20.10.1964
Neðri deild: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

5. mál, verðtrygging launa

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls að þessu sinni, en hæstv. forsrh. hafði einhverja sérstaka hvöt til að blanda mér inn í þetta mál með því að vitna í ummæli, allmargra ára gömul, um eftirvinnu. En af því að hann fór þar með rangt mál í sinni túlkun, hlýt ég að leitast við að leiðrétta þetta hjá hæstv. forsrh.

Það, sem hann á við, munu vera ummæli, sem ég hafði í hv. Ed. 1960, þegar efnahagsmálafrv. ríkisstj. var þá til umr. En eins og menn muna kannske, hafði ríkisstj. gefið út bækling á kostnað þjóðarinnar og sent hann inn á hvert heimili. Í þessum bæklingi var boðskapur viðreisnarinnar settur á prent. Einn lítilfjörlegur þáttur í þessum pésa var um hækkun fjölskyldubóta. Ég hafði gert þetta að umtalsefni í hv. Ed., hvað þessi hækkun megnaði mikils og hversu rétt það væri, sem stóð í hinni „frægu“ bók um þetta efni. En þar stóð og stendur, með leyfi hæstv. forseta, þegar er verið að lýsa áhrifunum af hækkun fjölskyldubótanna:

„Niðurstaða þeirra athugana er sú, að hinar auknu fjölskyldubætur nægi til þess að jafna að fullu þá kjaraskerðingu, sem gengisbreytingin að öðrum kosti hefði í för með sér fyrir fjölskyldu með 60 þús. kr. tekjur, þar sem börn eru 3 eða fleiri.“

Ég dró í efa, að hækkun fjölskyldubótanna gæti nægt til þess að mæta öllum afleiðingum viðreisnarinnar, og ég held, að ég hafi orðið nokkuð sannspár um þetta. Og til þess að skýra, hvað þetta væru miklar upphæðir, sem hver fjölskylda fergi, bar ég það saman við tveggja stunda eftirvinnu hjá fjölskyldumanni yfir árið, bara til að skýra það, hvað þær væru miklar, og sýndi fram á að sá fjölskyldumaður, sem ekki ætti neinu í að tapa, ef hann hefði haft tveggja stunda yfirvinnu, en tapaði henni, þyrfti að eiga 47 börn. Þetta sárnaði þeim sjálfstæðismönnum ákaflega mikið og svíður enn í hæstv. forsrh. En að ég hafi verið að lofsyngja eftirvinnu, það var fjarri því. Þar að auki var ég ekki að tala um neina eftirvinnu á árum vinstri stjórnarinnar, því að það voru þessir núverandi viðreisnarflokkar, sem þá voru búnir að fara með völdin á annað ár, þegar ég hafði þessi ummæli, svo að allt er þetta öfugt hjá hæstv. forsrh.

En hinu neita ég ekki, að ég bjóst við kjaraskerðingu af viðreisninni eins og margir aðrir og ég þjóst við samdrætti, og ríkisstj. sjálf ráðgerði samdrátt og hann ekki neitt litinn. Það var einn af meginþáttunum í viðreisnarstefnunni að draga úr fjárfestingunni, minnka framkvæmdirnar til þess að ná jafnvægi, eins og þeir orðuðu það. Og hvað þýddi það að draga úr fjárfestingunni og minnka framkvæmdir annað en að minnka atvinnuna um leið? Auðvitað hlutu afleiðingarnar að verða svo. Þetta ætlaði ríkisstj. sér að framkvæma og hefði framkvæmt, ef hún hefði ráðið við náttúruöflin. Hún hugsaði sér að framkvæma þetta m.a. með því að lækka gengið, eins og hún gerði tvisvar sinnum, og auka þannig dýrtíðina, en halda kaupinu föstu. Með því minnkaði kaupgetan svo gífurlega, að menn gátu yfirleitt ekki lagt í neitt, allur almenningur, nema hafa í sig og á. Þetta var stefnan. En það voru önnur voldugri öfl, sem tóku í taumana, án þess að ríkisstj. ætlaðist til þess. Aflabrögðin uxu talsvert mikið og það ekki sízt vegna útfærslu landhelginnar 1958. Nú hefur hæstv. ríkisstj. verið að berjast við að eigna sér allt góðærið, sem síðan hefur orðið. En ég veit ekki, hvort Sjálfstfl. eignar sér útfærslu landhelginnar, ég skal ekki segja það. En aflabrögðin hafa aukizt. Á árunum allt frá 1949 til 1954 komst aflamagnið í landinu aldrei upp í 400 þús. smál. á ári. En svo vex það nokkuð á árunum 1955—1958 og er komið upp í 505 þús. smál. 1958. Þetta þótti góðæri og var það í sjálfu sér, miðað við það, sem áður hafði verið. Þetta er árið, sem landhelgin var færð út. En síðan vaxa aflabrögðin, og á árinu 1962 er aflamagnið komið upp í 832 þús. smál. eða 65% meira en það var 1958 og 88% meira en það var 1957. Ætli þetta hafi haft nokkur áhrif á velmegun hjá þjóðinni? Ætli þetta hafi ekki haft einhver áhrif á atvinnuna í landinu, á frelsið til þess að geta keypt sér það, sem menn vildu, o.s.frv.? Hvernig hefði farið fyrir þjóðinni undir þessari stjórn, sem við höfum nú, ef aflamagnið hefði verið eins og það var 1958? Ætli stjórnin hefði ástæðu til þess að hæla sér mikið af frelsinu í innflutningnum, skemmtiferðunum, atvinnunni? Nei, það er ekki viðreisnarstjórnin, sem hefur bjargað þjóðinni frá hreinu hallæri, heldur aðrir voldugir aðilar.

Hæstv. forsrh. var að lýsa áhuga sinum á því, að unnt yrði að stytta vinnudaginn. Það er rétt hjá honum. Hann talaði þannig fyrir nokkrum árum, þegar till. var um þetta flutt. En ég vil spyrja: Ef haldið verður nú áfram að stytta vinnudaginn eitthvað, um 15 mínútur á dag eða eitthvað þess háttar, eins og gert var í vor, sem er full nauðsyn á að stytta, er þar með leystur vandinn fyrir verkafólk í landinu? Eða er það meining hæstv. ríkisstj., að kaupgjald verkafólks eigi að standa í stað, ef hægt væri eitthvað að stytta vinnudaginn? Er það alveg nægjanlegt að hafa þessar 75—85 eða 90 þús. kr. á ári fyrir dagvinnu, þegar sannanlegt er, að útgjöld meðalfjölskyldu eru komin upp í 140 þús. kr. á ári, ef menn reikna húsnæðiskostnaðinn eins og hann raunverulega er? En framfærslukostnaður er nálægt 100 þús. kr. að fráteknu húsnæðinu, og það er ekki hátt áætlað, að húsnæði fjölskyldunnar kosti núna 30—40 þús. kr. á ári. Verkamenn hafa þetta frá 75—90 þús. yfir árið fyrir 8 stunda dagvinnu alla virka daga ársins. Ég fæ nefnilega ekki skilið, að þetta eitt út af fyrir sig geti leyst þann vanda, að verkafólk yfirleitt í landinu geti lifað við viðunandi kjör, þó að eitthvað væri styttur vinnudagurinn, t.d. um 1—2 stundir á viku, og jafnvel þó að það yrði gert í áföngum. Nei, það segir sig sjálft, að kaupgjaldið er svo fjarri öllu lagi, miðað við þarfir meðalfjölskyldu til að lifa af, að um það þarf ekki að ræða. Hitt vita menn líka, að til þess að hafa viðunandi tekjur, hefur verkafólk orðið að vinna núna 11—12 stundir á dag að meðaltali, — til þess að geta hafi viðunandi tekjur. Það er því ekki nóg að tala um styttingu vinnudagsins, sú ráðstöfun ein bjargar málunum ekki. Það verður að grípa til annarra og meiri ráða, ef á að bæta hag verkafólksins, svo að um munar. Gleggsta sagan um þetta, hvernig hallað hefur á ógæfuhliðina fyrir launafólki yfirleitt og þá alveg sérstaklega verkafólki, er kaupmáttur launanna, vísitala kaupmáttarins, hvernig hún hefur farið niður á við í síðari tíð. Hæstv. forsrh. vitnaði í eitthvert öngþveiti, sem hefði verið 1958. En á árinu 1958 var kaupmáttur tímakaupsins rétt innan við 100, miðað við 100 1945. En á árinu 1963 mun hann hafa verið einhvers staðar milli 80 og 85, og nú er mér tjáð, að Efnahagsstofnunin sé hætt að reikna út kaupmátt launa.

Ég hef þá leiðrétt þessa missögn hæstv. ráðh., að ég hafi verið að lofsyngja aukavinnu 1960. Ég var aðeins að bera saman áhrif hækkunar fjölskyldubóta í stað 2 aukavinnutíma á dag, ef hún yrði unnin, og ekkert annað, og auk þess var það á árinu 1960, sem ég talaði um þetta, en ekki á tímum vinstri stjórnarinnar.