19.11.1964
Neðri deild: 18. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

5. mál, verðtrygging launa

Frsm. (Davíð Ólafsson):

Herra forseti, Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft þetta frv. á þskj. 5, frv. til 1. um verðtryggingu launa, til meðferðar nú um hríð og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess. Ég tel ekki þörf á að gera hér nánari grein fyrir málinu, það var gert ýtarlega við flutning málsins hér í þessari hv. d. af hæstv. forsrh., og hef ég engu þar við að bæta. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, sem segir í áliti n. á þskj. 94 í sambandi við 4. gr. N. átti ýtarlegar viðræður við hagstofustjóra um ýmis ákvæði frv., en það hvílir á hagstofunni að verulegu leyti að reikna út vísitölu, og við þær umr. kom m.a. fram í sambandi við 4. gr., að ákvæði hennar ber að skilja þannig, að reikna skuli verðlagsuppbót á vinnuliði verðlagsgrundvallar landbúnaðarvara eftir sömu reglum og laun samkv. frv. Það má að vísu með nokkrum rétti segja, að þetta komi fram í sjálfri greininni, eins og hún er núna, þar sem er vísað í 2. og 3. gr., en n. þótti réttara að taka þetta fram í nál., svo að allur vafi væri þar af tekinn. — N. mælir sem sagt með, að frv. verði samþ. óbreytt.