20.10.1964
Neðri deild: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

5. mál, verðtrygging launa

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. vildi halda því fram, að það bæri vott um stórkostlega bætt kjör, að ferðir til annarra landa hefðu aukizt. Ég hygg, að það stafi að sumu leyti að því, að aðstaða manna til að fara í slík ferðalög hefur stórum batnað frá því, sem áður var. Og það út af fyrir sig er ekkert merki um aukna hagsæld, því að það getur stafað af því, að menn hafa sparað ýmislegt við sig, sem þeir hafa veitt sér áður, en hætt að veita sér það og farið í ferðalög í staðinn. Það er hin almenna þróun, sem nú á sér stað í heiminum, að menn auki ferðalög sín, en spari frekar eitthvað annað við sig. Það eitt út af fyrir sig er enginn mælíkvarði varðandi það, hvort lífskjör hafi versnað eða batnað. Ég hygg, að hitt sé miklu meiri mælikvarði á það, að nú er í fyrsta sinn lagt til af stjórnarnefnd, að mönnum séu veitt kreppulán til að borga skatta. Ég hygg, að þegar n., sem athugar slíkt fyrir ríkisstj., kemst að þeirri niðurstöðu, þá beri það miklu meiri vott um það, að efnahagurinn sé ekki góður, heldur en þó að ferðalög hafi eitthvað aukizt.

Hæstv. forsrh. var að ræða nokkuð brottför vinstri ríkisstj. 1958. Hann taldi, að hún hefði farið frá vegna þess, að framsóknarmenn hefðu viljað sporna gegn aukinni verðbólgu. Það er alveg rétt. Vinstri stjórnin sprakk m.a. vegna þess, að framsóknarmenn vildu sporna gegn aukinni verðbólgu. Og hefðu aðrir þá tekið sömu afstöðu og Framsfl., þá hefði ekki orðið í landinu sú verðbólguþróun, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. En það voru aðrir menn, sem þá tóku við, sem voru ekki mikið hræddir við verðbólguna. Og það eru þeir, sem bera ábyrgð á hinni miklu verðbólguþróun, sem síðan hefur orðið, en ekki framsóknarmenn. Og það er alveg sama, þótt hæstv. forsrh. komi með einhverjar tölur eða skýringar í þessu sambandi, þá er það staðreynd, að verðbólgan hefur aldrei aukizt meira en siðan 1958, þegar þeir menn tóku við, sem ekki voru hræddir við að auka verðbólguna, heldur margfölduðu hana frá því, sem þá hafði verið. Og ég held, að það sé allt annað en hrósvert af hæstv. forsrh, að koma hér upp og hæla sér af því, að hann hafi tekið við eftir 1958 og beri því ábyrgð á því mikla verðbólgukapphlaupi, sem síðan hefur átt sér stað. Það ber ekki vott um ábyrgð, heldur hið gagnstæða.

Hæstv. forsrh. vildi láta liggja orð að því, að ég hefði verið eitthvað óánægður yfir þeim samningum, sem gerðir voru á s.l. sumri milli hæstv. ríkisstj. og verkalýðssamtakanna. Þetta er alger misskilningur hjá hæstv. forsrh. Ég hef hvað eftir annað, bæði hér í umr. á Alþingi og eins á annan hátt, látið uppi, að ég væri ánægður með það, sem þá náðist fram. Það er ekkert óeðlilegt, að ég geri það, vegna þess að það er í stórum dráttum hið sama og ég var að berjast fyrir á síðasta þingi, að í staðinn fyrir það, að ríkisstj. tæki upp lögbindingu á kaupgjaldi, þá semdi hún við verkalýðssamtökin. En það eru aðrir, sem hafa ástæðu til að vera óánægðir og eru undir niðri óánægðir og fullir sársauka yfir því, að þeir voru neyddir til að breyta hér um stefnu. Og það leyndi sér ekki á hæstv. forsrh. hér í ræðustólnum áðan, að hann var í rauninni ekkert ánægður yfir þessu, þótt hann vildi láta annað uppi, vegna þess að hann hefur verið þvingaður inn á það að taka hér upp allt aðra stefnu en hann vildi fylgja fram í byrjun síðasta Alþingis. Það muna allir eftir því, hvað hæstv. forsrh. ætlaði að gera þá og hvað hann talar ólíkt því núna, sem hann talaði þá. Þá vildi hann binda allt kaupgjald og barðist fyrir því. Nú talar hann aftur á móti um, að það eigi að fara samningaleiðina. Ég fagna því, að hæstv. forsrh. skuli vera kominn inn á þá braut. Ég hef engar ástæður til að vera óánægður yfir því, vegna þess að hann hefur hér farið inn á þá stefnu, sem ég barðist fyrir. En ég held, að hæstv. forsrh, sé undir niðri ekkert ánægður yfir því að hafa verið þvingaður til að fylgja nú annarri stefnu en hann hefur áður viljað fara.

Hæstv. forsrh, sagði, að til þess að tryggja mönnum betra kaup fyrir 8 stunda vinnudag, verði menn að gera sér ljóst, að hér er um meinsemd að ræða, sem verður að lækna. En ég ræð af því, sem hæstv. forsrh. sagði, að hann geri sér ekki fullkomlega grein fyrir, hver sú meinsemd er. Það er ekki meinsemd, sem við læknum með því, að einhver vinnutímanefnd eða einhverjar nefndir séu að athuga vinnutilhögun og þess háttar Meinsemdin er fólgin í því, að hér er fylgt rangri stjórnarstefnu. Hér er fylgt stjórnarstefnu, sem þrengir svo að atvinnufyrirtækjunum, að þau geta ekki greitt öllu hærra kaup en nú á sér stað. Með því að taka meinsemdina burt, með því að lækka vextina, með því að afnema lánsfjárhöftin og með því að leggja aukið kapp á að auka framleiðni atvinnufyrirtækjanna, í stað þess að nú er ekkert gert í þeim efnum, er hægt að skapa atvinnufyrirtækjunum þá aðstöðu, að þau geti greitt hærra kaup en nú á sér stað, og það er þetta, sem þarf að gera. Það er þessi meinsemd, sem þarf að taka í burtu.