. er íhaldsstjórn af verri tegund.

Áður en ég ræði nánar um þetta atriði, vil ég víkja örlítið að því máli, sem hér liggur sérstaklega fyrir. Ég hygg, að hv. alþm, geri sér það ljóst, að hér er í raun og veru að fara fram eins konar jarðarför. Það er verið að jarðsyngja það, sem hæstv. ríkisstj. á sínum tíma sagði að væri þriðja meginatriðið í viðreisnarstefnunni. Svo mikilvægt atriði var það talið á sínum tíma að banna vísitöluuppbætur, að hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir í umr. á Alþingi, þegar viðreisnarlöggjöfin svokallaða var til meðferðar, að þetta vísitölubann væri þriðja meginatriðið í viðreisnarstefnunni. Hæstv. þáv. forsrh., núv. 1. þm. Reykn., taldi upp í 6 liðum aðalatriði viðreisnarinnar og komst m.a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta, eftir að hann var búinn að telja upp tvö atriði:

„Í þriðja lagi verður reynt að koma í veg fyrir nýtt kapphlaup kaupgjalds og verðlags. Í því skyni er lagt til, að óheimilt sé að miða kaupgjald við breytingar á vísitölu.“

Hæstv. viðskmrh. taldi í annarri ræðu upp þau atriði, sem væru meginkjarni viðreisnarlöggjafarinnar. Í ræðu hans er komizt svo að orði, að aðalatriði þeirra ráðstafana, sem ríkisstj. leggur til að gerðar verði, séu fimm, og þriðja atriðið, sem hann nefnir, er afnám vísitölukerfisins, og í ræðu sinni færir hann svofelld rök fyrir þessu atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er nauðsynlegt að afnema vísitölukerfið, því að það færir launþegum engar varanlegar kjarabætur, engar varanlegar hagsbætur, heldur stuðlar að hækkun kaupgjalds og verðlags á víxl, færir launþegum fleiri krónur, en ekki bætt kjör.“

Með þessum röksemdum var horfið að því ráði með viðreisnarlöggjöfinni að fella niður vísitöluuppbætur á laun og það talið hvorki meira né minna en þriðja meginatriði viðreisnarstefnunnar. Nú er hins vegar svo komið eftir rúmlega 4 ár, að hér er verið að jarðsyngja þetta þriðja meginatriði viðreisnarstefnunnar. Það er sönnun þess, ásamt mörgu öðru, sem fram hefur komið, að viðreisnarstefnan var röng stefna og óframkvæmanleg og hefur ekki heldur náð þeim árangri eða tilgangi, sem til var ætlazt með henni, nema að mjög takmörkuðu leyti. Það hefur sem sagt sýnt sig í sambandi við þetta atriði, að í staðinn fyrir, að það drægi úr kapphlaupi milli verðlags og kaupgjalds, hefur það gert þetta kapphlaup meira en nokkru sinni fyrr. Þess vegna hefur ríkisstj. séð það ráð vænst — eftir líka að hafa verið knúin til þess af verkalýðssamtökunum — að falla frá þessu atriði.

Ég held, að þess séu ekki mörg dæmi, að ríkisstj. hafi orðið að játa það jafnáberandi og hæstv. ríkisstj. með þessu frv., að hún hafi beitt sér fyrir rangri stefnu og röngu máli með því að setja vísitölubannið í lög á sínum tíma og telja það meira að segja þriðja meginatriðið í þeirri viðreisnarstefnu, efnahagsstefnu, sem þá var tekin upp. En hins vegar er full ástæða til þess, eins og ég áðan sagði, að fagna því, að hæstv. ríkisstj. hefur hér látið undan síga, vegna þess að með því, að vísitöluuppbætur verða teknar upp að nýju, á að vera fengin nokkur trygging fyrir því, að ekki sé hægt að taka þær kauphækkanir, sem launþegar koma fram, strax aftur með nýjum verðhækkunum. Það er sem sagt meira öryggi fyrir því, að það sé hægt að tryggja kjörin, þó að hitt sé hins vegar rétt, að í þessu felist ekki raunverulegar kjarabætur, heldur kjaratrygging.

Ég vil þá koma að því, sem ég tel að sé meginatriði þessara mála, eins og nú er komið, og sérstök ástaeða sé til að ræða um hér á Alþingi, en það er sú mótstaða hæstv. ríkisstj., sem kom fram í samningunum við verkalýðsfélögin í vor, mótstaða hennar gegn því, að verkamönnum séu tryggð lífvænleg laun fyrir 8 klukkustunda vinnudag eða vinnutíma, sem því svarar. Ég held satt að segja, að það sé ákaflega erfitt að finna nokkrar eðlilegar röksemdir fyrir þessari afstöðu hæstv. ríkisstj. Eða er það kannske svo, að ríkisstj. álíti, að þau kjör, sem verkamenn fá í dag fyrir 8 stunda vinnudag, séu fullnægjandi? Mér finnst rétt í því sambandi að líta á nokkrar tölur, sem upplýsa þetta.

Ef við lítum t.d. á samninga verkamannafélagsins Dagsbrúnar og tökum kjör þeirra verkamanna, sem vinna samkv. 2. taxta, — ég tek ekki 1. taxta, sem er lægsti taxtinn, — ég tek 2. taxtann, en það er kaup þeirra verkamanna, sem vinna alla fiskvinnu, með nokkrum undantekningum, það eru aðstoðarmenn í fagvinnu, steypuvinnu, handlöngun hjá múrurum, gæzlu hrærivéla, vélgæzlu á loftpressum, vinnu í lýsishreinsunarstöðvum, ryðhreinsun með handverkfærum og vinnu í grjótnámi o.s.frv. Það, sem þessir verkamenn fá í árslaun, ef miðað er við 8 stunda vinnudag, en ekki neina eftirvinnu, eru 82 þús. kr. Tökum annan flokk Dagsbrúnarverkamanna, þ.e. 6. flokkinn, sem hefur nokkru hærra kaup, en það eru þeir verkamenn, sem annast stjórn á ýtum, vélskóflum, vélkrönum, kranabílum, bílum með tengivagni, stórvirkum flutningatækjum í sand- og grjótnámi, vegagerð, vegheflum og tjörublöndunarvélum í malbikunarstöð, alla vinnu við afgreiðslu á togurum, uppskipun á fiski úr bátum, uppskipun á saltfiski o.s.frv. Þetta er mjög stór eða sennilega stærsti hópur verkamanna. Það, sem þessir menn fá í árslaun, ef miðað er við 8 stunda vinnudag, er 91 þús. kr. Ef við athugum svo kjörin hjá öðru sambærilegu stéttarfélagi hér í bænum, sem er félag verksmiðjufólks, Iðja, þá eru laun hjá Iðjuverkamanni, eftir að hann er búinn að vinna í eitt ár, 74 þús. kr. á ári, miðað við 8 stunda vinnudag. Þegar hins vegar verkamaður er búinn að vinna í 4 ár sem iðnverkamaður eða á Iðjutaxta, eru laun hans 88 þús. kr. á ári. En eftir eitt ár eru þau 74 þús. kr., eins og ég áðan sagði.

Sem sagt, laun verkamanna, ef miðað er eingöngu við 8 stunda vinnudag og ekki neina sérstaka eftirvinnu, eru frá 74 þús. og upp í 90 þús. kr., ef hæstu flokkarnir eru teknir. Er það nú nokkur möguleiki, að menn geti búið við lífvænlega afkomu, ef byggja skal á þessum launum eingöngu? Ég held, að hver og einn geti auðveldlega gert sér það ljóst. Og ef við lítum á það, sem talið er nauðsynlegt að fjögurra manna fjölskylda hafi samkv. framfærsluvísitölu hagstofunnar, eru það 108 þús. kr. á ári, og er þá ekki reiknað með því, að húsaleiga sé meiri en 1000 kr. á mánuði, en hver og einn getur gert sér ljóst, að það er allt of lágt áætlað. En þó að eingöngu sé miðað við það, sem framfærsluvísitalan skammtar 4 manna fjölskyldu, sem er vitanlega allt of lágt, vantar samt 20—30 þús. kr. á það, að verkamenn, sem eru í Dagsbrún eða Iðju, hafi þau laun eftir árið, ef eingöngu er miðað við 8 stunda vinnudag. Svona gífurlega mikið vantar á það, að verkamenn hér á landi hafi lífvænlega afkomu fyrir 8 stunda vinnu á dag, sem er þó talin hámarksvinna víðast annars staðar, og hvarvetna annars staðar er það talið grundvallaratriði í þessum málum, að svo langur vinnutími tryggi verkamönnum lífvænlega afkomu. En þrátt fyrir það fékkst ríkisstj, ekki með neinum hætti til þess að hafa þessi laun hærri í samningum sínum við verkalýðssamtökin á síðasta ári heldur en samningar bera vott um, sem ég hef nú skírskotað til. Þetta er að sjálfsögðu langt fyrir neðan það, sem sanngjarnt getur talizt og á að vera, og alveg furðulegt, að ríkisstj. skyldi ekki vilja gera neina breytingu á í þessum efnum, og er líka í algerri andstöðu við það, sem er stefna ríkisstj. í nágrannalöndum okkar.

Ef við litum til liðins tíma, sjáum við, að þetta hefur ekki alltaf verið svona. Kaupmáttur launanna hefur verið meiri en hann er orðinn nú og þessar tölur bera merki um. Ef við hverfum t.d. til 1. marz 1959, eru lægstu laun Dagsbrúnarmanns þá 20.67 kr. á klst. Í dag eru þau ekki nema 33.80 kr. á klst., eða kaupið hefur hækkað á þessum tíma um 65%. Á sama tíma hefur það hins vegar gerzt, að vísitala vöru og þjónustu hefur hækkað um 85%, en það er sú eðlilega vísitala að miða við í þessu sambandi. Þetta sýnir það alveg augljóst, að kaupmáttur tímakaups hefur stórkostlega rýrnað á þessum tíma. Síðan 1. marz 1959, þegar núv. framfærsluvísitala tók gildi, hefur tímakaupið ekki hækkað nema um 65%, á sama tíma og verðlagið hefur hækkað um 85%. Þetta er algerlega andstæð þróun við það sem hefur gerzt í nágrannalöndum okkar. Ég held, að það megi fullyrða, að í flestum eða öllum nágrannalöndum okkar á þessum tíma hafi kaupmáttur tímakaupsins hækkað um 20—30°/ á þessum árum, í staðinn fyrir það, að hann lækkar næstum eins mikið hér á landi.

Hvað er það, sem hefur valdið þessari öfugþróun hér? Hvað er það, sem veldur því, að þannig hefur stefnt í allt aðra átt hjá okkur en hjá nágrannaþjóðum okkar? Það er mjög lærdómsríkt að rifja upp skýringarnar á því atriði. Stafar þetta kannske af því, að þjóðin hafi búið við einhver móðuharðandi af náttúruvöldum? Hafa eldgos, hafís eða ótíð eða aflabrestur þjakað þjóðina á þessum tíma? Nei, svarið verður vissulega ekki á þann veg, því að þjóðin hefur aldrei búið við meira góðæri en einmitt á þessum árum. Aflabrögð hafa sjaldan eða aldrei verið hagstæðari og verðlag á útflutningsvörum heldur sjaldan verið hagstæðara en á þessum árum. Fróðum manni, sem ég hef rætt við, reiknast svo, að á þessu ári muni þjóðin hafa til skipta a.m.k. 30–40% meira en á árinu 1958. Og það er talinn sjálfsagður árangur þegar þjóðartekjur hækka, að kaupmáttur launanna hækki nokkuð tilsvarandi. Sú hefur líka orðið raunin í nágrannalöndum okkar, að þar hefur kaupmáttur launanna hækkað í samræmi við það, sem þjóðartekjurnar hafa aukizt. Hér hefur kaupmáttur tímakaupsins farið minnkandi, þrátt fyrir stórvaxandi þjóðartekjur. Hvað er það, sem veldur þessu? Sannarlega eru það ekki móðuharðindi af náttúruvöldum, sem valda þessu. Það, sem veldur þessari öfugþróun hjá okkur, er fyrst og fremst röng stjórnarstefna, — stjórnarstefna, sem hefur miðað að því með margvíslegum hætti að misskipta bæði þjóðarauðnum og þjóðartekjunum, — stjórnarstefna, sem hefur haft það að markmiði, að verðlag skyldi jafnan hækka meira en kaupgjald. Það væri hið nauðsynlega boðorð fyrst og síðast að skerða kaupmáttinn. Hið rétta og eina boðorð efnahagsstefnunnar væri að skerða kaupmáttinn, láta verðlagið hækka meira en launin. Afleiðingarnar urðu líka þessar.

Ástæðan til þess, að þrátt fyrir þessa öfugþróun, sem hér hefur átt sér stað í launamálunum, skrimta menn þó, er m.a. sú, að náttúruöflin hafa komið þar til sögunnar og tryggt mikla eftirvinnu og það hefur verið möguleiki á því að láta börn og unglinga og konur vinna til þess að auka tekjur þeirra láglaunuðu. Hefði náttúran sjálf ekki gripið þarna inn í og tryggt góð aflabrögð og verðlag svo hækkað erlendis, þá hefði ekki verið hér gott ástand nú vegna þeirrar stjórnarstefnu, sem fylgt hefur verið.

Nú kunna einhverjir að spyrja: Er kannske ekki afkomu atvinnuveganna þrátt fyrir þetta allt þannig háttað, að það sé erfitt fyrir þá að rísa undir hærra kaupgjaldi, og að það hafi verið ástæðan til þess, að hæstv. ríkisstj. beitti sér gegn hærra kaupi á s.l. vori? Ég skal játa það, að miðað við þá stjórnarstefnu, sem nú er fylgt í landinu, er afkoma margra atvinnugreina langt frá því að vera góð. En það er líka jafnljóst, að með breyttri stjórnarstefnu má gera mikla breytingu á þessu, og þá er hægt að tryggja atvinnuvegunum þá aðstöðu, að þeir geti risið undir hærra kaupgjaldi. Ég nefni nokkur atriði, sem hæstv. ríkisstj. gæti gert til þess að tryggja atvinnuvegunum betri möguleika til þess að rísa undir hærra kaupgjaldi. T.d. með því að lækka vexti í eðlilegt horf mundi afkoma margra atvinnufyrirtækja batna og það einmitt þeirra atvinnufyrirtækja, sem búa við hvað lakasta aðstöðu nú, t.d. frystihúsanna. Á sama hátt mundi það bæta afkomu margra atvinnufyrirtækja, ef þau byggju við ríflegra lánsfé en nú á sér stað. Á þessu er hins vegar stórkostlegur brestur. Ég held, að það séu nálega öll eða svo til öll atvinnufyrirtæki landsins, nema kannske fyrirtæki einstakra gæðinga, sem búa við stórkostleg lánsfjárhöft og það svo, að sum atvinnufyrirtæki, t.d. iðnfyrirtæki, kvarta undan því nú, að rekstur þeirra sé að leggjast niður, vegna þess að lánskjörin séu svo erfið, að það sé ekki hægt að standast samkeppni við erlenda aðila, sem við þá keppa. Nefni ég sérstaklega vélaiðnaðinn í því sambandi. Með því að veita fyrirtækjunum ríflegri aðgang að lánsfé en nú á sér stað mætti mjög bæta aðstöðu þeirra til þess að rísa undir hærra kaupgjaldi en nú er. Á sama hátt mundi lækkun útflutningsgjalda hjálpa til þess að styrkja aðstöðu þeirra fyrirtækja, sem vinna að framleiðslu útflutningsvara. Síðast, en ekki sízt, með því að vinna að því og ýta undir það, að fyrirtækin stórlega auki framleiðni sína, væri þeim gert mögulegt að rísa undir hærra kaupgjaldi. En í öllum þeim málum, þar sem hæstv. ríkisstj. hefur vangert, hygg ég það verst, að hún hefur látið það ógert eða svo að segja alveg ógert að ýta undir aukna framleiðni hjá atvinnufyrirtækjum. Það hefur sama og ekkert verið gert af hálfu hæstv. ríkisstj. í þessum efnum, á sama tíma og stjórnarvöld nágrannalanda okkar hafa gert alls konar ráðstafanir til þess að vinna að aukinni framleiðni í atvinnulífinu. Áhugaleysi hæstv. ríkisstj. er hið furðulegasta í þessum efnum. Hjá henni ríkir alger svefn í þessum efnum. Frv., sem við framsóknarmenn fluttum hér á síðasta þingi um sérstakan framleiðnisjóð, var að sjálfsögðu alveg stungið undir stól. Það er líka vitanlegt, að þau höft, sem hæstv. ríkisstj. heldur uppi, þar sem eru vaxtahöftin og lánsfjárhöfin, draga meira úr möguleika fyrirtækjanna til að auka framleiðslu sína heldur en nokkur önnur höft. Að réttu lagi mætti kalla þessi höft framleiðnihöft. Þegar lánsfé er mjög dýrt, og ég tala nú ekki um, þegar ekki er hægt að fá það, eins og hér er í mörgum tilfellum, þá geta fyrirtækin ekki lagt út í framkvæmdir til að auka framleiðni sína. Þess vegna eru vaxtahöftin og lánsfjárhöftin, sem hæstv. ríkisstj. heldur uppi, sönn framleiðnihöft. Með því að breyta hér um stefnu mundi hæstv. ríkisstj. geta skapað atvinnufyrirtækjunum möguleika til þess að rísa undir miklu hærra kaupgjaldi en nú á sér stað.

Mér hefur þótt rétt í sambandi við þetta mál, vegna þess að það snertir þá samninga, sem áttu sér stað milli verkalýðsfélaganna og ríkisstj., að gera þetta mál að sérstöku umtalsefni, vegna þess að hér er um að ræða eitt hið allra stærsta mál, sem bíður úrlausnar í dag. Það verður ekki þolað til lengdar, þegar aðstaðan í þjóðfélaginu er fyrir hendi, ef rétt er stjórnað, að menn geti ekki fengið lífvænlegri afkomu fyrir 8 stunda vinnudag. Það er kannske hægt að kaupa sér einhvern frest frá því, að barizt verði til þrautar fyrir þessu máll, en það er ekki hægt til lengdar. Þess vegna mundi hæstv. ríkisstj. gera það réttast að fallast á þetta sjónarmið verkalýðssamtakanna og launþeganna án frekari baráttu og breyta jafnframt þannig, um stjórnarstefnu, að atvinnurekendum og atvinnufyrirtækjum væri vel mögulegt að rísa undir því. Og til þess hefur ríkisstj. fullkomna möguleika. Þess vegna vil ég ljúka þessum orðum mínum með því að vænta þess, að hæstv. ríkisstj. breyti hér um afstöðu, breyti hér um viðhorfið til 8 stunda vinnudagsins og breyti stjórnarstefnu sinni þannig, að það sé vel framkvæmanlegt að tryggja mönnum lífvænleg laun fyrir 8 stunda vinnudag.