18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég hef nú hlustað á þessar umr. í tvo daga með mikilli athygli, og þær eru og hafa orðið þeim mun furðulegri, eftir því sem lengra hefur liðið á, og allra furðulegastar nú hjá hv. 3. þm. Vestf. (Gripið fram í: Já, og forsrh.) Þegar ég flutti þetta frv., var öllum hv. þm. ljóst, að hér var um að ræða frv. til 1. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, og í frv. er ekkert annað en ákvæði, sem snerta afkomu sjávarútvegsins og ráðstafanir til aðstoðar honum. Eigi að síður hafa þessar umr. nú í tvo daga ekki snúizt um þetta, heldur um allt aðra hluti eins og t.d. meiri hluta fundartímans í dag, þar sem umr. snerust um stofnun hjúkrunarskóla, af hvaða ástæðu sem það nú hefur verið. En það lítið sem sagt hefur verið um frv. sjálft, hefur flestallt og ég held nærri allt verið jákvætt, og hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa lýst sig samþykka frv., og er ég þeim út af fyrir sig þakklátur fyrir það. Þó hafa komið fram einstaka atriði í sambandi við frv. sjálft, sem ég finn ástæðu til að segja um nokkur orð, áður en þessum umr. lýkur.

Hv. 1. þm. Austf. (EystJ) taldi, að í fyrra eða fyrir áramótin hefðu verið gefnar upplýsingar um það, að til nýrra niðurgreiðslna til sjávarútvegsins mundi ekki þurfa að koma. Þetta er að vissu leyti rétt. Það var ekki talið fyrir áramótin, að óbreyttu ástandi og að óbreyttu fiskverði, að þá mundi þurfa til neinna nýrra ráðstafana að koma. Árið 1964 var sjávarútveginum veittur tvenns konar styrkur. Annars vegar voru veittar 43 millj. kr. til vinnuhagræðingar í frystihúsum og til kaupa á ýmsum tækjum í því sambandi. Í öðru lagi var veitt 6% uppbót á fiskverðið til þess að mæta óskum sjómanna í þessu sambandi, Þessi vinnuhagræðing, sem komið hefur verið á hjá frystihúsunum, hefur svo orðið til þess m.a., ásamt með þeim verðhækkunum, sem hafa orðið á útfluttum sjávarafurðum, að við ákvörðun fiskverðsins nú um áramótin var talið, að fiskvinnslustöðvarnar mundu geta tekið á sig þann aukna kostnað, sem af því leiddi, að þessar uppbætur úr ríkissjóði yrðu felldar niður og það hefur verið gert. Þær nýju uppbætur, sem hér er borið fram frv. um, eru til komnar " vegna þess, að fiskverðið hækkaði um 71/2% í ákvörðun verðlagsdóms og sú uppbót, sem ríkissjóði er ætlað að taka á sig nú, er sú upphæð, sem svarar til þessarar hækkunar, þ.e.a.s. ef ekki hefði til hækkunarinnar komið, þá hefðu í ár ekki þurft nein framlög að dómi verðlagsdómsins að koma til sjávarútvegsins yfirleitt. Til þessara uppbóta, þessara 33 millj., sem nú eru ætlaðar til hraðfrystihúsanna til þess að auka möguleika þeirra til vinnuhagræðingar, hefði eftir úrskurði dómsins eða að áliti dómsins ekki þurft að koma, ef fiskverðshækkun hefði ekki orðið. Hin upphæðin, sem frv. fer fram á, er að bæta á línufisk og handfærafisk 25 aurum til þess að örva til þessarar veiði. Það er vitað, að æskilegustu gæði fisksins eru einmitt þau, sem fást af línufiski og handfærafiski. Það er bezti fiskurinn, sem vinnslustöðvarnar geta fengið, og það hefur þess vegna verið talin ástæða til að reyna að örva menn til þeirrar veiði með þessu viðbótarframlagi úr ríkissjóði. Þetta hefur líka verið til þess gert, að einmitt þessi veiði, sem að verulegu leyti er stunduð á ýmsum þeim stöðum, þar sem hráefni til frystihúsanna er af skornum skammti, gæti orðið til þess að auka hráefnismagn frystihúsanna og gera þeirra afkomu þar með betri.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. (BP), sem hv. síðasti ræðumaður vildi nú um of bendla við óflokkslegt samband við ríkisstj., að mér skildist á honum, hann vildi nú ekki samt, þessi hv. þm., telja, að þessi hækkun á fiskverðinu, á línufiskinum og handfærafiskinum, væri að verulegu gagni. Ég vil þó benda á, að þessi hækkun, einmitt þessi 25 aura hækkun, hún er svo að segja alveg sú sama og sú hækkun, sem almennt varð á fiskverðinu, þannig að þeir, sem þessa útgerð stunda, fá tvöfalda hækkun á þennan fisk á árinu 1965, miðað við árið 1964. Ég tel þess vegna, að þetta, þó að ekki sé mjög há upphæð, þá sé það a.m.k. mjög í áttina, að fá tvöfalda hækkun á þennan fisk í staðinn fyrir það, að aðrir fá aðeins einfalda hækkun eða 71/2 %, sem nálgast að vera sama upphæð eða 25 aurar á kíló.

Þá vildi þessi hv. þm. líka telja, að þeim 33 millj., sem nú eru veittar til hraðfrystihúsanna, mætti verja betur á annan hátt. En ég held, að það sé ekki skoðað ofan í kjölinn hjá hv,. þm., því að þessar 33 millj. eru veittar frystihúsunum til þess að bæta sína framleiðni og auka sinn vélakost til vinnslunnar, og það hlýtur fyrr eða síðar og raunar mjög bráðlega, eins og komið hefur í ljós vegna uppbótanna s.1. ár, að leiða til þess, að frystihúsin verði fær um að kaupa fiskinn hærra verði en þau hafa getað gert áður; þannig að þessar 33 millj., sem þarna er um að ræða, verði óbeinlínis til þess að veita bátunum, sem hv. þm. bar nú mest fyrir brjósti, meiri aðstoð en vera mundi, ef þessu hefði ekki verið veitt í þennan farveg.

Þetta eru nú, að ég ætla, þær aðalathugasemdir, sem komið hafa fram við frv. En eins og ég sagði í upphafi, skilst mér, að flestir hv. þm., sem talað hafa, hafi verið á þeirri skoðun, að frv. væri rétt og þarft, og tjáð sig því samþykka, þannig að ég held, að um það þurfi ekki lengri umr. En umr., sem fram hafa farið þessa tvo daga, hafa, eins og ég sagði, verið miklu meira um allt annað en um efni frv. Þær hafa fyrst og fremst beinzt að því, hver hætta væri í því fólgin að skera niður verklegar framkvæmdir um 20%, eins og sagt er frá í grg. fyrir frv., að ríkisstj. hafi ákveðið að gera. En úr því að það er talið nauðsynlegt og eðlilegt, að þessi aðstoð verði veitt úr ríkissjóði til sjávarútvegsins og ég hef ekki heldur heyrt véfengt, að það væri talið nauðsynlegt, að laun opinberra starfsmanna væru hækkuð um 6.6%, eins og gert var nú nýlega og með þeim afleiðingum, að útgjöld ríkissjóðs þess vegna hækki um 65 millj., eða útgjöld alls af þessum tveim ástæðum hækki um 120 millj. kr., þá sé nauðsynlegt, að þessum útgjaldaauka ríkissjóðsins verði mætt á einhvern hátt. Ef menn eru óánægðir með þessa ráðstöfun, sem nú hefur verið gerð, að takmarka hinar opinberu framkvæmdir um 20%, hvað vildu þeir þá? Vildu þeir láta vera að gera þessar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til aðstoðar sjávarútveginum og til hækkunar á launum opinberra starfsmanna, og ef þeir vildu það ekki, hvernig átti þá að mæta þeim? Átti frekar að mæta þeim með álagningu nýrra skatta heldur en að mæta þeim á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir að gera, með því að fresta opinberum framkvæmdum um sinn? Ríkisstj. taldi, að það væri réttara að fresta hinum opinberu framkvæmdum heldur en að fara í nýja skatta, og annað hvort þessa varð að gera, ef átti að stofna til þessara útgjalda, sem frv. gerir ráð fyrir, og þeirra útgjalda, sem leiðir af hækkun launa opinberra starfsmanna.

Hv. þingmenn Framsfl. hafa sagt í umr.: Hví ekki að fara sparnaðarleiðina? Út af fyrir sig er það náttúrlega sparnaður með vissum hætti að fresta framkvæmdum til næsta árs. En fyrir þeim hefur sjálfsagt vakað einhver annar sparnaður, og hefur ýmislegt verið nefnt, sem mér þykir nú að mörgu leyti allkyndugt, en skal ekki fara langt út í, og alveg sérstaklega þykir mér það furðulegt, að þegar þm. þessa flokks, hv. Framsfl., báru fram við afgreiðslu fjárl. till. um hækkun á fjárlagagreiðslum um 300 millj. kr. — þrjú hundruð milljónir króna — á einu bretti, þá séu þeir að tala um sparnað, því að þessi sparnaður, sem þeir hafa minnzt á, er svo furðulega aumur og lítill, að hann telur ekki í þessu sambandi, hann er ekki af sömu stærðargráðu og þessir útgjaldaliðir eru og alls ekki sambærilegur við þau auknu útgjöld, sem þeir fluttu till. um við fjárlagaafgreiðsluna.

Náttúrlega er það alveg rétt, að ýmsar opinberar framkvæmdir eru mjög nauðsynlegar. Það er nauðsynlegt að leggja vegi og byggja hafnir. Það er nauðsynlegt að byggja skóla og sjúkrahús og ýmislegt þess háttar. En þetta verður ekki allt gert á einum degi. Þetta verður ekki allt gert í einu vetfangi. Það verður að hafa eitthvert plan í þessu, þetta verður að gerast á þann hátt, sem viðráðanlegur verður að teljast, og ef fé er ekki til framkvæmdanna með öðrum hætti en að leggja á nýjar álögur, þá er ekki um annað að ræða en að fresta framkvæmdunum um sinn.

Hv. 5, þm. Reykv. (ÞÞ) sagði hér í dag, að þetta væri önnur stefna en nágrannar okkar hefðu tekið. Hann taldi, að þeir, — og minntist sérstaklega á Dani í þessu sambandi, — þeir hefðu stefnt að aukinni opinberri fjárfestingu upp á síðkastið og það má vel vera, að það sé rétt. En ég bendi á, að það er með vissum hætti annað ástand þar en hér. Hér er ekkert atvinnuleysi og svo mikil eftirspurn eftir vinnuafli, að það er ekki nálægt því hægt að fullnægja þeirri eftirspurn, og það er annað, þegar ástandið í atvinnumálum er þannig, að það er ekki hægt að fullnægja eftirspurninni eftir vinnuafli, eða á þeim stöðum, þar sem atvinnuleysi er, þó að lítið sé. Það er alveg rétt, að atvinnuleysi í Danmörku hefur verið minnkandi á undanförnum árum, en það er þó til, og það hefur verið skoðun margra merkra erlendra hagfræðinga, að þegar eftirspurn væri eftir vinnuafli meiri en hægt væri að fullnægja, þá bæri ríkisstj. á hverjum tíma að takmarka sínar framkvæmdir eða fresta þeim, þangað til nauðsyn bæri til að hafa þær uppi, til þess að atvinnuleysi yrði ekki í landinu. Nú hefur að vísu ekki þessi grundvöllur legið fyrir þessari ákvörðun ríkisstj., en mér finnst þá, að hann að vissu leyti svari til þeirrar ákvörðunar, sem tekin hefur verið, því að það er ekki eins mikil ástæða til að flýta framkvæmdum ríkisins, þegar atvinnuástandið í landinu er eins og ég sagði, eins og það væri æskilegt að flýta þeim, ef atvinnuleysi væri fyrir hendi.

Nú er sú fjárhæð, sem veitt er til opinberra framkvæmda, í kringum 600 millj. kr., þ.e.a.s. með þessari 20% lækkun, sem hefur verið ákveðin, lækkar hún niður í 500 millj. eða kannske lítið eitt niður fyrir það. En þó að allir vilji sem allra fyrst fá sínum framkvæmdum lokið, þá er allmikið hægt að vinna fyrir þessa upphæð, sem verður eftir í fjárl., þó að þessi framlög yrðu skorin niður um 20%, þannig að ég tel, að það sé út af fyrir sig enginn voði á ferð. Það er náttúrlega æskilegt, að þessar framkvæmdir ýmsar geti hafizt og orðið framkvæmdar sem allra fyrst. Ég skal t.d. nefna þær framkvæmdir, sem ég hef með að gera, eins og hafnargerðirnar, að mér er það vel kunnugt, að þar er þörfin mjög brýn. Ég veit, að hún er líka brýn á ýmsum öðrum sviðum, eins og t.d. að fá vegi lagða, skóla byggða, sjúkrahús reist og annað þess háttar. En allt verður að hafa sinn tíma, og ég tel, að með þeirri fjárhæð, sem eftir verður eftir þessa frestun, sem ákveðin hefur verið, sé vel hægt að framkvæma mjög verulegan áfanga í öllum þessum málum.

Fjárfestingarhlutfall okkar Íslendinga, þ.e.a.s. sá hluti af þjóðartekjunum, sem varið er til fjárfestingar, er sennilega meiri hjá okkur en hjá nokkurri annarri þjóð og er það kannske eðlilegt, vegna þess að hér er svo margt ógert og margt, sem þarf að gera. En að áfram sé siglt svo hátt eins og gert hefur verið að undanförnu, það efast ég um, að sé skynsamlegt, þannig að það megi vel úr þessum framkvæmdum draga í bili eða fresta, þangað til aðstæður verða heppilegri og eðlilegri.

En það, sem vakti fyrir hv. þm. stjórnarandstöðunnar, sem hér hafa rætt þetta mál á þessum grundvelli, var að reyna að sanna það, að efnahagsstefna ríkisstj. hefði fullkomlega brugðizt, hún hefði beðið skipbrot og þess vegna bæri ríkisstj. að segja af sér. Ég tók eftir því, að hv. 11, þm. Reykv. (KTh) ræddi um þetta nokkuð og tók sem dæmi, hvernig fyrirætlanir ríkisstj. um sparnað hefðu mistekizt, hvernig Skipaútgerð ríkisins hefði komið illa út á undanförnum árum. Þeir vildu nefnilega, hv. þm. stjórnarandstöðunnar, sem um þetta töluðu á þennan hátt, sýna það og sanna, að stjórnarstefna þessarar ríkisstj. væri svo fráleit, að framsóknarmenn þyrftu að koma til og fá stjórn þessara mála í sínar hendur. Ég veit ekki, hvort það hefur einmitt vakað fyrir hv. 11. þm. Reykv. að nefna Skipaútgerð ríkisins í þessu sambandi. Það er alveg rétt, að hagur Skipaútgerðar ríkisins hefur farið hraðversnandi upp á síðkastið, ekki vegna þess, að þeir ráðunautar, sem til hafa verið kvaddir, hafi ekkert þekkt nema innanskerssiglingu í Noregi, — það er fullkomlega rangt hjá þessum hv. þm., því að þeir menn, sem um þetta hafa fjallað, hafa ýmist verið Íslendingar eða þeir Norðmenn, sem um það hafa fjallað, þeir hafa farið þér í kringum land og kynnt sér allar aðstæður, — en það, sem strandað hefur á, er, að forstjóri Skipaútgerðar ríkisins hefur aldrei viljað á þessar till. fallast og ekkert viljað gera til þess að bæta úr þessu slæma rekstrarfyrirkomulagi. En ég vil benda á, að þessi framkvæmdastjóri Skipaútgerðar ríkisins er framsóknarmaður úr innsta hring, þannig að ef sú stjórn, sem framsóknarmenn vilja nú að taki við á þessu landi, á að miðast við afköst þessa forstjóra, þá býð ég ekki í það, því að afkoma Skipaútgerðarinnar hefur farið versnandi frá ári til árs ,úr tiltölulega smáum upphæðum fyrst og upp í yfir 30 millj. kr. halla á ári nú. Og þetta er undir stjórn framsóknarmanna og framsóknarmanns úr innsta hring. Það hafa verið gerðar ýtarlegar tilraunir til þess að fá hann til þess að breyta um og reyna að koma þessum rekstri í betra horf, en það hefur aldrei tekizt og niðurstaðan er þessi, eins og ég segi. Ef útkoman úr þeirri stjórn framsóknarmanna, sem þeir vilja stofna til til þess að taka við af þessari, verður eitthvað svipuð og útgerð Skipaútgerðar ríkisins, þá býð ég ekki í hana og bið æðri máttarvöld að forða þjóðinni frá því, að sú stjórn komi hér til valda.

Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar. Ég hef engan áhuga á því að ræða hjúkrunarkvennaskólann í sambandi við aðstoð við sjávarútveginn eins og hv. 11. þm. Reykv. og fleiri hv. þm., sem talað hafa, hafa gert. Mér finnst, að það mál eigi sinn stað og sinn tíma, en eigi ekki að blandast í þetta, sem hér liggur fyrir, og get þess vegna látið máli mínu lokið. Ég er þakklátur þeim hv. þm. öllum, sem hafa tekið undir það að styðja þetta frv., því að ég tel, að það miði í rétta átt og þrátt fyrir þær utanveltuumr., sem hér hafa farið fram í sambandi við frv., þykist ég vita, að þessir hv. þm. muni að lokum fylgja frv., og það vænti ég að þeir geri, frv., eins og það liggur hér fyrir.