24.11.1964
Efri deild: 22. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

5. mál, verðtrygging launa

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að andmæla efni þessa frv. á nokkurn hátt. Ég er því í meginatriðum samþykkur, eins og ég hef alltaf verið á því máli, að verðlagsuppbót á laun sé af hinu góða. Ég stend hér upp hins vegar til að láta í ljós nokkra undrun mína á framkomu þessa frv. sem stjórnarfrv.

Hæstv. forsrh. gerði grein fyrir frv. hér og gat að nokkru ástæðna fyrir því, að hæstv. ríkisstj. flytur þetta frv. nú. En með tilliti til forsögu þessa máls hlýtur það að vekja nokkra furðu, að hæstv. ríkisstj. skuli nú á árinu 1964 bera fram frv. um, að greiða skuli verðlagsuppbót á laun fyrir unnin störf og að kaupgreiðsluvísitala skuli reiknuð eftir vísitölu framfærslukostnaðar. Það er ekki lengra síðan en 4 ár, að þessi sama hæstv. ríkisstj. bar fram frv. til 1., sem fól í sér ákvæði í algerlega gagnstæða átt, nefnilega um afnám verðtryggingar launa. Þá lagði hæstv. ríkisstj. mjög mikla áherzlu á, að vísitölukerfið, sem þá hafði staðið í nærri 20 ár, yrði afnumið. Og rökin voru þau, að vísitölukerfið væri ein meginorsök verðbólgunnar í landinu. Hæstv. ríkisstj. gaf á því ári út bækling, sem hún nefndi Viðreisn. Í þeim bæklingi er rætt um vísitölukerfið og nauðsynina á afnámi þess. Ég vil aðeins — með leyfi hæstv. forseta — lesa örlítið af því, sem þar er sagt um þetta vísitölukerfi, sem nú skal innleitt aftur að ósk hæstv. ríkisstj. Í viðreisnarbæklingnum segir á þessa leið:

„Til þess að koma í veg fyrir, að aftur hefjist það kapphlaup milli verðlags og kaupgjalds, sem tókst að stöðva á s.l. ári, leggur ríkisstj. til, að óheimilt sé að miða kaupgjald við breytingar á vísitölu. Reynslan hefur sýnt, að það vísitölukerfi, sem hér hefur verið í gildi síðan í byrjun heimsstyrjaldarinnar síðari, hefur ekki verið launþegum til neinna varanlegra hagsbóta. Þess vegna leggur ríkisstj. til, að það verði afnumið.“

Og síðar í þessum bæklingi segir á þessa leið um sama efni:

„Jafnhliða þessu er lagt til, að tenging kaups við vísitölu framfærslukostnaðar sé numin úr gildi. Þetta er nauðsynlegt til þess að gera þá breytingu tekjuskiptingarinnar, sem að framan getur, raunhæfa og koma í veg fyrir þá öru verðbólguþróun, sem annars mundi hljótast af víxlhækkunum verðlags og kaupgjalds.“

Þessi var skoðun hæstv. ríkisstj. á vísitölukerfinu á því herrans ári 1960. Þá var lagt til að afnema vísitölukerfið í því skyni að stöðva verðþróun í landinu og í því skyni að baeta lífskjör almennings. Nú hins vegar, árið 1964, leggur sami aðili til, að vísitölukerfið sé tekið upp á ný nákvæmlega í sama tilgangi, sem sagt í þeim tilgangi að stöðva verðbólguna og bæta lífskjör verkamanna.

Ég hygg, að það fari fleirum en mér svo, sem um þetta mál hugsa, að undrast þessa afstöðu hæstv. ríkisstj., undrast þá algeru kúvendingu, sem hér hefur orðið í hugarfari hæstv. ríkisstj. Ég tel það í sjálfu sér mikilsvert að fá að vita eitthvað um hug og tilgang þess aðila, sem frv. flytur. Það er ekki nóg að lesa og skilja frv. sjálft og efni þess. Við viljum einnig gjarnan vita, hvað liggur á bak við, hver eru rök þess aðila, sem málið flytur, en um þetta fáum við lítt að vita. Okkur er sagt, að frv. sé flutt vegna samkomulags, sem hafi orðið á s.l. vori milli hæstv. ríkisstj., Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins. Þá hlýtur sú spurning að vakna: Hafa þessar viðræður gerbreytt viðhorfi hæstv. ríkisstj. til vísitölukerfisins, eða eru einhverjar aðrar ástæður fyrir því, að hæstv. ríkisstj. flytur þetta frv., t.d. þær, að hæstv. ríkisstj. gegn eigin sannfæringu láti til leiðast fyrir ofurefli utan frá? M.ö.o.: Er það hugsanlegt í þessu tilfelli, að hæstv. ríkisstj. flytji þetta frv. gegn eigin sannfæringu fyrir áhrif frá Alþingi götunnar? Fyrir nokkrum árum ræddu stjórnaraðilar um Alþingi götunnar af mikilli fyrirlitningu. Þess vegna er eðlilegt, að það mál sé hugleitt. Getur það verið, að hæstv. ríkisstj. hafi nú orðið að lúta vilja Alþingis götunnar?

Ég skal viðurkenna það, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að tímarnir geta breytzt, og með þeirri breytingu geta sjónarmið breytzt, og hér er um svo gagngera kúvendingu að ræða á tiltölulega stuttum tíma, að ég get varla hugsað mér, að það sé eina skýringin eða yfirleitt að það sé sú sanna skýring. Við minnumst þess margir, sem eigum sæti í þessari hv. d., hvernig stjórnarliðið talaði um vísitölukerfið árið 1960 hér á Alþingi. Þá voru vísitölukerfinu valin hin hæðilegustu orð. Það var kallað aflvél verðbólguskrúfunnar, það var kallað svikamylla, og einn af forustumönnum Sjálfetfl., sem þá átti sæti á þingi og er hagfræðingur, sagði m.a. svo í þingræðu, með leyfi hæstv. forseta:

„Önnur meginforsenda þess,“ — ég skal taka fram, að hin meginforsendan var gengislækkunin, — „önnur meginforsenda þess, að viðreisnarstefnan megi ná tilætluðum árangri, er sú, að komið sé í veg fyrir, að framhald verði á hinu sjálfvirka kapphlaupi milli kaupgjalds og verðlags, sem vísitölukerfið hefur um langan aldur orsakað.“

Annar mikilsmetinn fyrrv. þm. úr hópi sjálfstæðismanna sagði, að mesta vitleysan, sem gerð hafi verið í íslenzkum fjármálum fyrr og síðar, hafi verið vísitöluskrúfan, sem sett var í gang 1940. Þannig var sem sagt fordæming stjórnarliðsins á því þingi alger. Og þá var það talið það eina sáluhjálplega efnahagslífinu til bjargar, að vísitölukerfið yrði tafarlaust og að fullu afnumið. Nú þykir mér vera komið nokkuð annað hljóð í strokkinn. Nú skal vísitölukerfið innleitt á ný einmitt til þess að hamla upp á móti verðbólgu og til þess að bæta lífskjör almennings. Nú er vísitölukerfið ekki álítið neinn bölvaldur í íslenzku efnahagslífi, heldur þvert á móti er það bjargráð.

Ég taldi rétt að hafa orð á þessu og tek fram, að það er ekki í því skyni gert að ýfast við frv. og efni þess. Ég tel rétt að benda á þessa miklu hugarfarsbreytingu hjá hæstv. ríkisstj. Og það væri vissulega ástæða til að Ieggja frekar út af því, hvernig stendur á þessari miklu hugarfarsbreytingu. Í því sambandi hljóta hjá okkur öllum að vakna ýmsar spurningar. Felst í þessu, að hæstv. ríkisstj. viðurkennir nú, að viðreisnin sé algerlega farin út um þúfur og úr sögunni? Við aðrir höfum fyrir löngu komið auga á það, að viðreisnin er búin að vera, felst í flutningi þessa frv. viðurkenning á þeirri staðreynd, viðurkenning hæstv. ríkisstj.?

Það eru ýmsar spurningar, sem mér koma í hug í sambandi við þetta mál og mér hefði þótt gaman að fá svar við. En ég get varla ætlazt til þess, að hæstv. ríkisstj. veiti mér fullgild svör við þeim spurningum. Mér dettur t.d. í hug: Hefur hæstv. ríkisstj. gersamlega snúizt hugur í afstöðu sinni til verðtryggingar launa, eða flytur hún þetta frv. gegn eigin sannfæringu, máske til neydd af Alþingi götunnar, eins og ég tók fram áðan? Önnur spurning, sem mér kemur í hug, er þessi: Telur hæstv. ríkisstj. e.t.v., að verðtrygging launa geti verið heppileg ráðstöfun í einn tíma, þótt hún sé það ekki í annan? Ég skildi það á ræðu hæstv. ráðh., að þessu muni hæstv. ríkisstj. að vissu marki a.m.k. svara játandi. Mér dettur líka í hug spurningin: Felst í flutningi þessa frv. fortakslaus viðurkenning hæstv. ríkisstj. á því, að viðreisnin frá 1960 sé gersamlega farin út um þúfur? Við þessu væri mjög fróðlegt að fá svar frá hæstv. ráðh. En mér kemur einnig í hug spurningin: Ef hæstv. ríkisstj. er sömu skoðunar í hjarta sínu og hún var 1960, ber þá að líta á þessa lagasetningu nú sem leikbragð hennar eða einhvers konar refskák við launþegasamtökin og að svo kunni að fara, að lögin verði felld úr gildi, t.d. síðar á þessu ári, ef svo kynni að fara, að launþegasamtökin þættu ekki makka rétt? Við spurningum eins og þessari get ég, eins og ég sagði áðan, varla búizt við að fá hreinskilnisleg svör. Það má segja um það, að fæst orð hafi minnsta ábyrgð og hæstv. ríkisstj. hafi nú reynsluna fyrir því, að það sé varasamt að fullyrða of mikið, ef hægt er að komast hjá því.

Ég skal ljúka þessum orðum mínum, en ég vil aðeins bæta því við, að ef ég hefði verið í sömu aðstöðu og hæstv. ríkisstj. er nú, mundi ég mjög hafa skoðað hug minn um, hvort mér væri ekki sæmra að segja af mér vegna ósigurs viðreisnarinnar heldur en koma hér fram á Alþingi með þetta frv.