27.04.1965
Efri deild: 72. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

17. mál, verkamannabústaðir

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál er komið frá hv. Nd., þar sem gerð var á því nokkur breyting til hækkunar á tekjumörkum og eignamörkum fyrir þá menn, sem geta gerzt aðilar að byggingarfélögum verkamanna samkv. frv. Um þetta eru kannske nokkuð skiptar skoðanir, en hv. Nd. taldi, að tekjumarkið hefði áður verið það lágt, að það væri nauðsynlegt að lyfta því ofboðlítið, og var gert á þann hátt að hækka tekjumarkið úr 100 þús. kr. upp í 120 þús. kr.

Nú er það svo, að fyrir liggja hjá stjórn byggingarsjóðsins allmargar umsóknir, sem stjórnin hefur viðurkennt að uppfylli þau skilyrði, sem áður hafa verið sett og lægri eru en hér er gert ráð fyrir. Ég tel því ekki óeðlilegt, ef hv. Ed. vill samþykkja frv. eins og það nú er, að sá framgangsmáti verði hafður, að þeir, sem þegar hafa sótt og uppfylla hin lægri tekjumörk og eignamörk, sitji í fyrirrúmi um afgreiðslu á lánum hjá stjórn byggingarsjóðsins. Og ég fyrir mitt leyti mun, ef það kemur til minna kasta, stuðla að því, að svo megi verða, þannig að hin nýju tekjumörk komi ekki til framkvæmda og verði látin gilda fyrr en þessar umsóknir, sem viðurkenndar hafa verið, hafa verið teknar til afgreiðslu. Ég mun leggja nokkuð upp úr því, að málinu yrði nú ekki vísað aftur til hv. Nd., heldur væri unnt að afgreiða það eins og það liggur hér fyrir með þessum skilningi, sem ég hef nú lýst.