06.04.1965
Efri deild: 63. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

173. mál, tollskrá o.fl.

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki haft tækifæri til að líta á þetta frv. fyrr en nú á þessum fundi og er þess vegna ekki tilbúinn til þess að segja mikið um það að svo komnu máli. En örfá orð vildi ég samt hafa um málið strax á þessu stigi.

Ég held, að hv. þdm. hljóti flestum að vera að meira eða minna leyti ljósir þeir erfiðleikar, sem íslenzkur iðnaður á nú við að búa, og sé kunnugt um það, að ýmsar greinar íslenzks iðnaðar, sem hafa dafnað allvel um langt skeið, og jafnvel iðngreinar, sem þrifizt hafa í landinu allt frá upphafi vega, eins og fatagerð og annað slíkt, — ýmsar þessar iðngreinar eiga nú mjög í vök að verjast vegna efnahagsstefnu núv. hæstv. ríkisstj. Það er kunnugt af skýrslum og blaðaskrifum, ályktunum frá mannfundum, t.d. iðnrekenda, að iðngrein eins og t.d. skógerð er því nær að leggjast niður í landinu. Fataiðnaðurinn hefur dregizt stórkostlega saman. Vefnaðariðnaður ýmiss konar á í vök að verjast. Sum matvælaframleiðsla, eins og kexframleiðsla, er því nær að leggjast niður. Þetta er auðvitað áhyggjuefni fyrir marga og þá auðvitað ekki sízt fyrir þau byggðarlög, sem hafa byggt sérstaklega á iðnaði. Ég nefni í þessu sambandi minn heimabæ, Akureyri, sem hefur orðið þegar mjög hart úti í þessum efnum, þar sem mörg iðnfyrirtæki hafa ýmist stórkostlega dregið saman framleiðslu sína núna í seinni tíð eða lokað með öllu. Og afleiðingin hefur orðið sú t. d., að þar hefur atvinna nú um skeið verið algerlega ófullnægjandi. Það er líka kunnugt um, að iðnrekendur hafa nú í seinni tíð a.m.k. haft uppi allháværar kröfur og að því er manni virðist ekki að ástæðulausu um það, að iðnaðinum, sem framleiðir fyrir innanlandsmarkað, væri gefið meira svigrúm en hann hefur fengið til þess að aðlaga sig því verzlunarfrelsi, sem hæstv. ríkisstj. hefur komið á og gumar svo mjög af, og þeirri rýrnandi tollvernd, sem stefnt hefur verið að í hennar tíð. Mig minnir, að um það leyti, sem þessar breytingar voru að eiga sér stað, hafi því verið heitið af núv. hæstv. fjmrh. og öðrum talsmönnum hæstv. ríkisstj., að iðngreinarnar skyldu fá nægilegt svigrúm til þess að aðlaga sig þessum nýju viðhorfum. En það hefur sem sagt sýnt sig, að aðlögunartíminn hefur ekki verið nægur a.m.k. og aðrar ráðstafanir, sem til greina hafa getað komið til þess að létta samkeppnisaðstöðuna við svo að segja óheftan innflutning á þeim iðnaðarvörum, sem keppt geta við þessa framleiðslu, þær ráðstafanir hafa ýmist verið engar eða ófullnægjandi. Miðað við það, hvernig ástandið er í málefnum iðnaðarins nú, hefur maður þsss vegna getað búizt við því, að einmitt núna, þegar afleiðing þessarar stefnu hæstv. ríkisstj. hefur verið að koma svo glögglega í ljós, þá hefði verið gert eitthvert verulegt átak af hálfu hæstv. ríkisstj. til þess að létta þessum iðngreinum, sem verst urðu úti, samkeppnisaðstöðuna.

Ég fæ ekki betur séð en að staða iðnaðarins almennt hér á landi, þ.e.a.s. þess iðnaðar, sem þarf að keppa við innflutning erlendis frá, sé mjög ámóta og sízt betri en útflutningsframleiðslunnar til þess að mæta því heimsmarkaðsverði, sem um er að ræða. Ég fæ ekki betur séð en málum sé svo komið, að t.d. hvers konar aukinn tilkostnaður innlenda iðnaðarins hljóti að mæða jafnmikið á honum eins og tilkostnaðaraukning í sjávarútvegi, og það er fyrst og fremst vegna þess, að hér eru á markaðnum í svo að segja öllum greinum vörur, sem eru fluttar inn á heimsmarkaðsverði eða jafnvel undir því, þannig að iðnaðurinn hefur ekki sömu möguleika og hann hefur haft oft áður til þess að geta yfirfært tilkostnaðinn í verðlagið. Þetta gat hann oft og tíðum, meðan höft voru almenn, en nú mundu slíkar hækkanir í a.m.k. mjög mörgum tilfellum þýða það, að innlenda framleiðslan seldist ekki. Ég fæ ekki séð, að það sé ákaflega mikill eðlismunur á því að framleiða vörur fyrir útlendan markað og skapa þannig gjaldeyri eða framleiða vörur úr innlendum eða erlendum hráefnum til þess að spara gjaldeyrinn. Ég tel, að þarna eigi að vera um jafnréttháan atvinnurekstur að ræða og jafnþarfan í flestum tilfellum fyrir þjóðfélagið og það sé þess vegna ákaflega hæpið að gera ákaflega mikinn mun á þeirri aðstöðu, sem þessum atvinnugreinum er sköpuð. En það er greinilegt, að þrátt fyrir það, að hæstv. ríkisstj, hefur minnkað mjög tollvernd íslenzks iðnaðar og jafnframt komið á svo að segja óheftum innflutningi, hyggst hún enn gera iðnaðinum stórum erfiðara fyrir en útflutningsframleiðslunni, og sést það m.a. á því, að samkv. þessu frv. eiga vélar, sem innlendi iðnaðurinn notar, ýmist að vera í 25% eða 35% tollflokki, á meðan vélar til útflutningsframleiðslunnar eru í 4, 10 og 15% tollflokki. Ég álít þess vegna, að þessi — ég vil segja: lítilfjörlega lækkun á vélum iðnaðarins komi ekki að neinu verulegu haldi og þarna hefði þurft að gera miklu meira, til þess að það hefði jafnað metin að nokkru verulegu leyti, því að það er nú svo, að hér þarf innlenda framleiðslan í mjög mörgum tilfellum að keppa við vörur frá löndum, sem hafa enga tolla á iðnaðarvörum og ekki heldur neina tolla á því hráefni, sem um er að ræða. Þetta er mjög algengt, að innlendi iðnaðurinn verði að borga tugi prósenta í toll af hráefnunum og hann verði einnig að borga háa tolla af sínum vélum, en verður síðan að keppa við framleiðslu iðnaðarins, sem hefur enga tolla, hvorki á þeim vélum, sem iðnaðurinn byggir á, né heldur á hráefninu. Til dæmis um þetta vil ég nefna vefnaðariðnaðinn.

Ég álít líka og get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni, að ég tel, að það sé fráleitt að hafa vélar til landbúnaðarins í miklu hærra tollflokki en annarrar útflutningsframleiðslu, og það sé engin skynsamleg ástæða til þess, að landbúnaðurinn, sem a.m.k. í öðru orðinu er talinn sérstaklega styrkjaþurfandi af almannafé, sé látinn búa við miklu lakari kjör hvað tolla snertir á vélum heldur en sjávarútvegurinn. Ég get þess vegna fyllilega tekið undir það, að mér finnst það réttmætt í sambandi við svona endurskoðun á tollunum, að landbúnaðarvélar séu lækkaðar a.m.k. niður í það, sem sjávarútvegurinn býr bezt við.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri, en ég tel, að það væri verkefni þeirrar hv. n., sem fær málið til athugunar, alveg sérstaklega að athuga það; hvað hægt er að gera og hvað nauðsynlegt er að gera fyrir iðnaðinn í landinu, þannig að ekki verði áframhald á þeirri þróun, sem nú er hafin, að hann sé smátt og smátt að molna niður, vegna þess að honum sé ekki sköpuð eðlileg samkeppnisaðstaða eða gert yfirleitt fært að byggja sig upp með nýtízkulegum hætti.