20.10.1964
Efri deild: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

17. mál, verkamannabústaðir

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Fyrir tæpum 3 árum var lögunum um verkamannabústaði breytt allnokkuð hér á hv. Alþingi. Breytingin var þá í því fólgin að hækka lánsfjárhæðirnar á íbúð upp í 300 þús. kr. og hækka nokkuð þau tekju- og eignamörk, sem giltu um þá, sem öðluðust réttindi til að njóta hlunninda þessara laga. Það hefur nú sýnt sig, að þessar tölur, sem samþykktar voru þá, eru enn orðnar of lágar og þurfa leiðréttingar við. Það hefur því verið samið frv ., sem hér er lagt fram, um, að lánsfjárhæðirnar verði hækkaðar um 50%, eða úr 300 þús. upp í 450 þús. kr. Í öðru lagi hefur verið hækkað tekjumarkið, sem var áður 65 þús. kr. í árstekjur, upp í 100 þús. kr. og að viðbættum þó 7500 kr. fyrir hvert barn á framfæri, sem áður var 2500 kr. Eignamarkið hefur líka verið hækkað úr 150 þús. kr. upp í 200 þús. kr.

Það hefur, eins og alkunnugt er, orðið mikil hækkun á byggingarkostnaði síðustu árin, og það hefur þess vegna orðið mjög erfitt fyrir þá, sem hafa fengið íbúð í verkamannabústöðum, að útvega sér fé í viðbót við þau lán, sem veitt eru úr sjóðnum. Hefur það valdið því, að nú í augnablikinu a.m.k. eiga ýmsir, sem eru í gangi með þessar byggingar, í erfiðleikum með í fyrsta lagi að útvega það fé, sem á vantar, og í öðru lagi að standa undir því, þegar af því þarf að borga miklu hærri vexti en af þeim lánum, sem veitt eru úr sjóðnum.

Þessar leiðréttingar ættu að greiða fyrir því í fyrsta lagi, að menn verði aðnjótandi þessara fríðinda, sem lögin gera ráð fyrir, og í öðru lagi að komast yfir þá erfiðleika, sem því eru samfara að útvega viðbótarfé til bygginganna. Þetta er aðalinntak frv. og þarf ekki lengri skýringa við.

Í þeim breytingum, sem gerðar voru síðast á lögunum, var sett inn nýtt ákvæði um það, að ef maður hafði átt íbúð í 10 ár, þá gat hann borgað upp lánið til sjóðsins og gat síðan ráðstafað íbúðinni á þann hátt, sem honum þóknaðist, og tekið þann hagnað af sölu, ef um sölu var að ræða, sem hann þannig fékk. En annars átti ekki að vera mögulegt að gera þetta, eins og lögin voru áður, heldur átti þessi íbúð að ganga til næsta eiganda með þeim kjörum, sem upphaflega höfðu verið veitt. Reynsla er ekki komin mikil á þetta, en þó þannig, að við samningu þessa frv. var talið eðlilegt að hækka þetta tímamark úr 10 árum upp í 20 ár, þannig að ekki væri eins greitt um vik fyrir einstaka eigendur þessara íbúða að selja þær og njóta hagnaðarins sjálfir af sölunni. Það er nokkurt álítamál, og ég vildi skjóta því til þeirrar nefndar, sem þetta frv. fær til meðferðar, hvort ekki bæri að afnema þetta ákvæði með öllu, þannig að upphafleg ákvæði verkamannabústaðalaganna yrðu látin gilda, og þessi heimild félli niður með öllu. Ráðuneytið vildi þó ekki gera þetta að svo vöxnu, en vildi skjóta því til Alþingis að taka ákvörðun um þetta atriði.

Fleiri atriði eru að vísu, sem þyrftu athugunar við, og ég skal aðeins nefna eitt. Það er, hvort ekki væri ástæða til að setja inn í þessi lög ákvæði um hámarksstærð þeirra íbúða, sem njóta fyrirgreiðslu á þennan hátt. Það eru engin takmörk fyrir því í þessum lögum og hefur verið algerlega á valdi verkamannabústaðastjórnarinnar að ákveða, hvaða íbúðastærðir gætu komið undir þessi lög, og það hefur leitt til þess, að íbúðir hafa verið gerðar allstórar og stærri en ástæða er til að styrkja. Þess vegna er til athugunar einnig fyrir hv. n., sem málið fær til umr., hvort ekki væri ástæða til að setja eitthvert hámarksákvæði í lögin um íbúðastærð, því að þegar íbúðirnar eru orðnar mjög stórar, þá er ekki ástæða til, að hlunnindi þessara laga komi til framkvæmda gagnvart þeim íbúðum.

Vextir af lánum byggingarsjóðs eru nú 6%, en það er á valdi rn. og Seðlabankans að ákveða þá, og ég tel rétt að láta það koma fram hér, að meiningin er, ef þessar breytingar verða samþykktar, og raunar hvort sem er, að vextir verði lækkaðir mjög verulega og í samræmi við það, sem ætlað er að gera af hinum almennu lánum húsnæðismálastjórnar. Þessar hækkanir á lánum til íbúða í verkamannabústöðum eru líka að nokkru leyti miðaðar við þá hækkun, sem ákveðið hefur verið að gera á íbúðalánum almennt, og hefur verið höfð þar hliðsjón af því samkomulagi, sem gert var í vor um lán til íbúðabygginga á vegum húsnæðismálastjórnar, þar sem lánin á íbúð hafa verið hækkuð mjög verulega eða um 130 þús. kr. minnst og möguleikar til þess, að þau geti orðið enn hærri.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um þetta frv. fleiri orð. Málið liggur mjög ljóst fyrir. Ég vil svo að lokum, herra forseti, leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.-og félmn.