20.10.1964
Neðri deild: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

5. mál, verðtrygging launa

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hygg, að hv. 5. þm. Reykv. láti það of berlega koma í ljós, hversu óánægður hann er með samningsgerðina frá því í sumar. Það er alveg víst, að allur þorri Íslendinga fagnaði þeirri samningsgerð. Hitt grunaði menn, að sumir væru töluvert óánægðir yfir því, að það tókst að koma samningunum á, og við þurfum ekki að fara í grafgötur um það lengur, og að þeir menn eru fyrir hendi og það meira að segja hér í þingsölunum. Annars er eins og hv. þm. lifi í öðrum heimi, virðist hvorki þekkja til aðstæðna hér á landi né heldur átta sig á því, sem hér hefur gerzt á undanförnum árum. Hv. þm. talar þannig, eins og það sé fyrst nú síðustu ár, sem hér hafi verið verðbólga. Ég spyr hv. þm.: Man hann ekki eftir því, sem gerðist 1958, svo að ekki sé lengra haldið, og af hverju þáv. hæstv. ríkisstj. baðst lausnar, og þá var vissulega góðæri í landi, hið bezta afkomuár, sem þangað til hafði gengið yfir landið. Engu að síður óx verðbólga svo mjög, að hæstv. þáv. ríkisstj. treysti sér ekki að ráða við vandann, heldur sagði af sér, gafst einfaldlega upp við að leysa þær skyldur, sem hún hafði á herðar sínar tekið. Núv. ríkisstj. hefur mætt ýmsum vanda, en hún hefur forðazt þessi víti. Hún hefur gert sér ljósa þá ábyrgð, sem hvílir á þeim, sem taka að sér stjórn, og ekki dugir að hopa af hólmi, þegar verst gegnir. Það var ekki þeim hv. herrum að þakka, sem þá hlupust á brott, að þeirra brotthvarf varð þjóðinni til heilla. Vafalaust gerðu þeir það ekki í því skyni. Og það er ljóst af ummælum hv. þm. nú, að hann telur, að svo hafi ekki verið. En þjóðin hefur kveðið upp annan dóm, og sagan á áreiðanlega eftir að staðfesta það.

En við skulum játa, að verðbólgan hefur komið mörgu úr skorðum hér á s.l. 25 árum, getum við sagt. Engri stjórn hefur enn þá tekizt að leysa þann vanda til hlítar. En ef tekst samstarf með svipuðum hætti og heppnaðist að koma á í sumar, þá gefur það betri vonir til þess, að þetta megi takast smám saman í framtíðinni, heldur en hingað til.

Hv. þm. talar eins og það sé mjög einfalt mál og auðvelt að afnema hinn langa vinnutíma, sem nú sé hér, og þurfi ekki annað en einfalda ákvörðun um, að svo skuli gert. Allir landsmenn vita, að þetta er ekki rétt, að hér er um mjög erfitt vandamát að ræða, sem á djúpar rætur í okkar atvinnuháttum og verður ekki breytt nema smám saman og með samvinnu allra aðila. En þá verða menn auðvitað fyrst að átta sig á því, að hér sé um meinsemd að ræða, en ekki t.d. eins og flokksbróðir þessa þm., hv. 3. þm. Vestf., Sigurvin Einarsson, sem á sínum tíma hélt því fram sem einu höfuðásökunarefni gegn ríkisstj., að eftirvinna mundi falla niður, — þá taldi hann það vera böl fyrir launþega, ef þeir misstu af eftirvinnutekjum. Eftir að hæstv. vinstri stjórn hafði setið að völdum, var það dómur hv. 3. þm. Vestf., að verkalýðurinn mundi ekki geta komizt af, nema því aðeins að eftirvinna væri unnin. Þegar á þetta er litið, þá er ég ekki alveg viss um nema það hafi verið krókódílstár, sem féllu af hvörmum hv. 5. þm. Reykv. hér áðan, þegar hann var að breiða sig út yfir þetta efni.

Hv. þm. talar mikið um það, að núv. ríkisstj. hafi stuðlað að auknum tekjumismun í landinu og misskiptingu auðs. Ég hygg, að engin gögn séu til fyrir því. Ég skal leggja eina einfalda spurningu fyrir hv. þm.Hv. þm. hefur a.m.k. ekki í blaði sínu haldið því fram, að ríkisstj, hafi verið sérstaklega hliðholl framsóknarmönnum eða ýtt undir þá. Ég vil hins vegar taka fram, að vitanlega höfum við ekkert gert þeim til meins eða á þá hallað, en þeir hafa auðvitað orðið aðnjótandi hinnar almennu þróunar, sem hér hefur orðið í landinu. Nú er það nokkurn veginn vitað, að varðandi ýmiss konar óþarfa, þá veita menn sér hann fyrst, þegar þeir hafa umframtekjur, þ. á m. fara menn í skemmtiferðir til útlanda því aðeins, ef þeir geta séð sæmilega fyrir konu og börnum eða sínu lífsuppeldi. — Nú vil ég spyrja hv. þm.: Hvað voru það margar utanlandsferðir, sem ungir framsóknarmenn efndu til á stjórnartímum vinstri stjórnarinnar, og hvað er það oft, síðan núv. ríkisstj. tók við, sem ungir framsóknarmenn hafa efnt til hópferða til annarra landa? Er það ekki rétt, að á síðasta sumri hafi þær ferðir verið a.m.k. tvær? Þetta einfalda dæmi sýnir betur en margt annað, að talið um það, að menn séu hér rétt skrimtandi, er bábilja ein. Menn eru að leika sér í þingsölum að fásinnu, sem engan hljómgrunn hefur. Lífið sjálft ómerkir þetta, hvert sem við horfum. En þó að við sjáum þessi merki velsældar í þjóðfélaginu, þá má það ekki verða til þess, að við gleymum, að margt er hér vangert og öðruvísi en vera á, og þar á meðal er það vissulega, að vinnutími er hér of langur. En til þess að fá því breytt, þarf alvarlega viðleitni, en ekki þann leikaraskap, sem hv. þm. er hér að viðhafa.