01.04.1965
Neðri deild: 61. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. sjútvn. á þskj. 387 með fyrirvara og sama hefur hv. 4. þm. Reykn. gert. Ég er því samþykkur, að ákveðinn verði sá stuðningur eða gerðar þær ráðstafanir í meginatriðum vegna sjávarútvegsirs, sem gert er ráð fyrir í frv., en fyrirvari minn er að öðrum þræði andmæli gegn þeirri tilkynningu, sem fram kemur frá hæstv. ríkisstj. í grg. frv. um 20% niðurskurð á framlögum til verklegra framkvæmda, en um það mál hefur verið allmikið rætt við 1. umr. þessa máls, en einnig veit fyrirvarinn að því, að ég vildi áskilja mér rétt, eins og fram kemur í nál., til þess að fylgja brtt. eða flytja brtt.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er nokkuð athyglisvert á ýmsan hátt. Það er m.a. talandi vitni þess, að uppbótakerfi er nú í gildi í sambandi við útflutningsframleiðsluna og ekki hefur tekizt að komast af án þess, þ.e.a.s. uppbótakerfis, eins og gert var ráð fyrir á sínum tíma. Í þessu frv. kemur það fram, að gert er ráð fyrir að framkvæma nú ýmsar hinar sömu aðferðir eins og framkvæmdar voru í þessum efnum fyrir nokkrum árum. Það er t.d. gert ráð fyrir að greiða togurum dagpeninga. Það er gert ráð fyrir almennum verðbótum og enn fremur nokkrum sérbótum samkv. 1. gr. frv. Um þetta ætla ég samt ekki að ræða nánar. En ég vil leyfa mér að minna á það, að á þeim tíma, þegar í gildi voru heildarlög um uppbætur í sjávarútvegi, var það eitt atriði í þeim lögum, að greiða skyldi úr sjóði þeim, sem starfaði að þessum málum, þ.e.a.s. útflutningssjóði, sérstakar uppbætur á smáfisk, á tilteknar fisktegundir og fisk veiddan á ýmsum tímum árs. Menn höfðu á þeim tíma lært það af reynslu, að þetta var nauðsynlegt. Það var nauðsynlegt vegna þeirra staða og vegna þeirra vinnslustöðva, sem voru þannig settar, að hráefni þeirra var sérstaklega dýrt í vinnslu. Og það hefur sýnt sig á þeim tíma, sem liðinn er, síðan þessi löggjöf var felld úr gildi, að það var ekki rétt að breyta hér til, að hlutaðeigandi staðir gátu ekki komizt af án þessara vinnsluuppbóta Nú þykir mér einsýnt, þegar það liggur fyrir að beita gömlu aðferðunum og að ekki verði komizt af án uppbótakerfisins, að þessi aðferð verði nú tekin upp á ný, a. m, k. að einhverju leyti. Við höfum rætt um þetta nokkrir þm., og ég vil leyfa mér ásamt hv. 3. þm. Vestf. (SE), hv. 2. þm. Austf. (HÁ) og hv. 1. þm. Austf. (EystJ) að flytja hér skriflega brtt. við frv. þess efnis. Ég skal geta þess, að við höfðum sent þessa till. í prentun fyrir nokkru, en henni hefur ekki verið útbýtt enn þá og þess vegna leyfi ég mér að flytja hana skriflega. En till. er þess efnis, að aftan við 2. gr. frv., sem fjallar um 33 millj. kr. framlag til framleiðniaukningar frystihúsa o.s.frv., komi ný mgr., svo hljóðandi:

„Enn fremur leggur ríkissjóður fram árið 1965 10 millj. króna, er verja skal til þess að greiða vinnuslustöðvum, sem hafa erfiða rekstraraðstöðu, vinnsluuppbætur á smáfisk, á tilteknar fisktegundir og fisk veiddan á vissum tímum árs eftir reglum, sem ráðuneytið setur að fengnum tillögum Fiskifélags íslands og Landssambands íslenzkra útvegsmanna.“

Það er að vísu svo, að þessi upphæð, sem gert er ráð fyrir að lögð verði fram, er ekki há. Hér er aðeins um 10 millj. að ræða. Ég ætla, að séruppbæturnar hafi síðasta árið, sem l. um útflutningssjóð voru framkvæmd, numið rúmlega 20 millj. kr. og þá var fiskverð miklu lægra en það er nú. En eigi að síður ætla ég, að það mundi muna nokkuð um þessa upphæð, ef hún væri aðallega greidd þeim vinnslustöðvum, sem hafa erfiða rekstraraðstöðu, eins og tekið er fram í brtt.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en leyfi mér að afhenda hæstv. forseta hina skriflegu brtt. með ósk um, að hann leiti afbrigða fyrir henni.