18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh, hélt hér langa og mikla ræðu, ekki mjög hjartnæma nema síðustu orðin, sem hann tók úr þjóðsöngnum okkar. Hann endaði með því að lýsa því yfir, að nú væri „gróandi þjóðlif með þverrandi tár.“ Það átti sjálfsagt að skilja það svo, að sá gróandi og þau þverrandi tár, sem kannske eiga sér nú sem betur fer stað í þjóðlífinu, væru þessari hæstv. ríkisstj. að þakka. Slíkt er náttúrlega misskilningur, eins og hinum glöggskyggna ráðh. er vitanlegt. Og í viðbót við þau tár, sem þjóðin kann að fella og hefur fellt út af því að þurfa að búa við slíkan forsrh. og slíka ríkisstj. sem hún þarf nú að búa við, þá eykst hryggðin einmitt við þær síðustu fregnir, að hæstv. ríkisstj. hafi ákveðið að skera niður hvorki meira né minna en fimmtung af því allt of litla fé, sem Alþingi ákvað í vetur að veita til verklegra framkvæmda á þessu ári.

Hæstv. forsrh. vildi afsanna m.a., að útgerðin væri illa stödd, afsanna það með því að minnast tveggja útgerðarmanna, sem hafa verið nefndir við sögu þessa máls við síðustu umr. þess, og lýsti því yfir, að það væri ekki útlit fyrir, að útgerðin væri illa leikin, þar sem þessir menn væru og hefðu verið með duglegustu útgerðarmönnum og með þeim ríkustu, en væru þó ekki enn búnir að segja sig til sveitar. Það á sem sagt að vera mælikvarðinn í þessu efni, hvort útgerðin og útgerðarmenn eru komnir á það stig að vera búnir að segja sig til sveitar. Eftir þessum mælikvarða vill líklega hæstv. ríkisstj. dæma afkomu eða afkomuleysi þessara og annarra atvinnugreina.

Hæstv. ráðh. gat þess líka, að allar framkvæmdir kostuðu fé, stórfé meira að segja. En hann nefndi ekki það stórfé, sem færi í óhófseyðslu ríkisstj. Kostar hún ekki líka stórfé? Hann gat þess ekki, en hann hafði úrtölurnar á lofti og afsakanirnar fyrir niðurskurði í sambandi við fjárveitingar, vegna þess að framkvæmdir kostuðu stórfé.

Í svipuðum dúr var ýmislegt fleira af því, sem hæstv. ráðh. talaði í afsökunarskyni vegna niðurskurðar á framkvæmdafénu.

Frv. það, sem hér er til meðferðar, fjallar að forminu til um fjárhagsaðstoð til sjávarútvegsins, og er talið, að sú fjárhæð, sem leggja þarf þar fram, muni nema um 55 millj, kr. Vafalaust er þessi aðstoð óhjákvæmileg og þarf ekki að vera neinum undrunarefni, þegar á það er litið, hve þessi mikilvægi atvinnuvegur er orðinn margtröllriðinn af völdum efnahagsmálastjórnar ríkisstj. Hefur ríkissjóður eðlilega fyrir nokkrum árum orðið að veita sjávarútveginum aðstoð og Alþingi heimilað fé til þeirra hluta, en það fjármagn hefur fljótlega sogazt inn í eyðsluhít ríkisstj. og því nú óhjákvæmilegt að afla nýs fjármagns til nauðsynlegustu aðstoðar.

Þessu frv. um aðstoð til sjávarútvegsins fylgir svo sú tilkynning, að ríkisstj. vanti enn fremur 65 millj. kr. til að standa straum af launahækkunum þeim, sem ákveðnar voru til opinberra starfsmanna skv. samkomulagi þar um skömmu eftir áramót. Það getur enginn efi leikið á því, að hæstv. ríkisstj. hefur vitað um þessa 120 millj. kr. útgjaldabyrði, áður en endanlega var gengið frá fjárl. ársins. En hana hefur skort einurð og þrek til þess að láta þá upphæð koma inn í útgjaldadæmið og láta Alþingi þar með fjalla um málið, eins og vera bar og skylt var í sambandi við afgreiðslu fjárl. En hæstv, ríkisstj. kaus heldur þá leiðina að fá stuðningslið sitt á Alþingi til að samþ. niðurskurðarheimild sér til handa á fjárveitingum til verklegra framkvæmda, heimild, sem fæstir stjórnarliðar munu hafa látið sér detta í hug, að ríkisstj., stjórn þeirra, mundi nota, og má segja, að slíkt hafi verið að vonum. En nú hefur þingheimur fengið tilkynningu um, að hæstv. ríkisstj. ætli að fresta fjárveitingum til verklegra framkvæmda um 20% eða um 120 millj. kr. Með þessu ætlar hæstv. ríkisstj. að fótumtroða gildi fjárl. og ómerkja mörg þýðingarmestu ákvæði þeirra.

Það hefur ætíð þótt lítilmótleg framkoma að nota sér möguleika, sem aðili kann að hafa til að skjóta sér undan að greiða af höndum fé, sem honum ber að greiða og hann hefur sjálfviljugur undirgengizt að annast og inna af höndum, og mótaðili er jafnframt í þeirri góðu trú, að greiðslan fari refjalaust og skilvíslega fram. Og því litilfjörlegri er slík framkoma, þegar vitað er, að á undan hefur farið fjárplógsstarfsemi, sem meðfram hefur verið afsökuð með því, að nú þurfi að ná inn fé til að inna af höndum þær fjárgreiðslur, sem um er að ræða. Slík framkoma hefur aldrei verið talin stórmannleg og á engan hátt réttlætanleg og allra sízt þegar ríkisstj. á í hlut. Slíkur fjárdráttur eða m.ö.o. fjárflutningur af hendi hæstv. ríkisstj. frá þeim, sem fengið hafa loforð um ríkisfé skv. fjárl., yfir til annarra óskyldra útgjalda, hlýtur að valda réttlátri reiði og þá ekki sízt þeirra, sem bíða með tvær hendur tómar eftir lofuðu fé frá hinu opinbera til þess að hrinda af stað framkvæmdum í þágu almennings.

Fólkið úti á landi vill ekki enn trúa þeirri fregn, að hæstv. ríkisstj. hafi tekið endanlega ákvörðun um að fella niður fimmtung af því tiltölulega litla og allt of litla fé, sem ákveðið var á síðustu fjárl. til verklegra framkvæmda á þessu ári. Fólkið kallar þetta svik, og það vill í lengstu lög ekki þurfa að trúa slíku á hæstv. ríkisstj. Það verður og vafalaust verkefni hæstv. ráðh. og stuðningsblaða þeirra að benda fólkinu á, að slík ákvörðun sé a.m.k. ekki venjuleg svik og náttúrlega sé það að þakka meiri hl. Alþingis og forsjá hæstv. ríkisstj., að gengið sé þannig frá fjárl., að hægt sé að gera svona svik lögleg.

Hitt getur verið erfiðara fyrir suma dreifbýlisþingmenn stjórnarliðsins, að verjast ámæli af að hafa gefið ríkisstj. það voðavopn í hendur, sem 46. liður 22. gr. fjárl. sýnir sig nú að vera. Og svo verður þessum hv. þm. líka erfitt að fella þennan niðurskurðarþátt inn í lofsöng stjórnarflokkanna um byggðajafnvægi og stuðning við hinar dreifðu byggðir. Vafalaust munu þeir reyna að finna leið til þess, og það eru nú þegar svo margir falskir tónar í þeim lofsöng, að þeim verður vafalaust ekki mjög erfitt um að bæta þar einum fölskum tón við. Sú heimild í 22. gr. fjárl., sem niðurskurðurinn er byggður á, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Að fresta til ársins 1966 verklegum framkvæmdum ríkisins, sem fé er veitt til á fjárl. fyrir árið 1965. Sama gildir um greiðslu framlaga til annarra aðila, sem ákveðin eru í fjárl. 1965.“ Hér virðist ekki vera um að ræða heimild til að fella fjárveitinguna úr gildi, heldur aðeins heimild til að fresta framkvæmd til 1966 og þar með að fresta útborgun á þeim hluta fjárins, sem ákveðið hefur nú verið að greiða ekki út á þessu ári. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Hvernig hyggst hún geyma þau 20% af fjárveitingum til verklegra framkvæmda skv. fjárl. þessa árs? Verður það t.d. sett á biðreikning hvers verks og handbært til notkunar á næsta ári, strax og þörf er fyrir? Og ef svo bæri til, að aðilar einhverra framkvæmda gætu á þessu ári útvegað bráðabirgðalán til verksins, sem svaraði þeirri upphæð af fjárveitingu þessa árs, sem ríkisstj. ætlar ekki að greiða út fyrr en 1966, má þá treysta því, að yfirlýsing fáist um, að hlutaðeigandi fjárhæð liggi laus fyrir til útborgunar strax eftir lok þessa árs til greiðslu á bráðabirgðaláni, sem tekið kynni að verða til verksins í ár?

Það má segja, að það væri í raun og veru ástæða til að spyrja enn fremur hæstv. ríkisstj., hvort hún telur ekki eðlilegt og sjálfsagt, að fjárveitingar skv. fjárl. til verklegra framkvæmda á næsta ári ákveðist án tillits til þess fjár, sem hlutaðeigandi framkvæmd kann að eiga inni hjá ríkinu af fjárveitingu 1965. Það er út af fyrir sig æskilegt að heyra eitthvað frá hæstv. ríkisstj. um þetta, þó að ég hins vegar voni, að það komi ekki til kasta þessarar hæstv. ríkisstj. að fjalla um þau mái, þegar þar að kemur.

Það er út af fyrir sig sorgleg og raunaleg og reyndar óþolandi staðreynd, hve þessi hæstv. ríkisstj. er reikul í ráði yfirleitt og ráðdeildarlaus í meðferð fjármuna. Ég skal ekki fjölyrða um það, þótt það sé nú fyrir löngu deginum ljósara, að hún hefur þverbrotið flest sín hátíðlegu loforð, sem hún gaf út og byggði stjórnarstefnu sína á í upphafi. Ég læt það vera, því að margt af þeim trúarlærdómi, sem hún gaf út í sinni hvítu bók, sem hún lét heita eftir sér og kallaði „Viðreisn“, var að margra dómi gersamlega vonlausir hlutir og í raun og veru sumt hættulegt í framkvæmd. En í stað þess að sinna þeirri lýðræðíslegu skyldu að segja af sér eftir að hafa beðið skipbrot í flestum þeim málefnum, sem hún hafði lofað að framkvæma, hangir hæstv. ríkisstj. áfram og hrekst eins og stjórniaust fley frá einum boðanum á annan og veit þar af leiðandi ekki sitt rjúkandi ráð. Í einu er hún þó sjálfri sér samkvæm. Hún heimtar einlægt meira og meira fé til þess að halda stjórnarskútunni á floti, og hún horfir ekki í það, að þegar enn eru lagðir fjármunir til nauðsynlegra hluta, eins og til verklegra framkvæmda, og hún hefur samtímis fengið heimilaðar skattaálögur, sem munu nema á þessu ári allt að 300 millj., þá er það henni ekki nóg í viðbót við skattpíningar undanfarinna ára, heldur kemur á daginn, að hæstv. ríkisstj. ætlar að hafa sig undan greiðslu á fimmtungi af framlagi þessa árs til verklegra framkvæmda, og það má segja, að annað eins hafi skeð og það, að hún hugsi nú ráð sitt, hvernig hún á að komast út úr því að geta fellt þessi 20% algerlega niður til þess að þurfa ekki að greiða þá upphæð út. En það er ekki ástæðulaust að spyrja, hvers vegna ríkisstj. skuli þá ekki loksins nú detta í hug að grípa til einhverra af hinum margumtöluðu sparnaðarráðstöfunum sínum. Ég held, að það væri nær fyrir hæstv. forsrh. að grípa til skjóðunnar, þar sem þessi loforð eru fyrir hendi, og vita, hvort hæstv. ríkisstj. hefði ekki, — ja, við skulum segja manndóm eða vilja eða getu til þess að grípa til einhverra þeirra sparnaðarráðstafana, heldur en að hrópa hér út yfir þingheim og spyrja: Hver eru ráð Framsóknar? Þetta er náttúrlega mikil uppgjöf í þessu máli, að hæstv. ríkisstj. viðurkennir sparnaðarloforð sín og viðurkennir örþrot ríkisstj. og verður þess vegna að kalla eftir þeim sparnaðarráðstöfunum, sem stjórnarandstaðan gæti lagt fram. En það þarf sennilega ekki að undra hæstv. ráðh., þó að slíkt sé ekki talið hafa mikla þýðingu, að leggja þeim lið á þann hátt, vegna þess að það er búið að margsýna sig, að þessi hæstv, ríkisstj. er stjórna ófúsust á að taka nokkuð gott til greina, ef það kemur frá stjórnarandstöðunni. Það er þá ekki fyrr en allt er komið í þrot, að hún fer að hugleiða að grípa til einhvers þess, sem stjórnarandstaðan hefur lagt til.

Á þessu ári ráðgerir hæstv. ríkisstj. að innheimta hjá þjóðinni meir en 31/2 milljarð kr. Það fór nú ekki mikið fyrir stjarnfræðikennslu í gagnfræðaskólum, þegar ég var þar, ég þekkti þessar tölur, en ég skynjaði ekki gildi þeirra, og það má þá kannske segja þessari hæstv. ríkisstj. til hróss, að þær eru komnar niður á jörð og maður fær að þreifa á þeim.

Þessa 31/2 milljarð hefur svo ríkisstj. til ráðstöfunar skv. fjárl. þessa árs, og af þeim tölum, sem fylgja þessu frv., sem hér er til umr., lítur út fyrir, að ráðgert hafi verið, að af þessum 31/2 milljarði ættu að ganga 600 millj. til verklegra framkvæmda af opinberri hálfu. Skv. þessu virðast því hin raunverulegu rekstrarútgjöld ríkissjóðs nema nú um 2.9 milljörðum eða um 83% af þessum 31/2 milljarði, sem ráðstafað hefur verið til notkunar á þessu ári, og af því getur hæstv. ríkisstj. ekki séð af 600 millj. til verklegra framkvæmda.

Þegar þessar 120 millj. eru dregnar frá þeim 600, sem talið er, en ég hef ekki sannprófað, að hafi átt að ganga til verklegra framkvæmda á þessu ári og til annarra slíkra framlaga hliðstæðra, eru eftir 480 millj. Þá kemur fram, að það eiga að ganga rösk 13% af þessum 31/2 milljarði til verklegra framkvæmda í landinu. Hitt fer í lögbundin gjöld og eyðslu.

Þegar svona er komið, hefði mátt vænta þess, að ríkisstj. hefði reynt að fara að sýna alvarlega viðleitni í sparnaðaráttina, eins og ég vék áðan að. Það er ekki úr svo litlu að moða. Eftír því sem tölfróðum manni telst til, hafa verið gefin 59 — fimmtíu og níu — opinber sparnaðarloforð af hálfu ríkisstj., og ekki minnist ég þess, að neitt þeirra hafi verið framkvæmt, a.m.k. ekkert, sem máli skiptir.

Í ræðu hæstv. sjútvmrh., sem hann flutti, þegar þetta mál var lagt fyrir þd., gat hann þess, að sú fjárfúlga, sem 20% mundu verða dregin frá, mundi vera milli 500 og 600 millj. kr. 1 grg, frv. er slegið föstu, að það séu 600 millj., og þar með engin önnur tala nefnd, en að 20% af því séu 120 millj. En í tilefni af orðum hæstv. sjútvmrh. vildi ég spyrja: Ef það kemur í ljós, að sú fjárfúlga, sem á að draga 20% frá, nær ekki 600 millj., heldur verður eitthvað lægri, á þá e.t.v. að hækka prósentufrádráttinn, t.d. úr 20 í 25, eða á að láta sitja við þá frádráttaruphæð, sem fæst með 20% af þeirri fjárhæð, sem sönnust reynist í þessum efnum?

Í tilefni af þessu og í raun og veru þótt þessi orð hefðu ekki fallið, þá er margföld ástæða að krefjast þess af ríkisstj., að hún gefi m þegar tæmandi skýrslu um, hvaða fjárveitingar er um að ræða í sambandi við greiðslufrestinn. Mér þykir það ekki ótrúlegt, að hv. stjórnarstuðningslið taki undir þessa ósk, en hún er jafnsjálfsögð, þó að þeir telji það ekki máli skipta að fá slíkar upplýsingar í hendur.

Þótt ekki liggi fyrir tæmandi upplýsingar um, hve vítt fyrirhugaður greiðslufrestur á að ná, þá er það augljóst mál, að hann mun ná til allra bráðnauðsynlegustu fjárveitinga um allt land og hafa hættuleg og óheillavænleg áhrif, — óheillavænleg áhrif á þá möguleika, að hægt sé að ná þeirri framkvæmdaáætlun, sem ætlað var og mikla nauðsyn ber til að náð verði á þessu ári. Ég skal ekki telja upp þá fjárveitingaliði, sem mestum vandræðum mun valda, að skertir séu. Það hafa aðrir hv. þm. vikið að því, og ég skal ekki endurtaka það. Það dylst hins vegar engum, að þessi boðskapur og ráðstöfun ríkisstj. er hallærisráðstöfun. Það mætti segja, að ekki þýddi að deila við dómarann, ef um væri að ræða hallæri vegna náttúrlegrar óáranar af völdum fyrirbæra, sem við fáum ekki ráðið við. En að slókt sem þetta skuli skella yfir í einu hinu mesta góðæri til sjávar og sveita, sem þjóðin hefur nokkurn tíma búið við, slíkt er auðvitað óþolandi. Ríkisstj. verður að sætta sig við þann dóm, að hún sé bendluð við þá fjárhagslegu óáran, sem yfir þjóðina hefur dunið á undanförnum árum. Þessi hæstv. ríkisstj. mun því ætíð verða kennd við fjármálaóreiðu og ráðleysi. Hún er vissulega hallærissmiður og plága þjóðarinnar, sem stritast við að sitja, hvað sem þjóðarhag liður. Hún ætti því nú að sýna þjóðinni þá hollustu að segja af sér. Syndamælir þessarar hæstv. ríkisstj. er fyrir löngu fullur, en nú flóir fyrst út af, svo að mark er að, þegar fyrir liggur, að 31/2 milljarður hrekkur ekki til að mæta útgjöldum ríkisins, og í ljós kemur, að hún vílar ekki fyrir sér að skerða stórlega það smátt skammtaða fé, sem Alþingi er búið að ákveða, að ganga skuli til verklegra framkvæmda á þessu ári, en á sama tíma situr fjármunaeyðslan í öndvegi og fer vaxandi. Þessa hæstv. ríkisstj. virðist of lítið varða um þjóðarhag, a.m.k. í sambandi við fólkið, sem býr úti á landsbyggðinni. Alþingi verður að stöðva þennan ósóma. Það verður að dæma þessa ríkisstj. úr leik, eins og hinir fornu Breiðfirðingar á sínum tíma dæmdu hina illræmdu svokölluðu Fróðárhirð til að hverfa af sjónarsviðinu.