23.03.1965
Neðri deild: 58. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

140. mál, umferðarlög

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., um breyt. á umferðarl., er flutt að beiðni umferðarlaganefndar, en hún vinnur að endurskoðun umferðarl., en þótti rétt að óska eftir því, að þegar á þessu þingi, þar sem ekki liggur fyrir hennar álit í heild, verði gerðar á umferðarl. þær tvær breytingar, sem þetta frv. felur í sér.

Samkv. 1, gr. er um að ræða breyt. á 2. mgr. 27. gr. umferðarl. í sambandi við ökuskírteini, að í stað þess að áður var það skilyrði fyrir því, að menn gætu öðlazt ökuskírteini, að þeir hefðu góða heyrn, er á þessu slakað nú og það kemur til af því, að félag heyrnarlausra og skólastjóri heyrnleysingjaskólans sendu umferðarlaganefnd óskir um að breyta ákvæðum umferðarlaga á þá leið, að heyrnarlaust fólk geti fengið ökuskírteini. Leitað var umsagnar landlæknis um þetta atriði og er hann meðmæltur því, að slakað verði á heyrnarkröfum við veitingu ökuréttinda, á svipaðan hátt og gert hefur verið á hinum Norðurlöndunum, en þar hefur verið, gengið svo langt að leyfa jafnvel algerlega heyrnarlausu fólki að fá ökuskírteini.

2. gr. er um breyt. á 2. mgr. 70. gr. umferðarl og fjallar um að hækka skyldutryggingu allra vélknúinna ökutækja, en hún hefur verið óbreytt í lögunum frá 2. maí 1958 og með tilliti til þess, að verðgildi peninga hefur mjög breytzt, frá því að þau lög voru sett, þykir eðlilegt og sjálfsagt að hækka skyldutryggingu ökutækja verulega, enda er lagt til, að skyldutrygging fyrir bifreið hækki úr 500 þús. kr. í 2 millj. kr. Einnig er rétt að hafa það í huga, að bætur til þeirra, sem verða fyrir slysum, hafa hækkað verulega, því að dómstólar taka tillit til verðþenslunnar við ákvörðun bóta og er því brýn nauðsyn, að hver eigandi ökutækis sé tryggður fyrir því, ef hann verður valdur að alvarlegu slysi. Í umsögn, sem Samband ísl. tryggingafélaga sendi umferðarlaganefnd um þessi mál, segir, að reynslan sýni, að tryggingafélögin hafi stillt iðgjöldum sínum svo mjög í hóf, að hreint tap hefur orðið mörg undanfarin ár. Iðgjöld af tryggingu ökutækja hækkuðu þó verulega á s.1. ári, en vegna örari verðþenslu, en þá var reiknað með, virðist augljóst, að enn þurfi að hækka iðgjöld verulega, þrátt fyrir óbreyttar vátryggingarupphæðir, eða um 20–30%.

Til þess að gefa nokkra innsýn f, hvað iðgjöld ökutækja muni hækka vegna þessara breytinga vátryggingaupphæðar, vil ég nefna, að gert er ráð fyrir, að vátryggingarupphæð dráttarvéla hækki úr 200 þús. kr. í 1 millj. kr. Nú eru iðgjöld af þessum tækjum 300 kr. án iðgjaldaafsláttar, en reikna má með, að iðgjöld af 1 millj. kr. tryggingu verði 405–435 kr. án iðgjaldaafsláttar. Talið er, að vegna litillar tjónatíðni njóti 90–95% af þessum tekjum 30% iðgjaldaafsláttar. Hækkun vátryggingarupphæðanna samkv. frv. verður mest á dráttarvélum og reiðhjólum með hjálparvél, en þær fimmfaldast og er það rökstutt með því, að þessi tæki geti valdið einstaklingsslysi jafnalvarlegu og bifreiðar, en hins vegar liggur það ljóst fyrir, að hækkun tryggingarupphæðar á tækjum þessum til samræmis við bifreiðar leiðir ekki til hækkunar iðgjalda til jafns við bifreiðaiðgjöld vegna minni tjónatíðni. Bifreiðar hækka úr 500 þús. í 2 millj. kr. samkv. frv., og eins og fram kemur af aths. við frv., er talið, að iðgjald á 1. áhættusvæði muni hækka, eftir því sem næst verður komizt, um 10–14% miðað við núverandi iðgjöld. Álitið er samkv. tjónareynslu liðinna ára, að ekki sé ástæða til að hækka upphæðir stórra farþegabifreiða í sama hlutfalli, en í frv. er lagt til, að 100 þús. kr. vátrygging verði fyrir hvert sæti umfram 10 í stað 50 þús. kr. í gildandi lögum.

Í 3. gr. frv. er lagt til, að ákvæði 2. gr. komi til framkvæmda 1. maí 1965, en það er miðað við það, að vátryggingaiðgjöld falla í gjalddaga 1. maí, en þar sem skammur tími er til stefnu, er mikil nauðsyn á því að hraða afgreiðslu þessa máls, til þess að tryggingafélögunum geti gefizt kostur á því að hafa sínar iðgjaldakvittanir tilbúnar, sem þau þurfa að senda til allra sinna umboðsmanna um allt land.

Allshn. leggur einróma til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.