06.04.1965
Efri deild: 63. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

173. mál, tollskrá o.fl.

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja langt mál í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir. Það er aðeins eitt atriði þess og raunar e.t.v. það veigamesta, sem ég ætlaði að fara hér um nokkrum orðum. Ég sé ekki ástæðu til að ræða um það, þó að tollar á rúsínum og eplum og slíku séu færðir til samræmis við það, sem þegar hefur verið ákveðið í rn. í sambandi við milliríkjasamninga eða því um líkt, heldur ætla ég að fara örfáum orðum um þær breytingar, sem hér eiga sér stað í sambandi við tolla á vélum og tækjum.

Við höfum haft þann hátt á hér á Íslandi að leggja háa tolla á vélar, sem við notum til framleiðslunnar, bæði þeirrar, sem við seljum á erlenda markaði, og einnig þeirrar, sem við seljum innanlands. Það liggur í hlutarins eðli, að með þessum hætti er samkeppnisaðstaða þeirra framleiðenda, sem selja vörur sínar í samkeppni við erlenda framleiðslu, mjög rýrð, auk þess sem tollar af vélum og tækjum hníga í þá átt að gera vélvæðingu og bætt vinnubrögð erfiðari en ella. Á þetta hefur oft verið bent í umr. um þessi mál, og hæstv. fjmrh. hefur á undanförnum árum hvað eftir annað lýst sig samþykkan þeim sjónarmiðum í grundvallaratriðum og tilkynnt, að það væru í undirbúningi tollskrárbreytingar í þessa átt. Og samkv. því, sem fram kemur í grg. þessa frv., hefur hæstv. fjmrh. skrifað tollskrárnefnd fyrir rúmlega ári og óskað eftir till. hennar, sem gengju í þessa átt, og þær liggja nú fyrir í frv. þessu.

Árangurinn af þeim athugunum, sem fram hafa farið og hér liggja fyrir, er þá í meginatriðum sá, að þær vélar, sem áður hafa verið í 35% tolli, sem eru langflestar vélar til iðnaðar og iðnaðarframleiðslu, eru lækkaðar þannig, að úr verða þrír flokkar: einn í 25%, annar í 15% og sá þriðji í 10%. Skiptingin byggist á því, að því er virðist, að þau tæki og vélar, sem notuð eru til framleiðslu á vörum, sem seldar eru á innlendum markaði, lenda í 25% tollinum, og vélarnar, sem framleiða vörur fyrir erlendan markað, í 10% tollinum, og síðan 15% tollur, sem er til þess að skapa vernd fyrir þá innlenda framleiðendur, sem framleiða vélar, sem notaðar eru til framleiðslu á vörum fyrir erlendan markað.

En það eru fleiri vélar og tæki, sem um er að ræða, að notuð eru til framleiðslu á vörum til útflutnings eða innlends markaðar, heldur en þau, sem hérna er um að ræða, því að það er einnig um að ræða vélar og tæki til fiskveiða og til landbúnaðar, sem þetta frv. snertir ekkí beinlínis. Í því sambandi langar mig til þess að minna á það, að þær kröfur hafa iðulega komið frá bændasamtökunum og nú síðast frá búnaðarþingi, sem sat hér nýlega, að vélar til frumvinnslu í landbúnaði nytu sömu tollmeðferðar og hliðstæðar vélar til fiskveiða og sjávarútvegs. Þessi leiðrétting hefur enn ekki fengizt. Og í sambandi við þetta er ástæða til þess að taka eftir einum tölulið í þessu frv., sem hér liggur fyrir. en það er 13. töluliður 1. gr.

Þannig er mál með vexti, að mjólkurframleiðendur, bændur á helztu mjólkurframleiðslusvæðunum, eru nú að breyta um hátt á að flytja mjólkina heiman frá sér til mjólkurbúanna. Í stað þess, að þeir hafa áður flutt hana í brúsum, er nú fyrir dyrum — og hefur sums staðar þegar verið gert — að koma upp geymum heima við, þar sem mjólkin er geymd kæld og síðan flutt í tankbílum til mjólkurbúanna. Í tilefni af þessari breytingu er lagt til í því frv., sem hér liggur fyrir, að tankar úr ryðfríu stáli, sem sérstaklega séu gerðir fyrir mjólk, eftir nánari skilgreiningu og ákvörðun fjmrh., skuli vera í 25% tolli, í stað þess að þeir voru í 50% tolli áður. Það er ástæða til þess að minna á það í þessu sambandi, að mjólkurbrúsarnir, sem nú eru notaðir, 10 lítra eða stærri, eru samkv. þessum sama kafla tollskrárinnar, 73. kaflanum, í aðeins 10% tolli. Grindur og kassar undir flöskur og hyrnumjólk eru í 4% tolli. Og helzta hliðstæðan, ef maður leitaði hliðstæðu í öðrum greinum við þessa mjólkurtanka, eru raunar fiskkassar, sem eru í 4% tolli. Mér virðist rétt að minna á þetta í sambandi við þennan 13. tölulið, að eðlilegt hefði verið, að þessir tankar yrðu í mun lægri tollflokki, 10% eða 4%, með hliðsjón af því, sem ég hér hef verið að benda á.

Ég nefndi áðan, að það er gert ráð fyrir í þessu frv., að þær framleiðsluvélar og tæki, sem notaðar eru til að framleiða vörur fyrir innlendan markað, séu í hærra tollflokki en þær, sem notaðar eru til að framleiða fyrir erlendan markað. Í sjálfu sér er ekki vandi að færa nokkur rök að því, að þetta kunni að vera eðlilegur háttur. En ef betur er að gáð, er nú kannske ekki svo ýkjamikill munur á, fyrir hvaða markað verið er að framleiða.

Hvernig sem við kjósum að leggja á okkur tolla; verðum við auðvitað sjálfir íslenzkir neytendur, að borga þá. Við getum ekki farið neinar krókaleiðir til þess að láta aðra borga tolla okkar með því t.d. að leggja tolla á vélar, sem notaðar eru við útflutningsframleiðsluna, útflutningsgjöld eða því um líkt. Allt þetta borgum við að sjálfsögðu sjálfir. Það má þess vegna í fljótu bragði, ef maður lítur á bara einhverja augnabliksmynd, segja, að það skipti kannske ekki miklu máli, hvernig tollarnir eru á lagðir eða hvar þeir eru teknir, af hvaða vörutegundum.

En ef betur er að gáð, kemur þó að sjálfsögðu í ljós, að tollapólitíkin getur haft og hefur mjög veruleg áhrif á atvinnuþróunina í landinu. Tollar, sem lagðir eru á vélar og framleiðslutæki, hljóta að verka í þá átt að rýra ekki aðeins samkeppnisaðstöðuna, heldur einnig að tefja fyrir vélvæðingu og fullkomnari tækniútbúnaði í atvinnuvegum landsmanna yfirleitt, og þess vegna eru slíkir tollar hættulegir og óskiljanlegir. Út frá þessu sjónarmiði virðist mér, — þó að það beri að virða það skref, sem hér er tekið í rétta átt, — of skammt gengið. Það væri í sjálfu sér ekki óeðlilegt, — og verður að vona, að að því sé stefnt, þótt síðar verði kannske, — að tæki og vélar til útflutningsiðnaðarins og raunar helzt allrar framleiðslu séu tollfrjáls. Mest af þeim vélum, sem iðnaðurinn fyrir innlendan markað notar, er, svo sem fram hefur komið, lækkað úr 35 og ofan í 25%. Þó virðist mér við fljótlegan yfirlestur, að allmikið af slíkum vélum sé enn í 35%. Þó skal ég ekki fullyrða, hvað þar er um mikinn hluta að ræða, fyrr en þetta hefur verið athugað nánar, en mér sýnist, að mest af þessum vélum, sem notaðar eru til framleiðslu á innlenda markaðinum, fari nú í 25% tolla. Þessi iðnaður hefur á undanförnum mánuðum og árum átt í mjög verulegum erfiðleikum, sem öllum hv. þdm. er væntanlega kunnugt um. Þessir erfiðleikar eiga sér sjálfsagt ýmsar orsakir. Það er um að ræða rýrða tollvernd í einhverjum tilfellum. Það er í öðrum tilfellum um það að ræða, að erlendir aðilar bjóða vörur á undirboðsverði eða „dumping“-verði, og það er um að ræða lánsfjárskort til þess að gera þær úrbætur í hagræðingu og framleiðniaukningu, sem æskilegar væru. Þessa erfiðleika þarf raunar að kanna til hlítar til þess að finna grundvöll fyrir úrbótum, og liggur raunar till. um það fyrir hv. sameinuðu Alþingi frá 5. þm. Reykv.

Ýmsar leiðir eru að sjálfsögðu til úrbóta í þessum efnum, svo sem aukin fyrirgreiðsla í sambandi við lánsfjárútvegun, aukin aðstoð við hagræðingu og sérstakir tollar á undirboðsvörur, eins og gert er ráð fyrir í 27. gr. tollskrárinnar.

Það er enginn vafi á því, að nokkuð hefur verið um það að ræða á undanförnum mánuðum, að vörur hafa komið á markaðinn á undirboðsverði, og framleiðendur hafa haft hug á því, að einhverjar ráðstafanir fengjust gerðar til þess að stemma stigu við þessu. Það er jafnan nokkrum erfiðleikum bundið að færa beinlínis sönnur á, hvenær er um að ræða undirboð og hvenær ekki. En þeir, sem kunnugir eru, telja, að það sé ekki neinum vafa undirorpið, að allmikil brögð hafi verið að undirboði að undanförnu á nokkrum sviðum, og mig langar til þess að beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh., hvort hann hafi í hyggju að beita ákvæðum 27. gr. í sambandi við þessi meintu undirboð á t.d. bómullarvörum, bómullarfatnaði og slíku, og enn fremur veiðarfærum, sem einnig hefur verið talið, að væru boðin hingað á undirboðsverði.

Til stuðnings þessum iðnaði er auðvitað ein leiðin sú, sem hér er verið að fara, nefnilega að lækka tolla á framleiðslutækjunum, sem þessi iðnaður notar. Það er þó hætt við því, að með þessari lækkun úr 35% í 25% sé of skammt gengið til þess að verða að verulegu liði í því að styðja að þessum iðnaði og leysa erfiðleika hans í svipinn, þó að þetta sé að sjálfsögðu til bóta fyrir aðstöðu iðnaðarins yfirleitt. En það er þó ein grein iðnaðarins, sem ekki hefur hag af þessum tollalækkunum, og það er sú grein hans, sem framleiðir einhverjar af þeim vörum, sem tollur er lækkaður á og þar með rýrð samkeppnisaðstaða þeirra innlendu fyrirtækja, sem eiga hlut að máli, sem fyrst og fremst eru vélsmiðjurnar. Í sambandi við það er hér gert ráð fyrir heimild til þess að endurgreiða þeim tolla af hráefnunum, og er það að sjálfsögðu gott. En auk þess virðist mér, að það þurfi að beita sömu ráðstöfunum til þess að styðja að samkeppnismöguleikum þessara greina, eins og ég rakti áðan um greinar iðnaðarins almennt, þ. e. aukið lánsfé til vélvæðingar og aðstoð við hagræðingu o.s.frv.

Fyrir nokkrum árum var hér á ferð norskur sérfræðingur í iðnaðarmálum, sem hafði það sérstaka hlutverk að gera till. um ráðstafanir til þess að leysa úr því, sem kallað var aðlögunarvandamál iðnaðarins, og þessi aðlögun, sem þarna var um að ræða, var aðlögun að lægri tollum, hvort sem það nú yrði vegna þátttöku í einhverjum viðskiptabandalögum, eins og þá var á dagskrá, eða með öðrum hætti. Till. þessa norska sérfræðings hafa ekki verið birtar, en þess hefur orðið vart, að iðnrekendur telja, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki lagt eins mikla áherzlu á það að veita þann stuðning, sem ætlazt var til samkv. þessum till., eins og þeir höfðu gert sér vonir um, og víst er um það, að iðnrekendur bera sig um þessar mundir mjög illa, vegna þess að þeir telja, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki veitt þeim þá fyrirgreiðslu í sambandi við þessi aðlögunarvandamál, sem rætt er um, eins og þeir höfðu gert sér vonir um. Ég hef áður getið þess, að það er skoðun mín, að tollar á vélum og tækjum, sem framleiðsluatvinnuvegirnir nota til að framleiða vörur, hvort sem er til útflutnings eða til innanlandsmarkaðarins, séu mjög skaðlegir og þá alveg sérstaklega auðvitað á þeim, sem notuð eru til útflutningsins og verða að keppa á erlendum markaði. Í samræmi við þessa skoðun lögðum við hv. 1. þm. Norðurl. e., þegar tollskrárfrv. var til meðferðar hér í þessari hv. d. í fyrra, fram till. um það, að tollar á slíkum vélum og tækjum yrðu færðir ofan í 4%, eins og þeir eru af veiðarfærum og helztu rekstrarvörum fiskveiðanna. E.t.v. væri rétt að hafa tvískiptingu á og færa þá kannske tollana niður í núll á þeim vörum, sem notaðar eru við útflutningsiðnaðinn, og þá 4% á þeim, sem notaðar eru við iðnaðinn ella. En stefna verður að því að sjálfsögðu að lækka þessa tolla miklu meira en gert er í þessum tillögum, sem hér er um að ræða.

Enn fremur hefur verið vakið máls á því oft í sambandi við tollamál, að við höfum haft hér háa tolla á byggingarefni. Slíkt er auðvitað að ýmsu leyti hliðstætt við háa tolla á vélum og tækjum til framleiðslunnar. Tollarnir á byggingarefninu hækka ekki aðeins íbúðakostnaðinn, heldur íþyngja þeir líka atvinnuvegunum með auknum stofnkostnaði og hafa þess vegna sömu áhrif og tollarnir á vélum og tækjum, eins og ég var að tala um. Í þessu sambandi, — án þess að ég skuli eyða tíma í að rekja það, það hefur svo oft verið gert, — má minna á það sjónarmið, sem fram kom í sambandi við kísilgúrverksmiðjuna, og það má minna á þau sjónarmið, sem fram komu um þessi efni í sambandi við umr. um hugsanlega alúminíumverksmiðju. En svipuð sjónarmið og þar koma fram eiga að sjálfsögðu við um aðrar greinar okkar atvinnulífs.

Í fyrra lögðum við það til, hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég, hér í þessari hv. d., að endurgreiddir yrðu tollar af byggingarefni til íbúðarhúsnæðis, af íbúðum allt að 360 rúmmetrum að stærð, og endurgreiðslan yrði 110 kr. á rúmmetra. Það hlýtur þó að koma til athugunar, hvort ekki væri eins rétt að láta þetta koma fram á þann hátt að lækka beinlínis eða afnema tolla á algengasta byggingarefni, eins og timbri, steypustyrktarjárni og því um líku. Tollar af meðalíbúð voru í fyrra taldir vera í kringum 50 þús. kr., og þeir eru líka að sjálfsögðu mjög miklir á mannvirkjum atvinnuveganna. Það er ekki bara íbúðarhúsnæðið, sem þeir lenda á.

Hæstv. ríkisstj. hefur unnið að því að „líberalísera“ viðskiptalífið í landinu, m.a. með því að lækka tollvernd, og það er eðlilegt, að menn spyrji sig þeirrar spurningar, hvort sú meginstefna sé rétt. Ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að að meginstefnu til sé það rétt. En hins vegar vil ég vara menn við að trúa því, að „líberalísering“ í verzlun og viðskiptum sé eitthvert allsherjar „patentmedisín“, sem hægt sé að beita án nokkurs samræmis eða sambands við aðra þætti efnahagslífsins. Það leysir engan vanda að bera sér í munni orðið frelsi í viðskiptum og nota það sem einhvers konar orðaleik. „Líberaliseringin“ má að sjálfsögðu ekki koma örar en svo, að atvinnuvegirnir þoli það. Atvinnuvegirnir verða að hafa svigrúm til þess að aðlaga sig breyttum skilyrðum, og þetta virðist mér, að hæstv. ríkisstj. hafi e.t.v. ekki alltaf haft nægilega í huga og m.a. þess vegna eigi nú iðnaðurinn og ýmsir framleiðendur hér innanlands í þeim erfiðleikum, sem okkur eru öllum kunnir.