10.04.1965
Efri deild: 66. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

173. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB) beindi til mín fyrirspurn, sem ég skal gjarnan svara. Það er í sambandi við þá tollaeftirgjöf, sem gert er ráð fyrir að lamaðir og fatlaðir fái. Í tollskrá var lengi vel ákveðið, að veita mætti allt að 50 öryrkjum á ári tollundanþágu, sem næmi 40 þús. af hverri bifreið, og það væri ákveðið af nefnd þriggja lækna, hverjir skýldu njóta þessarar undanþágu: Þessi skipan varðandi læknanefndina, sem úrskurðar til fullnaðar um það, hverjir skuli njóta undanþágunnar, er óbreytt. Hins vegar var upphæðin hækkuð á s.l. ári úr 40 þús. upp í 70 þús. á bifreið og tala bifreiðanna einnig nokkuð hækkuð. En nú er lagt til eftir tillögu læknanefndarinnar að hækka þessa tölu enn verulega, þannig að hún verði 300 á ári, eða 250 bifreiðar til nýrra aðila og 50 bifreiðar til endurnýjunar. Nú spyr hv. þm., hvort breyting sé fyrirhuguð á því, að meginþorra þessara bifreiða hefur orðið að kaupa frá vöruskiptalöndum eða Austur-Evrópu. Ég vil taka það fram, að ég er honum alveg sammála í þessu efni, að það væri æskilegt að geta gefið öryrkjunum frjálst val um það, hvaða bifreið þeir keyptu, hvaða tegund, frá hvaða landi. En ástæðan til þess, að um nokkur undanfarin ár hafa þessi viðskipti verið bundin við Austur-Evrópulönd, er eingöngu viðskiptalegs eðlis. Eins og kunnugt er, eru þessi viðskipti, sem okkur eru mikilsverð vegna sölu á okkar afurðum, bundin við jafnvirðiskaup, þannig að við þurfum að kaupa jafnvirði þess, sem við seljum þessum löndum, í vörum þaðan. Nú hafa sum þessara ríkja lagt á það ákaflega mikla áherzlu, að keypt yrði þaðan ýmiss konar iðnaðarframleiðsla, sem erfiðlega hefur gengið að koma út hér á landi, og ein tegund þessarar iðnaðarframleiðslu eru bifreiðar, sem lögð hefur verið mjög mikil áherzla á af hálfu sumra þessara ríkja að selja hingað. Það hefur því orðið sú niðurstaðan, að varðandi þessar undanþágubifreiðar varðandi tolla yrði þeim viðskiptum aðallega beint til þessara landa, sem krefjast jafnvirðiskaupa. Ég skal ekki segja um, hvort möguleikar verða á því að fá þessu breytt, en það er sjálfsagt eftir ábendingu hv. þm. að kanna, hvort væru möguleikar að taka þetta upp að nýju og gefa öryrkjunum meira valfrelsi en verið hefur. Ég get ekkert fullyrt um það nú, en það er sjálfsagt, að það mál verði athugað að nýju.