27.04.1965
Neðri deild: 72. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

172. mál, lán fyrir Flugfélag Íslands

Frsm. (Davíð Ólafsson):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur fjallað um frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán fyrir Flugfélag Íslands til flugvélakaupa á þskj. 397. Frv. þetta er flutt í Ed. og hefur þar verið afgreitt samhljóða, og fjhn. hefur á fundi sínum í gær samþykkt að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt.

Fyrir rúmu ári var veitt heimild til þess að ábyrgjast lán fyrir Flugfélag Íslands til kaupa í nýrri vél til innanlandsflugs. Í fréttum útvarpsins í dag var skýrt frá því, að þessi vél hefði farið sína fyrstu reynsluferð, og má því vænta, að hún komi nú til landsins innan skamms til mikilla hagsbóta fyrir flugsamgöngur hér innanlands. Það er hugsað að kaupa aðra slíka vél, sem mun vera til afgreiðslu innan árs, og til þess að það megi verða, hefur Flugfélagið óskað eftir því, að ríkisábyrgð yrði veitt fyrir láni allt að 80% af kaupverði vélarinnar, þó ekki yfir 32 millj. kr. Hér er um að ræða mjög mikilsvert samgöngubótamál. Flugflotinn, sem notaður hefur verið innanlands undanfarin ár, er orðinn nokkuð gamall og þarfnast mjög endurnýjunar við. Það eru komnar nýjar og mjög miklu afkastameiri flugvélar, sem ætlunin er að kaupa fyrir þessar samgöngur, og það hlýtur að vera gleðiefni öllum þeim, sem nota vilja flugvélar til innanlandsflugs, og þeir eru orðnir margir á Íslandi, að eiga nú von á því að fá nýjar og fullkomnar og í öllu tilliti nýtízkulegar flugvélar til þessara samgangna.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði samþ.