10.11.1964
Efri deild: 13. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

51. mál, hreppstjórar

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég tel það vel farið, að nú skuli eiga að stofna til nýrrar lagasetningar um hreppstjóra, heildarlöggjafar. En það er eins og hæstv. dómsmrh. drap á hér áðan, að löggjöf um þessa sýslunarmenn er og hefur verið um langt skeið mjög í molum og ófullkomin, þar sem helztu lagaákvæði, sem þá varða, er áð finna í l. frá 1938, um laun hreppstjóra, og aðalákvæðin þó í eldgamalli reglugerð, frá 1880, sem í mörgum greinum og flestum greinum er orðin gersamlega úrelt.

En það er hins vegar svo, eins og hæstv. dómsmrh. vék að og gerði grein fyrir í sinni framsöguræðu, að hreppstjórasýslanin er eitt hið elzta opinbera starf hér á landi, þar sem segja má, að það eigi rætur sínar að rekja til starfs hreppstjórnarmanna Jónsbókar. Þó að þeim væri þá í upphafi að vísu ætlað aðeins að fara með sveitarstjórnastörf, þá festist hins vegar fljótt sú venja, að hreppstjórnarmenn, sem nafnið hreppstjóri festist við, færu með ýmiss konar störf í umboði valdsmanns, þ.e. sýslumanns, og hann færi smám saman að hafa skipti af störfum hreppstjóranna og það færi svo að lokum, að þessi venja var staðfest með konungsúrskurði, eins og greint var frá, þar sem hreppstjórum var boðið að fara eftir sýslumannsboði. En á öllu tímabilinu til 1808 fóru þó hreppstjórar með hvort tveggja í senn, sveitarstjórnastörf og umboðsstjórnarstörf. 1808 verður sú breyting á, að sjálfstjórn sveitarfélaga er felld úr gildi með konungsúrskurði, og eftir það og allt fram til 1872 fóru hreppstjórar reyndar líka með störf, sem í eðli sínu voru sveitarstjórnarstörf og umboðsstjórnarstörf, en fóru þá með þau að öllu leyti í umboði ríkisins eða konungsstjórnar. En 1872 varð hins vegar meginbreyting á í þessum efnum, þar sem gerð voru alger skil á milli sveitarstjórnar og umboðsstjórnar. Sveitarfélögin fengu aftur sinn forna sjálfstjórnarrétt, og settar voru á fót sérstakar hreppsnefndir, en hreppstjórar urðu sýslunarmenn ríkisins og fara eftir það með framkvæmdarvaldsstörf á vegum ríkisins. Skömmu eftir það, eða 1880, var gefin út þessi reglugerð um hreppstjóra, sem enn er að formi til í gildi, og þar var einmitt gert ráð fyrir því og er gert ráð fyrir því, að hreppstjórar séu umboðsmenn sýslumanns, bæði gagnvart hreppsnefndum og almenningi.

Þegar litið er á þessa sögu og annars vegar á það, hve löggjöfin um þessa sýslumenn hefur verið mjög í molum, eins og ég áðan drap á, þá er tímabært að mínum dómi og ekkí vonum fyrr, að efnt sé til heildarlöggjafar um þessa starfsmenn ríkisins, og því fagna ég út af fyrir sig. Hins vegar verð ég um leið að segja það, að ég hefði kosið, að þessi lagaákvæði um hreppstjórana, fyrst það er á annað borð verið að endurskoða réttarákvæðin um þá og gefa út ný heildarlög um þá, hefðu verið nokkru viðameiri og fyllri. Ég hefði kosið, að í slíkum lagabálki, sem á að vera heildarlöggjöf um hreppstjóra, hefði verið vikið nokkru nánar að og gerð nokkru fyllri grein fyrir verkefnum og þó allra helzt valdsviði hreppstjóra. En ákvæði frv. eru vægast sagt fátækleg um það efni, þar sem það er í raun og veru lagt alveg á vald ráðherra að ákveða það með reglugerð, því að sú upptalning, sem fyrirfinnst í 6. gr., segir raunar afar lítið. Þar segir aðeins þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Hreppstjórar eru umboðsmenn sýslumanns hver í sínum hreppi. Fara þeir með lögregluvald og annast innheimtu opinberra gjalda, fógetagerðir og fleiri störf í umboði sýslumanna, svo og þau önnur störf, sem nánar kann að vera kveðið á um í lögum eða reglugerðum.“

Síðan er svo viðbót við þetta í 10. gr., þar sem segir, að dómsmrh. setji í reglugerð frekari ákvæði um störf hreppstjóra og kjör.

Mér er náttúrlega ljóst, að það er ógerningur að telja upp í lögum verkefni hreppstjóra, svo að tæmandi sé. Það er auðvitað algerlega ógerlegt, og ætlast enginn til þess. En ég held þó, að það hefði verið hægt að drepa á meginverkefni þeirra, eins og reyndar gert var á sinni tíð í hreppstjórareglugerðinni frá 1880, t, d. skipti þeirra af lögreglumálum, skipti þeirra af uppljóstrun brota, innheimtustörf o.fl., o.fl., auðvitað breytt eftir þeirri þróun, sem síðar hefur átt sér stað, og í samræmi við aðstæður nú á tímum. En þarna er aðeins sagt, að þeir fari með lögregluvald, og er það raunar ekki neitt frekar markað. Ég vil þó benda á, að t.d. í lögum um meðferð opinberra mála eru talsvert fyllri ákvæði um þá löggæzlumenn, sem lögreglumenn nefnast. Í annan stað er sagt, að þeir annist fógetagerðir og önnur störf í umboði sýslumanns. Ég geri ráð fyrir, að þar sé haft í huga, að það sé samt ákveðið í öðrum lögum, hvenær þeir geti framkvæmt fógetagerðir í umboði sýslumanns, og sama máli gegni um önnur störf þeirra, sem þeir færu með í umboði sýslumanns, eins og uppskriftagerðir og önnur störf í sambandi við skipti. Og þannig mætti fleira nefna. En sérstaklega hefði ég kosið, að það hefði verið reynt að marka valdssvið hreppstjóranna nokkuð gagnvart sýslumönnum. Þarna er sagt, að þeir séu umboðsmenn sýslumanns hver í sínum hreppi. Í því geri ég ráð fyrir að eigi að felast; að hreppstjórar taki við skipunum af hálfu sýslumanns og eigi að lúta boði hans. En það hefði að mínum dómi verið æskilegt, að það hefði verið reynt að útfæra þetta nokkru nánar.

Mér sýnist, að í raun og veru sé ekki um aðra meginbreytingu að tefla í þessu frv. en breyt. á launakjörum hreppstjóra. Ég held, að til hennar sé full ástæða, og geri ekki ráð fyrir, að það telji neinn eftir þá hækkun, sem þeim er ætluð. Hitt gæti frekar að mínum dómi komið til álita, hvort eftir þessu frv. er nægilega vel gert við hreppstjóra. Satt að segja var þetta ekki mjög há upphæð, sem hæstv. ráðh. nefndi, sem hreppstjóralaunin hækkuðu í heild, þannig að mér finnst það hljóti að koma til álita, hvort það er, jafnvel eftir þá endurbót, sem í þessu frv. felst, nægilega vel gert við þessa sýslunarmenn, því að ég tek alveg undir það með hæstv. ráðh., að það á m.a. af sögulegum ástæðum að halda uppi virðingu og veg þessara sýslunarmanna.

En með hliðsjón af þessu, að í þessu frv. er fyrst og fremst og eiginlega nær eingöngu um að tefla endurbætur á og endurskoðun á l. um laun hreppstjóra frá 1938, en ákaflega takmarkað tekið inn af þeim ákvæðum, sem eru í hinni gömlu hreppstjórareglugerð, eða hliðstæður þeirra ákvæða, þá hefði þetta frv. allt eins mátt heita frv. til l. um laun hreppstjóra o.fl., eins og l. frá 1938. En sem sagt, launabreytingarinnar tel ég þörf og tel þess vegna, eins og ég þegar hef sagt, að það hafi verið ástæða til endurskoðunarinnar, og tel það vel farið, að það skuli stofnað til þessarar lagasetningar, þó að frv. sé nokkuð öðruvísi úr garði gert en ég hefði kosið. Það má náttúrlega segja, að það megi lagfæra það og koma breyt. á því að í sambandi við meðferð n. En sannleikurinn er sá, að það er dálítið erfitt að koma við veigamiklum breyt. á svona lagabálkum í sambandi við nefndarmeðferð.