18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr., en mér finnst, að ég þurfi að leiðrétta allmikla missögn, sem kom fram hjá hæstv. forsrh. hér í dag og snertir mál, sem ég er flm. að. Hann var að ræða um þær hækkanir, sem framsóknarmenn hefðu flutt till. um við fjárl. og með ýmsum tillöguflutningi hér á hæstv. Alþingi vildu þeir auka mjög útgjöld ríkissjóðs. M.a. sagði hæstv. forsrh., að framsóknarmenn legðu til að bæta við 60 nýjum ríkisstarfsmönnum við kvikmyndasýningar í sveitum, og gat þess, að hann hefði heimildina fyrir þessu úr ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. (BP). Nú neita ég því ekki eða skal ekkert tortryggja það, að þetta sé rétt eftir haft, að þessi hv. þm., Björn Pálsson, kunni að hafa sagt þetta, því að mér var bent á það, þó að ég heyrði það ekki sjálfur, að í dag hefði hann sagt, að þessir nýju opinberu starfsmenn við kvikmyndasýningar í sveitum ættu að verða 100. En þeim hefur þá fjölgað á tveimur dögum um 40, - þ.e.a.s. ef barnaverndarlögin verða sett. Já, mun rétt vera þannig. Nú þykir mér mjög leiðinlegt, að jafnmætur hv. þm. og 5. þm. Norðurl. v. er skuli hafa farið með svona fjarstæður, en eins og hv. þm. ættu að vita og ekki síður hæstv. forsrh. en aðrir, er ekki minnzt á það einu einasta orði í till. okkar um kvikmyndasýningar í sveitum, hvorki till. sjálfri, grg, með till. né í framsöguræðu minni, að það eigi að setja einn einasta ríkisstarfsmann í sveitum til kvikmyndasýninga. Það er fjarri því. Það er ekki nokkur stafur fyrir því öllu saman, sem hæstv. forsrh. er að hafa eftir hv. þm. Birni Pálssyni. En veit þá hæstv. forsrh., að þetta er vitleysa, eða veit hann það ekki? Heldur hann, að þetta sé kannske rétt?

Ég hef enga hugmynd um það, hvernig á þessu getur staðið, að hv. 5. þm. Norðurl. v. kemur með þennan rakalausa uppspuna, en þó dettur mér í hug skýring á því. Hann getur ekki haft þessar upplýsingar úr till., sem við fluttum um kvikmyndasýningarnar, ekki úr grg., ekki úr framsöguræðunni, hann hlýtur að hafa fengið þetta frá einhverjum öðrum. Hann gat ekkert fengið frá flm. annað en það, sem hann sagði um málið. Það tala aðrir oftar saman og það eru hæstv. forsrh. og hv. þm. Björn Pálsson. Og mér dettur í hug, af því að þeim fellur mjög vel saman og það elskar hver sér líkt, að hv. þm. hafi fengið þessa vitneskju frá hæstv. ráðh., og þá sé ég alveg, hvernig botninn í öllu saman er. Það er alveg eins og sagt var um Dýrleif á Parti. Það var norðlenzkur maður, sem var gjarn á að segja lygasögur, og einu sinni þegar hann var að segja eina þeirra og fólk trúði honum ekki, þá var hann spurður um heimildirnar, og þá svaraði maðurinn: „Dýrleif á Parti sagði mér, en ég hafði áður sagt henni.“ Og er ekki þarna komin heimildin fyrir því, hvaðan hv. þm. Björn Pálsson hefur þessar fregnir um 60 eða 100 opinberu starfsmennina? Ég held, að það sé varla mörgum blöðum um það að fletta, að þannig muni þetta vera.