27.04.1965
Efri deild: 72. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ræðu hæstv. sjútvmrh.

Í sambandi við þá till. að styrkja með hærra framlagi, með hærri styrk þann afla togaranna, sem lagður er á land til vinnslu innanlands, heldur en hinn, sem siglt er með til sölu á erlendum markaði, sagði hæstv. ráðh., að þjóðhagslega séð mundi þetta í mörgum tilfellum og eins og nú stæðu sakir ekki vera hagkvæmt. Það má vafalaust leiða full rök að því, að þegar ísfiskssala er í hámarki, þegar sala er mjög góð, afli almennt á norðurslóðum mjög tregur, eins og hann hefur verið til að mynda s.1. vetur, þá sé stórum hagkvæmara í fyrsta lagi fyrir útgerðirnar og jafnvel í vissum tilfellum hagkvæmara fyrir þjóðarbúið að sigla með aflann. En það er nú svo, að verðlag á erlendum mörkuðum hefur verið einmitt á þessari vöru mjög breytilegt og þó að það hafi verið tiltölulega jafnt og gott nú síðustu mánuðina, sýnir reynslan, að á þessu eru töluvert miklar sveiflur og hafa oft verið og verða vafalaust, og þá breytist myndin strax, þegar svo er komið, að þetta verð lækkar verulega frá því, sem nú er og hefur verið. En jafnframt er staðan nú sú frá þjóðhagslegu sjónarmiði, að það eru ýmsir plúsar og mínusar í þessu dæmi, sem sjálfsagt er að reikna með. Það er til að mynda ekki litill tilkostnaður í sjálfu sér við það að selja fiskinn og borga toll af honum og þar fram eftir götunum á hinum erlenda markaði, og jafnframt er oft nauðsynlegt fyrir einstök byggðarlög að fá þá vinnu, sem afli togara getur skapað í erfiðu árferði. Ég vil aðeins benda á það sem dæmi, sem bara þjóðhagslegt reikningsdæmi, að það hefur verið skýrt frá því fyrir skömmu, að togarinn Hafliði hefur ekki getað siglt á erlendan markað vegna hafíssins fyrir Norðurlandi. Hann hefur lagt upp nokkrum sinnum á Siglufirði, þar sem hefur verið mjög mikið atvinnuleysi. Nú hefur fólkið fengið þarna töluverða atvinnu við að vinna afla skipsins. Skipið hefur ekki þurft að sigla á erlendan markað og veitt þar af leiðandi meira en ella, miklu meira vafalaust, þar sem það hefur getað komið oftar að landi eða farið fleiri ferðir á sama tíma. Það er spurning, hvað út úr því dæmi kæmi, þegar það væri reiknað til fulls, hvort hentugra hefði verið fyrir þjóðarbúið, að togarinn Hafliði hefði siglt eins og einn túr til Bretlands eða lagt e.t.v. þrisvar upp á Siglufirði, þar sem vinnufúsar hendur hafa tekið við aflanum, miklu meiri afla, en farið hefði á erlendan markað og gert úr honum all verðmæta vöru.

Þá ræddi hæstv. ráðh. lítils háttar um fiskileitina og hann vildi bera á móti því, að það hefði verið erfitt að fá mannskap á togarann Þorstein þorskabít, sem hefði átt að annast þessa leit. En ég held, að það sé alveg óvefengjanlegt, að á því hafa verið miklir örðugleikar og það á e.t.v. sinn þátt í því, ef það reynist svo, að útgerðarmenn leggja ekki mjög mikið upp úr þessari leit, að það hefur gengið svo hörmulega með útgerð skipsins og af því hefur e.t.v. ekki orðið sá árangur, sem menn væntu.

En það var í rauninni fleira en bein fiskileit, sem hugmyndin var að þetta skip fengist við, það voru ákveðnar tilraunir í sambandi við veiðarfæri. Ég hygg, að það hafi verið svokallað japanskt troll, sem þessi togari var að gera tilraunir með hér við íslenzkar aðstæður, hann hafi verið kominn eitthvað áleiðis með þær tilraunir, en þeim ekki lokið, menn hafi jafnvel gert sér allmiklar vonir um árangur af þeim. En nú er búið að leggja þessu skipi, og ég veit ekki, hvað um frekari tilraunir verður, en þar höfðu farið fram, en var ekki lokið.

Fleira er það vafalaust, sem slíkt skip sem þetta, rekið í þágu togaraútgerðarinnar, gæti gert, svo sem tilraunir með margvíslega hagræðingu um borð í þessum skipum. Ég las það fyrir skömmu, að einn helzti aflamaður og afreksmaður á togaraflotanum hér skýrði frá því, að með nokkrum breytingum, sem hann hafði gert a dekki og um borð í sínu skipi, hefði honum tekizt að stytta allverulega þann tíma, sem hann þurfti til þess að taka inn trollið og koma því frá sér aftur og taldi og að þessar hagræðingar einar mundu verða og hefðu þegar sýnt sig að verða mjög verðmætar, fyrir útgerð þessa skips, þannig að það er í rauninni ýmislegt, sem ekki hefur enn verið fullreynt í þessum efnum. En ég legg á það áherzlu, að togaraútgerð landsmanna er þjóðfélaginu svo mikilsverð, að á það verður að leggja alla áherzlu að kanna hverja leið, sem fær getur verið til þess að leysa vanda þessara skipa, þeirra skipa, sem geta veitt á þeim miðum og þeim tímum, þegar öðrum skipum verður naumast við komið.