24.11.1964
Efri deild: 22. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

5. mál, verðtrygging launa

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja teljandi þær umr., sem hér hafa farið fram, enda á ég sæti í þeirri þingnefnd, sem lagt er til að fái málið til meðferðar að lokinni þessari umr: Ég vil þó aðeins að gefnu tilefni í þeim ummælum, sem hér hafa fallið af hálfu tveggja hv. stjórnarandstæðinga, segja það, að það eina, sem ég hef við það frv. að athuga, sem hér hefur verið lagt fyrir, er það, að ég álít, að það sé rangnefni að kalla þetta frv. um verðtryggingu kaups eða launa. Að mínu áliti er hvorki með þeim ráðstöfunum, sem lagt er til að gerðar verði í frv., né neinum öðrum ráðstöfunum, sem í mannlegu valdi standa, hægt að verðtryggja kaup alls almennings í landinu í þeirri merkingu, að hægt sé að tryggja óbreyttan kaupmátt launa. Hver kaupmáttur launa er hverju sinni, hlýtur að vera komið undir afkomu þjóðarbúsins, aflabrögðum, verðlagi á afurðum og öðru slíku, og það er ekki á mannlegu valdi að tryggja neitt í því efni. Þess vegna hefði ég talið réttara að tala aðeins um verðlagsuppbætur á kaup, en ekki verðtryggingu. En þetta er aðeins spurning um orðalag.

En úr því að ég er kominn hér upp í ræðustólinn, vil ég gjarnan leiðrétta það. sem hv. 9. þm. Reykv. sagði, er hann vitnaði í álítsgerð sérfræðinga þeirra, sem undirbjuggu efnahagsráðstafanirnar 1960, og eins hv. þm. Sjálfstfl., sem hagfræðingur er að menntun, en ekki á sæti á hv. Alþingi lengur. Vegna þess tel ég standa mér nærri að leiðrétta þetta, en ég áíít, að bæði ummælin í álítsgerð sérfræðinganna og eins hv. þm., Birgis Kjarans, — er það ekki rétt með farið hjá mér, að það sé hann, sem átt er við? — hafi verið fullkomlega réttmæt miðað við þær ástæður, sem þá voru fyrir hendi. Reynslan hafði sýnt það, sem sagði í álítsgerðinni, að launþegunum var lítill hagur í vísitölufyrirkomulaginu. Má þar m.a. nefna athuganir, sem gerðar voru á þróun kaupmáttar launa á tímabilinu 1947—1960. Þessar athuganir voru gerðar að undirlagi Alþýðusambandsstjórnarinnar, og niðurstöðum þeirra hefur einmitt mjög verið hampað af hv. stjórnarandstæðingum. En niðurstaða þessara athugana var sú, að þrátt fyrir það, þó að vísitölukerfið væri lengst af við lýði á þessum tíma, og þrátt fyrir það, þó að allverulegar grunnkaupshækkanir ættu sér stað endrum og eins, þá rýrnaði kaupmáttur launa stórum þrátt fyrir þetta. Það út af fyrir sig sannar það, sem ég sagði, að vísitöluuppbæturnar eru engin trygging fyrir óbreyttum kaupmætti launa. Það er líka að mínu áliti alveg rétt, miðað við þær aðstæður, sem voru fyrir hendi 1960, þegar hv. fyrrv. þm., Birgir Kjaran, hélt því fram; að það væri grundvallarskilyrði fyrir því, að hægt væri að stöðva verðbólguþróunina, að vísitölukerfið væri afnumið. Það var rétt miðað við þær aðstæður, sem þá voru fyrir hendi, og ef sú ráðstöfun hefði ekki verið gerð, hefðu efnahagsráðstafanirnar verið dæmdar til þess að misheppnast.

En þar með er auðvitað ekki sagt, að það sé ekki rétt, sem hæstv. forsrh. skýrt tók áðan fram, að þetta átti við miðað við þær aðstæður, sem þá voru fyrir hendi. Nú eru aðrar aðstæður fyrir hendi, og ekki sízt vegna þess, að verkalýðshreyfingin á s.l. vori féll að verulegu leyti frá grunnkaupshækkunum, þá stendur að mínu álíti von til þess, að hægt sé að stöðva verðbólguþróunina á næstu missirum, ef bæði stjórnarvöld og launþegasamtök halda þannig á málum að öðru leyti, að slíkt verði mögulegt. Um það getur auðvitað enginn spáð. Í því efni kemur ekki síður til kasta launþega samtakanna en stjórnarvaldanna. Verði hins vegar haldið áfram á sömu braut eða sæki í sama horfið og var á árunum frá því að styrjöldin hófst og allt fram til 1960, að vísitalan og kaupgjaldið skrúfaði hvort annað upp á víxl, þá verður þetta lítil bót fyrir launþegana. En úr því fær reynslan ein skorið.

Að lokum vildi ég aðeins minnast á þá fullyrðingu, sem fram kom bæði í ræðu hv. 9. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Sunnl., að það, að vísitölukerfið væri nú innleitt að nýju, væri sönnun þess, að viðreisnin væri að engu orðin. Sú skoðun virðist liggja þessu að baki, að það hafi verið megintilgangur viðreisnarinnar að afnema vísitölukerfið. Slíkt er auðvitað fásinna og jafnheimskulegt af einstökum stjórnmálamönnum eða stjórnmálaflokkum að telja það stefnuskráratriði að beita einhverju sérstöku tæki, hvort sem eru háir vextir, aðgerðir í vísitölumálum eða hvað það er, — það væri álíka heimskulegt og ef einhver læknir gerði það að einhverri sérstakri stefnuyfirlýsingu, ef svo mætti segja, fyrir sig, að það væri eitthvert eitt lyf, sem alltaf ætti við og skyldi nota undir öllum kringumstæðum. Það má í þessu sambandi minnast á það, að sumarið 1963 voru vextir lækkaðir í Danmörku. Það var talið, að gjaldeyrisafkoma landsins og aðrar aðstæður í efnahagskerfinu væru þannig, að vaxtalækkun væri réttmæt ráðstöfun. En rétt fyrir síðustu kosningar í Danmörku hækkaði sama stjórnin, sem sat að völdum fyrir ári, síðan vextina á nýjan leik, og er mér ekki kunnugt um, að það hafi mætt neinni sérstakri gagnrýni. Hvaða tækjum á að beita í efnahagsmálunum, er auðvitað alltaf undir atvikum komið.

Nei, að mínu áliti var megintilgangur viðreisnarinnar sá í fyrsta lagi að forða frá yfirvofandi öngþveiti í gjaldeyrismálum og í öðru lagi að afnema gjaldeyrisúthlutunarkerfið. Hvort tveggja þetta hefur tekizt. Enginn hv. stjórnarandstæðingur neitar því, að nefndin á Skólavörðustígnum, eins og hún var kölluð meðal almennings, hefur verið afnumin. Hún er flutt þaðan og húsnæðið tekið til annarra nota. Svo að segja allur innflutningur og öll gjaldeyrisráðstöfun er nú frjáls. Það er fyrst þegar búið væri að endurreisa nefndina að nýju og hver einstakur, sem þarf að kaupa gjaldeyri, þyrfti að knékrjúpa einhverjum nýjum herrum, sem með þau mál fara, þá væri með meiri rétti hægt að segja, að viðreisnarráðstafanirnar væru að engu orðnar. En jafnvel þó að slíkt skeði, væri þó ekki hægt að segja að mínu álíti, að til einskis hefði verið barizt, því að það er ekki vafi á því, að einmitt vegna þessara ráðstafana hafa framfarir verið til mikilla muna meiri þau ár, sem viðreisnin hefur staðið, en þær hefðu ella orðið.