16.03.1965
Neðri deild: 55. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði á þessu ári um 55 millj. kr. í verðuppbætur á fisk. Því er lýst yfir í grg. frv., að ríkisstj. hafi gefið fyrirheit um þessa greiðslu, þegar samið var um fiskverð í upphafi þessa árs. Þeir fiskverðssamningar, sem þá fóru fram, voru á ýmsan hátt mjög athyglisverðir. Í fyrsta lagi vegna þess, að þeim samningum stjórnaði að þessu sinni aðalefnahagsmálaráðunautur ríkisstj., Jónas H. Haralz og réð mestu um þá samninga sem oddamaður í dómnum. Niðurstaða þessara samninga varð sem sagt sú, sem kemur fram í þessu frv., að aðalefnahagsráðunautur ríkisstj., sá sem hafði með ríkisstj. alveg sérstaklega markað viðreisnarstefnuna í efnahagsmálum, komst að þeirri niðurstöðu, að það væri óhjákvæmilegt nú að taka upp sérstakar verðuppbætur á fisk og taka upp sérstakar mismunauppbætur á fisk í ríkari mæli en áður hafði verið. Nú minnast menn þess í þessu sambandi, að það var einmitt eitt af aðalviðkvæðunum hjá þeim viðreisnarmönnum í upphafi viðreisnarinnar, að það væri alveg óhjákvæmilegt að gera efnahagsráðstafanir til þess að afnema allar uppbætur og þá ekki sízt uppbætur til aðalatvinnuvega landsins, og þá var því haldið sérstaklega fram, m.a. af þessum efnahagsráðunaut ríkisstj., Jónasi Haralz, að alveg sérstaklega væri hættulegt að haga uppbótagreiðslum þannig, að mismunað væri uppbótunum til hinna ýmsu framleiðslugreina í landinu. En nú sem sagt er hans úrskurður þessi. Nú á að veita sérstakar uppbætur úr ríkissjóði á fisk, sem veiddur er með handfæri og línu, fram yfir annan fisk, sem að landi berst. Nú er úrskurðurinn sá, að það skuli styrkja alveg sérstaklega þá fiskkaupendur og fiskverkendur í landinu, sem vinna að því að hraðfrysta fisk, en hinir, sem kaupa fisk á sama verði til herzlu eða til þess að salta hann, þeir skuli ekki fá neinar slíkar bætur.

Þetta segir ekki litla sögu um það, hvernig farið hefur með þessar kenningar efnahagsráðunautarins í þessum efnum. Hann hefur sem sagt orðið að standa frammi fyrir því að verða að samþykkja það eftir fimm ára viðreisnarstefnu, sem hann í upphafi viðreisnartímabilsins taldi að væri með öllu óalandi og óferjandi.

Þá er það ekki síður athyglisvert í sambandi við þessa samninga, sem fóru fram um fiskverðið í upphafi þessa árs, að þegar þessir samningar eru gerðir, þá hafði það skeð, að sjávarútvegurinn hafði búið við hagstæðara árferði en um langan tíma áður og miklu hagstæðara erlent markaðsverð en þekkzt hafði nokkurn tíma áður. Útflutningsverð á fiski hafði hækkað sérstaklega mikið og miklum mun meira m.a. á frosnum fiski en t.d. á hertum fiski. Það liggur sem sagt fyrir, að samið hefur verið við aðalkaupendur okkar að frosnum fiski nú, sumpart rétt fyrir áramótin og að nokkru leyti nú eftir áramótin, og aðalkaupendurnir, sem kaupa hraðfrystan fisk, borga nú hvorki meira né minna en 10% hærra verð en þeir gerðu árið á undan. Samkv. útreikningum þeirra, sem fást við fiskframleiðslu, þá hefur það verið gefið upp, að 10% verðhækkun á útfluttum fiskafurðum jafngildi fyllilega 50% launahækkun við framleiðsluna, en eigi að síður komst efnahagsráðunautur ríkisstj. að þeirri niðurstöðu, að þrátt fyrir þetta allt saman, hið góða árferði með aflann og aðrar kringumstæður, hina miklu verðhækkun á erlendum mörkuðum, þá yrði eigi að síður að samþ. sérstakar verðuppbætur að þessu sinni og það með þeim hætti, sem hann komst að niðurstöðu um. Þetta er að mínum dómi þungur áfellisdómur um viðreisnarstefnuna, sem gilt hefur í landinu nú um fimm ára tímabil.

Ég býst við því, að ýmsir þeir, sem heyra þessi orð mín, verði kannske nokkuð undrandi á því, að efnahagsráðunautur ríkisstj. skuli hafa komizt að þessari niðurstöðu, þegar kringumstæðurnar voru þessar, því að sannleikurinn er sá, að ef allt hefði verið með felldu, hefðu þessar greinar sjávarútvegsins vegna hækkandi markaðsverðs erlendis ekki átt að þurfa á neinum uppbótum að halda á þessu ári og þó búið mun betur en þær bjuggu fyrir rúmu ári. En hver er þá ástæðan til þess, að efnahagsráðunauturinn kemst samt sem áður að þessari niðurstöðu, að það verði að grípa til uppbóta?

Til þess að skýra það er í rauninni óhjákvæmilegt að líta nokkuð yfir það, sem var að gerast á s.l. ári í þessum efnum, og einnig til þess, sem hefur verið að gerast í fjármálum ríkisins að undanförnu. Við minnumst þess, að í janúarmánuði 1964, fyrir rétt rúmu ári, lagði ríkisstj. fram frv. hér á Alþingi um sérstakar ráðstafanir til stuðnings sjávarútveginum. Þá var lagt til að hækka söluskattinn úr 3% upp í 5 1/2% eða um 2 1/2%. Þær álögur mundu nema í kringum 300 millj. kr. á ári, en gert var ráð fyrir, að þessar álögur mundu þó skila í ríkissjóð nokkru lægri upphæð á árinu 1964, af því að innheimtan stæði ekki alveg allt árið. Það kom auðvitað í ljós, að þó að þessar miklu álögur væru samþ. hér á Alþingi undir því fororði, að þær væru gerðar til stuðnings sjávarútveginum, varð strax að upplýsa það, að verulegur hluti eða í kringum 1/3 af þessum álögum ætti nú að renna í ríkissjóð beint, en ekki til sjávarútvegsins. Ríkissjóður þurfti sem sagt á því að halda, að sagt var, að greiða hækkaðar bætur vegna almannatryggingalaga, og ríkissjóður þurfti einnig á meira fé að halda vegna niðurgreiðslu á verðlagi o.s.frv. En allt um það fékk sjávarútvegurinn þó nokkra upphæð, sérstaklega togaraútgerð fékk allmyndarlega upphæð af þessum álögum, sem þarna voru á lagðar.

En svo gerðist það bara, þegar kom fram undir árslokin eða nokkru fyrir síðustu áramót, að þá var ríkissjóður þannig á vegi staddur, að hann varð að tilkynna, að hann yrði að slá eignarhaldi sínu á þennan skatt, að ríkissjóð vantaði svo peninga, að þessi skattur yrði að renna í ríkissjóð, og það yrði að taka þennan stuðning af sjávarútveginum, sem hann hafði fengið með sérstökum skattaálögum.

Þess var getið í grg. fjárlfrv., að upphæð, sem næmi 95.5 millj. kr. og komið hefði út úr þessum sérstaka skatti, yrði nú á þessu ári látin renna beint í ríkiskassann, því að ríkissjóður þyrfti á upphæðinni að halda. Þegar þetta var samþ. hér á Alþingi, spurði ég sérstaklega um það, hvort það væri mat ríkisstj. á hag sjávarútvegsins, sem nú ætti að sjá af þessari upphæð beint í ríkiskassann, að sjávarútvegurinn mundi ekki þurfa á neinni frekari aðstoð að halda, eða hvort meiningin væri að koma aftur eftir nokkra mánuði og leggja á nýjar álögur til þess að hjálpa sjávarútveginum í staðinn, eftir að ríkissjóður hafði tekið þessar tekjur af honum. Við þessu fengust harla lítil svör, þegar var verið að gera þessar ráðstafanir um áramótin. En niðurstaðan er nú sem sagt þessi, að vegna þess að ríkissjóður þurfti að hirða til sín þær tekjur, sem áður runnu til sjávarútvegsins, þann skatt, sem hafði verið á lagður vegna sjávarútvegsins, þá þarf nú að koma á nýjan leik og segja: Nú þurfum við að láta sjávarútveginn fá nýja greiðslu upp á 55 millj. kr.

Það er að vísu ekki valin sú leið nú að leggja á nýjan skatt í þessu skyni. En hin leiðin er valin, að skera niður útgjöld ríkisins, sem ákveðin voru á nýlega samþykktum fjárl. til verklegra framkvæmda, sem þessu nemur.

Það kemur sem sagt í ljós, að fjármálastefna ríkisstj. hefur leitt til þess, að útgjöld ríkissjóðs hafa vaxið þannig jafnt og þétt, að ríkissjóður hefur þurft að draga til þær upphæðir, sem áttu að renna til atvinnuveganna, og ríkissjóður hefur hvað eftir annað gripið til ráðstafana, sem hafa íþyngt framleiðsluatvinnuvegunum og þar með sjávarútveginum, m.a. með því að leggja á söluskatt æ ofan í æ.

Það, sem raunverulega hefur verið að gerast í þessum efnum, er því það, að söluskattshækkunin, sem ákveðin var í upphafi ársins 1964, og svo aftur söluskattshækkunin, sem ákveðin var nú um síðustu áramót, en þessi sjávarútvegsins. hækkun nemur samanlagt úr 3% upp í 7.5% eða um 4.5%, en það nemur eftir þeim áætlunum, sem ríkisstj. hefur lagt fram, álögum upp á 560 millj. kr., — af þessari upphæð má segja, að eigi nú að renna til sjávarútvegsins skv. þessu frv. 55 millj. En það hefur verið staðið svo haganlega að þessu, að á meðan var verið að sækja þessar tekjur í vasa almennings í landinu, hefur alltaf verið sagt: Þetta erum við að gera til þess að bjarga útflutningsatvinnuvegum þjóðarinnar. Þetta erum við að gera, að leggja þetta á, til þess að bjarga sjávarútveginum. — En það er efnahagsmálastefna ríkisstj., það er fjármálastefna ríkisins, sem hefur leitt út í þessar ógöngur. Það er rétt, að menn geri sér fulla grein fyrir því.

En svo kemur með þessu frv. tilkynning um það, að nú sé óhjákvæmilegt fyrir ríkissjóð, þrátt fyrir alla þessa nýju skatta, sem á hafa verið lagðir og raunverulega hafa að mestöllu leyti runnið í ríkissjóð, þá sé óhjákvæmilegt að skera niður verklegar framkvæmdir á árinu 1965 upp á 120 millj, kr., draga sem sagt úr framkvæmdum, eins og hér hefur verið lýst, til byggingar skóla, byggingar sjúkrahúsa, hafnargerða og annarra slikra verklegra framkvæmda, um 20% frá því, sem nýlega hefur verið samþ. á Alþingi við afgreiðslu fjárl. Hér er um býsna stóra tilkynningu að ræða, og hún er sannarlega þess eðlis, að það hefði verið ástæða til þess, að ríkisstj. hefði gefið ýtarlegri og gleggri skýrslu hér á Alþingi um það, hvaða nauður rekur virkilega til þess, að svona er komið og að til þess arna þarf að grípa.

Sú skýring, sem hér hefur verið minnzt á, að ríkisstj. hugsi sér að skera niður verklegar framkvæmdir á vegum ríkisins og opinberra aðila um 120 millj. kr. vegna of mikillar þenslu á vinnumarkaðinum, vegna þess að það verði að skapa pláss fyrir annað, sem er nauðsynlegra, — sú skýring fær ekki staðizt. Að vísu skal ég játa, að það er mikil þensla á íslenzkum vinnumarkaði og vantar stórlega vinnuafl, m.a. til. framleiðsluatvinnuveganna. Það er rétt. En sú ríkisstj., sem á sama tíma og þetta gerist berst um á hæl og hnakka og reynir að rökstyðja það, að réttmætt sé og nauðsynlegt nú að ráðast í stóriðju á þeim grundvelli, sem lagt hefur verið fram, sem mundi heimta a.m.k. 1000 menn í byggingarvinnu í næstu 3—4 ár, — sú ríkisstj., sem telur það alveg nauðsynlegt, eins og nú háttar í íslenzku atvinnulífi, að ráðast í slíkar umdeildar framkvæmdir, getur ekki á sama tíma haldið því fram, að það sé nauðsynlegt vegna ástandsins á íslenzkum vinnumarkaði að minnka framkvæmdir við byggingu skóla, við byggingu hafna í landinu og annars slíks, sem nemur 120 millj. kr.

Eg álít alveg þvert á móti, að tal ríkisstj. og hennar ráðamanna um nauðsyn þess að ráðast í hinar miklu stóriðjuframkvæmdir beri alveg greinilega vott um það, að hún hefur enga grein gert sér fyrir því, hvernig ástatt er raunverulega á atvinnumarkaði í landinu nú. Við höfum sem betur fer búið við það á undanförnum árum, að sjávarútvegsframleiðsla okkar hefur farið ört vaxandi frá ári til árs. Afli, sem borizt hefur að landi, hefur aukizt nú í nokkur ár í kringum 20% á ári. En 20%, sem er 150—200 þús. tonn af afla, sem berst að landi, heimta vitanlega vinnuafl. Það er engin leið að koma þessu í útflutningsverðmæti án þess, að þetta heimti meira og meira vinnuafl. Og þannig hefur líka ástandið verið, að það hefur heldur engin leið verið að framleiða allt þetta vörumagn til útflutnings, án þess að það þyrfti að ráðast í allmiklar nýjar framkvæmdir, sem líka hafa heimtað vinnuafl. Það hefur því verið þannig ástatt hjá aðalframleiðslugreinum okkar á undanförnum árum, að framleiðslan hefur búið við meiri og meiri vinnuaflsskort. Það hefur vantað vinnuafl og alltaf farið versnandi frá ári til árs. En á sama tíma og þetta gerist hugsar þó ríkisstj. sér, að það verði gert án þess, að það hafi nokkra verulegar afleiðingar í efnahagskerfinu, að ráðast í stóriðjuframkvæmdir, sem heimta það vinnuafl, sem ég talaði um hér áðan.

Nei, það er enginn vafi á því, að allur undirbúningur og sá mikli áhugi, sem hefur komið fram hjá ríkisstj. í sambandi við stóriðjuframkvæmdirnar, ber þess einmitt glögglega vott, að hún hefur ekkert gert sér grein fyrir því, hvernig ástandið ar á íslenzkum vinnumarkaði nú í dag. Ef hún hefði gert það, þá hefði hún auðvitað tekið upp allt aðra stefnu í fjárfestingarmálunum en hún hefur gert. Þá mundi hún fara inn á þá braut að raða niður framkvæmdunum á annan veg en nú hefur verið gert.

Ríkisstj. hefur reynt á undanförnum árum af allmiklu kappi að afgreiða fjárlög fyrir áramót. En það hefur ekki verið ýkjamikið að marka þessa fjárlagaafgreiðslu, sem drifin hefur verið í gegn fyrir áramót. Eins og ég sagði áðan, var þannig að farið í byrjun ársins 1964, að ekki hafði liðið nema einn mánuður, frá því að fjárlög voru afgreidd, að ríkisstj. kom fram með frv. á Alþ., sem í rauninni alveg umturnaði fjárlagaafgreiðslunni með því að leggja á landsmenn nokkur hundruð millj. kr. í nýjum sköttum. Og nú er þannig farið, að fjárlögin voru að vísu afgreidd núna fyrir jól, en svo er strax farið í það að gjörbreyta því, sem ákveðið var með setningu síðustu fjárlaga. Þær fjárveitingar, sem þar voru samþykktar, eiga ekki lengur að standa. Nú er þeim raskað, og allri fjárlagaafgreiðslunni er raskað.

Ástæðurnar eru einfaldlega þær, að mínum dómi, að efnahagsmálastefna ríkisstj. hefur verið að hrynja að undanförnu. Af því er gripið til vinnubragða eins og þessara. Það er með flaumósuhætti unnið að afgreiðslu fjárlaga, sem menn hafa alls ekki séð, hvernig á að standa við, og síðan er rokið til á eftir að leggja fram mikilsverð fjárlagafrv. í rauninni eða frv. um mikilsverð fjárhagsmálefni rétt á eftir, sem í grundvallaratriðum raska sjálfri fjárlagaafgreiðslunni.

Ég álít, að kjarni þessa máls, sem ég hef gert hér að umtalsefni, sé sá, að þær ráðstafanir, sem nú er ákveðið að gera með því að skera niður verklegar framkvæmdir ríkisins um 120 millj. kr. árið 1965, eru ekki gerðar vegna sjávarútvegsins eða vegna stuðnings við hann. Ríkisstj. getur sparað sér það algerlega að afsaka þennan mikla niðurskurð, sem nú á að framkvæma á verklegum framkvæmdum, með því, að hún sé að auka stuðning sinn við sjávarútveginn. Um það verður ekki deilt, enda kom það skýrt fram í ræðu hæstv. sjútvmrh., þegar hann talaði hér fyrir frv., að honum er ljóst, að stuðningurinn við sjávarútveginn á að vera minni á þessu ári en hann átti að vera árið á undan. Það er því ekki verið að skera niður útgjöld til verklegra framkvæmda samkv. fjárlögum vegna stuðnings við sjávarútveginn. Það er rangt. Þessi niðurskurður á sér stað vegna þess, að ríkisstj. telur, að svo sé komið fjárhag ríkisins, að fjárl. fái ekki staðizt.

Það var mikið ógæfuspor, sem hæstv. ríkisstj. steig, þegar hún hækkaði söluskattinn í lok s.l. árs. Með því hvarf ríkisstj. í rauninni frá þeirri verðstöðvunarstefnu, sem hún hafði á óbeinan hátt lofað með júnísamkomulaginu við verkalýðsfélögin á s.l. sumri. Þá velti hún af stað á nýjan leik þeim verðhækkunum, sem vitanlega halda áfram að spinna upp á sig, og þær ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur gert síðan, og hafa í rauninni miðað að því að þrengja kosti útflutningsatvinnuveganna, minnka þann stuðning, sem þeir voru aðnjótandi áður, og leggja á útflutningsatvinnuvegina ný gjöld, — þessar ráðstafanir fá ekki heldur breytt því, að það verður óhjákvæmilegt að ganga inn á meginsjónarmið launþegasamtakanna í landinu í sambandi við nýja kjarasamninga á komandi sumri. Það, sem liggur fyrir launþegasamtökunum alveg skýrlega í þessum efnum, er það, að á undanförnum árum hefur afkoma þjóðarbúsins verið mjög hagstæð og þó aldrei hagstæðari en nú á s.l. ári. Það liggur einnig fyrir verkalýðssamtökunum í landinu, að verð á útflutningsvörum þjóðarinnar hefur farið stórhækkandi. Þetta allt skapar grundvöli að því að mæta kröfum launþegasamtakanna um hækkun á því kaupi, sem augljóslega er orðið allt of lágt miðað við verðlagið í landinu. Það verður því algerlega þýðingarlaust fyrir efnahagssérfræðinga ríkisstj. eða ríkisstj. sjálfa að reyna að koma fram með slik rök, þegar verður setzt að samningaborðinu í vor, að svo sé ástatt fyrir framleiðsluatvinnuvegum landsins, að þeir geti ekki borgað hærra kaup. Ef þeir hefðu fengið að búa að sinu, án þess að verða fyrir búsifjum af hálfu ríkisstj. með hækkuðum sköttum, án þess að ríkisstj. hefði tekið í ríkissjóð þær tekjur, sem framleiðsluatvinnuvegirnir áttu að hafa, var auðvelt að mæta kauphækkunarkröfum verkafólks á hendur útflutningsatvinnuvegunum. Af því stendur nú ríkisstj. frammi fyrir því, að hún verður einnig að mæta því eftir nokkra mánuði, að það hlýtur að verða samþykkt mjög veruleg kauphækkun til alls verkafólks í landinu. Allar ytri ástæður mæla með slíku og skapa rök fyrir slíku. Það er aðeins það eina, sem þar stendur í véginum, að efnahagsmálastefna ríkisstj. hefur þarna þvælzt fyrir og hefur gert aðstöðuna alla erfiðari. En þó að svo sé ástatt með þá efnahagsmálastefnu, að hún vinni hér öndvert gegn, er alveg óhugsandi, að verkalýðssamtökin í landinu taki tillit til slíks, heldur verður ríkisstj. að lærast það, að hún verður að breyta um efnahagsmálastefnu frá því, sem verið hefur.

Í grg. þessa frv. er einnig skýrt frá því, að ríkissjóð vanti 65 millj. kr. til þess að standa undir 6.6% launahækkun til opinberra starfsmanna. Enginn vafi getur nú leikið á því, að ríkisstj. hlýtur að hafa gert sér grein fyrir því, áður en fjárlög voru samin, að til greiðslu eins og þessarar hlyti að koma. Kröfur um launahækkun til opinberra starfsmanna höfðu komið fram, og ég hygg, að ríkisstj. hafi, áður en hún afgreiddi fjárl., verið búin að viðurkenna það, að til einhverrar hækkunar í þessum efnum yrði að koma. Hér er því í rauninni ekki um neinn nýjan útgjaldalið að ræða þannig séð. Þessi útgjaldaliður hefur eins og hinir komið til vegna þeirrar stefnu, sem ríkisstj. hefur rekið í efnahagsmálum. Hér er beinlínis um afleiðingu af aðgerðum hennar sjálfrar að ræða.

Ég skal svo ekki ræða hér frekar um þetta frv. Það hefur aðeins gefið mér tilefni til þess að ræða hér nokkuð um efnahagsmálin á breiðari grundvelli. Sjálft frv. fjallar um ekki ýkja veigamikil atriði, ákveðnar greiðslur til sjávarútvegsins, sem þó eru mun minni en þær greiðslur voru, sem sjávarútvegurinn bjó við áður. Því er meginefni frv. ekki þess eðlis, að það gefi út af fyrir sig tilefni til langra umræðna.