06.04.1965
Efri deild: 63. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

173. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Sunnl. beindi til mín fsp. um það, hvort í ráði væri að beita 27. gr. tollskrárl., sem fjallar um undirboðs- og jöfnunartolla, í sambandi við meint undirboð á vissum vörutegundum. 27. gr. tollskrárl. var nýmæli, sem tekið var inn í tollskrána nýju 1963, og er meginefni hennar þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú má ætla, að erlend vara sé flutt inn eða boðin fram með undirboðskjörum (dumping) og slíkt geti stofnað innlendum atvinnurekstri í hættu eða torveldað hann að mun, og má þá fjmrh. leggja á sérstakan undirboðstoll til að hamla gegn slíkum viðskiptum. Undirboðstoll má ekki leggja á til lengri tíma en 6 mánaða í senn.“

Nú hafa komið fram staðhæfingar um það, að í vissum greinum og þá sérstaklega varðandi veiðarfæri væri um undirboð að ræða. Þetta hefur komið fram hjá íslenzkum aðilum, sem framleiða veiðarfæri, og hefur það mál að undanförnu verið til athugunar. Eins og sagt er í 27. gr. tollskrárl., er það fjmrn., sem tekur endanlega ákvörðun um það, hvort þessu ákvæði skuli beita. Því hefur aldrei verið beitt hingað til hér á landi, en í samráði við fjmrn. hefur iðnmrn. látið fara fram rækilega athugun á þessu máli í sambandi við veiðarfæri, og er það mál nú til athugunar hjá ríkisstj. Meira get ég ekki sagt um það mál á þessu stigi.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. vék nokkuð almennt að aðstöðu iðnaðarins og taldi hana að mörgu leyti erfiða sem stendur. Ég ætla ekki að ræða hér um áhrif hins aukna viðskipta- og innflutningsfrelsis í sambandi við iðnaðinn, en aðeins minna á það, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, skapar íslenzkum iðnaði að sjálfsögðu engin ný vandamál, heldur þvert á móti. Þetta frv. felur einmitt í sér lækkun á tollum af vélum, sem íslenzkur iðnaður þarf að nota. Sú lækkun er úr 35% og niður í 25%, og ætla ég, að mörg, ef ekki flest íslenzk iðnaðarfyrirtæki telji það nokkru skipta, að þessi almenni vélatollur er þannig færður niður. Í engu ákvæði þessa frv. er hlutur íslenzks iðnaðar gerður lakari en nú er, heldur þvert á móti. Varðandi vélar vegna útflutningsiðnaðarins, sem almennt eru lækkaðar úr 35% niður í 10%, er þess að geta, að mjög ýtarlegar athuganir fóru fram á aðstöðu hins íslenzka iðnaðar, sem framleiðir slíkar vélar eða hliðstæðar vélar, og ég get skýrt frá því hér, að m.a. voru ýtarlegar viðræður við Félag ísl. iðnrekenda um það mál, og náðist að lokum full samstaða um það, þannig að fulltrúar Félags ísl. iðnrekenda tjáðu sig samþykka þeirri lausn, sem hér væri gert ráð fyrir, þ.e.a.s. að þar sem vélar vegna útflutningsatvinnuveganna eru einnig framleiddar í landinu, verði tollurinn ekki 10%, heldur 15%, í öðru lagi, að tollurinn verði endurgreiddur af efnivörum til slikra véla, og í þriðja lagi, að söluskattur af þessari innlendu framleiðslu verði felldur niður. Þetta töldu fulltrúar íslenzks iðnaðar nægilega tollvernd fyrir þennan þátt íslenzks iðnaðar.

Varðandi þau ummæli hv. 4. þm. Norðurl. e., að óeðlilegt væri, að landbúnaðurinn nyti verri tollkjara eða tollaákvæða heldur en sjávarútvegurinn, kennir þarna nokkurs misskilnings. Í tollskránni 1963 voru tollar af vélum vegna landbúnaðarins yfirleitt hafðir lægri en sá almenni 35% vélatollur, þannig að af mjög mörgum vélum, sem landbúnaðurinn notar, var tollurinn ákveðinn 10%, og lagfæringar nú sjávarútveginum til handa eru einmitt miðaðar við að samræma tollinn af vélum vegna sjávarútvegsins þessum 10%, sem ákveðið voru fyrir tveimur árum varðandi ýmsar landbúnaðarvélar.

Varðandi þá geyma til geymslu og flutnings á mjólk, sem ég minntist á og hv. 6. þm. Sunnl. minntist á, er þar um helmings tollalækkun að ræða frá því, sem tollskráin ákveður núna, eða úr 50% niður í 25%. Þar sem hér er um nýmæli að ræða og e. t. v. má líta svo á, að þetta komi að einhverju leyti í stað mjólkurbrúsa, sem í tollskránni eru með 10% tolla, er sjálfsagt að taka það til athugunar í n., hvort ástæða væri til að færa þessa tolla af mjólkurgeymunum lengra niður en hér er gert ráð fyrir. En þessi var að athuguðu máli till. tollskrárnefndarinnar.