24.11.1964
Efri deild: 22. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

5. mál, verðtrygging launa

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Því fer fjarri, að ég hafi löngun til þess að draga úr ánægju hv. 6. þm. Sunnl. yfir þeirri framsýni, sem hann nú enn rifjar upp, að hann hafi haft fram yfir okkur suma árið 1960 og sagt þá fyrir, að það mundi hafa þýðingu varðandi viðskipti launþega og vinnuveitenda, hvort samningar væru um verðlagsuppbót eða ákvæði um þau efni. Það er mjög ánægjulegt að heyra þetta rifjað hér upp á nokkurra mánaða fresti í þingdeildinni, og veit ég, að aðrir þm. hafa ekki síður ánægju af að heyra þetta en hv. þm. að telja það fram.

En þó að þetta sé ánægjulegt, er hitt engu að síður víst, að þetta var ekki alveg frumleg athugun hjá hv. þm., því að vísitölukerfið, sem verið hafði við lýði allt frá 1939, byggðist einmitt á þessari vitund og staðreynd, að það er einn þátturinn í því að reyna að halda uppi vinnufriði að hafa vísitölukerfi, þrátt fyrir það að stjórnarvöld gerðu sér ætíð ljósa margvíslega misbresti á því og margvíslegar hættur. Þess vegna var það svo, að í sambandi við meiri háttar aðgerðir í efnahagsmálum voru að einhverju leyti yfirleitt sett sérákvæði um vísitölu og hvernig hana skyldi reikna, a.m.k. á meðan fram væru að koma áhrifin af þeim verðlagsbreytingum, sem þær ráðstafanir hefðu í för með sér, sem hverju sinni var verið að undirbúa. Vísitölukerfið var fyrst sett 1939 til þess að reyna að halda niðri kauphækkunum og átti þá ekki að veita fullar uppbætur. Því var svo breytt, þegar fram í stríðið kom með miklum vexti verðbólgunnar, sem leiddi til viðureignarinnar um gerðardóminn og þeirrar tilraunar að hafa skipan á þessum efnum með setningu hans. Síðan bar utanþingsstjórnin fram frv., sem áttu að hafa í för með sér takmarkanir í þessum efnum, en ekki náðu þó fram að ganga. Á árinu 1947 eða 1948 voru settar nokkrar hömlur eða sérreglur um vísitöluútreikning. Það var enn gert með gengislækkunarl. 1950 og með þeim ráðstöfunum, sem vinstri stjórnin gerði 1958. Það var til þess að reyna að koma í veg fyrir, að vísitöluskrúfan færi í gang, og þá var boðin bein grunnkaupshækkun. Allar reyndust þessar ráðstafanir haldlitlar og stóðu yfirleitt ekki nema skamma hríð. Það getur hver sakað annan um skort á framsýni í þeim efnum, en stöðugt hefur verið breytt reglunum, sem settar höfðu verið, eins og ég veit að hv. þm. getur kynnt sér, ef hann vill rifja upp þessi mál. En þrátt fyrir það að stöðugt væri verið að setja nýjar reglur um þetta, sem var svo breytt aftur eftir tiltölulega skamman tíma, þá hélt verðlagið áfram að hækka, án þess að verkalýðurinn fengi bætt sín kjör í nokkru samræmi við það, sem hvort tveggja átti sér stað: stöðugar kauphækkanir sökum verðlagsvísitölu og stöðugar kauphækkanir vegna grunnkaupshækkana.

Hv. síðasti ræðumaður, 10. þm. Reykv., rifjaði það einmitt upp, að af hálfu verkalýðsfélaganna hefur hvað eftir annað verið rakið, hvernig kaupmætti tímakaups hafi stórlega hrakað á þeim árum, þegar vísitölukerfið var þó yfirleitt við lýði, þrátt fyrir þessar hömlur, sem öðru hvoru voru settar og ég hér áðan aðeins rifjaði upp.

Það er rangt, sem hv. 9. þm. Reykv, sagði, að kjör verkalýðsins í landinu hefðu orðið verri á árunum eftir 1960 heldur en þau voru á næsta tímabili þar á undan. Því er þvert á móti haldið fram í skýrslu, sem ekki hefur verið vefengd og birt er í ritinu „Úr þjóðarbúskapnum“, sem gefið var út í febr. 1964, að hlutur alþýðustéttanna, verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, eða afstaða atvinnutekna þessara stétta, verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, til þjóðartekna á mann á föstu verðlagi, hafi batnað eftir 1960 og verið þá og á árunum þá á eftir svipað og var á árunum fyrir 1950, en aftur á móti lakari lengi á tímabilinu 1950—1960. Hér um veldur það, sem hv. 10. þm. Reykv. rifjaði upp, að það er svo margt annað en vísitalan ein eða nokkur svokölluð verðtrygging, sem ræður raunverulegri lífsafkomu manna, að það tjáir ekki að vitna til hennar einnar, heldur skoða málin í heild.

Nú getum við endalaust deilt um það, hv. 6. þm. Sunnl. og ég, hvort það hafi verið nauðsynlegt eða skynsamlegt að fella gengið á árinu 1960. En staðreynd var, að þáv. stjórnarvöld töldu þetta beinlínis óhjákvæmilegt. Þau gerðu það ekki með glöðu geði, heldur töldu, að fram hjá því yrði ekki með neinu móti komizt. Af þeim ráðstöfunum var hins vegar augljóst, að miklar verðlagsbreytingar og verðlagshækkanir hlyti að leiða, og ef þá hefði verið óskert vísitölukerfi fyrir hendi, vísitölubinding eins og verið hafði, þótti það fyrirsjáanlegt, að verðlagshækkanir yrðu svo miklar, að þær yrðu með öllu óviðráðanlegar. Og ég legg áherzlu á það, að við hv. þm. getum verið ósammála um, hvort gengisbreytingin hafi verið nauðsynleg, og líka um orsakirnar til gengisbreytingarinnar, en ég held, að um það verði ekki með nokkru móti deilt, að úr því að menn töldu óhjákvæmilegt að ráðast í gengisbreytinguna, þá varð jafnframt að gera ráðstafanir til þess, að ekki væri í gangi sjálfvirkt tæki, sem gerði verðlagsmálin með öllu óviðráðanleg, en það var einmitt vísitölukerfið, eins og það þá var. Og það var af þessum sökum, sem það var ákveðið 1960 að hverfa frá vísitölukerfinu um sinn. Þá er í grg. frv. orðrétt sagt, með leyfi hæstv. forseta:

„Það getur ekki verið álitamál, að þessar launahækkanir hafi gefizt illa. Þær hafa leitt til mikilla og hraðra víxlhækkana verðlags og kaupgjalds og aukið vantrú manna á það, að jafnvægisástandi yrði náð í efnahagsmálum. Á hinn bóginn hafa þær ekki megnað að færa launþegum raunverulega kjarabót.“

Þetta er sagt um þróunina þar á undan, og ég held, að það verði ekki mælt á móti því, að þetta út af fyrir sig sé rétt, að með verðlagsuppbótinni, eins og henni var þá beitt, hafði ekki tekizt að ná þeim tilgangi, sem ætlað var, að tryggja lífskjör verkalýðsins, almennings í landinu. Við getum deilt um það, af hverju það hafi ekki tekizt, en það verður að gera sér þess grein, að þetta hafði ekki tekizt. Og ef átti að gera nýja ráðstöfun, eins og við töldum óhjákvæmilegt 1960, þá var það í fyrsta lagi eðlilegt, að við vildum ekki halda við því kerfi, sem ekki hafði gefizt betur að undanförnu heldur en verðlagsuppbótin og hlaut með þeim verðlagsbreytingum, sem við sáum fram á, að leiða til algers ófarnaðar, ef þessi skipan væri ekki afnumin, a.m.k. um sinn. Þess vegna segir orðrétt í grg. frv., sem hér hefur verið vitnað til:

Ríkisstj. leggur til, að í þetta skipti sé farin önnur leið, sem geri hvort tveggja í senn, komi í veg fyrir víxlhækkanir verðlags og kaupgjalds og dragi sem mest úr áhrifum gengisbreytingarinnar á lífskjör almennings með raunverulegri breytingu á skiptingu þjóðarteknanna. Leiðin er sú að auka stórlega bætur almannatrygginga, einkum fjölskyldubætur, elli- og örorkulifeyri, og taka upp niðurgreiðslur á nokkrum þýðingarmiklum innfluttum neyzluvörum.“

Þetta stendur orðrétt í grg. frv. frá 1960. Og það kemur alveg skýrt fram og er sagt, að í þetta skipti, eins og þá stendur á, þyki skynsamlegt að gera þessa ráðstöfun. Nú var okkur auðvitað ljóst, að það hlutu að vera vissir annmarkar þessu háðir, og það má vel verá, að það sé rétt, að hv. 6. þm., Sunnl. hafi séð þá betur fram heldur en við hinir, og ég met vissulega að vera minntur á hans miklu framsýni í þeim efnum, þó að ég játi hins vegar, að það er engin ástæða til að gleðjast yfir því, að hann reyndist þá framsýnn, heldur miklu frekar að hryggjast, af því að þetta hefur verið ófarnaður fyrir okkur alla, að svo miklu leyti sem mistekizt hefur það, sem vakti gott fyrir mönnum. En ástæðan til þess, að þrátt fyrir allt hefur ekki farið verr um hag verkalýðsins en raun ber vitni, eru allar þær kjarabætur, sem eru taldar upp í þessari mgr., sem ég las upp hér áðan, atriði, sem vissulega hafa ráðið stórkostlega miklu um afkomu alls almennings í landinu á þessu árabili, en atriði, sem yfirleitt eru ekki talin með í skýrslum, þegar verið er að vitna til af hv. stjórnarandstæðingum, hversu almenningur hafi verið sárþjáður á þessu tímabili, sem allir vita, sem í alvöru vilja um þetta tala, að eru vægast sagt miklar öfgar, því að þrátt fyrir allt hefur almenningur á Íslandi aldrei átt við betri kjör að búa en einmitt á þessum síðustu árum. Við skulum, svo ekki vera að deila um það, hvort það er að kenna eða þakka viðreisninni, þrátt fyrir hana eða ekki. Við komumst aldrei hjá því, og við gerum okkur að fíflum, ef við neitum því, að almenningur hefur aldrei átt við betri kjör að búa en einmitt á þessu tímabili. Og almenningur lætur ekki bjóða sér þvílíka móðgun, að því sé haldið fram. Og einmitt vegna þess, að stjórnarandstæðingar gerðu þá firru í kosningabaráttunni í fyrra að ætla að berjast á þeim grundvelli, að almenningur hefði aldrei átt við lakari kjör að búa og sætti ofsóknum af hálfu ríkisstj., þess vegna juku stjórnarflokkarnir fylgi sitt. Fólkið lætur ekki ofbjóða skynsemi sinni, jafnvel þó að það séu framsýnir og vitrir menn, sem flytji slíka fásinnu.

Við skulum játa það, að almenningur hefur aldrei átt við betri kjör að búa. Mér dettur ekki í hug að segja, að það sé eingöngu að þakka núv. ríkisstj. Það væri algjör barnaskapur að ætla að halda þvílíku fram. Vitanlega eru það mörg atriði og fyrst og fremst gjafmildi náttúrunnar, aukin tækni og ótalmargt fleira, sem að verki hefur verið. En það er skoðun okkar, að stjórnarstefnan hafi átt sinn þátt í því, að almenningur hefur bæði getað notað sér þau tækifæri, sem boðizt hafa, og nýtt þau gæði, sem hann hefur aflað sér. Samtímis hefur komið í ljós, að verkalýðurinn hefur ekki fengizt til að gera samninga til langs tíma og í raun og veru stöðugt haldið samningunum lausum, vegna þess að vísitölubinding hefur verið bönnuð.

Okkur dettur ekki í hug að vefengja, að það eru stórar hættur samfara því að innleiða vísitölukerfið á ný, enda skildist mér í raun og veru hv. 6. þm. Sunnl, viðurkenna það, því að hann minntist á það, að Framsfl. hefði oft viljað losna við þetta kerfi, en lagt á það megináherzlu, að það væri gert með samþykki verkalýðsins, og skýt ég því inn, að það ætti að vera hægt að sýna einhver dæmi þess, að gleymt hefði verið samþykki verkalýðsins stundum, þegar sá flokkur var við stjórn. En látum það vera, það skiptir ekki máli.

Við játum, a.m.k. ég og hv. 6. þm. Sunnl., að þessu kerfi eru hættur samfara. En enn þá meiri hættur eru þó samfara því að hafa stöðugar vinnudeilur, eins og höfðu átt sér stað um langan tíma í okkar landi, áður en samningarnir í júní 1964 voru gerðir. En það var alger forsenda af hálfu ríkisstj. fyrir því að fallast á að taka upp vísitölukerfið að nýju, að samningar fengjust a.m.k. til eins árs og hækkanir yrðu ekki meiri en svo, að a.m.k. möguleiki væri á, að ekki hlypi af stað ný hringferð, nýr skrúfugangur, eða hvernig sem við viljum orða það, að verðbólguvöxturinn yrði ekki af þeim sökum svo ofboðslegur á næstu missirum, að efnahagsjafnvægi stafaði hætta af. Það var mat okkar í vor, að samningar hefðu tekizt með þeim hætti, að á það væri hættandi að semja að nýju um verðlagsvísitölu eða heimila slíka samningsgerð að nýju. Því miður verðum við að játa, að við erum ekki vissir um það enn, hvort þetta stenzt. Það má vel vera, að við höfum þarna mismetið að einhverju leyti, og ég verð að játa, að hækkanir hafa orðið meiri en við í vor ráðgerðum. Engu að síður er ekki hægt að mæla á móti því, að það er nú miklu meira jafnvægi í efnahagsmálum en hefur verið um langa hríð, og það er nú alveg horfinn sá uggur um staðfast gengi krónunnar, sem við vissum að var fyrir hendi fram á fyrri hluta þessa árs. Þetta skapar okkur öllum mikið öryggi og hefur fært mikla blessun yfir þjóðina, og þess vegna skulum við vona, að við höfum ekki reynzt of bjartsýnir með þessari samningsgerð, heldur hafi hún reynzt raunsæ og verði að því gagni, sem ég veit að vonir okkar allra hér inni standa til. Hitt finnst mér svo ósköp eðlilegt og mannlegt, að bæði hv. 9. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Sunnl. reyni að stríða mér eitthvað, eins og málum er háttað. Við öðru var ekki að búast, ég vil ekki segja: vegna þess að lítið gleður vesalan.