28.04.1965
Neðri deild: 74. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eíns og hv. þdm. muna, var þetta mál flutt hér í þessari hv. d. og er nú komið aftur frá Ed. vegna einnar breytingar, sem hefur verið gerð á frv., en hún er sú, sem felst í 3. gr. frv., eins og hún er nú, sem er ný og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árinu 1965 heimilast að greiða úr ríkissjóði til skreiðarframleiðenda 10 millj. kr. til verðuppbóta á útflutta skreiðarframleiðslu eftir reglum, sem sjútvmrh. setur.“

Það var nokkuð um það rætt í þessari hv. d., þegar málið var hér til meðferðar, að skreið og skreiðarverkun mundi þurfa nokkurn stuðning. Nú varð það úr, að málið fór í nánari athugun, án þess að leiðrétting yrði á þessu gerð hér. Við athugun málsins kom greinilega í ljós, að það væri mjög æskilegt að geta aðstoðað þá, sem skreið verka og í annan stað kom líka í ljós, að það fé, sem ætlað var til styrktar línuveiðum, mundi ekki verða notað allt, vegna þess að tveir fyrstu mánuðirnir hér sunnanlands, sem eru mestu línuveiðamánuðir ársins, voru mjög lítið notaðir, þannig að við það sparast nokkuð af þeim 22 millj., sem til þessa voru ætlaðar og var þá talið mögulegt að færa þær yfir á skreiðarverkunina og að ríkissjóður bætti við því, sem þyrfti til þess að ná þessum 10 millj. öðru hefur ekki verið breytt að neinu leyti í þessu frv. og ég vildi mega vænta þess, að hv. d. geti nú afgreitt frv. eins og það er með þessari breytingu.