05.04.1965
Efri deild: 62. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

172. mál, lán fyrir Flugfélag Íslands

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á s.l. þingi flutti ríkisstj. frv. um heimild til þess að veita Flugfélagi Íslands ríkisábyrgð á láni, sem það hugðist taka til þess að kaupa flugvél af gerðinni Fokker Friendship, en ætlunin var að nota þá flugvél á innanlandsleiðum. Þessi ábyrgðarheimild hefur verið notuð, og mun þessi vél koma til landsins nú væntanlega í þessum eða næsta mánuði. Flugfélagið telur nauðsyn að eignast aðra sams konar vél til viðbótar, sem yrði einnig notuð á innanlandsleiðum, í því skyni að geta veitt sem bezta þjónustu hér innanlands. Ríkisstj. vill stuðla að því, að þetta geti orðið, og flytur því þetta frv., sem hér liggur fyrir og er sams konar og hið fyrra frá síðasta þingi. Það er um að heimila ríkisábyrgð fyrir allt að 80% af kaupverði flugvélar með fylgifé, þó eigi hærri fjárhæð en 32 millj. kr. Ég vænti þess, að frv. fái góðar undirtektir, og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.