18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Forsrh. (Bjarni Bediktsson):

Herra forseti. Ég gat því miður ekki heyrt alla ræðu þessa hv. þm., sem hefur á skömmum þingmannsferli getið sér mikið frægðarorð, því að hann hefur staðið hér upp og látið uppi undrun sína yfir því, að þm. skyldu tala samkv. því, sem sannfæringin segir þeim, en ekki dylja hug sinn. Þessi boðskapur er nokkuð nýr á Alþ., að hann sé sagður jafnberum orðum, jafnvel þó að við höfum haft flokksmenn hv. þm. grunaða um, að þeir fylgdu þessari kenningu nokkuð lengi. En ég vildi aðeins, af því að ég heyrði niðurlag ræðu hv. þm., sýna fram á, hvernig hann fer með ummæli. Hann sagði, að ég hefði haldið því fram hér á Alþ., að hjúkrunarkonurnar hefðu haft óviðeigandi aðferðir í þessu máli. Ég vil leyfa mér að lesa upp það, sem ég sagði, orðrétt, eins og stendur með leyfi hæstv. forseta:

„En furðulegast af öllu var þó, þegar hv. þm. sagði, að hjúkrunarkonur hefðu nú hundruðum saman eftir áramótin skrifað undir áskorun um byggingu hjúkrunarkvennaskóla og þannig yrði að reka þessi mál áfram með svipum, eins og hann sagði. Það er að vísu rétt, að nú eftir áramótin barst ríkisstj. í hendur plagg frá hjúkrunarkonum, þar sem samþykkt er að skora á hæstv: ríkisstj. að greiða fyrir byggingu Hjúkrunarskóla Íslands, svo að henni verði lokið hið bráðasta. Eftir plagginu sjálfu er hins vegar svo að sjá, að þessi samþykkt hafi verið gerð hinn 11. ágúst 1964, og okkur undraði áhugi forustukvenna, þegar við fengum plaggið í hendur einhvern tíma í febrúar, að það skyldi hafa tekið allan tímann frá því í ágúst þangað til í febrúar að skjóta því upp í Stjórnarráð. Nú upplýsir hv. þm., að þetta plagg hafi fyrst verið undirritað eftir áramótin. En svipuhöggin, sem þurfti að greiða, og áhrifamátt þeirra má sjá af því, að í 20. gr. fjárl. eru ætlaðar undir XIII. lið, 20. gr., 11. undirlið, 7 millj. kr. til byggingar hjúkrunarskóla, þannig að ríkisstj, og Alþ, voru þegar áður en þetta plagg var undirritað búin að gera ráðstafanir til þess bæði að afla fjár og gera annað, sem þurfti, til þess að í þessa byggingu yrði ráðizt. Það mun vera rétt, að lánsheimild, sem var fyrir hendi í fyrri fjárl., var ekki beitt á síðasta ári, af því að þá var málið ekki nógu undirbúið af hálfu stjórnar skólans. Látum það eiga sig. En hitt er óhagganlegt, að áður en þessi undirskriftasöfnun var hafin, sem hv. þm. nú upplýsir að hann á einhvern hátt er sérstaklega kunnugur, var búið að gera ráðstafanir til þess, að þessi skólabygging yrði hafin og henni haldið áfram með öllum mögulegum hraða, þangað til henni lyki. Á hitt má svo einnig minna í þessu sambandi, að til fárra skóla hefur á seinni árum verið varið meira fé en einmitt hjúkrunarkvennaskólans á landsspítalalóðinni, enda sjá það allir, sem þar fara um, að þar er fyrir hendi mjög stór og vegleg bygging. Ástæðan til þess, að hún hefur hins vegar komið að minni notum en ella, er sú, að forstöðufólk stofnunarinnar taldi ráðlegra og varði til þess of fjár, að þarna væri um algeran heimavistarskóla að ræða, þannig að meginhluti húsrýmisins er undir heimavist, en ekki sjálfar skólastofurnar. Ég þori að fullyrða, að ef með þennan skóla hefði verið farið á svipaðan hátt og aðra skóla hér í Reykjavík, fyrst og fremst hugsað um skólastofur og aðrar slíkar aðstæður, hefði hjúkrunarkvennaskólinn fyllilega nægt þann dag í dag. Það er sú ákvörðun forustumanna stofnunarinnar að hafa þetta heimavistarskóla, sem hefur gert að verkum, að skólinn varð of litill fyrr en flesta grunaði og menn áttuðu sig á og nú þarf enn að verja of fjár í þessu skyni. Ég hef enga þekkingu til þess að dæma um réttmæti þess, að allir hjúkrunarnemar eigi að vera í heimavist í sínum skóla. Ég veit hins vegar, að það er einstætt skilyrði um skóla hér í Reykjavík, að sá háttur sé á, og ég hef einnig lesið ádeilu á þá aðferð frá aðila, sem mér skilst að telji sig hafa sérþekkingu í þeim efnum. Það eru atriði, sem ég skal ekki blanda mér í. Hitt stendur óhagganlegt: í þessu skyni hafa verið gerðar þær ráðstafanir, sem stjórnvöld á sínum tíma töldu fullnægjandi. Og nú enn var búið, áður en þetta svipuhögg var reitt, sem hv. þm. talaði hér áðan um, af hálfu ríkisstj. og Alþ. að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að skólabyggingunni yrði haldið áfram, og þess vegna voru þau ummæli, sem hér voru viðhöfð, vægast sagt mjög óviðeigandi.“

Þetta er orðrétt það, sem ég sagði. Ég taldi ummæli hv. þm., þegar hann talaði um svipuhögg, sem enn þyrfti að beita gagnvart ríkisstj., mjög óviðeigandi. Svo kemur þessi hv. þm. og segir hér, vegna þess að hann hefur vissa áheyrendur, að ég hafi sagt, að framkoma hjúkrunarkvenna væri mjög óviðeigandi. Hér mega allir dæma um, hvert mark er takandi á orðum þessa hv. þm. Hitt er svo annað mál, að ég lét líka uppi, að okkur hefði undrað það, að það skyldi taka allt frá því í ágúst fram í febrúar að koma undirskriftaskjalinu upp í Stjórnarráð. En þessi hv. þm. hafði fullyrt hér í þinginu, að undirskriftirnar hefðu fyrst verið hafnar eftir áramót. (Gripið fram í.) Jú, hv. þm. fullyrti það víst, að þær hefðu farið fram eftir áramót. (Gripið fram í.) Við höfum nú heyrt, hvað er að byggja á því, sem þessi þm. segir, og honum ferst ekki að leiðrétta aðra. En ef hann getur sýnt, að ég hafi misheyrt, skal ég biðja hann afsökunar að sjálfsögðu og geri það fyrir fram. En ég ætlast ekki til þess, að hann biðji mig afsökunar á útúrsnúningi orða minna, vegna þess að til þess hefur hann ekki manndóm. En það var það, sem ég sagði, að hann hefði beitt óviðeigandi orðum, þegar hann talaði um, að það hefði þurft svipuhögg á ríkisstj., það svipuhögg að fá þessar áskoranir, sem voru afhentar í febrúar, og hann sagði eða ég skildi hann svo, að þeim hefði verið safnað eftir áramót. En hvað sem því liður, koma þær fyrst okkur til vitundar í febrúar. Og hv. þm. ætlar nú að reyna að snúa sig út úr því, að við höfum vitanlega verið kunnugir þessum áskorunum, þegar till. er borin fram í desember. Hvernig áttum við að vera kunnugir þessum áskorunum? Ég hafði aldrei heyrt þær nefndar, hef sannast sagt allt öðru að sinna en að skeyta um slíkt. Það er hv. þm., sem hefur hlaupið á sig með stóryrðum hér um ríkisstj., illyrðum og síðan skrökvað því hér, að ég hafi sagt það um framkomu hjúkrunarkvenna, sem ég að maklegu sagði um hann.