13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

173. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur verið tekið nú þegar, varð fjhn. þessarar hv. þd. ekki sammála um afgreiðslu frv. um breytingar á tollskrá o. fl., og hef ég ásamt hv. 1. þm. Norðurl. v. gefið út nál. fyrir 1. minni hl. þeirrar n., sem ekki hefur enn þá verið útbýtt, en ég mun í örfáum orðum gera grein fyrir því, sem þar um ræðir.

Aðalágreiningurinn í n. varð sá, að við í minni hl. vildum ganga nokkru lengra til lækkunar á tollum en frv. gerir ráð fyrir og heldur en hv. meiri hl, vildi fallast á, og við höfum endurflutt hér þær brtt. að mestu leyti, sem fulltrúar Framsfl. í hv. fjhn. Ed. fluttu þar, en ekki náðu fram að ganga. Brtt, okkar eru birtar á þskj. 480 og eru um það að lækka þá liði, sem þar eru tilgreindir, í 4% toll í stað misjafnra tolla, sem eru á þeim vélum og tækjum frá 10% og upp í 25%.Ég vil geta þess til leiðréttingar, að inn í brtt. okkar hefur slæðzt ein prentvilla, þ.e. 1. liður a, við 13. tölul. 732201: í stað 25% komi 4, eins og þar stendur, á að vera í stað 10% komi 4, vegna þess að hv. Ed. hafði þegar fallizt á að breyta umræddum tolli í 10%. Þessar brtt, okkar skýra sig vitanlega allar sjálfar, og ég skal ekki eyða tíma hv. d. á síðustu minútum þessara þingfunda til þess að rekja þær lið fyrir lið, en þær hníga í stuttu máli allar í þá átt að jafna aðstöðu iðnaðargreinanna og atvinnugreinanna, þannig að mörkuð sé sú stefna, að allar vélar og tæki til hverrar greinar framleiðsluatvinnuveganna sem vera skal búi við sömu tollakjör og þau geti orðið sem allra lægst.

Við fulltrúar Framsfl. höfum yfirleitt, þegar rætt hefur verið um breytingar á tollskrá, flutt allmargar aðrar till. til breyt. um lækkun og lagfæringu á tollum, og við erum enn þá þeirrar sömu skoðunar að því leyti, að þar sé enn mikið verk óunnið. En við höfum gert það nú til samkomulags, á sama hátt og gert var í hv. Ed., að brtt. okkar að þessu sinni eru alveg innan þess ramma, sem frv. markar, þ.e. að þær fjalla einungis um þá liði, sem frv, tekur til. Við höfum t.d. á undanförnum þingum og a.m.k. í fyrra, þegar tollskrárbreyting var hér til umr., fluttum við till. um það, að ríkissjóður endurgreiddi húsbyggjendum aðflutningsgjöld, sem næmi, að því er mig minnir, 110 kr. á rúmmetra á allt að 360 teningsmetra íbúð. Við erum vitanlega enn þá þeirrar sömu skoðunar, að þessi till. eigi fullan rétt á sér og fátt hafi meiri áhrif á framleiðslukostnaðinn í landinu en hinn hái húsnæðiskostnaður og að ástandið í húsbyggingarmálunum sé þannig, að það sé óhjákvæmilegt að gera þar róttækar úrbætur. En eins og ég segi, höfum við ekki flutt þessa till. nú. Við höfum ekki heldur tekið upp þá till, sem við höfum margsinnis flutt um lækkun á rafknúnum heimilistækjum, og af sömu ástæðu og ég hef áður greint, en ekki af því, að við séum nú fallnir frá þeim óskum.

Hér hefur í sambandi við þetta mál nokkuð borið á góma í hv. Ed. aðstaða iðnaðarins, eins og hann er nú orðinn, og vil ég leyfa mér að fara um það aðeins örfáum orðum.

Það er staðreynd, að í ýmsum greinum iðnaðar hefur orðið verulegur samdráttur á síðustu mánuðum og að nokkur fyrirtæki hafa orðið að leggja reksturinn niður, en önnur hafa dregið mjög saman og fækkað fólki. Vitanlega eru ýmsar ástæður, sem liggja til þess ástands, sem nú ríkir í iðnaðinum, og mismunandi. En ein af þeim mun vera minnkuð tollvernd, lánsfjárskortur, óhagstæð skattakjör o.fl. Nú er ég ekki að halda því fram, að iðnaðurinn hér á landi eigi ekki að geta staðizt samkeppni erlendis frá án verndartolla eða óeðlilega hárra innflutningsgjalda. En ég vil leyfa mér að benda á, að allar slíkar breytingar hljóta að verða að gerast á nokkuð löngum tíma. Fleira fólk hefur nú framfæri sitt af hvers konar iðnaðarstarfsemi en nokkurri annarri atvinnugrein. Þýðing iðnaðar fyrir íslenzkan þjóðarbúskap er óumdeilanleg og hlýtur enn þá að fara vaxandi, enda verðum við Íslendingar eins og aðrar þjóðir að stefna að því að efla þennan þátt atvinnumálanna og búa honum skilyrði eftir föngum til jafns við aðrar höfuðatvinnugreinar þjóðarinnar. Iðnaðurinn veitir mjög mörgu fólki atvinnu, og margt af því fólki er þannig statt, að það getur ekki unnið aðra vinnu en léttur iðnaður veitir því tækifæri til. Þannig sparast veruleg þjóðarverðmæti með því að halda uppi tilteknum tegundum iðnaðar, og ég held, að það mundi verða til tjóns fyrir þjóðfélagið, að hann félli allur niður.

Með auknum innflutningi iðnaðarvara erlendis frá skapast víssulega nokkur hætta á þessu. Til þess að mæta því eru sjálfsagt nokkuð mörg ráð, en eitt ráð og það, sem kemur upp í hugann í sambandi við meðferð tollskrár hér á þingi, eru tollar og aðflutningsgjöld af vélum til iðnaðarframleiðslu. Og það er það, sem við höfum tekið upp m.a. í okkar brtt., að færa niður ýmsar vélar og tæki til iðnaðar í tolli til jafns við vélar og tæki til. annarra höfuðatvinnuvega þjóðarinnar til þess með því að reyna að hjálpa iðnaðinum í þeirri hörðu baráttu, sem hann á nú í. Að sjálfsögðu hljóta aðrar ráðstafanir einnig að koma til greina, en hér er bent á eina leið, sem verða mætti til nokkurra úrbóta.

Eins og hv. frsm. meiri hl. gerði grein fyrir, barst, meðan á meðferð málsins stóð í fjhn., bréf frá Búnaðarfélagi Íslands, þar sem nokkrar óskir um lagfæringar á tollum voru tilgreindar. Við höfum leyft okkur að taka hér upp eina eða tvær brtt. við frv. í samræmi við þetta bréf, en flestar þær aðrar ábendingar, sem í því bréfi var að finna, voru þegar teknar upp af fjhn.-mönnum Framsfl. í hv. Ed. og því endurfluttar af okkur.

Þessar breytingar eru þær, að í 2. tölulið brtt. okkar á þskj. 480, þegar talað er um endurgreiðslu tolla af hreyflum minni en 200 hestafla, sem settir eru í báta eða notaðir til raflýsingar, er bætt við orðunum „eða til súgþurrkunar á sveitabæjum.“ Okkur finnst, að þessi ábending Búnaðarfélagsins eigi rétt á sér, hér sé um nokkuð hliðstætt atriði að ræða og einmitt er þegar heimilt að endurgreiða gjöldin af. Þá höfum við tekið upp aðra breytingu, minni háttar, í samræmi við óskir Búnaðarfélagsins.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að lengja mál mitt um þetta frv. Eins og fram hefur komið, erum við út af fyrir sig samþykkir þeim breytingum, sem frv. gerir ráð fyrir, en hefðum í einstaka tilfellum viljað ganga nokkru lengra til lagfæringar en þar er gert og höfum því borið fram brtt. á þskj. 480.