27.04.1965
Efri deild: 72. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um þær brtt., sem hér hafa verið lagðar fram á þskj. 499 og þskj. 498.

Á þskj. 499 leggur hv. 1. þm. Norðurl. e. til, að varið verði 10 millj, kr. til þess að greiða vinnslustöðvum, sem erfiða rekstraraðstöðu eiga, vinnslubætur á smáfisk og tilteknar fisktegundir og á fisk veiddan á vissum tímum árs eftir reglum, sem rn. setji. Út af þessu vil ég aðeins taka fram, að þegar ákveðið var að veita sérstaka uppbót á línufisk, var það með nokkru tilliti til þess, að sú veiðiaðferð er tíðkanleg á mörgum stöðum úti um landsbyggðina, hér að vísu fyrsta mánuð eða rétt í byrjun ársins, en annars staðar um miklu lengri tíma. Þetta var þess vegna hugsað líka sem aðstoð við þessi frystihús úti um landsbyggðina, vegna þess að þau mundu á þennan hátt geta fengið fleiri til þess að stunda þessar veiðar en ella mundi, ef enginn styrkur væri þar greiddur. Þessi uppbót var talin mundu nema um 22 millj. kr. En nú hefur það atvikazt svo, að á þeim tíma, hér sunnanlands, sem þessar veiðar eru yfirleitt stundaðar, þá lágu veiðarnar niðri af ýmsum ástæðum og verður þess vegna ekki eins mikið, sem kemur þar til greiðslu, eins og gert var ráð fyrir: Hins vegar hefur þetta verið notað til þess að styrkja skreiðarframleiðslu, eins og hér hefur verið ákveðið við 2. umr. málsins og skal ég ekki fara frekar út í það. En að okkar áliti, sem að frv. stóðum, átti þessi styrkur til línuveiðanna, sem vonandi kemur að fullum notum úti um landsbyggðina, þótt hann hafi ekki gert það hér sunnan- og vestanlands, að geta orðið þeim nokkur bót og get ég þess vegna ekki lagt til, að þessi viðbót verði samþykkt.

Þá eru á þskj. 498 frá hv. 5. þm. Reykn. tvær till. Önnur um það, áð styrkur til togaranna verði að nokkru leyti miðaður við það, hvort skipin selja innanlands eða erlendis og í öðru lagi, að sett verði á laggirnar n. til að gera till. um ráðstafanir til að koma togaraútgerð landsmanna á rekstrarhæfan grundvöll. Um fyrra atriðið vildi ég segja það, að það er sjálfsagt meiningin með þessari mismunun í styrk áð reyna heldur að hvetja togarana til þess að landa hér heima og vissulega er það líka æskilegt frá sjónarmiði frystihúsanna og annarra vinnslustöðva, sem togararnir leggja upp hjá. En frá sjónarmiði togaraeigendanna og ég vil einnig segja frá sjónarmiði þjóðarbúsins í heild er þetta mjög vafasamt, því að verðið á ísuðum, ferskum fiski erlendis hefur upp á síðkastið verið svo hátt, að það nálgast það verð, sem fiskflökin fullunnin eru seld fyrir frá frystihúsunum. Ég segi ekki, að meðalverðið hafi komizt svo hátt, en þetta hefur í mörgum tilfellum komizt það hátt, að kg af þorski hefur verið selt á 10 kr. og þar yfir, sem er um það bil þrisvar sinnum hærra en verðið, sem greitt er hér heima af frystihúsunum. Og t.d. það, að fiskverð að meðaltali í Noregi hefur reynzt hærra en hér, stafar að verulegu leyti af því, að þeir hafa getað komið fiskinum ferskum, óunnum á markaðinn í Bretlandi fyrir mjög hátt verð. Ef þetta gefur þá raun, að það, sem fæst fyrir fiskinn óunninn, er kannske langt til jafnmikið og fæst fyrir hann unninn, þá er náttúrlega ekkert vit í því að koma í veg fyrir þá sölu, sem gefur þetta verð. Og togaraeigendurnir sjálfir líta náttúrlega til þessa markaðar mjög hýru auga, vegna þess að þrátt fyrir uppbætur hér fyrir heimalandaðan fisk mundu þeir aldrei komast upp í neitt svipað verð og þeir hafa fengið á hinum erlenda markaði nú um sinn, svo að ég held, að þetta sé á vissan hátt hæpin ráðstöfun, þó að út af fyrir sig megi segja, að það sé æskilegt að fá að vinna aflann hér heima í landi. En ef hún gefur ekki meira en fæst fyrir hann erlendis óunninn, er fyrirhöfnin og vinnan til lítils.

Í öðru lagi er lagt til, að sett sé 5 manna n. til þess, eins og segir í brtt., að koma togaraútgerð landsmanna á rekstrarhæfan grundvöll. Það er hægt að segja þetta, en ég er hræddur um, að það verði erfitt að finna leið til þess, að þetta geti orðið svo. Það er búið að skipa margar nefndir, og það er stutt siðan síðasta n. starfaði. Þær hafa allar gert ýmsar till., en þó engin getað komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri hægt að reka þennan útveg, eins og í pottinn er búið, án styrks frá ríkissjóði. Það hefur orðið niðurstaðan af öllum athugunum. Og þó að það væri sett ný nefnd, hef ég sannast sagna ekki trú á, — er ég ekki allt of bjartsýnn á, — að það mundi takast að gera togarana út rekstrarhallalaust, því að mér skilst, að það að koma togaraútgerð landsmanna á rekstrarhæfan grundvöll þýði það, að þeir þurfi ekki meðgjöf með útgerðinni.

Það hefur ýmislegt komið til álita og er raunar í gangi. Hv. þm. minntist á fiskleitina. Hún hefur því miður ekki gefið þá raun, sem vonazt var eftir. Hún var ákaflega dýr og ég hef ekki orðið var við það út af fyrir sig, að það væri ekki hægt að fá mannskap á leitarskipin vegna þess að kaupið væri svo lágt. Ég hef ekki orðið var við það. En hitt er annað, að árangurinn af þessari leit hefur orðið mjög smár og varla svarað þeim kostnaði, sem við þessa fiskileit var bundinn. Það er nú komið svo, að það er mjög ólíklegt, að nokkur ný fiskimið finnist fyrir togarana, segja fiskifræðingar. Það eru svo þrautrannsökuð öll svæðin við Grænland og við Nýfundnaland og fyrir austan Ísland er sjálfsagt ekki um neitt slíkt að ræða. Þess vegna hefur það orðið niðurstaðan hjá bæði fiskifræðingum og Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, að þeir hafa talið leitina, eins og hún hefur verið að undanförnu, svo þýðingarlitla, að þeir óska ekki eftir henni, þannig að ég geri ráð fyrir því, að Þorsteini þorskabít verði lagt og þessi leit a.m.k. ekki rekin á svipaðan hátt og gert hefur verið að undanförnu. En það hafa verið notuð önnur skip og stærri og aðrir skipstjórar, valinkunnir aflaskipstjórar, til þess að leita, en niðurstaðan hefur því miður orðið sú, að leitin hefur ekki svarað þeim árangri, sem búizt var við. Hins vegar getur það orðið mjög þýðingarmikið fyrir togaraútgerðina, að hægt sé að beita togurum til síldveiða og athugun á því málí er í fullum gangi. Ef það tækist að búa togarana þannig út, að þeir gætu aflað síldar og gert það með nokkurn veginn svipuðum árangri og stærri línuskipin, er enginn vafi á því, að það mundi gefa togurunum bætta rekstraraðstöðu, svo að um munaði. Það, sem hefur staðið á í því efni, er það, að togararnir okkar eru þannig byggðir, að þeir eru svifaseinir í snúningi, og það, sem verið er að gera nú, að það er verið að gera módeltilraunir og þær eru í fullum gangi, til þess að freista þess að koma þeim útbúnaði fyrir á skipunum, sem gerir þau auðveldari til snúnings. Hverjar niðurstöðurnar verða af þeim tilraunum, skal ég ekki segja, en ef þær tilraunir ,takast, ætla ég, að það sé það, sem getur orðið togaraútgerðinni hjá okkur að mestu gagni á næstunni.