18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég veit, að þm. virða mér til vorkunnar, þó að ég leiði hest minn hjá því að svara hv. 11. þm. Reykv. Ég sannaði, svo að ekki verður um deilt, á fundinum milli 5 og 7, að hv. þm. hafði farið með rangt mál um tvö atriði, er hann hafði gert að árásarefni á, mig. Hv. þm. bar á móti öðru atriðinu með framíkalli. Ég lýsti því þá yfir, að ef ég hefði farið rangt með, þá bæði ég hann afsökunar. Siðar kom í ljós, að það var ég, sem hafði rétt fyrir mér, en ekki hann. Hann hafði ekki manndóm í sér til að biðjast afsökunar og hefur því ekki einungis farið rangt með, heldur vísvitandi rangt með og mega menn kalla það hverju nafni sem þeir vilja, það að fara vísvitandi rangt með og hafa ekki manndóm í sér til að viðurkenna sína yfirsjón. Við því líkan mann, sem staðinn er að álíka athæfi, er ekki viðmælandi.

Hv. 5. þm. Reykv. gerði mikið úr því, svo sem raunar 1. þm. Austf. áður, að fjármagn væri frjálst til ýmiss konar verðbólguframkvæmda. Hv. 5. þm. Reykv. skýrði betur en 1. þm. Austf., við hvað hann átti með því, talaði um hin miklu verzlunar- og skrifstofuhús, sem hér væru reist. Ég vil af þessu tilefni, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp það, sem hlutlaus skýrslugjafi segir um þessi efni, í ritinu Úr þjóðarbúskapnum, fyrst í 13. hefti og síðan í 14. Í því fyrra segir:

„Verzlun, veitinga- og skrifstofuhús. Auk húsrýmis fyrir eiginlega verzlun og veitinga- og gistihús fela þessar framkvæmdir í sér allt skrifstofuhúsnæði annað, en í opinberum byggingum. Fjármunamyndun þessi er því í þágu fjölmargra greina iðnaðar og þjónustu auk verzlunarinnar. Alls nam fjármunamyndunin 137.6 millj. kr. árið 1962, á verðlagi ársins, en þar af voru framkvæmdir við olíu- og benzínstöðvar 3 millj. kr.

Framkvæmdum þessum var lengst allra haldið niðri með takmörkun fjárfestingarleyfa, en árið 1960–62 verða þær um tvöfalt meiri að magni en næstu árin á undan, 1957–59, eða 97–111 millj. kr., á verðlagi ársins 1960; á móti 47–57 millj. kr. Framkvæmdir ársins 1962 voru að heita má jafnar að magni og árið áður.

Stærsta einstaka framkvæmdin, sem í þennan flokk fellur, er Bændahöllin. Teljast framkvæmdir við þá byggingu hafa numið nálægt fimmtungi heildarframkvæmda árið 1962.“

Í seinna heftinu segir:

„Verzlun, veitinga– og skrifstofuhús. Töluverð aukning varð á framkvæmdum í þessari grein frá 1962–63. Magnaukning milli áranna var 38.2%. Aukning bygginga í þessari grein á undanförnum árum stendur að miklu leyti í sambandi við tvennt: annars vegar þann skort á húsnæði af þessu tagi, sem langvarandi fjárfestingarhöft höfðu skapað, en þeim var ekki aflétt fyrr en á árinu 1960, hins vegar þörf á nýju húsnæði vegna aukinnar þjónustu, einkum í nýjum hverfum stækkandi kauptúna og kaupstaða.“

Þetta er greinargerð hlutlauss aðila fyrir þessum byggingum, og það er rétt, að þær hafa aukizt verulega, eins og þessar skýrslur sanna. En til þess liggja þær ástæður, sem hér er í stuttu máli gerð grein fyrir. Það hefur einnig komið fram, að af hálfu erlendra skipulagssérfræðinga, sem fengnir voru til starfa til að undirbúa nýtt skipulag fyrir Reykjavík og nágrenni, bentu þeir á, að miðað við svipaða kaupstaði eða bæi erlendis væri starfsrými fyrir verzlanir, iðnað og skrifstofur orðið of lítið í Reykjavík.

Þetta er óhagganleg staðreynd og kemur af þessu, að þessum byggingum var haldið niðri í mörg ár, meðan fjárfestingarhömlurnar voru. Þá var þeim haldið niðri hér í Reykjavík. En menn þurfa ekki annað en fara í kaupstaði og kauptún, þar sem framsóknarmenn hafa meginhluta verzlunar í sínum höndum, til þess að sjá, að þvílíkum höftum var þá ekki fylgt á þeim stöðum. Það nægir í því sambandi að minna á tvo staði ekki alls fjarri Reykjavik, annars vegar Selfoss og hins vegar Borgarnes. En hið sama má sjá víðast hvar sem um þetta land er farið. Hinu pólitíska fjárfestingarbannvaldi var beitt til þess að hindra sams konar framkvæmdir í Reykjavík og leyfðar voru hvarvetna annars staðar um landið, a.m.k. kaupfélögum, sem voru Framsfl. velviljuð.

Það er eðlilegt, að úr þessu væri bætt með svipuðum hætti og raun ber vitni. En það er einnig ánægjulegt að sjá, að stærsta einstaka framkvæmdin, sem í þennan flokk fellur, er Bændahöllin. Það var fimmtungur heildarframkvæmda árið 1962, sem sú bygging var af þessum fjárfestingarlið. Það sýnir, að bændur landsins voru ekki í sínum stéttarsamtökum í sama einangrunar- og fjandskaparhuga eins og ráðamenn Framsfl. Þeir höfðu á þessu aðrar skoðanir. Þeir hafa talið, að of lítið væri einmitt um slíkar fjárfestingar í Reykjavík, og viljað þar um bæta með sinum framlögum. Það hefur að vísu komið fram, að hv. 5. þm. Norðurl. v. telur, að þarna hafi verið um nokkra ofrausn að ræða af hálfu bænda, það er annað mál. Þetta sýnir, að bændur hafa sízt talið, að framkvæmdir þessarar tegundar væru of miklar hér í Reykjavík.

Hv. 5. þm. Reykv. vitnaði til þess, að í öðrum löndum væri farið öðruvísi að en hér, þar væri annarri stjórnarstefnu fylgt í flestum efnum. Vera kann, að svo sé að sumu leyti og þó ekki að öllu skv. því, sem einmitt hv. þm. hefur öðru hverju fárazt yfir í blaði sínu. Ekki er ýkja langt síðan, hann sagði það vera orsök kosningaósigurs brezku stjórnarinnar í aukakosningum, að hún hefði ekki tekið upp haftastefnu, heldur skattastefnu á innflutning í staðinn. Hann sagði, að þetta sýndi, að brezku stjórnendurnir hefðu ekki nógu mikinn stjórnmálaskilning, sem sagt að þeir féllust ekki á að beita höftunum, þessu höfuðbjargráði Framsóknar, heldur létu skattana, þ.e.a.s. peningavaldið, skera úr, eins og þessi hv. þm. öðru hverju ásakar ríkisstj. fyrir.

Hv. þm. sagði, að danska stjórnin færi a.m.k. öðruvísi að en við Íslendingar, hún ætlaði að auka opinbera fjárfestingu á næstu þremur árum um 50%, að því er mér skildist. Nú skal ég játa, að það er lengri tími, en þrjú ár, frá því að vinstri stjórnin fór frá. En svo einkennilega vill til, að þó að tekið sé tillit til mannfjölda og verðlag látið vera það sama á báðum tímabilunum, þá er, eftir að niðurskurðarheimildinni hefur verið beitt, fjárfestingin svo að segja 50% meiri á árinu 1965, skv. því, sem hér um ræðir, heldur en var 1958, svo að hér er þrátt fyrir niðurskurðinn um mjög verulega hækkun að ræða. Það tjáir ekki fyrir hv. þm. að halda því nú fram, að ekki stoði að líta aftur, heldur verði að líta fram og til hins breytta þjóðfélags, sem við erum staddir í. Það voru þeir sjálfir, sem buðu upp á þennan samanburð í sínum fyrri ræðum og gera það raunar stöðugt með sínum málflutningi og skrifum. Þeir halda því fram, að hér sé kyrrstaða í þjóðfélaginu og jafnvel afturför og það sé verið að stórminnka framkvæmdir frá því, sem áður hafi verið, þegar aðeins er dregið úr ferðinni í bili af þeim sérstöku ástæðum, sem nógsamlega hefur verið gerð grein fyrir. Sannleikurinn er líka sá, að heildaraukning á opinberum framkvæmdum er örugglega miklu meiri en 50% á þessu tímabili, sem ég hér vitna til. Fjárfesting bæjarfélaganna hefur sem sagt aukizt hlutfallslega enn þá meira en ríkisins, t.d. Reykjavíkurborgar, sem langsamlega mest munar um í þessu sambandi. Um það hef ég að vísu ekki handbærar tölur nú í kvöld, en þetta er auðvelt að kanna, a.m.k. í stórum dráttum, þá að hlítarsamanburður sé ef til vill nokkuð erfiður. Látum það koma fram, sem réttast er. Aðalatriðið er, að því fer fjarri, að þrátt fyrir þennan niðurskurð, sem hér um ræðir, búum við í kyrrstöðuþjóðfélagi. Við erum að auka opinberar framkvæmdir frá ári til árs, svo mikið, að erfitt er undir að standa, bæði fjárhagslega og varðandi mannafla, sem til þessara framkvæmda þarf.

Segja má, að dæmið liggi ofureinfalt fyrir nú: Hvort vilja menn heldur greiða fyrir útveginum á þann veg, sem þetta frv. segir til um og stuðla að því, að hann geti starfað með eðlilegum hætti, eða eiga hlut að því, að hann stöðvist og þar með verði raunverulega meiri þörf á opinberum framkvæmdum til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi? Eins og hæstv. sjútvmrh. sagði áðan, fer því svo fjarri, að það sé rétt, sem hv. framsóknarmenn segja, að það sé eðlilegt að hafa sem allra mestar opinberar framkvæmdir, þegar atvinnulíf allt er í blóma. Þvert á móti, þá er það kenning hinna hæfustu hagfræðinga, þeirra, sem það er mest að þakka, að þjóðirnar hafa ekki aftur lent í sams konar ófæru og þær gerðu á millistríðsárunum, að opinberum framkvæmdum eigi að haga þannig að draga heldur úr þeim eða a.m.k. minnka ferðina, þegar mikill vöxtur er í atvinnulífinu sjálfu, en auka heldur hinar opinberu framkvæmdir, þegar samdráttur vofir yfir eða er orðinn í atvinnulífinu og halda þannig nokkrum jöfnuði á. Þetta vita allir og þetta veit auðvitað enginn betur, en hv. 1. þm. Austf. eftir sína löngu reynslu, m.a. sem stjórnandi, enda benti hann oft á þessi sannindi áður fyrr, þegar sá gállinn var á honum að hafa heldur það, sem sannara reyndist.

Hv. þm. talaði, og báðir þessir hv. þm. raunar, 1. þm. Austf. og 5. þm. Reykv., um þær miklu lánsfjárhömlur, sem hér væru. Og hv. 1. þm. Austf. talaði um, að það ætti ekki að frysta féð, eins og hann segir, heldur beina lánsfénu á þann veg, sem heppilegastur væri.

En þá komum við einmitt að því, sem er mjög athyglisvert. Þessir hv. þm. tala stöðugt um þýðingu lánsfjárins í okkar landi, enda er sannleikurinn sá, að það eru mjög fáir og alveg teljandi einstaklingar, sem eru svo öflugir, að þeir geti ráðizt í verulegar framkvæmdir án atbeina opinberra lánastofnana. En hér eru lánastofnanir einmitt allar, eða svo að segja allar, nema hinir litlu einkabankar, sem í þessu hafa sáralitla þýðingu, undir opinberri stjórn, undir yfirstjórn Alþingis, sem kýs bankaráðin, bankaráðin velja fyrir atbeina ríkisstj, bankastjórana, þannig að, að þessu leyti eru hér á landi meiri afskipti af lánsfjármálum og þar með fjárfestingarmálum einstaklinga heldur en í flestum öðrum löndum, sem við höfum spurnir af.

Það má vel vera, að því verði svarað, að það sé illa haldið á þessu valdi. Það er allt annað mál. En þetta vald er fyrir hendi og það væri einungis til þess að skapa glundroða og fullkomið öngþveiti, eins og raunin var orðin, að bæta ofan á öll þessi opinberu afskipti sérstakri stofnun til þess að veita fjárfestingarleyfi. Ríkisvaldið hefur í hendi sér nú þegar að ráða að mjög verulegu leyti yfir því, hvernig fjármunum er varið í þessu landi, í hvaða stórframkvæmdir er ráðizt.

Þau beinu pólitísku afskipti, sem Framsfl. vill koma á aftur í þeirri von, að hann fái þá hlutfallslega meiri völd yfir þessum málum en hann hefur nú, leiddu aftur á móti til þess ástands, sem ég drap áðan á, varðandi verzlunar-, iðnaðar- og skrifstofuhúsnæði, þar sem blábert bann var búið að koma á hreinu öngþveiti, sem svo aftur á móti leiðir til þess, að ef til vill er í mesta lagi ráðizt í framkvæmdir skjótlega eftir að þessum hömlum er af létt. Svona horfa málin við í raun og veru, ef þau eru skoðuð öfgalaust.

Nei, það er vissulega ekki þörf hér á meiri opinberri forsjá og afskiptum, en þegar er. Hv. 1. þm. Austf. var enn að vitna í Harald Böðvarsson, sem hann dró inn í þessar umr. Ég vakti athygli á því, að það væri misskilningur, sem hv. þm. vildi hafa eftir Haraldi Böðvarssyni, að það væri dregið hér úr möguleikum til öflunar á vélakosti, iðnaðarhúsnæði eða fiskiðnaðarhúsnæði, að þetta hefði einmitt aukizt nokkurn veginn í réttu hlutfalli við almenna þróun í þjóðfélaginu, eins og þær tölur sýndu, sem ég las upp og þetta hefði ekki gerzt og ekki getað gerzt nema með aðstoð og atbeina ríkisvaldsins á ýmsan veg.

Það er nokkuð gaman að því að bera saman það, sem hv. þm. í þessum umr. hefur eftir Haraldi Böðvarssyni, við það, sem þm. hafði sagt daginn áður í öðru sambandi. Með leyfi hæstv, forseta, þá sagði hv. 1. þm. Austf. á þriðjudaginn, og þá vitnaði hann í Harald Böðvarsson:

„Einn liður í rekstri skuldugra fyrirtækja er mjög erfiður viðfangs, en það eru vextir af lánum.“ Svo kemur í svigum, það er víst eftir þm. sjálfan: „Það kemur ekki vel heim við það, sem hæstv. viðskmrh. fræðir okkur um af og til, því að hann segir, að vaxtaútgjöld á útgerðinni séu svo lítil, að það hafi enga þýðingu.“ Sviginn lokast. Þá kemur víst Haraldur aftur: „En vextirnir eru enn þá allt of háir, heldur höfundur áfram og vil ég geta þess, að Haraldur Böðvarsson & co. greiðir árlega í þessa hít 3–4 millj. kr.“

Þetta hefur hv. þm. eftir Haraldi Böðvarssyni. Daginn áður hafði þessi hv. þm. haldið hér ræðu, þar sem hann var að tala um vaxtalækkun og með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að lesa upp það, sem hann sagði þá:

„Nú hlýtur hæstv. viðskmrh. og aðrir, sem hér eiga hlut að máli, að vita það, að vextirnir eru stórkostlegur liður í útgjöldum framleiðslunnar, bæði útflutningsframleiðslunnar og iðnaðarins. Ég hef haft með höndum dæmi, verðlagningardæmi eða vinnsludæmi fyrir frystan fisk frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, — að vísu eru það orðin nokkuð gömul dæmi, þau munu vera frá 1961 eða þar í kring og hlutfallið er náttúrlega breytt núna frá því, sem það var þá, — sem gerðu ráð fyrir því, að vaxtakostnaðurinn, auðvitað stofnlánavextir með, væri sem allra næst 40% af kaupgjaldskostnaðinum. Þetta hlutfall er auðvitað eitthvað breytt núna frá því, sem það var þá. En þetta voru þau vinnsludæmi, verðmyndunardæmi, sem gerð voru á vegum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og þessi mál voru algerlega krufin til mergjar í sambandi við þá miklu deilu, sem var 1961 út af gengislækkuninni þá og kauphækkuninni. Þá var ýtarlega farið ofan í þetta og þetta allt saman ómótmælanlega sýnt. En nú hefur þetta hlutfall breytzt. Samt sem áður er það vitanlega þannig, að vextirnir eru stórkostlegur liður í framleiðslukostnaðinum.“

Þetta segir hv. þm. s.l. mánudag. Eftir þessum upplýsingum mundi vinnulaunakostnaður Haralds Böðvarssonar í mesta lagi vera kringum 10 millj. kr. Það getur skeð, að það hafi breytzt eitthvað lítillega, eftir því sem hv. þm. segir. En hvað segir nú Haraldur Böðvarsson sjálfur í þessari Morgunblaðsgrein:

„Fyrirtæki okkar feðga, H.B. & Co. á Akranesi, greiddi í vinnulaun og aflahluti s.l. ár um 45 milljónir og að auki keypta vinnu hjá öðrum áætlað um 5 millj.“

Það eru sem sagt 50 millj., en ekki 10 eða innan við 10, eins og ætlað var eftir dæmi hv. þm., sem hann segist hafa alveg sérstaklega rannsakað. (Gripið fram í. Ætli Haraldur Böðvarsson sé ekki nokkuð ríkur?) Ekki var svo að heyra á lýsingu hv. þm. s. 1. þriðjudag. (Gripið fram í.) Ég er að vitna í hv. þm. Ef hann finnur sjálfur, að hann hefur talað af sér, þá er honum nær að þegja heldur en að verða sér meira til skammar. Já, nú er það Sölumiðstöð og nú er það Haraldur, en Eysteinn hefur aldrei sagt neitt. Ég held, að flokksmennirnir hafi rétt fyrir sér, að hann tali jafnvel of mikið enn, þó að hann hafi töluvert dregið af sér seinni hluta þingsins. Og ég er ekki frá því raunar, að hv. 5. þm. Reykv. (ÞÞ) kunni að þykja það líka. Hann var að spyrja mig um það, hvaða heimildir ég hefði fyrir því, að framsóknarmenn þyrftu ekki að vera ýkja mikið sammála til þess að vera í Framsfl., bara ef þeir vildu berjast á móti íhaldinu. Ég leyfi mér að vitna í hv. formann Framsfl., í grein, sem hann skrifaði um s.l. áramót og ritstjóra Tímans fannst svo mikið til um, að hann prentaði þennan kafla upp úr, sem ég ætla að leyfa mér að lesa, með heimild herra forseta:

„Eysteinn sagði,“ segir Tíminn: „En hér kemur líka til, að íhaldið væri illa komið, ef kommúnistar lognuðust út af hér eins og á Norðurlöndum og í Bretlandi og stjórnmálaflokkur umbótamanna yrði hér sterkari en íhaldið eins og í þessum löndum.

Hér er komið að kjarna málsins og leiðinni til að leysa vandann. Hér þarf að efla öflugan umbótaflokk, sem verði sterkari en íhaldið, eins og umbótaflokkar eru á Norðurlöndum og í Bretlandi.

Hér þarf ekki að byggja allt frá grunni né reisa á rústum í þessu efni. Næststærsti flokkur landsins, Framsfl., byggir starf sitt og stefnu á þessum grundvelli, þarf engra hagsmuna að gæta, sem koma í bága við það og á vaxandi gengi að fagna.

Við síðustu kosningar varð Framsfl. næststærsti flokkurinn í bæjunum, en hafði áður lengi verið stærsti flokkurinn í sveitunum.

Framsfl. er einu pólitísku fjöldasamtökin á Íslandi, sem hugsanlegt er að efla svo, að hliðstætt verði við hina stóru umbótaflokka í nágrannalöndunum, sem hafa náð þar forustunni frá íhaldinu í þessum löndum.

Allar bollaleggingar um að ná þvílíku marki án þess að byggja á Framsfl. og því mikla afli, sem í honum býr, eru loftkastalar einir og hillingar, sem aldrei geta komið að liði.

Deildu og drottnaðu, hefur lengi verið mikið einkunnarorð peningavaldsins. En eiga menn ekki að fara að vara sig á því? Þess sjást merki víða og einnig hér í kosningunum síðast, að menn vilja fækka flokkunum og stækka þá.

Menn verða að geta verið saman í flokki, þótt þá greini á um margt, og má um þetta margt lærdómsríkt sjá um þessar mundir í bókum þeim, sem út koma nú um Wilson forsætisráðherra Breta, en þær eru sumar að verulegu leyti saga brezka Verkamannaflokksins síðustu áratugina. Verkamannaflokkurinn brezki hefði ekki náð völdum af íhaldinu í kosningunum í haust, ef hann hefði verið bútaður niður í smáflokka á undanförnum árum, jafnóðum og ágreiningur varð um ýmis málefni, t.d. um utanríkismálefni og varnarmálefni, en um þau efni hefur verið heitur ágreiningur í þeim flokki, einnig um þjóðnýtingu og fleira. Wilson hefur heldur ekki alltaf verið í meirihlutanum þar innan veggja, þótt hann sé formaður og samnefnari fyrir flokkinn.

Umbótamenn verða að gera sér ljóst, að þeir verða að læra þá sambúðarlist vel til jafns við íhaldið og þó betur að búa til stóra flokka og beita þeim, og það engu síður, þótt þá greini á um margt.

Ríður nú mest á því, að umbótamenn í landinu fylki sér fast saman með þessi meginsjónarmið í huga, meðan stjórnin stritast við að sitja.“

Þetta er tekið upp í leiðara Tímans hinn 12. janúar 1965 og staðfestir í einu og öllu allt það, sem ég sagði um þetta mál í dag. Til viðbótar má svo bæta því, að auðvitað er hverjum heimilt að nefna sinn flokk það sem honum sýnist, en flestum finnst það skop og háð, þegar framsóknarmenn kalla sjálfa sig umbótaflokk. Það sýnir, að þeir eru lítt bærir um að dæma sitt eigið eðli, en þegar þeir hafa samband við aðra flokka og leita samvinnu við þá og hafa m.a. sent menn héðan af landi til þess að taka þátt í alþjóðlegum ráðstefnum, þá hafa þeir leitað samvinnu við flokka, sem kalla sig frjálslynda flokka, t.d. bæði í Þýzkalandi og Ítalíu og raunar víðar, flokka sem eru yzt til hægri a.m.k. af öllum lýðræðisflokkum í þessum löndum. Það vita auðvitað allir, að Framsfl. er í ýmsum efnum eini afturhaldsflokkurinn á Íslandi, eini flokkurinn, sem blygðunarlaust berst fyrir því að halda uppi misrétti þegnanna og hverfa til löngu úreltra stjórnarhátta.

En varðandi þau málefni, sem nú skipta mönnum í flokka víðs vegar, þá spyr ég: Hver eru þau, ekki aðeins hér á landi, heldur annars staðar, sem meira ráða heldur en utanríkismálefni og varnarmálefni og hvort þjóðnýting skuli eiga sér stað, auk allra annarra, sem hv. 1. þm. Austf, sleppir að telja upp? Hv. þm. er að reyna að rökstyðja það, sem ég vitnaði til, að það skipti engu máli, hvaða skoðun menn hafi á hinum mestu baráttumálum, einungis ef þeir vilji sjálfir ganga undir hans árar og hjálpa honum til þess að þurrka þau tár af hvarmi landsmanna, sem hv. 2. þm. Austf. (HÁ) talaði um í dag, þegar hann lýsti því, að það, sem helzt kæmi tárunum út á íslendingum nú, væri að hafa slíkan forsrh. sem mig. Hann heldur, að framsóknarmenn hætti að gráta, ef Eysteinn Jónsson verður forsætisráðherra.