18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég treysti mér varla til þess að blanda mér inn í þær umr., sem hafa farið hér fram um hjúkrunarskólann, en við hinu hafði ég nú samt búizt, fyrst hæstv. forsrh. hefur tvívegis komið hingað upp til að svara hv. 11. þm. Reykv. (KTh), að hann mundi svara þeirri fsp., sem þm. beindi sérstaklega til hans um þetta mál. En sú fsp. var á þá leið, hvort sá niðurskurður, sem er ráðgerður í sambandi við þetta frv., ætti að ná til þeirra 7 millj., sem væru veittar til byggingar hjúkrunarskóla á þessu ári. Mér finnst, að hér sé um atriði að ræða, sem verulegu máli skiptir, og fyrst hæstv. forsrh. hefur ómakað sig tvívegis hingað upp til að gera þetta mál að umræðuefni, hefði hann átt að svara þessari fsp.

Ég minnist þess, að fyrir ekki mörgum dögum stóð hæstv. forsrh. hér eins og útblásinn vindbelgur og hældi sér mjög af því, að ríkisstj. væri búin að ákveða að veita 7 millj. kr. til byggingar hjúkrunarskólans á þessu ári. Ef hins vegar svo fer, að sá niðurskurður, sem er ráðgerður í sambandi við þetta frv., á einnig að ná til þessa framlags, eru ekki veittar nema 5.6 millj. kr. til hjúkrunarskólans á þessu ári, sem þýðir það, að framkvæmdir við skólann munu mjög tefjast frá því, sem áður hefur verið áætlað. Ég vil þess vegna taka undir þá fsp. hv. 11. þm. Reykv. til forsrh. eða menntmrh., að þeir svari því, hvort það er nú raunverulega meiningin að lækka þetta framlag til hjúkrunarskólans um 20% og framkvæma þar af leiðandi miklu minna í sambandi við þessa framkvæmd heldur en hæstv. forsrh. lýsti yfir hér fyrir örfáum dögum. Og ég verð að segja það, að ef það reynist rétt, að það eigi að skera niður þetta framlag eins og önnur, er lítið að marka yfirlýsingar hæstv. forsrh., því að það, sem hann segir, að eigi að vera 7 millj. í dag, eru orðnar 5.6 millj. hjá honum nokkrum dögum síðar og kemur þar af leiðandi að miklu minni notum heldur en upphaflega var til ætlazt.

Hæstv. ráðh. var að halda því fram í sambandi við þetta mál, að hæstv. ráðh. hefðu ekki farið neitt óviðurkvæmilegum orðum um það frumkvæði hjúkrunarkvenna að skora á ríkisstj. að hraða framkvæmd í þessu máli. Ég minnist ekki betur en einn af hæstv. ráðh., að vísu ekki hæstv. forsrh., heldur menntmrh., léti svo ummælt hér fyrir nokkrum dögum, að hjúkrunarkonurnar hefðu með þessari undirskriftasöfnun sinni leikið gamanþátt. Ég hygg, að ef hæstv. forsrh. fer að leita jafnvandlega í umr. þingsins og hann hefur gert í sambandi við ræðu hv. 11, þm. Reykv., geti hann fundið þessi ummæli hæstv. menntmrh. En eins og hér hefur verið rakið, er það ekki neinn gamanþáttur, sem hjúkrunarkonur hafa leikið í þessum málum, þótt þær hafi ýtt á eftir því, að framkvæmdum væri hraðað. Þær vita miklu betur en bæði við hér á þingi og hæstv. ríkisstj., hvílík nauðsyn það er, að hjúkrunarskólinn verði efldur og aukinn. Og þær hafa líka séð það betur en aðrir, hvílíkur dráttur hefði átt sér stað í þessum málum, og ég verð að segja það, að ef svo fer, að nú á að skera niður þetta framlag um 20%, eins og önnur framlög, veitti ekki af nýrri undirskriftaáskorun frá hjúkrunarkonum um það að hraða þessu máli betur en hæstv. ríkisstj. ætlar á því að halda.

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umr., ef þau orð, sem hæstv. forsrh. lét falla, hefðu ekki gefið mér tilefni til þess að gera við það nokkrar aths. En áður en ég vík að þessum ummælum hæstv. forsrh., ætla ég að minnast nokkrum orðum á það aðalmál, sem liggur hér fyrir og raunverulega er það, að skera á niður allar verklegar opinberar framkvæmdir um 20%.Ég hef vikið að því áður hér á Alþ.,hæstv. ríkisstj. er um margt ólík ríkisstjórnum nágrannalandanna og fylgir annarri stefnu en þær. Þetta hefur m.a. komið fram á undanförnum árum á þann hátt, að undir forustu hæstv. ríkisstj. hefur kaupmáttur tímakaups verkafólks farið stöðugt minnkandi hér á landi, á sama tíma sem kaupmáttur tímakaupsins hefur farið vaxandi í nágrannalöndum okkar. Hér hefur verið fylgt þeirri stefnu að láta verðlagið hækka stöðugt meira en kaupgjaldið með þeim afleiðingum, að kaupmáttur tímakaupsins hefur stytzt og menn hafa orðið að stórlengja vinnudag sinn til þess að hafa sæmilega afkomu. Í nágrannalöndum okkar hefur þróunin hins vegar verið á þann veg, að kaupmáttur tímakaupsins hefur stöðugt verið að aukast, vegna þess að verðlagið hefur hækkað minna en kaupgjaldið. Hér hefur sem sagt þróunin orðið allt önnur, vegna þess að það hefur verið fylgt allt annarri stjórnarstefnu, því að ekki verður árferði um kennt, að þessi þróun hefur átt sér stað hér hjá okkur, vegna þess að árgæzka til lands og sjávar og verðlag á útflutningsvörum hefur aldrei verið hagstæðara en á undanförnum árum. En það er í mörgu fleiru en þessu, sem hæstv. ríkisstj. er ólík ríkisstj. nágrannalandanna og fylgir annarri stefnu en þær. Í öllum okkar nágrannalöndum er stefnt að því að auka hina opinberu fjárfestingu. Það er eitt megin mark ríkisstj. í nágrannalöndum okkar að auka hina opinberu fjárfestingu. Hér er stefnt að því að skera hana niður.

Ég vil aðeins nefna lítið dæmi um þetta. Í því tímariti, sem Norðurlandaráð gefur út og útbýtt er meðal þm., birtist nýlega áætlun dönsku ríkisstj. um opinbera fjárfestingu, sem er ráðgerð í Danmörku næstu 3 árin. Þessi áætlun ber það með sér, að gert er ráð fyrir, að framlög ríkisins til fjárfestingar aukist þar um 50% 3 næstu árin. Samkv. þessari áætlun á t.d. framlag til vegamála að hækka úr 1000 millj. kr. á þessu fjárlagaári upp í rúml. 1500 millj. kr. á árunum 1967–1968. Framlög til skólabygginga og rannsóknarstofnana eiga á sama tíma að hækka úr 423 millj. kr. í 583 millj. kr. Framlög til spítalabygginga, þ.e.a.s. opinber framlög, eiga á þessum tíma að hækka úr 187 millj. kr. 1.297 millj. kr. En hér er að sjálfsögðu alls staðar reiknað með dönskum kr. Þannig má rekja þetta áfram, en í heild er niðurstaðan sú, að opinber fjárfesting í Danmörku er áætlað að aukist um 33% á þessum tíma, þ.e.a.s. þegar ráðgerð fjárfesting sveitarfélaga og ríkisins er lögð saman, en þegar tekin eru framlög ríkisins eins, er gert ráð fyrir 50% aukningu.

Vegna hvers er það, sem ríkisstj. Danmerkur og ríkisstj. nágrannalandanna stefna að því að auka á þann hátt hina opinberu fjárfestingu, þ.e. framlög til vegamála, hafnarbóta, flugvallargerða, til skólabygginga, rannsóknarstofnana og spítala? Það er vegna þess, að þessar framkvæmdir eru í raun og veru undirstaða allra annarra framkvæmda í þjóðfélaginu. Skilyrði þess, að það sé hægt að bæta aðstöðu atvinnuveganna og sækja fram í samræmi við aukna tækniþróun í framtíðinni, eru þau, að samgöngurnar batni stórlega frá því, sem nú er, og menntunin batni stórlega frá því, sem nú er. Það er fullkomlega rétt, sem hæstv. menntmrh. hefur verið að hafa eftir ýmsum erlendum fræðimönnum, hagfræðingum og skólamönnum, hér í þinginu á undanförnum árum, að engin fjárfesting borgi sig betur en sú, sem er látin ganga til skólabygginga og menntamála. Og það er í samræmi við það, sem ríkisstjórnir nágrannalandanna stefna að því að auka þessi framlög stórkostlega, jafnvel um 50%, eins og ráðgert er að gera í Danmörku. En hér á landi er nú tekin upp allt önnur stefna í þessum efnum. Það er tekin upp sú stefna að skera þessar framkvæmdir niður, á sama tíma sem stefnt er að því að auka þær í öðrum löndum. Og hver verður niðurstaðan af því, að þessi stefna er tekin upp hér á landi? Niðurstaðan verður óhjákvæmilega sú, að íslenzkt atvinnulíf og íslenzkt menntalif kemur til með að dragast aftur úr því, sem gerist hjá öðrum þjóðum á komandi árum, við fylgjumst ekki nægilega vel með þróuninni í þessum efnum, því að það eru einmitt þessar framkvæmdir, skólabyggingarnar, bættar samgöngur, spítalar og annað þess háttar; sem tryggja okkur það, að við getum fylgzt með framþróuninni líkt og aðrar þjóðir, og þetta er jafnframt undirstaða þess, að það sé hægt að byggja atvinnuvegina þannig upp, að við getum haldið til jafns við aðrar þjóðir. Þess vegna er það stefna ríkisstjórna í nágrannalöndum okkar og viðar að auka hina opinberu fjárfestingu og beita aðgerðum til að draga úr framkvæmdum einstaklinga, sem frekar mega bíða.

En ríkisstj. Íslands getur ekki hugsað sér það. Það er verðbólgufjárfesting spekúlantanna, sem verður að ganga fyrir öllu öðru. Það eru verzlunarstórhýsin og skrifstofuhallirnar, sem verða að ganga fyrir öllu, og fyrir þeim verða skólarnir, fyrir þeim verða vegirnir, fyrir þeim verða spítalarnir að víkja. Hér eins og á svo mörgum öðrum sviðum fylgir hæstv. ríkisstj. íslands allt annarri stefnu en þeirri, sem er fylgt í nágrannalöndum okkar, stefnu, sem hlýtur að leiða til þess, að við drögumst aftur úr öðrum þjóðum á sviði menntamála og á sviði samgöngumála, á sviði rannsóknarmála, á sviði atvinnumála, nema það verði fljótlega horfið frá þeirri stefnu, sem nú er fylgt. Hér er sem sagt verið að ráðast á undirstöðuframkvæmdirnar í þjóðfélaginu, framkvæmdirnar, sem allar aðrar framfarir byggjast á. Það er verið að vega hér að sjálfum grundvellinum, sjálfum grundvelli atvinnuveganna, sem eru bættar samgöngur og meiri menntun, og það verður til þess, að það kemst kyrkingur í allt atvinnulífið á eftir, í stað þess að aðrar þjóðir stefna að því að tryggja þessa undirstöðu og gera hana sem bezta og öruggasta, því að á því velta allar aðrar framfarir í þjóðfélaginu. Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta atriði.

En það, sem ég vildi nú koma að, er tilefni, sem hæstv. forsrh. gaf mér til þess að kveðja mér hér hljóðs. Hæstv. forsrh. sagði eitthvað á þá leið, — ég man ekki ummæli hans alveg rétt, en efnislega þó, — hann sagði eitthvað á þá leið, að það væri eiginlega orðin stefna Framsfl. að hafa enga stefnu og segja, að menn gætu fylgt honum án tillits til þess, hvaða skoðanir þeir hefðu, aðeins að þeir hefðu áhuga á því að komast í ríkisstj. Mig undrar það stórkostlega, að nokkur þm. skuli leyfa sér að viðhafa slík ummæli, sem ekki hafa við neitt að styðjast. Alveg sérstaklega undrast ég það, að hæstv. forsrh. skuli viðhafa slík ummæli, og mig undrar það, að hann skuli koma upp hér áðan með miklu stærilæti og vera að tala um það, að einhver þm. hefði ekki ummæli rétt eftir, þegar hann sjálfur hefur ummæli jafnranglega eftir og hann hefur hér gert og ég hef nú vitnað til. Ég veit, að hæstv. forsrh. þykist hér vera að vitna til ummæla, sem hafa komið í Tímanum og eru á þá leið, að andstæðingar íhaldsins eigi að þoka sér saman, ef þeir eru sammála um meginstefnu, þó að ágreiningur kunni að ríkja um einstök dægurmál. Þessi ummæli reynir hæstv. forsrh. að túlka á þá leið, að það sé verið að bjóða mönnum til fylgis við Framsfl., þó að þeir hafi enga stefnu og séu eiginlega ósammála um allt, þó að í öllum þessum ummælum hafi jafnan verið skýrlega fram tekið, að menn þurfi og verði að vera sammála um meginstefnuna, en hins vegar geti verið ágreiningur um ýmis dægurmál. En það er með þessum hætti, sem allir stórir flokkar nú á dögum eru upp byggðir, þó að því sé kannske þannig háttað í flokki hæstv. forsrh., að þar megi enginn aðra skoðun hafa en hann sjálfur. Og ég get vel trúað því, að hæstv. forsrh. vilji byggja flokk sinn upp á þann hátt og honum hafi á einhvern hátt tekizt það og sú fyrirmynd, sem hann hefur helzt í huga, bendi honum til þess að byggja flokkinn upp á þann hátt. En það er ekki lýðræði að byggja flokka upp með þeim hætti, og það verður ekki farsælt í neinu þjóðfélagi að byggja flokka upp með þeim hætti. Það verður að vera hægt að byggja flokka upp með þeim hætti, ef flokksmenn eru sammála um meginstefnuna, að þeim sé leyfilegt að hafa skoðanafrelsi og láta ágreining sinn koma fram um ýmis þau dægurmál, sem minna máli skipta.

Mér finnst rétt í framhaldi af þessu að beina nú umr. inn á annan vettvang og beina því til hæstv. forsrh., vegna þess að hann er að tala um stefnuleysi andstæðinganna: hver er stefna hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálunum í dag? Hvaða stefna er það, sem ríkisstj. fylgir í efnahagsmálunum í dag? Ég held, að hæstv. ríkisstj, geti sízt af öllu svarað þessu sjálf og það geti eiginlega enginn svarað þessu fyrir hana, því að það er auðséð, að ríkisstj. fylgir þeirri stefnu í efnahagsmálunum í dag að lifa frá degi til dags með því að hækka söluskatt tvisvar eða þrisvar á ári, með því að skera niður verklegar framkvæmdir og með því að grípa til annarra og slíkra vandræðaráðstafana, sem fela ekki í sér neina markvissa stefnu. Það var yfirlýst stefna hæstv. ríkisstjórnar, þegar hún kom til valda, að hún ætlaði að stefna að því að afnema allar uppbætur og styrki. Er það það, sem blasir við í dag, að hæstv. ríkisstj. hafi afnumið allar uppbætur og styrki? Nei, uppbóta- og styrkjakerfið hefur aldrei blómgazt betur í þessu þjóðfélagi en einmitt nú í dag eftir 6 ára stjórn núv. ríkisstj. Og það sýnir kannske gleggra en nokkuð annað, að það er síður en svo, að ríkisstj. fylgi nú orðið þeirri stefnu, sem hún boðaði í upphafi, heldur einmitt hið gagnstæða. Og þannig má rekja þetta á fleiri sviðum.

Það er ekki hægt í dag að sjá neina ákveðna stefnu hjá hæstv. ríkisstj, aðra en þá að hanga og hlynna að hagsmunum nokkurra þraskarahópa, sem standa að stjórnarflokkunum. Við hagsmuni þessara braskarahópa, sem mestu ráða í stjórnarflokkunum, eru verk stjórnarinnar miðuð, og til þess reynir hún að hanga að geta hlynnt að hagsmunum þessara manna. Og ég skora á hæstv. forsrh., ef hann treystir sér til þess, að svara því, mótmæla því, að þetta sé rétt, sem ég hef nú haldið fram, að svo er komið hjá hæstv. ríkisstj., að hún fylgir ekki lengur neinni ákveðinni fjármálastefnu, heldur lifir frá degi til dags með nýjum sköttum og niðurskurði, stritast við það eitt að sitja og hlynna að þeim fámennu braskarahópum, sem standa að þeim flokkum og ráða þeim flokkum, sem hún styðst við.

En það mætti spyrja hæstv. forsrh. að fleiru, — því miður hefur hann gengið úr d., hann kemur hingað vafalaust aftur. Það mætti spyrja hæstv. forsrh. að því, hver sé raunveruleg stefna Sjálfstfl. Sjálfstfl. lýsir því að vísu ákaflega hátíðlega yfir, að hann vilji hlynna að einkaframtakinu, hann sé á móti öllum ríkisrekstri, hann sé á móti öllum höftum. En hvernig er þetta í framkvæmd? Ég veit ekki betur en það sé rétt, að t.d. ríkisrekstur er meiri hér á landi en í nokkru öðru landi VesturEvrópu, og ég skal síður en svo telja það vera rangt ráðið, eins og okkar aðstæður eru. En það er hins vegar í fullkominni andstöðu við stefnu Sjálfstfl., að svo skuli vera, flokksins, sem segist vera á móti öllum opinberum rekstri og ekki vilja neitt nema einkarekstur.

Hver hefur þá verið afstaða Sjálfstfl. til þessa ríkisrekstrar? Jú, afstaða Sjálfstfl. hefur verið sú, að ég held, að hann hafi átt þátt í því að setja á allan þann ríkisrekstur, sem hefur verið settur á stofn hér fram að þessum degi, eða a.m.k. þann ríkisrekstur, sem nú er starfræktur í landinu.

Sjálfstfl. segist vera ákaflega mikið á móti höftum. En hver er reynslan í þessum efnum, og hver eru verk flokksins í þessum efnum? Það nægir að svara þessu með því að rifja það upp, hvað gerðist, þegar hæstv. núv. forsrh. settist fyrst í ríkisstj. Það var í ríkisstj., sem kom hér til valda í ársbyrjun 1947. Sú ríkisstj. tók upp strangari höft — og meira að segja skömmtun — heldur en nokkur önnur ríkisstj. hefur gert fyrr og síðar, sem stjórnað hefur þessu landi. Og það var síður en svo, að Sjálfstfl. væri á móti þessu. Hann studdi öll þessi höft, og þessi höft voru meira að segja lögð á að ráðum hagfræðinga Sjálfstfl. Og hvernig er ástatt í þessum efnum í landinu í dag?

Það er þannig ástatt í þessum efnum í landinu í dag, að það eru nú í gildi öflugri lánsfjárhöft en í nokkru öðru landi Vestur-Evrópu. Það er þrengt að einkaframtakinu og framtaki félaga og ríkisstofnana með stórkostlegri lánsfjárhöftum en þekkjast í nokkru öðru landi Vestur-Evrópu í dag. Og þetta er framkvæmt undir forustu Sjálfstfl. Svo. er þessi flokkur að tala um það, að hann sé á móti höftum. Hver getur botnað í því, hvaða stefnu sá flokkur hefur, sem framkvæmir og gerir allt annað en hann lýsir yfir og þykist fylgja?

Ég skal til viðbótar þessu taka afstöðu Sjálfstfl. til kommúnismans. Sjálfstfl. þykist vera ákaflega mikið á móti kommúnistum, vilja ekki nein mök við þá hafa. Í tvö undanfarin ár hefur ekki linnt blaðaskrifum hjá sjálfstæðismönnum út af því, að framsóknarmenn sátu í stjórn verkalýðssamtakanna með kommúnistum. Þetta var talin dauðasök, og það var aðeins látið í það skína, að ekkert slíkt mundi henda Sjálfstfl. eða honum mundi aldrei detta í hug að láta slíkan ófarnað henda sig eins og þann, sem hefði hent Framsfl., að sitja í stjórn verkalýðssamtakanna og eiga fulltrúa í stjórn verkalýðssamtakanna með kommúnistum. En hvernig er skrifað í blöð Sjálfstfl. í dag? Í dag er skrifað þannig í blöð Sjálfstfl., að Framsfl. er harðlega ásakaður fyrir það, að hann skyldi leyfa sjálfstæðismönnum að taka sæti í stjórn verkalýðssamtakanna við hliðina á kommúnistum.

Hvernig í ósköpunum er hægt að leggja neitt upp úr yfirlýsingum slíkra manna, sem þannig haga sér, sem segja eitt í dag og annað á morgun? Ég held þess vegna, að hæstv. forsrh. ætti ekkert síður að gera heldur en bregða öðrum um stefnuleysi, því að hjá Sjálfstfl. er ekki hægt að finna neina stefnu, þegar það er krufið til mergjar. Sjálfstfl. hefur ekki nema eitt markmið, og það er að hanga við völdin til þess að þjóna vissum braskarahagsmunum, hagsmunum þeirra fáu braskara, sem ráða Sjálfstfl., sem gefa út Morgunblaðið og Vísi. Hlutverk flokksins er fyrst og fremst að þjóna þessum mönnum, og honum er nákvæmlega sama, á hvern hátt það er gert. Hann getur gert það í samstarfi við Alþfl., samstarfi við Framsfl., samstarfi við kommúnista, og hann er reiðubúinn til að fylgja hvaða stefnu sem um er að ræða, aðeins ef honum tekst að verja þessa hagsmuni. Þetta er sannleikurinn um Sjálfstfl., og þess vegna ætti hæstv. forsrh. ekkert síður að gera en að bregða öðrum flokkum um stefnuleysi, því að Sjálfstfl. hefur enga þjóðmálastefnu, heldur er hann eins konar hlutafélag, sem vinnur fyrir ákveðinn braskarahóp í þjóðfélaginu.