18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara langt út í það að ræða um hjúkrunarkvennaskólann, því að hann hefur komið hér óvart inn í þessar umr., en vil þó út af ræðu hæstv. menntmrh, segja það, að það situr hvorki á honum né öðrum að telja, að Framsfl. hafi staðið illa á verði í þessu máli, því að hjúkrunarkvennaskólinn mun hafa verið byggður á árunum frá 1950—1956, þegar Framsfl. fór með stjórnina í landinu undir forsæti Steingríms Steinþórssonar á fyrra tímabilinu og sat í stjórn öll þau ár. Ég held, að það hafi ekki verið gert myndarlegra átak í heilbrigðismálunum heldur en landsspítalabyggingin 1930, og Framsfl. fór þá með ríkisstj.

Út af ræðu hæstv. forsrh., sem hann flutti hér í dag, vil ég segja það, að ég tel mig ekki hafa sagt hér í þingræðu, að hæstv. ráðh. gerðu eitt eða neitt af illvilja, og ég held, að það megi leita í öllum mínum þingræðum, að þau orð er hvergi að finna. Ég ætla hvorki hæstv. ráðh, né hv. þm., að þeir leysi mál af illvilja. Hitt vil ég segja, að hæstv. forsrh. þarf ekkert að undra, þó að við framsóknarmenn gagnrýnum það, sem mistekizt hefur hjá hæstv. ríkisstj., því að svo oft hafa þeir hv. sjálfstæðismenn og stjórnarsinnar yfirleitt gagnrýnt það, sem þeir töldu hafa mistekizt hjá stjórnum okkar flokks. Þess vegna verða þeir eins og aðrir að þola slíka gagnrýni og ástæðulaust að þiðjast undan því.

Það virðist hafa komið illa við hæstv. forsrh., að ég og hv. 1. þm. Austf. skyldum fara að vitna í samherja hans. Ég taldi það hins vegar afskaplega sanngjarnt að vitna til samherja hæstv. ríkisstj. og stuðningsmanna, þegar ég benti á það, sem þeir hefðu sagt um afkomu útgerðarinnar undir stjórn núv. hæstv. ríkisstj. En hæstv. ráðh. taldi slíkt ekki hafa verið neitt ágæti eða a.m.k. mjög hæpið og taldi, að við værum með því að hygla hinum ríku. En ég vil um þetta segja: fyrst þeir vitna svo í hin grænu tré, hvað þá um hin? En til viðbótar þessu um afkomu útgerðarinnar, sem upplýst var í ræðu Einars Sigurðssonar hins ríka og Morgunblaðsgrein Haralds Böðvarssonar, sem birt er í aðalblaði stjórnarinnar athugasemdalaust, vil ég geta þess, að hér fengum við hv. þm. skýrslu í gær um greiðslur ríkisábyrgðasjáðs árið 1964. Hvað segir þessi skýrsla? Hún segir það, að vegna sjávarútvegsins hafi verið greiddar ríkisábyrgðir milli 60 og 70 millj. kr. á árinu sem leið. En ég vil benda á það, að á árinu 1957 og 1958, sem hér er verið að vitna til oft, var ekki greitt vegna fiskiðjuveranna nema innan við 2 millj. kr. hvort árið. En á árinu 1965 eru þetta 16.4 millj. kr. vegna frystihúsanna. Er þetta vegna þess, að afkoma fiskiðjuveranna sé svo miklu betri nú en hún var 1957—1958? Ef svo er, því er hæstv. ríkisstj. að greiða milljónatugi fyrir útgerðina, sem hefur hina beztu afkomu? Og ef afkoman er svo góð hjá útveginum, hvers vegna er þá verið að koma nú með uppbótakerfið ár eftir ár, sem hæstv. ríkisstj. lýsti þó yfir í upphafi sinnar tilveru að væri það, sem bæri að forðast? Hér skýtur því skökku við, og mér er nær að halda, að vitnisburður útgerðarmannanna tveggja, sem hefur verið vitnað til, og skýrsla þessi segi nokkuð, hvernig er að gera út á viðreisnartímum.

Hæstv. forsrh. talaði um það í dag, að það færi lítið fyrir sparnaðartill. okkar framsóknarmanna í sambandi við afgreiðslu fjárl, og hér á hv. Alþ. Í því sambandi vil ég segja það, að á fyrstu árum núverandi stjórnarsamstarfs lögðum við fram við afgreiðslu fjárl. sparnaðartill., m.a. um að leggja niður eða draga saman sendiráðin á Norðurlöndum. Við tókum þar upp till., sem hæstv. núv. utanrrh. hafði lýst yfir sem fjmrh. 1959 að ætti að framkvæma. Stjórnarliðið feldi þetta og aðrar þær sparnaðartill., sem við höfum flutt. Við höfum lýst því yfir í nál. okkar við fjárlagaafgreiðsluna, að við flyttum ekki sparnaðartill. vegna þess að við værum búnir að reyna á sparnaðarvilja núv. þingmeirihl., og svo hins, að á hverju ári hefur hæstv. ríkisstj. ætlað sér svo ríflegar tekjur, að hún hefur haft hundruð millj. í greiðsluafgang. Þess vegna voru till. til þess að draga úr útgjöldum aðeins til þess að gefa hæstv. ríkisstj. rýmra um hendur til þess að ráðstafa fénu, án þess að Alþ. segði sitt um. Þetta var það, sem við kærðum okkur ekki um.

Þær tölur, sem hæstv. forsrh. fór hér með í sambandi við till. okkar til hækkunar, voru svo algerlega út í bláinn, að ég er alveg hissa, að hann skyldi finna mann, sem gat lagt þannig saman. Hins vegar sýndum við fram á, að við fjárlagaafgreiðsluna síðustu breyttu hv. núv. stjórnarliðar tekjuáætluninni sem nam 180 millj. kr. á tveimur dögum. Það var hærri fjárhæð, en útgjaldatill. okkar í stjórnarandstöðunni, sem fluttar voru af minni hl. fjvn. En svo vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hvað hefur orðið úr heildarendurskoðun fjárl. með sparnað fyrir augum, er hér var yfirlýst á hv. Alþ. við valdatöku núv. valdhafa? Hvað hefur orðið úr 59 tölusettu sparnaðarfyrirheitunum, sem voru gefin í fjárlagaræðum tveggja fyrstu áranna af meiri hl. fjvn.? Hæstv. forsrh. og ríkisstj. ætti að leita að framkvæmdum á einhverjum af þeim atriðum, áður en hún fer að biðja stjórnarandstöðuna um sparnaðartill. Framkvæmdin á þessum fyrirheitum fyrir finnst ekki, eins og mun koma í ljós, ef að er gáð.

Hæstv. forsrh, sagði réttílega, að það er tvennt, sem hefur haft veruleg áhrif á hækkun fjárl. Það eru annars vegar niðurgreiðslurnar og hins vegar tryggingarnar. En hvað segir hækkun þessara tveggja liða? Hún segir fyrst og fremst söguna um þá dýrtíðaraukningu, sem hefur orðið hjá núv. hæstv. valdhöfum. Hún segir söguna um það, að valdhafarnir, sem tóku höndum saman til þess að stöðva dýrtíðina í landinu, verði að bæta á hundruðum millj. eftir hundruð millj. til þess að reyna að veita dýrtíðinni eitthvert viðnám. Þessi ummæli í ræðu hæstv. forsrh. staðfesta það, sem við höfum haldið fram við fjárlagaafgreiðsluna, að það væri eyðsla, dýrtíð, sem væri undirstaðan í fjárlagaafgreiðslunni eða einkennið á henni. Og þetta er alveg rétt, þessir tveir liðir eru fyrst og fremst sönnunin fyrir því.

Út af því, sem hæstv. forsrh. sagði um búvöruverðið og áhrif þess á niðurgreiðslurnar, vil ég spyrja: Var það kannske hugsun hæstv. forsrh., að bændurnir í landinu ættu að sitja eftir með sitt verðlag? Ef svo átti ekki að vera, leiddi það af sjálfu sér, að verðlag búvara varð að hækka vegna þeirrar dýrífðaraukningar, sem átt hefur sér stað á s.l. ári og árinu þar áður.

Út af útflutningsuppbótunum vil ég einnig segja það, að það varð að samkomulagi milli hæstv. ríkisstj., þeirrar sem nú situr, og Stéttarsambands bænda 1960 að breyta framleiðsluráðslögunum þannig, að ríkissjóður greiddi útflutningsuppbætur á búvörur gegn því, að það væri ekki lagt á innanlandsverðið, eins og áður hafði verið, mismunurinn á útflutningi og innanlandssölunni. Það var áður í lögum, og um það gekk dómur, og þessu var breytt í lögunum, og þá voru útflutningsuppbæturnar teknar.

Út af þeim samanburði, sem hæstv. forsrh. gerði hér á fjárl. 1958 og fjárl. nú, vil ég nú segja það, þar sem hann vitnaði til ræðu minnar, að þar sem ég vék að fjárl. 1958 í ræðu minni hér á þriðjudaginn, gerði ég samanburð á því, sem ég kallaði eyðslu þá og í fjárl. nú. Að öðru leyti vitnaði ég ekki til þeirra fjárl. En ég vil segja það, að það verður ekki hægt að komast frá þeim samanburði án þess að líta á heildarútgjöld fjárl., eins og hæstv. forsrh. vildi þó vera láta. Fjárl. hafa nú á þessum árum meira en fjórfaldazt eða nærri því fimmfaldazt, ef gerður er hliðstæður samanþurður, og það þarf því engan að undra, þótt þess vegna væri nokkru hærra til verklegra framkvæmda nú en var 1958. En ef á að gera samanþurð eins og hæstv. forsrh. gerði hér áðan og ég hef ekki haft aðstöðu til að kynna mér, þá á að horfa til baka, þá eigum við að bera okkur saman við liðna tímann, en ekki horfa fram á við.

Eins og hv. 5. þm. Reykv. benti hér réttilega á áðan, verðum við að miða okkar uppbyggingu við framtíðina, en ekki við fortíðina. Hver gerir nú sömu kröfur til menntunar og gerðar voru hér, þegar fræðslulögin voru sett 1946? Ef við gerum ekki meiri kröfur nú en við gerðum þá, göngum við aftur á bak. Það eru alltaf vaxandi kröfur frá fólkinu í landinu um nýja skóla. Ég sýndi fram á það, að ríkið hefði þurft að leggja 40 millj. í nýja skóla, barna og unglingaskóla í landinu, til þess að fullnægt væri því, sem fólkið eða skólahéruðin fóru fram á um byggingu barna- og gagnfræðaskóla. En það verða 11 millj. til þessara framkvæmda á árinu 1965. Við göngum ekki götuna fram á veg, ef við tökum þá stefnu, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur gert, að skera niður fé til skólamálanna. Við göngum þá ekki götuna fram á veg til vísinda og tækni, ef við ætlum að skera niður fé til þessara framkvæmda. Og við göngum ekki götuna fram á veg í heilbrigðismálunum, ef við ætlum nú að skera niður fjárveitingar til þessara framkvæmda þar og segja: Það er þó til, að það hafi ekki verið betur gert en nú. —- Og þannig er það, að kröfur tímans hafa breytzt. T.d. veiðitæknin á sviði sjávarútvegsins, hin nýja tækni í síldveiðunum, hefur kallað á stærri skip en áður var. Stærri skip kalla á nýjar hafnir og stærri. Þess vegna verðum við að miða uppbygginguna í landinu við framtíðina, en ekki við fortíðina. Og við getum ekki heldur gert ráð fyrir því, að við getum haft sömu vegi í landinu nú og þegar bílarnir voru 10—15 þús., þegar við gerum ráð fyrir, að þeir verði milli 40 og 50 þús. á árinu 1970. Við getum ekki heldur reiknað með því, að fólkið í landinu sætti sig við, að það fái ekki meiri framkvæmdir í vegamálum nú en þegar ríkissjóður hafði 30—40 millj. kr. í tekjur af benzínskatti, þungaskatti og gúmmígjaldi, eins og hann hafði 1958, þegar nú eru komnar tekjur yfir 200 millj., vegna þess að við höfum lagt á nýja skatta, ekki til þess að úr framkvæmdunum yrði dregið, heldur framkvæmdunum yrði hraðað. Okkur er ljóst, að við eigum mikið af óleystum verkefnum og við verðum að horfa til framtíðarinnar, en þessi aðgerð hæstv. ríkisstj. að skera niður fé til þeirra framkvæmda, sem sízt mega bíða, er að horfa aftur á bak.