01.04.1965
Neðri deild: 61. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í sambandi við þessa skriflegu brtt., sem hér hefur verið flutt. Mér sýnist, að á þessari till. sé nokkur galli, þar sem gert er ráð fyrir því, að þær sérstöku fiskuppbætur, sem reiknað er með að greiða samkvæmt þessari till., eigi að renna til fiskvinnslustöðva. En þess verður að gæta, að það er þegar búið að ákveða fiskverðið nú og það er búið að ákveða einmitt verðið á smáfiskinum, ég vil segja óheyrilega lágt gagnvart þeim mönnum, sem selja fiskvinnslustöðvunum þennan smáfisk. Ég fyrir mitt leyti væri samþykkur þessari till., ef hér væri um það að ræða að verja 10 millj. kr. til verðhækkunar á smáfiski handa þeim, sem framleiða hann, því að þeir þurfa virkilega á því að halda. Framkvæmdin hefur verið sú, að verð á smáfiski hefur alltaf verið að lækka í hlutfalli við stóran fisk og sem sagt vegna þess, að smáfiskuppbæturnar voru á sínum tíma felldar niður, hefur þetta verið látið ganga út yfir þá aðila, sem veiða smáfiskinn einkum og sérstaklega.

Ég vil þess vegna beina því til þeirra, sem flytja þessa till., hvort það sé ekki ástæða fyrir þá til þess a.m.k. að draga hana aftur til 3. umr. og kanna þetta nokkru nánar. Ég mun ekki geta greitt þessari till. atkv. í því formi, sem hún er, því að ég sé enga ástæðu til þess, eins og nú er komið, að fara að greiða vinnslustöðvunum þessar smáfiskuppþætur, þegar búið er að ákveða fiskverðið til þeirra eins og gert hefur verið.