01.04.1965
Neðri deild: 61. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hv. frsm. sjútvn., að það sé ekki tekið fram í hinni skriflegu brtt., hvaðan þessar 10 millj. eigi að koma, sem gert er ráð fyrir að verja til séruppbóta. Það er skýrum orðum sagt í till., að þær eigi að koma úr ríkissjóði. (Gripið fram í.) Ríkissjóður fær tekjur sínar með því að leggja skatta, ýmist beina eða óbeina skatta, á landsfólkið, og af fyrirtækjum sínum, og það er töluvert mikið fé, sem þar er um að ræða.

Ég skal svo ekki hafa um þetta miklu fleiri orð. En ég held út af því, sem hv. 5. þm. Austf. sagði, að við vitum það báðir jafnvel, að rekstraraðstaða vinnslustöðva er mjög ólík víðs vegar um landið eftir því, hvernig aðstaða þeirra er og m.a. vegna þess, hvernig það hráefni er, sem þær fá til vinnslu. Að öðru leyti má heita, að þessi till. sé á sama hátt orðuð, a.m.k. að því er máli skiptir og hann orðaði sínar till. á sínum tíma um þetta efni, þegar hann var ráðh. sjávarútvegsmála.