20.10.1964
Neðri deild: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

5. mál, verðtrygging launa

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er nú svo oft búið að segja af hálfu hv. framsóknarmanna, að viðreisnin sé farin út um þúfur, sé dauð, að það er engin sérstök nýjung að heyra hv. 5. þm. Reykv. halda því hér fram. En um það gildir, að þeir lifa lengst, sem með orðum einum eru vegnir. Allur almenningur finnur glögglega þann meginmun, sem orðinn er á lífsháttum í smáu og stóru í landinu á hinum síðustu árum, þá gerbreytingu, sem afnám margvíslegra hafta, banna og ráða hefur í för með sér, þann mun, að nú eru menn frjálsir athafna sinna, en hér er mikið vöruúrval, hvort tveggja gagnstætt því, sem áður var, að nú eru til miklir gjaldeyrissjóðir, sem tryggja hag þjóðarinnar í heild. Þeir, sem út fyrir landsteinana fara, finna glögglega muninn á því, að nú er hægt að selja íslenzkan gjaldmiðil fyrir skráð verð. Svartur markaður er úr sögunni og sú skömm og vanvirða, sem allri þeirri óreiðu fylgdi áður. Allt þetta var höfuðmarkmið, sem eftir var keppt, þegar viðreisnarstefnan var upp tekin, og því verður aldrei hnekkt, að þessu markmiði hefur verið náð. Hitt skulum við svo viðurkenna, að það hefur aldrei staðið á ríkisstj. um viðurkenningu þess, að okkur hefur ekki tekizt að leysa allan vanda og verðbólgan hefur því miður farið vaxandi og of ört vaxandi. Samningarnir í vor voru fyrsta tilraunin, sem tekizt hefur um mjög langt skeið til þess að reyna að fá í þessu stefnubreytingu. Hvort það heppnast, eins og vonir manna stóðu til, skal ég ekkert fullyrða um á þessu stigi málsins. En ég þori að segja, að þessari tilraun var mjög vel tekið og sýndi fylgi almennings hvarvetna við þessa viðleitni. Hitt er svo annað mál, að það getur verið, að einstakir hópar geti þar gert meiri glundroða og skaða en í fljótu bragði verður fyrir séð, þó að almenningur sé slíku vitanlega andvígur.

Hvað sem öllum tölulestri líður, — og þegar tölur eru teknar úr réttu samhengi, hætta þær að vera til leiðbeiningar og verka villandi, — þá veit hvert einasta mannsbarn hérna, að þjóðin í heild og eins hver einstaklingur, sem hefur ekki orðið fyrir sérstökum óhöppum, á nú við betri lífskjör að búa í heild en nokkru sinni fyrr í sögu þessarar þjóðar. Með því er ekki sagt, að allur vandi sé hér leystur og margt horfi ekki til umbóta. Og það gleður mig, að hv. 5. þm. Reykv. virtist nú vera mjög áhugasamur um lausn á einu höfuðviðfangsefninu, og það er stytting vinnutíma. Ég hef oft lýst því yfir hér á Alþingi áður, að ég tel, að þetta sé eitt höfuðverkefnið, sem fram undan sé. En við skulum gera okkur ljóst, að það verkefni er engan veginn auðleyst eða verður leyst í skyndi með einum samningum, hvorki vinnuveitenda né verkalýðsfélaga, né þó að samþykki ríkisvaldsins komi þar til. Þetta er miklu flóknara og margþættara mál en svo. En ég minnist þess, — hygg, að það hafi verið seint á árinu 1961, — að hv. þm. Björn Jónsson, núv. 4, þm. Norðurl. e., var hér aðalflm. þáltill. um skipun nefndar til þess að kanna þessi málefni. Ég gegndi þá um skeið störfum forsrh. í forföllum Ólafs Thors, og ég beitti mér fyrir því, að þessi till. væri samþykkt eða úr þessari nefndarskipan yrði, og lagði á það ríka áherzlu þá þegar, að ég teldi hér um mjög merkilegt mál að ræða, eitt af því, sem mest aðkallandi væri í okkar þjóðfélagi, og að það væri vissulega athyglisvert, að verkalýðshreyfingin rétti fram sína hönd til lausnar þeim vanda, sem þarna væri fyrir hendi. Síðan var þessi nefnd skipuð, og það var m.a. fyrir það, að bráðabirgðatill. hennar lágu fyrir eða leiðbeiningar í vor, að einn þáttur samkomulagsins þá varð, svo sem fram er tekið, það er í III. lið, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkalýðsfélög og vinnuveitendur semji um, að tillaga vinnutímanefndar í áliti n., dags. 21. maí 1964, um samræmingu eftirvinnutíma og álags á eftirvinnukaup hjá verkamönnum, verkakonum og iðnverkamönnum, taki gildi, en hún er á þá leið, „að eftirvinna skuli teljast fyrstu 2 klst. eftir að dagvinnu lýkur, þannig að 15 mínútur af henni falli niður. Greiddur kaffitími sé látinn standa óbreyttur. Eftirvinnuálag lækki í 50%. Nætur- og helgidagakaup standi óbreytt í krónutölu, þannig að hlutfallstengsli þess við dagvinnukaup rofni um sinn.“

Síðan heldur áfram:

„Jafnframt sé dagvinnukaup hækkað þannig, að tekjur verði óbreyttar þrátt fyrir styttingu vinnutímans um stundarfjórðung og lækkun eftirvinnuálags.

Ríkisstj. mun nú þegar beita sér fyrir lagasetningu um lengingu orlofs verkafólks úr 18 dögum í 21 dag, sem svarar hækkun orlofsfjár úr 6% í 7%.

Þá mun ríkisstj. beita sér fyrir því, að löggjöf verði sett um vinnuvernd, þegar till. í því efni liggja fyrir frá vinnutímanefnd. Einnig verði haldið áfram athugunum og undirbúningi að frekari styttingu vinnutíma.“

Þannig er þessi liður samkomulagsins frá því í vor. Og hann sýnir, að þá varð ríkisstj. við þeim till., sem fyrir lágu frá þeirri nefnd, sem málið hafði haft til athugunar frá því á árinu 1962, — þá hygg ég, að hún hafi verið kosin. Það er algerlega rangt, að ríkisstj. hafi neitað öðrum kröfum, sem fram hafi komið. Þetta var frjálst samkomulag milli allra aðila, að um þetta skyldi samið, sem í þessu ákvæði segir. Allir aðilar gerðu sér fyllilega grein fyrir, að hér væri um mikið vandamál að ræða, vandamál, sem verður að leysa, en krefst frekari undirbúnings en enn liggur fyrir. En ég segi það enn og aftur, að það er sannfæring mín, að það sé fátt eða ekkert, sem geti orðið verkalýðnum að meira gagni eða frekar beri eftir að keppa heldur en að koma þessum málum í skaplegt horf. Og það er mjög ánægjulegt, að hv. 5. þm. Reykv. skuli nú vera svo ákafur fylgismaður einmitt þessa úrlausnarefnis, að hann fer þar langt fram úr hv. síðasta ræðumanni og hv. forseta A.S.Í., sem áttu þátt í þessu samkomulagi í sumar og féllust þá á það, að þó að þeir vitanlega hefðu í huga það markmið, sem eftir bæri að keppa, yrði ekki lengra komizt á þessu stigi málsins.

Ég skal svo ekki fara að þræta við hv. 5. þm. Reykv. um þau atriði, sem hann áðan taldi hér upp. Það er margrætt mál allt. Um hans málflutning dæmdu kjósendur við síðustu kosningar með þeim árangri, að ríkisstj. hlaut aukið traust kjósenda, og er því ástæðulaust að vera að þræta um það nú. En eins og ég segi, það er ánægjulegt, ef hv. þm. vill leggja sitt lið í alvöru til þess að hjálpa til við lausn þess vandamáls, sem hann einkum gerði að umræðuefni. En forsenda þess, að það verði leyst ásamt ótalmörgu öðru, er það, að okkur takist að halda verðbólgunni í skefjum. Þessar eilífu deilur um gildi tímakaups, rýrnandi kaupmátt launa og annað þvílíkt og tölusamanburður í því sambandi hefur út af fyrir sig sáralitla þýðingu að öðru leyti en því, að tölurnar staðfesta, þegar þær eru skoðaðar í samhengi og málið í heild, að verðbólgan er sá eyðandi eldur, sem hefur truflað eðlilega efnahagsþróun og eðlilega kjarabót í landinu, jafnframt því sem þó verður að játa, að þrátt fyrir hana hefur tekizt að gerbreyta til bóta lífsafkomu Íslendinga nú á síðari árum. Það, sem mest á riður, er, hvort nú tekst að koma á því samkomulagi milli þeirra aðila, sem þar ráða úrslitum, sem þarf til þess að halda verðbólgunni niðri og til þess að gera skynsamlegar ráðstafanir, sem auðveldi styttingu vinnutíma niður í það, sem skaplegt er og eðlilegt má kallast. Það mun ekki standa á ríkisstj., og ég treysti því, að aðrir aðilar muni einnig leggja sitt fram við lausn þess máls.