20.10.1964
Neðri deild: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

5. mál, verðtrygging launa

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég er alveg sammála hæstv. forsrh. um það, að verðbólgan hefur verið sá eyðandi eldur, sem hefur leikið efnahagslífið verst á undanförnum árum. En hitt erum við kannske ekki sammála um, hvers vegna verðbólgan hefur magnazt á undanförnum árum. Ég held, að það sé alveg glögg mynd af því, sem ég dró upp hér áðan, þegar ég sýndi fram á, að kaupgjaldið hefur ekki hækkað nema um 60—65% síðan 1. marz 1959, en verðlagið hefur hækkað frá 85—100%. Það sýnir, að það eru ekki launþegarnir eða vinnustéttirnar, eins og hæstv. ríkisstj. vill vera láta, sem hafa valdið því, að verðbólgan hefur magnazt eins og raun ber vitni um. Það er vegna þess, að hæstv. ríkisstj. hefur fylgt þeirri stjórnarstefnu að láta verðlagið alltaf hækka meira en kaupgjaldið, að hún hefur fylgt kjaraskerðingarstefnunni, sem þessi þróun hefur orðið. Það er fyrst og fremst röng stjórnarstefna, sem hefur verið hér að verki.

Ég held, að hæstv. forsrh. meini það ekki alvarlega, þegar hann er að þakka viðreisninni, að þjóðin býr nú við sæmilega gjaldeyrisafkomu. Ég held, að hæstv. forsrh. sé það greindur, að hann geri sér það ljóst, að þetta stafar af allt öðrum ástæðum. Þetta stafar af því, að hér hefur verið óvenjulegt góðæri á undanförnum árum, óvenjulega góð aflabrögð og óvenjulega hagstætt verð á útflutningsvörum. Það er ástæðan fyrir því, að gjaldeyrisafkoman er nú sæmileg. En það er ekki viðreisnarstefnunni eða hæstv. ríkisstj. að þakka, nema hæstv. forsrh. sé farinn að trúa því, að hann sé einhver heilagur Bjarni, sem ráði yfir veðurfari og aflabrögðum. Öðruvísi er ekki hægt að færa rök að því, að þetta sé ríkisstj. að þakka.

Þá hélt hæstv. forsrh. því fram, að lífskjörin hefðu aldrei verið betri en í dag og afkoma manna betri. Ég skal ekki deila mikið við hann um þetta atriði. En ég minnist þess ekki, að það hafi nokkru sinni átt sér stað fyrr en nú, að stjórnskipuð nefnd hafi lagt það til, að menn fengju kreppulán til að borga skatta. Ég held, að það beri ekki vott um góða afkomu, en kannske álítur hæstv. forsrh. það. Og það er alveg óumdeilanlegt, að kaupmáttur launanna, kaupmáttur tímakaupsins og kaupmáttur fyrir laun eftir 8 stunda vinnudag hefur rýrnað stórlega síðan 1958, eins og ég hef fært rök að, og Ísland er eina landið, þar sem þetta hefur átt sér stað. Í öllum öðrum löndum hefur kaupmáttur tímakaupsins aukizt í samræmi við auknar þjóðartekjur. Hér hefur kaupmáttur tímakaupsins lækkað, þrátt fyrir það að þjóðin hefur 30—40% meira til skiptanna nú en hún hafði 1958 eða þjóðartekjurnar hafa aukizt sem þessu svarar. Þess vegna, ef allt hefði verið með felldu, hefði átt að vera hér stórfelld aukning á kaupmætti tímakaupsins, en ekki hið gagnstæða. Og eins og ég rakti hér áðan, þá stafar þetta, þessi öfugþróun, vissulega ekki af því, að hér hafi verið móðuharðindi af náttúruvöldum. Hér hafa ekki verið nein eldgos eða hafísar eða ótíð eða aflabrestur, heldur einmitt hið gagnstæða. Náttúran hefur aldrei leikið betur við okkur en einmitt á undanförnum árum, og afkoma þjóðarinnar hefði því aldrei átt að vera betri. En þrátt fyrir það hefur niðurstaðan orðið þessi, að öfugt við það, sem annars staðar hefur gerzt, þá hefur kaupmáttur tímakaupsins hér farið minnkandi, á sama tíma og hann hefur aukizt annars staðar. Og þetta stafar af engu öðru en rangri stjórnarstefnu, vegna þess að hér hefur verið fylgt stjórnarstefnu, sem hefur leitt til þess, að misskipting þjóðarauðs og þjóðartekna hefur stórlega aukizt, að það hefur verið keppikefli ríkisstj. að láta verðlag alltaf hækka meira en kaupgjald, og þess vegna hefur niðurstaðan orðið sú, sem ég hef hér verið að lýsa.

Hæstv. forsrh. lét mjög af því, að menn væru nú frjálsir athafna sinna og slíkt hefði ekki áður verið. Ég veit satt að segja ekki, hvað hann á við með þessu. Þá má segja, að fátækur maður sé frjáls athafna sinna, og það má líka segja, að atvinnurekandi, sem hefur ekki úr neinu fé að spila, en vill ráðast í framkvæmdir, sé frjáls athafna sinna. En þeir eru a.m.k. ekki frjálsir að þeim athöfnum, sem eru þeim nauðsynlegar til þess að bæta kjör sín og nota sér framtak sitt og dugnað. Þegar þetta er tekið til athugunar, held ég, að niðurstaðan verði sú, ef menn athuga það alveg hlutlaust, að menn hafa sjaldan búið við meiri höft hvað þetta snertir en einmitt nú, þar sem eru bæði vaxtahöftin og lánsfjárhöftin. Með þeim hætti er þrengt stórkostlega að framtaki manna og komið í veg fyrir, að þeir geti notfært sér það. Þess vegna er ég hálfhissa á því, að hæstv. ráðherra, sem framfylgir þessari haftastefnu, skuli hælast yfir því, að menn séu frjálsir athafna sinna.

Hæstv. forsrh. sagði, að það hefði orðið nokkur stefnubreyting á s.l. vori. Ég er alveg sammála hæstv. forsrh. um það og hef oft látið það koma fram bæði í ræðu og riti, að það varð að sjálfsögðu mikil stefnubreyting á s.l. vori, þegar borið er saman við það, að ríkisstj. reyndi á s.l. hausti að koma fram lögbindingu á kaupgjaldi. Í staðinn fyrir að reyna það nú, samdi hún við verkalýðssamtökin um nokkrar bætur. Þetta er stefnubreyting, sem ég álít að ha.fi verið til verulegra bóta. En hitt vil ég láta koma jafngreinilega fram, að ég álít, að þessi stefnubreyting hafi gengið allt of skammt, að hún geti og eigi að ganga miklu lengra. Ég tel ekki, að það þurfi að bíða eftir niðurstöðum einhverrar vinnutímanefndar til þess að tryggja verkamönnum hærri laun fyrir 8 stunda vinnudag. Slík athugun þarf alls ekki að fara fram. — Það sjá allir, sem athuga þessi mál, að það er fullkomin nauðsyn fyrir verkamenn að fá hér bætur á ráðnar, að fá hér verulega hækkun og þurfa ekki að búa við jafnlangan vinnudag og átt hefur sér stað að undanförnu eða láta konur og börn vinna, eins og átt hefur sér stað að undanförnu. Hér þarf leiðréttingu á. Og þessa leiðréttingu er hægt að veita, ef tekin er upp rétt stjórnarstefna. Með lækkun vaxta, með því að draga úr lánsfjárvöxtunum, með því að styrkja aðstöðu fyrirtækja til aukinnar framleiðni er hægt að tryggja atvinnurekstrinum þá afkomu, að hann geti risið undir hærra kaupgjaldi en hann greiðir í dag. Og það er þessi breyting, sem þarf að verða. Og ég vil að síðustu láta þá ósk uppi, að eins og hæstv. ríkisstj. breytti um stefnu á s.l. vori, þá breyti hún einnig um stefnu að þessu leyti og hverfi frá þeirri furðulegu afstöðu einnig að vera mótfallin því, að verkamenn fái sæmileg laun fyrir 8 stunda vinnudag, þegar hægt er að veita þau með breyttri stjórnarstefnu. Ef ríkisstj. breytir um stefnu á þennan hátt, þá skal hún vissulega hljóta mitt lof og mundi að sjálfsögðu líka hljóta lof margra annarra.