22.03.1965
Efri deild: 57. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

157. mál, Myndlista- og handíðaskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til, að í fyrsta sinn verði sett heildarlöggjöf um myndlistar- og handiðakennslu hér á landi. Þessi kennsla fer nú fyrst og fremst fram í Handíða- og myndlistaskólanum í Reykjavík. Sá skóli er rekinn að öllu leyti af því opinbera, þ.e. ríkinu og Reykjavikurborg. Um hann eru þó ekki til önnur lagaákvæði, en þau að í 7. gr. 1. um iðnskóla, nr. 45 1955, segir svo:

„Heimilt er að láta listiðnadeildir Handíða- og myndlistarskólans í Reykjavík njóta sömu réttinda um styrk úr ríkissjóði samkv. 2. tölulið þessarar gr., að fullnægðum sömu skilýrðum.“

Samkv. þessari heimild í iðnskólalögunum tóku listiðnaðardeildir skólans til starfa haustið 1956, eftir að menntmrn, hafði sett reglugerð um þessa starfsemi 21, júli 1956. Það var Lúðvíg Guðmundsson, sem stofnaði Handíðaskólann haustið 1939. Áður höfðu ýmsir drátthagir menn og listmálarar um lengri eða skemmri tíma haldið uppi nokkurri kennslu fyrir almenning í teiknun og listmálun. Fór sú kennsla ýmist fram í einkatímum eða námskeiðum og þá einkum að kvöldlagi. — Um reglulega skipun á skólastarfi á þessu sviði var þó ekki að ræða, fyrr en Lúðvíg Guðmundsson stofnaði Handíðaskólann og vann með því hið merkasta brautryðjandastarf.

Þegar á fyrsta starfsári skólans tók smíðakennaradeild til starfa. Myndlista- og teiknikennarádeildir voru stofnaðar haustið 1941. Kennaradeild handavinnu kvenna var stofnuð 1947, listiðnaðardeild 1956 og vefnaðarkennaradeild 1959. Fyrstu 3 árin var skólinn rekinn sem einkaskóli, en frá haustinu 1942 til loka árs 1959 stóð félagsskapur áhugamanna að starfsemi hans, en síðan hefur skólinn að öllu leyti verið rekinn sameiginlega af ríki og Reykjavíkurborg. Frá upphafi naut skólinn fjárhagslegs stuðnings ríkisins og bæjarfélagsins og frá öndverðu hefur ríkissjóður að verulegu leyti borið kostnað af starfsemi kennarádeildanna, enda hefur kennslan í þeim deildum verið nemendum að kostnaðarlausu.

1951 var sú breyting gerð á rekstri kennaradeildanna, að tvær þeirra, smíðakennarádeildin og kennaradeild handavinnu kvenna, voru sameinaðar Kennaraskóla Íslands.

Í lögum um menntun kennara 1947 var kafli um Handíðakennaraskóla Íslands og var þar kveðið svo á, að stofna skyldi skóla til þess að veita menntun þeim, sem vilja gerast sérkennarar í handíðum við barnaskóla, skóla gagnfræðastigsins og húsmæðraskóla og skyldi skólinn nefnast Handíðakennaraskóli Íslands. En þangað til sá skóli væri stofnaður, skyldi kennsla sú, sem honum var ætlað að inna af höndum, fara fram í kennaradeild Handíða- og myndlistaskólans í Reykjavík. Með nýju l. um Kennaraskólá Íslands voru þessi ákvæði felld úr gildi og eru þess vegna nú engin lög í gildi um kennaradeild skólans. Ekki sízt vegna þessa er nú nauðsynlegt að setja ný lagaákvæði um þessi atriði. Hefur þess vegna þótt rétt að setja heildarlöggjöf um starfsemi skólans, sem hefur orðið æ umfangsmeiri með hverju ári og er hann fyrir nokkrum árum raunverulega orðinn opinber skóli, en á þeim aldárfjórðungi, sem á þessu ári er liðinn frá stofnun skólans, hafa nálega 6.000 manns notið þar leiðsagnar um hin fjölbreytilegustu viðfangsefni á sviði myndrænna lista og handiða.

Af þessum sökum fól menntmrn. í sept. 1963 þeim Kurt Zier skólastjóra Handíða- og myndlistaskólans, Helga Elíassyni fræðslumálastjóra, dr. Brodda Jóhannessyni skólastjóra kennaraskólans og Lúðvíg Guðmundssyni fyrrv. skólastjóra Handíðaskólans að semja frv. til l. um skólann. Hafa þeir samið frv. það, sem hér er flutt og grg., sem því fylgir. Skal ég nú gera grein fyrir meginefni frv.

Þar eð myndrænar listir skipa nú meginrúm í kennslu skólans og hafa gert hin síðari ár, en handíðir koma þar í næsta sæti, hefur þótt rétt, að nafni skólans verði breytt í: Myndlista- og handíðaskóli Íslands. Tilgangur skólans er að veita kennslu, menntun og þjálfun í myndlistum, í listiðnum og búa nemendur undir kennslustörf í vefnaði, teiknun og öðrum greinum myndrænna lista, sem kenndar eru í skólum landsins. Skólanum er skipt í fjórar námsdeildir, myndlistadeild, kennaradeild, listiðnadeild og námskeið. Myndlistadeildin er kjarni skólans. Hún starfar eingöngu í föstum dagdeildum, námstími er 4 ár. Myndlistadeildin sjálf skiptist í 4 námsflokka, þ.e. tveggja ára forskóla og tveggja ára framhaldsflokka, þannig að skólinn er í raun og veru 4 ára skóli. Fyrra ár forskólans er reynsluár nemenda, sem teknir eru í skólann. Þeir koma þangað að jafnaði með gagnfræða- eða miðskólapróf og lágmarksaldur er 16 ár. Listræn undirbúningsmenntun er þó mjög misjöfn; oftast engin og veitir þetta fyrsta ár í forskólanum öllum umsækjendum jafna aðstöðu og möguleika til náms. Kennd eru m.a. undirstöðuatriði í teiknun, málun og litfræði. Samtímis er unnið að verkefnum, sem gefa nemendum tækifæri til að reyna sig og kanna listrænt ímyndunarafl og skapandi hæfileika sína. Tvisvar á ári dæmir kennarafundur verk nemenda. í lok fyrsta árs forskólans fær hver nemandi skriflega umsögn um námsárangur og hæfileika sína og er þá ráðlagt um það, hvort tiltækilegt sé fyrir hann að halda áfram listnámi og ef það þykir ráðlegt, hvers konar sérnám miða skuli við.

Á öðru ári er haldið áfram kennslu í þeim greinum, sem grundvöllur var lagður að á fyrsta skólaárinu og auk þess bætt við nýjum greinum, svo sem teiknun eftir módeli og lifandi fyrirmyndum. Nemendur mega einnig velja einhverja grein úr grafík eða ritlist, að jafnaði tré– eða línuritun.

Að loknu þessu tveggja ára forskólanámi á nemandinn að hafa öðlazt reynslu af hæfileikum sinum. Kennarar hans eru þá orðnir færir um að dæma um námsgetu og árangur hans. Þess vegna getur nemandi nú í samráði við kennara sína ákveðið frekari námstilhögun og hvaða sérgrein hann skuli velja sér. Samkv. fyrirhuguðu skipulagi skólans er þó um tvo aðalmöguleika að ræða. Í fyrsta lagi getur nemandi valið sér listnám og í öðru lagi getur hann látið innrita sig í aðra hvora af tveim kennaradeildum skólans. Velji hann listnám, kemur ýmislegt til greina. Hann getur valið sér greinar á sviði frjálsrar myndlistar, þ.e. listmálun, frjálsa ritlist eða grafík. Hann getur valið hagnýta ritlist með sérgreinum, svo sem leturgerð, bókaskreytingu, alls konar auglýsingar, umbúðateikningu, prentaðferðir, gluggaskreytingar o.s.frv. Hann getur valið sér veggmyndagerð, þ.e. steypt gler, mósaik, málað á múrvegg, fresko o.s.frv. Hann getur valið sér mótlist eða skúlptúr, þ.e. leirmótun, höggmyndalist, hagnýta myndskreytingu í tengslum við húsagerðarlist. Hann getur valið sér undirbúningsnám undir húsagerðarlist, þ.e. á listrænum grundvelli til undirbúnings og framhaldsnáms í skólum erlendis í húsagerðarlist. Og hann getur valið sér listvefnað og veggteppagerð; vefritun og mynzturteiknun.

Ef nemandinn lætur innrita sig í aðra hvora af hinum tveimur kennaradeildum skólans, er þar annars vegar um að ræða teiknikennaradeildina, sem er tveggja ára nám og lýkur með teiknikennaraprófi, sem veitir kennararéttindi. í þeirri deild bætast við ýmsar nýjar kennslugreinar: kennslufræði, sálfræði, skólasaga og uppeldisfræði, kennsluæfingar, íslenzka og heilsufræði. Sá, sem lýkur teiknikennaraprófi í Myndlista- og handíðaskólanum, hefur þá varið til þess jafnlöngum tíma og almennir kennarar eru við nám í kennaraskólanum eða 4 árum. Að afloknu forskólanáminu getur nemandinn einnig innritað sig í vefnaðarkennaradeild, en þangað komast líka nemendur með annað undirbúningsnám, t.d. eftir að hafa stundað undirbúningsnám í almennum vefnaði í húsmæðraskólum eða að loknu námi í handavinnudeild í kennaraskólanum. Námið í vefnaðarkennaradeildinni tekur einnig tvö ár. Kenndar eru þar ýmsar helztu vefnaðaraðferðir og ýmsar sérgreinar bætast við verklega námið auk bóklegra greina.

En starfsemi Myndlista- og handíðaskólans er ekki aðeins fólgin í hinu reglulega, fjögurra ára skólanámi, heldur einnig í ýmiss konar námskeiðshaldi, sem aðallega fer fram síðdegis eða á kvöldin: Er almenningi þar gefinn kostur á námi í ýmsum greinum myndlista og listiðnaðar. Námsefnið á þessum námskeiðum er fjölþætt og tilgangur þeirra því margvíslegur og frábrugðinn tilgangi hinna föstu dagdeilda. Kvöld- og síðdegisnámskeiðin eru þannig m.a. ætluð ungu fólki til hagnýtingar á tómstundum sínum, vinnu og lærdóms. Margir, bæði eldri og yngri, óska þess að geta fengið tilsögn í einni sérgrein listiðnaðar, svo sem bókbandi, almennum vefnaði, teiknun og ýmsu fleiru, til þess að afla sér sérþekkingar, er komi að gagni í starfi eða geri kleift að hagnýta hana sér tómstundavinnu. Aðrir sækja námskeið sem nauðsynlegan undirbúning undir frekara nám í sérskólum erlendis. En gildi slíkra námskeiða er mjög mikið, ekki hvað sízt í því skyni að gefa ungu fólki kost á að reyna sig og kanna listræna hæfileika sína.

Ýmsir af þeim, sem stundað hafa kvöldnámskeið, sækja síðar um inngöngu í dagdeildir skóláns, þar sem kröfur eru meiri og strangari.

Auk þessara námskeiða efnir skólinn til námskeiða fyrir starfandi kennara, bæði teikni- og vefnaðarkennara og er þessum námskeiðum ætlað að veita starfandi kennurum kost á framhaldsmenntun í sérgreinum sínum.

Skólinn starfar 8 mánuði á ári hverju, kennaradeildin þó 81/2 mánuð og 9 mánuði það ár, sem próf fara fram.

Nú í vetur eru rúmlega 300 nemendur í öllum deildum skólans. Á kvöld- og síðdegisnámskeiðum eru 159 nemendur, í æfingaskóla vegna kennaradeildar, þ.e. barnateiknun, 80 nemendur og í föstum dagdeildum skólans 55 nemendur. Kjarni skólans eru nemendurnir í föstum dagdeildum hans. Af þeim 50 nemendum eru 20 í kennaradeildunum, 8 í vefnaðarkennaradeild og 12 í teiknikennaradeild. Um 30% af nemendum í föstum deildum skólans eru því kennaraefni.

Af því, sem nú hefur verið sagt, má vera ljóst, að Myndlista- og handíðaskólanum er ætlað að sameina innan vébanda sinna nám, sem í hliðstæðum skólum erlendis er venjulega skipt milli fleiri stofnana. Í listaháskólum eða akademíum Evrópu er enn fyrst og fremst lögð stund á hina svonefndu frjálsu myndlist, þar sem listrænt viðhorf eitt ræður stefnunni. Hagnýt myndlist, þ.e. þær greinar myndrænnar listar, þar sem nytjasjónarmiðið er tengt hinu listræna viðhorfi, hefur verið og er víðast kennd í öðrum tegundum skóla, sem á íslenzku ætti nánast að nefna listiðnaskóla. En viðhorf skólamanna á sviði myndrænna lista er nú mjög að sveigjast í þá átt að telja þessa aðgreiningu á frjálsri myndlist og hagnýtri list óeðlilega og jafnvel óheillavænlega.

Þegar Handiðaskólinn var stofnaður fyrir 25 árum, var sú braut mörkuð að stunda kennslu í báðum þessum greinum myndrænna lista innan veggja hans og þannig hefur skólinn þróazt allt til þessa dags. Þykir því einsætt að halda hér áfram á þessari braut og það þeim mun frekar sem þróunin virðist beinast í þessa átt annars staðar. Einkum og sér í lagi virðist sjálfsagt hér, ekki aðeins með hliðsjón af forsögunni, heldur einnig með hliðsjón af smæð íslenzks þjóðfélags, að hafa einn skóla, sem reyni að leysa það hlutverk sem bezt, sem felst í að þroska hvort tveggja, hinar ýmsu sérgreinar myndlistar og listiðna hverja um sig og samræma þær um leið í heppilegu samstarfi og á traustum grundvelli gaumgæfilegrar listrænnar undirbúningsmenntunar.

Við Myndlista- og handíðaskólann starfa nú auk skólastjóra 17 kennarar, en aðeins einn þeirra er fastur kennari auk skólastjórans, allir hinir eru stundakennarar. Á þessu þarf að verða breyting. Er kennslustarf skólans að komast á traustari grundvöll og er því í frv. gert ráð fyrir því, að í skólanum skuli vera 4 fastir kennarar auk skólastjóra, þ.e. einn fastur kennari við hverja þessara deilda skólans, myndlistadeildina, teiknikennaradeildina, vefnaðarkennaradeildina og listiðnadeildina. Er þá gert ráð fyrir því, að enn geti liðið nokkur tími, unz ástæða þyki til að skipa kennara að fullu í allar þessar stöður. Með fjölgun fastakennara við skólann er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að stundakennsla minnki að sama skapi.

Varðandi rekstrarkostnað skólans er gert ráð fyrir því, að hann verði 1.8 millj. kr. á ári, þegar ákvæði frv. eru komin til framkvæmda. Hlutur ríkisins af þeirri fjárhæð verður 1.3 millj. kr., en hlutur Reykjavíkurborgar 1/2 millj. kr. Á árinu 1965 mun fjárveiting á fjárl. og í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar nægja til greiðslu rekstrarkostnaðarins. Á árinu 1966 og síðar mun hins vegar þurfa að auka fjárveitingu til skólans nokkuð.

Að síðustu vil ég láta þess getið, að ég tel hér vera um merkilegt lagafrv. að ræða, sem ég mælist mjög eindregið til, að hið háa Alþingi afgreiði nú á þessu þingi. Enginn vafi er á því, að Handíða- og myndlistaskólinn hefur gegnt mjög merku og mikilvægu hlutverki í íslenzkum skólamálum og í íslenzkri listmenningu. Nái þetta frv. fram að ganga, mun starfsaðstaða skólans bætast að miklum mun og skólinn því geta rækt hlutverk sitt enn miklu betur, en hann hefur gert undanfarin ár og áratugi. Það er sérhverri þjóð nauðsynlegt, að í skólakerfi hennar sé veittur kostur á góðri og vel grundvallaðri menntun í hvers konar myndlistum og þá ekki síður, að kennaramenntun á þessum sviðum sé góð og vel skipulögð. En þetta frv. miðar einmitt að endurbótum í þessum efnum. Þess vegna legg ég á það áherzlu og leyfi mér að óska þess, að málið fái greiðan gang í gegnum hið háa Alþingi.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.