08.04.1965
Neðri deild: 65. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

17. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Heilbr. og félmn. mælir með því, að frv. verði samþykkt með einni breyt., sem nefndin flytur á þskj. 323.

Samkv. 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að lán út á íbúðir, sem byggðar eru á vegum byggingarfélaga verkamanna, hækki úr 300 þús. kr. í 450 þús. kr., eða um 50%. Síðast þegar þessum lánsupphæðum var breytt, var hækkunin úr 154—160 þús. kr. í 300 þús. kr., eða 100%.

Í annan stað er svo lagt til í 2. gr. frv., að tekjuviðmiðunin, sem farið hefur verið eftir við veitingu lánsfjár úr byggingarsjóði verkamanna, verði hækkuð nokkuð, miðað við breyttar aðstæður. Í frv. er gert ráð fyrir, að miðað verði við 100 þús. kr. árstekjur að meðaltali á 3 árum, að viðbættum 7500 kr. fyrir hvert barn á framfæri, og að viðkomandi megi ekki eiga meiri skuldlausa eign en 200 þús. kr., miðað við þann tíma, þegar hann kaupir íbúðina. Það er þetta atriði, sem heilbr: og félmn. leggur til að verði breytt þannig, að í stað „100 þús. kr. árstekjur“ komi: 120 þús. kr., og í staðinn fyrir „7500 kr. fyrir hvert barn á framfæri“ komi: 10000 kr., og loks, að í stað þess að eignarviðmiðunin sé 200 þús. kr., verði hún 250 þús. kr.

Ég skal geta þess, að ég hef heyrt þá viðbáru gegn þessari till. heilbr.- og félmn., að hún mundi e.t.v. valda því, að umsóknafjöldi um lán úr sjóðnum mundi aukast verulega, ef tekjumarkið væri rýmkað eins og n. leggur til. Það mun hafa verið upplýst í hv. Ed., að fyrir lægju um 190 umsóknir um lán úr sjóðnum. Ég hygg nú, að það sé ekki fyrst og fremst tekjumarkið, sem sker úr um umsóknafjöldann, heldur hitt, að hjá byggingarsjóði verkamanna er um að ræða þau hagstæðustu lánskjör til íbúðabygginga, sem völ er á, og hygg ég, að það sé það, sem ræður úrslitum um umsóknafjöldann, hámarksupphæðin hafi þarna ekki veruleg áhrif. En það hefur sýnt sig undanfarið, að þær tölur, sem miðað hefur verið við í lögunum, hafa fljótlega reynzt of lágar. Út frá því leggur heilbr. og félmn. til, að gerð verði á frv. þessi breyting.

Síðast, þegar lögunum um verkamannabústaði var breytt, var sett inn í þau ákvæði, sem heimiluðu íbúðareigendum að greiða upp lánin að 10 árum liðnum. Gátu þeir samkv. því notið fullrar verðhækkunar á söluverði íbúðarinnar, ef um sölu var að ræða. Með ákvæði 3. gr. þessa frv. er lagt til, að hert verði á ný á þessum fyrirmælum laganna, og voru nm. í heilbr.- og félmn. sammála um, að rétt væri að gera það. Munu jafnvel sumir hverjir vera þeirrar skoðunar, að réttast væri að hverfa aftur til sömu lagaákvæða varðandi þetta atriði og áður voru í lögunum, þegar mönnum var ekki heimilt að njóta verðhækkunar að þessu leyti. Hv. Ed. hefur breytt ákvæðum frv. um þetta efni, eins og fram kemur á þskj. 335, þannig, að ef maður hefur átt íbúðina í 10 ár, þá má hann að auki njóta verðhækkunar sem svarar helmingi af eftirstöðvum byggingarlánsins, enda greiði hann helming af eftirstöðvum lánsins, þegar sala fer fram. En hafi maður átt íbúðina í 20 ár, má hann njóta hækkunarinnar á verði allrar íbúðarinnar, ef hann greiðir eftirstöðvar lánsins að fullu. Eins og ég sagði, eru sumir nm. heilbr.- og félmn. ekki alls kostar ánægðir með þetta atriði í frv., en sáu þó ekki ástæðu til að leggja til breytingar á því.

Það mun hafa komið fram í umr. um þetta frv. í hv. Ed., að ef frv. nær fram að ganga, sé það ætlun ríkisstj. að afla meira fjár til byggingar verkamannabústaða, en það er að sjálfsögðu nauðsynlegt, um leið og lánsupphæðirnar eru hækkaðar.

Ég leyfi mér svo fyrir hönd heilbr.- og félmn. að leggja til, herra forseti, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem n. flytur.