24.11.1964
Efri deild: 22. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

5. mál, verðtrygging launa

Fors:

h. (Bjarni Benediktsson): Herra forseti. Frv. þetta hefur verið til meðferðar í hv. Nd: og var samþ. þar einum rómi. Það er fram borið til staðfestingar einum meginþætti í því samkomulagi, sem gert var í júní s.l. milli ríkisstj., Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Það samkomulag var raunar í mörgum liðum, en fyrsti liður þess eða þáttur var um verðtryggingu kaupgjalds, og er þetta frv. að öllu leyti í samræmi við það, sem menn komu sér saman um. Hitt er annað mál, að deilt hefur verið um það, hvort skynsamlegt væri að hafa slíka verðtryggingu eða verðlagsuppbót, og hún var 1960 numin úr lögum eftir að hafa verið nokkuð lengi í gildi, þótt með breytilegum hætti væri. En þó að þá væru rík rök til þess að afnema reglurnar um verðlagsuppbót, þóttu á s.l. sumri mjög rík rök til þess að taka upp verðtryggingu aftur, vegna þess að það var þá eina ráðið eða forsenda þess, að nokkur vinnufriður fengist til frambúðar. Þó hygg ég, að flestir eða allir séu nú sammála um, að vel hafi verið ráðið, að um þetta var samið.

Ég vonast til þess, að frv. fái greiðan framgang í þessari hv. d., og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.umr. lokinni.